Kristrún Ríkey Ólafsdóttir, tvítug körfuboltakona úr Hamri/Þór, er nýliði í landsliðshópi Íslands sem Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari tilkynnti í gær vegna leikja gegn Tyrklandi og Slóvakíu í undankeppni Evrópumótsins 6. og 9. febrúar. Báðir leikirnir fara fram erlendis.
Kristrún er 186 sm á hæð og hefur í vetur tekið 7,6 fráköst að meðaltali í leik með nýliðunum í úrvalsdeildinni ásamt því að skora 6,2 stig að meðaltali í leik. Hún hóf meistaraflokksferilinn með uppeldisfélaginu Þór á Akureyri og lék síðan með Haukum áður en hún fór til Hamars/Þórs árið 2023.
Aðrar í landsliðshópnum eru eftirtaldar: Anna Ingunn Svansdóttir (Keflavík), Agnes María Svansdóttir (Keflavík), Dagbjört Dögg Karlsdóttir (Val), Danielle Rodriguez (Fribourg), Diljá Ögn Lárusdóttir (Stjörnunni), Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir (Hamri/Þór), Eva Wium Elíasdóttir (Þór Ak.), Sara Rún Hinriksdóttir (Keflavík), Thelma Dís Ágústsdóttir (Keflavík), Þóra Kristín Jónsdóttir (Haukum) og Tinna Guðrún Alexandersdóttir (Haukum).
Þetta eru tveir síðustu leikir Íslands í undankeppninni. Tyrkland er með 8 stig, Slóvakía 4, Rúmenía 2 og Ísland 2 stig. Ísland tapaði heimaleiknum gegn Tyrklandi 72:65 og gegn Slóvakíu 78:70.
Tyrkland hefur þegar tryggt sér sæti á EM 2025 og annað sætið getur mögulega gefið keppnisrétt á EM en fjögur lið af átta sem enda í öðru sæti undanriðlanna komast í lokakeppnina.