Viltu giftast mér Vilberg Andri Pálsson og Hólmfríður Hafliðadóttir í hlutverkum sínum í Skeljum.
Viltu giftast mér Vilberg Andri Pálsson og Hólmfríður Hafliðadóttir í hlutverkum sínum í Skeljum. — Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Fólk sem er á svipuðum aldri og ég, um þrítugt, og hefur lesið verkið eða séð rennsli, það tengir mikið við þessar pælingar, sérstaklega pör. Verkið nær þá væntanlega að setja eitthvað í orð á sviði sem er kannski ekki komið mikið upp á yfirborðið

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Fólk sem er á svipuðum aldri og ég, um þrítugt, og hefur lesið verkið eða séð rennsli, það tengir mikið við þessar pælingar, sérstaklega pör. Verkið nær þá væntanlega að setja eitthvað í orð á sviði sem er kannski ekki komið mikið upp á yfirborðið. Ég vona að verkið fái fólk til að hugsa um ýmislegt tengt viðfangsefni verksins sem liggur undir niðri hjá mörgum,“ segir Magnús Thorlacius, leikskáld og leikstjóri, en leikrit hans, Skeljar, verður frumflutt í Ásmundarsal í dag, laugardag. Leikritið segir hann vera beint úr íslenskum veruleika og fjalli um þau nútímaviðmið sem við gefum okkur um hjónabönd, trúlofanir, giftingar og sambúð. Magnús veltir í verkinu m.a. fyrir sér hvers vegna við byggjum samfélagið okkar á því að tvær manneskjur eigi að para sig saman og sverja sig saman gagnvart guði og öðrum samfélagsþegnum. Einnig skoðar hann hvaðan hefðirnar komi í kringum bónorð og brúðkaup, og hvers vegna við höldum í þær. Hann spyr hvort það að gifta sig sé mögulega ekkert annað en uppsetning á einhverskonar leikriti og hvort það að vera í hjónabandi sé kannski líka leikrit.

„Nútímabrúðkaup eru mörg einhvers konar aðlögun að gamaldags eða úreltum og amerískum hefðum. Verkið Skeljar fjallar um nútímapar sem stendur frammi fyrir stærstu spurningu sem hægt er að spyrja aðra manneskju, hvort hún vilji verja restinni af lífi sínu með hinum aðilanum. Hvernig dettur okkur í hug að spyrja svona stórrar spurningar? Því þó þetta sé falleg tilhugsun þá hlýtur spurningin að fela í sér ákveðið ofbeldi, að biðja einhvern um að vera trúr sér, sama hvað, í blíðu og stríðu, að eilífu. Í brúðkaupi sver fólk að vera saman uns dauðinn skilur það að, en samt er staðreyndin sú að á Íslandi enda um fjörutíu prósent hjónabanda með skilnaði. Sem samfélag erum við meðvituð um þessar skilnaðarlíkur og að það er ekkert mál að skilja ef fólk vill það, þó það hafi lofað eilífri samveru. Ég velti líka upp af hverju faðir brúðarinnar þurfi að ganga með hana inn kirkjugólfið til brúðgumans og föður hans. Hvers vegna sviðsetjum við slíkt leikrit sem vísar til þess að feður í tveimur ættum ljúki viðskiptum sínum fyrir guði með þessum hætti? Þetta er auðvitað fáránlega úrelt viðhorf, að faðir gefi dóttur sína syni annars manns, og þess vegna set ég spurningarmerki við slíkt leikrit sem sett er upp í nútímabrúðkaupum.“

Vandræðaleg átök um ástina

Magnús segir að í uppsetningu verksins breyti þau Ásmundarsal í veislusal væntanlegs brúðkaups.

„Ásmundarsalur er því eins og persóna í verkinu, draumabrúðkaupssalur. Áhorfendur koma sér fyrir sem ímyndaðir gestir þessarar veislu þar sem atburðarásin hefst þegar ungi maðurinn skellir sér á skeljarnar, en hún hikar, er efins og hefur hvorki já eða nei svar við bónorði hans. Það er ekki svarið sem hann hafði ímyndað sér og það sem átti að vera falleg og rómantísk stund verður að vandræðalegum átökum um ástina og hugmyndir um lífið og tilgang þess. Við höfum húmorinn að leiðarljósi en í verkinu er líka einlægni, fegurð og sannleikur. Við reynum að nálgast þetta út frá því hvernig venjulegt fólk myndi bregðast við í þessum aðstæðum, sem koma kannski ekki oft fyrir á lífsleiðinni. Væntanlega er það mikil höfnun að fá ekki jákvætt svar við bónorði, þó hin manneskjan vilji gjarnan vera áfram með viðkomandi. Hún þarf þá að reyna að særa hann ekki en á sama tíma tjá hvernig henni líður. Fólk er með allskonar fyrirframvæntingar í tengslum við bónorð og brúðkaup, og kvenpersónan í verkinu vill forðast að vera sett í þetta hlutverk og þurfa að gangast við einhverjum gefnum væntingum.“

Magnús segir að hinseginleiki, opin sambönd og annars konar fyrirkomulag sambúðar hafi vissulega sett spurningar við brúðkaupsvenjur undanfarna áratugi, en staðan sé samt sú að langflestir fari sömu leið þegar kemur að stóru spurningunum í lífinu, jafnvel þó að farið sé út af vananum að einhverju leyti.

„Þessar brúðkaupshugmyndir sem við höfum eru mjög úreltar að mörgu leyti, en verkið fjallar um gagnkynhneigt par, nútímafólk með nútímaviðmið. Við erum að fjalla um af hverju flestir leiti í þessar úreltu hefðir, þrátt fyrir að þær vísi sumar jafnvel í fornt ofbeldi, eins og að faðir gefi dóttur sína.“

Heldur ótrauður áfram

Magnús er ekki aðeins höfundur verksins Skeljar, heldur leikstýrir hann því líka, en hann útskrifaðist frá sviðslistabraut Listaháskóla Íslands árið 2022.

„Þetta er því þriðji veturinn minn sem sjálfstætt starfandi listamaður, og það gengur ágætlega, en er sveiflukennt, stundum er allt of mikið að gera, stundum nánast ekkert. Ég held bara áfram að búa til verkefni og gera það sem mér finnst skemmtilegast. Ég setti upp verk sem heitir Lónið í Tjarnarbíói en það var upphaflega útskriftarverkefnið mitt, og þar tók ég fyrir baðlónaæðið á Íslandi undanfarin ár. Við fylltum laug af vatni á sviðinu sem var í hlutverki lóns og þar reyndu persónur leikritsins að slaka á eftir bestu getu og njóta augnabliksins, til að koma í veg fyrir að allt færi úrskeiðis. Ég setti líka upp sýninguna Þöglar byltingar í Tjarnarbíói og svo einleikinn Flokkstjórinn sem sýndur var utandyra víða um landi. Þar fór hún Hólmfríður Hafliðadóttir með hlutverkið eina, en hún leikur einmitt kvenpersónuna í Skeljum. Vilberg Andri Pálsson fer með karlhlutverkið,“ segir Magnús og bætir við að fleiri verkefni séu fram undan, hann haldi ótrauður áfram.

Miðar á Skeljar fást á tix.is.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir