Hólmfríður Gísladóttir fæddist 6. september 1935. Hún lést 23. janúar 2025.

Útför Hólmfríðar fór fram 31. janúar 2025.

Það er vor í Eyrarsveit, Kirkjufellið speglast í lygnum Grundarfirði. Grundarfossinn skartar sínu fegursta og sólin læðir birtu á Snæfellsnesfjallgarðinn. Þorpið í Grafarnesi er að lifna við og fólk komið til vinnu. Í túninu í Vindási stendur lítil stúlka og horfir yfir heiminn sinn, hún finnur fyrir ættjarðarást í brjóstinu sem mun fylgja henni út ævina.

Hún lifir margt, kynnist móðurmissi, fátækt, þvælingi og basli. Verður ástfangin, eignast börn og nærir þau með ást og umhyggju sem hún ekki fékk sjálf. Saga fólks verður henni hugleikin í stöðugri leit að uppruna þess og niðjum. Tilfinningum verða ekki gerð skil í orðum en lifa á skinninu og í minningabrotum hjá hverjum og einum.

Innar á Breiðafirðinum, í sæluríkinu, sameinast hún lífsförunautnum, þau eru búin að fylgjast að í rúm 70 ár og gera það áfram, allavega í huga niðjanna.

Hún var enn að klæða mig í sokkana á morgnana þegar ég var 10 ára gamall.

Gísli Karel Eggertsson.

Hey jó amma!

Flestar minningar mínar um ömmu eru frá sumrunum sem við dvöldum hjá henni og afa úti í Fremri-Langey. Þetta var yndislegur tími. Við spiluðum, sungum frumsamin lög, hlustuðum á útvarpsleikrit, og auðvitað leituðum að dún. Ég sé ömmu ljóslifandi fyrir mér standa í eldhúsinu í Langey að vaska upp úr brennandi heitu vatni sem mundi drepa sterkustu taugar, vatnið þyrlast í allar áttir, svo hröð eru handtökin. Allt í einu starir hún út um gluggann og fer með ljóð, þessi ljóðalestur endar svo með tárum niður um hvarma.

Amma gerði hlutina eftir venjum en þó eftir sínu höfði. Minnist ég þess þegar við vorum böðuð á föstudagskvöldum í sveitinni. Þá var ekkert rennandi vatn upp að húsinu, því þurfti Snorri frændi að fara margar ferðir út í brunn með föturnar tvær svo hægt væri að baða allt heimilisfólkið. Hér voru engin vettlingatök. Nokkur barnabörn stóðu í stóru fiskikari á eldhúsgólfinu. Vatnið var hitað upp í potti á eldavélinni. Sápan var sett á alla hausana, skrúbbað, og svo var hellt úr könnunni á alla kollana. Handklæðinu var síðan vafið um okkur og amma hóf að þurrka eða réttara sagt skrúbba kroppana. Hér fengu líklega eitt til tvö húðlög að fjúka. Þess serimónía endaði svo með að við vorum færð í hrein náttföt en rétt áður en hún smeygði bolnum yfir hausinn stakk hún hendinni gegnum hálsmálið og signdi okkur og síðan fylgdi nátttreyjan. Þegar ég hugsa til baka þá dáist ég að því hvað amma og afi voru dugleg að taka okkur barnabörnin með sér út í Langey, þar sem þeirra yngstu börn, Snorri og Lilja, voru ekki mikið eldri en við frændsystkinin.

Margt gekk á hjá okkur krökkunum, allir með sitt skap og sínar þarfir. En amma setti okkur skýrar reglur, bannað að fara upp á Barnhóla og alls ekki ein að brunninum. Og við hlýddum því, svona oftast. Ömmufang var best, þegar eitthvað bjátaði á þá hlupum við til ömmu. Ég man eftir því eins og það hafi gerst í gær þegar við vorum að leika okkur í gamla bænum, eitthvað að drullumalla, og sandur feyktist í annað augað mitt. Ég gat ómögulega séð neitt og hljóp beint inn til ömmu. Hún kunni ýmis ráð við þessu. Fyrst lét hún mig snýta mér í pappír en ekki lagaðist það. Nú voru góð ráð dýr og amma greip um andlitið á mér, spennti upp augað og á örskotsstund sá ég tunguna á ömmu koma askvaðandi að auganu mínu. Ég sé enn hryllingssvipinn á Sæunni systur sem stóð í opna eldhúsglugganum. Þetta trix svínvirkaði.

Það var alltaf gaman að kíkja við hjá ömmu í kaffi, kökur og gott spjall. Eftir að við fluttum út til Noregs reyndi ég að gera mér ferðir til ömmu og afa í Unufellið. Í hvert skipti sem ég kom inn sagði hún óaðspurð: „Bergrún, ég á nokkrar krukkur niðri í búri fyrir þig.“ Þá var það heimagerða rabarbarasultan sem ég tók svo með mér til Noregs aftur.

Elsku amma Fríða, ég lofa að setja ekki tyggjó undir diskinn minn, ég skal hirða um rabarbaragarðinn en ég mun örugglega halda áfram að segja „ókei“ í stað „allt í lagi“. Amma, þín verður sárt saknað en hjartanlega minnst.

Þín

Bergrún.

Átthagar vinkonu minnar, Hólmfríðar Gísladóttur, voru henni afar kærir, en hún hafði ung „augum litið Eyrarsveit og Grundarfjörð“, og hið formfagra og tignarlega Kirkjufell var að sjálfsögðu fegurst fjalla. Hólmfríður fæddist 6. september 1935 á Grund í Eyrarsveit, en er hún var á öðru ári missti hún móður sína og ólst síðan upp í skjóli móðurömmu sinnar, Jónínu Guðrúnar Jónsdóttur. Lífsbaráttan hófst snemma og á unglingsaldri var hún komin á vinnumarkað. Veturinn 1952-1953 gekk hún í Húsmæðraskólann á Staðarfelli og þar hófst ævintýri sem breytti gangi lífsins. Þegar hún fékk að heyra hið undurfagra lag og ástarljóð, Í kvöld, sem vonbiðillinn Eggert Thorberg Kjartansson hafði samið til hennar var teningunum kastað. Ári seinna hafði hún tekið bónorði Eggerts Thorbergs frá Fremri-Langey og þau áttu eftir að syngja saman sjötíu hamingjurík ár, eignast fimm börn og stóran hóp afkomenda sem gerðu þau bæði stolt og glöð.

Hólmfríður og Eggert byggðu sér heimili í Unufelli í Reykjavík, barnsfæðingum dreifðu þau á 23 ár, því þá fyrst bættist stúlka við strákahópinn. Þegar meiri tími gafst til tómstunda voru þau hjón fljót að fylla þann tíma með ættfræðirannsóknum, sem átti eftir að vera stór þáttur í þeirra daglega lífi í áratugi. Hólmfríður gekk í Ættfræðifélagið árið 1978 og varð fljótt virkur félagi og síðan metnaðarfullur formaður félagsins 1991-1999. Hún kom að metnaðarfullri útgáfu á manntalinu 1910. Verkefnið tók hún að sjálfsögðu með sér heim, sem endaði með því að bóndi hennar tók að sér að bera alla fæðingardaga í manntalinu saman við prestsþjónustubækur, því þar bar oft mikið á milli, en einnig bættu þau við dánardögum. Vegna þessa framtaks þeirra hjóna má fullyrða að þessi manntalsútgáfa sé sú fullkomnasta sem við eigum. Hólmfríður kom að undirbúningi ýmissa ættfræðirita og árið 2003 kom út bók hennar, Guðríðarætt, niðjatal Guðríðar Hannesdóttur, afar vönduð bók. Þau hjón höfðu líklega mesta gleði af að vinna saman að því að rekja framættir vina og vandamanna, sem þau færðu mörgum þeirra síðan að gjöf, skrautritað og innrammað.

Það var fastur liður á vorin að fara út í eyjar til að sinna sumarstörfum og undirbúa æðarvarpið í Fremri-Langey, en hún er unaðsreitur fjölskyldunnar. Þar þurfti að sinna mörgum verkum, en er þeim var lokið voru batteríin hlaðin og þeim hjónum ekkert að vanbúnaði að sinna næstu verkefnum ættfræðinnar.

Margar góðar stundir hef ég átt á heimili þeirra Hólmfríðar og Eggerts í Unufellinu og margs er að minnast af góðu samstarfi okkar og er þeirra beggja sárt saknað.

Hvíl í friði, mín kæra.

Þorsteinn Jónsson.

Ættfræðin er eins og púsluspil sem aldrei verður lagt til fulls. Það voru orð Indriða Indriðasonar nestors ættfræðinnar. Undir þau skrifaði sannarlega hún Hólmfríður Gísladóttir. Hún var einlægur áhugamaður um ættfræði, brennandi í anda og hafsjór fróðleiks um ættartengsl, ekki síst í sinni heimabyggð Snæfellsnesinu. Eftir hana liggur þaðan Guðríðarætt, rakin frá formóður hennar.

Við störfuðum saman í Ættfræðifélaginu árum saman, hún sem formaður, ég sem ritari. Hún var stjórnsöm, kraftmikil, þrjósk, dugleg og fylgin sér, enda vön að stjórna og ráðskast á stóru og barnmörgu heimili, og Ættfræðifélagið kom vel undan hennar verndarvæng. Við vorum ekki alltaf sammála, hvesstum okkur hvor við aðra, enda báðar málglaðar konur að vestan, en ræddum okkur fram úr hlutunum þegar öldurnar lægði.

Hólmfríður var með eindæmum samviskusöm og trú þeim störfum sem henni voru falin. Það var ekki lítill fengur fyrir áhugamannafélag eins og Ættfræðifélagið að fá slíka kjarnakonu til forystu. Annað sem einkenndi Hólmfríði var sú ræktarsemi sem hún sýndi öllum þeim góðu félögum sem lögðu félaginu okkar og ættfræðinni lið. Þeim sýndi hún virðingu og þökk jafnt lífs sem liðnum.

Það er ekki hægt að þakka Hólmfríði kraftmikla og ábyrga stjórn félagsins okkar án þess að minnast eiginmanns hennar, Eggerts, sem stóð við hlið hennar í ættfræðistússinu á hverju sem gekk. Ættfræðin var þeirra sameiginlega áhugamál og þekkingarsvið þeirra spannaði nær hálft Vesturland.

Að koma inn á heimili þeirra var eins og að stíga inn í sérhannað bókasafn. Þar röðuðu sér manntöl, kirkjubækur, Espólín og Snóksdalín, Sýslumannaævir og æviskrár í metratali.

Við ræddum oft Fellsströndina, Skarðsströndina og eyjarnar, þar sem forfeður mínir raða sér, ekki síst Fremri-Langey þaðan sem ætt Eggerts kemur og sömuleiðis hann Ormur Sigurðsson forfaðir minn, sem Ormsætt er við kennd.

Í Fremri-Langey áttu þau hjónin og afkomendur þeirra sinn sælureit, umvafin þekkingu og sögnum langt aftur í aldir.

Hólmfríður sendi mér á seinni árum greinar, ljóð og lausavísur til birtingar í ættfræðiblaðinu okkar og hún fylgdist vel með Ættfræðifélaginu, enda ótrúlega hress og dugleg nánast til hinstu stundar. Ættfræðifélagið þakkar henni góð og gengin spor.

F.h. Ættfræðifélagsins,

Guðfinna Ragnarsdóttir, ritstjóri Fréttabréfs
Ættfræðifélagsins.