Sigmar Vilhjálmsson
Tryggingagjaldið er þriðji stærsti tekjustofn ríkisins, skilar áætluðum 150 ma.kr. 2025. Allt tal um að leggja það gjald niður er óraunhæft og mun aldrei verða. Ríkið þarf svo sannarlega á þessum tekjum að halda. Þetta gjald er ekkert annað en skattur sem er kominn til að vera. En þetta er gríðarlega óréttlátur skattur eins og hann er uppsettur í dag og liggur misþungt á fyrirtækjum, liggur hlutfallslega þyngst á litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
Skattur á að vera hlutlaus gagnvart ólíkum atvinnugreinum og einstaklingum, þ.e.a.s. skattur á að vera hannaður þannig að hann valdi ekki breytingum á ákvarðanatöku fyrirtækja eða einstaklinga. Eina markmið skatta er að safna tekjum til ríkissjóðs á eins hlutlausan máta og hægt er fyrir hagkerfið. Tryggingagjaldið er alls ekki hlutlaust, þar sem það leggst á launagreiðslur fyrirtækja. Þau fyrirtæki sem eru með marga starfsmenn í vinnu borga hlutfallslega hærri skatta en þau fyrirtæki sem eru með fáa starfsmenn í vinnu.
Flatur skattur er dæmi um fullkomlega hlutlausan skatt sem leggst jafnt á alla. En það á ekki við um tryggingagjaldið. Þar sem það leggst á launakostnað getur það haft áhrif á ákvarðanir fyrirtækja um ráðningar og hvernig þau haga rekstri sínum. Fyrirtæki geta komið sér undan greiðslum til ríksins með því að auka fjárfestingu í tækni og tækjum.
Tryggingagjaldið í núverandi mynd hefur því tilhneigingu til að hafa áhrif á ákvarðanir fyrirtækja, sem gengur gegn hugmyndinni um hlutlausan skatt.
Lítil og meðalstór fyrirtæki hafa sjaldnast tök á að fjárfesta í dýrri tækni til að draga úr starfsmannahaldi. Afleiðingin er sú að þau greiða hlutfallslega hærri skatta en stærri samkeppnisaðilar sem geta fjárfest sig frá skattinum. Hvernig er hægt að tryggja vöxt og viðgang lítilla fyrirtækja í slíku umhverfi?
Á sama tíma og stjórnmálamenn leggja áherslu á stuðning við atvinnulífið, sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki, ættu þeir að kynna sér nýlega skýrslu Atvinnufélagsins, sem má finna á vefsíðu félagsins: www.afj.is. Þar er fjallað um stærsta „bleika fílinn“ í atvinnulífinu – vandamál sem fáir virðast vilja ræða.
Skýrslan sýnir skýrt hvernig stærri fyrirtæki hafa með markvissum fjárfestingum, hagræðingu og lægra þjónustustigi dregið úr skattbyrði sinni. Hún greinir hlutfall tekna og greiðslna til samfélagsins. Skýrslan sýnir allt á sama veg, starfsmannafrek starfsemi er að greiða hlutfallslega meira í dag til samfélagsins en árið 1997 og þau fyrirtæki sem hafa fækkað starfsfólki á sama tímabili eru að greiða hlutfallslega minna í skatta.
Sem dæmi sýnir skýrslan að fjármála- og vátryggingastarfsemi greiðir í dag hlutfallslega minna til samfélagsins en á árinu 1997. Hlutfall þeirra greiðslna í gegnum tryggingagjaldið hefur lækkað um rúmlega 40% frá 1997 til dagsins í dag – úr 2,9% í 1,7% af veltu.
Hagræðing í rekstri er alltaf jákvæð, en að hún spari fyrirtækjum í ofanálag skattgreiðslur er óeðlilegt. Lokun útibúa, minni þjónusta og færri starfsmenn eru þær aðgerðir sem hafa sparað fyrirtækjum í fjármála- og vátryggingastarfsemi kostnað til hins opinbera einfaldlega vegna þess að þetta heitir gjald en ekki skattur og er sett á launagreiðslur fyrirtækja.
Bara það að ríkið skuli innheimta aukagjöld af þeim fyrirtækjum sem ráða inn starfsmenn til vinnu, en á sama tíma fella niður gjöld á þá sem segja starfsmönnum upp, rammar inn hvílíkt rugl þetta „gjald“ (skattur) er.
Atvinnufjelagið hefur lagt til lausn á þessu sem er réttlát og jafnar stöðu allra fyrirtækja á Íslandi. Til að tryggja jafnræði og hlutleysi þarf að leggja tryggingagjaldið niður og kalla það skatt. Skatt sem lagður er á tekjur fyrirtækja (veltutengdur skattur). Þannig greiða allir sama skatt í hlutfalli við veltu. Ríkið fær sömu tekjur, það borga bara allir jafnt.
Árið 2023 hefði þetta gjald þurft að vera 1,52% af veltu allra fyrirtækja til að skila sömu tekjum til ríkissjóðs af viðskiptahagkerfinu.
Hver getur verið á móti því að öll fyrirtæki borgi jafnt til samfélagsins? Er það ekki samfélagsleg ábyrgð allra fyrirtækja að taka jafnan þátt í samfélaginu okkar?
Lögum þetta rugl og það strax.
Höfundur er formaður Atvinnufjelagsins, félags lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi.