Álfabakki Framkvæmdin við kjötvinnsluna hefur verið stöðvuð.
Álfabakki Framkvæmdin við kjötvinnsluna hefur verið stöðvuð. — Morgunblaðið/Eggert
„Að sjálfsögðu gleðjast Búseti og íbúar við Árskóga yfir þeim tíðindum að byggingarfulltrúi hafi stöðvað framkvæmdir við kjötvinnslu í vöruhúsinu við Álfabakka,“ segir Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Að sjálfsögðu gleðjast Búseti og íbúar við Árskóga yfir þeim tíðindum að byggingarfulltrúi hafi stöðvað framkvæmdir við kjötvinnslu í vöruhúsinu við Álfabakka,“ segir Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta.

Hann rifjar upp þá skoðun Búseta og fjölda annarra að stöðva ætti framkvæmdir með öllu á meðan málið verði til lykta leitt. Fram hafi komið í tilkynningu byggingarfulltrúans að embættið muni taka ákvörðun um framhald málsins að viku liðinni. Og hann bindi vonir við að byggingarfulltrúi stöðvi þá framkvæmdir alfarið.

„Þessi ákvörðun byggingarfulltrúa, svo langt sem hún nær, er skynsamleg að okkar mati, enda vega umhverfisáhrif þungt. Það er einmitt mikilvægt að átta sig á hversu rangt það er að starfrækja stærðarinnar kjötvinnslu á þessum stað og einnig að hafa í huga að aldrei var gert ráð fyrir mannvirki af þessari stærðargráðu á lóðinni.“

Bjarni segir að heildarrúmmál skemmunnar sé yfir 90.000 rúmmetrar.

„Þessi umsvif eru ekki í neinu samræmi við fyrri áform, eins og þekkt er. Eðli fyrirhugaðrar starfsemi almennt litið er með þeim hætti að hún á ekki erindi í íbúðabyggð,“ segir Bjarni Þór.

Byggingarleyfið var óheimilt

Í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er viðurkennt að mistök hafi verið gerð við útgáfu byggingarleyfisins við Álfabakka 2 og tilkynnt að hann hafi stöðvað framkvæmdir við þann hluta hússins sem kjötvinnslan er áformuð í.

Byggingarfulltrúi viðurkennir að óheimilt hafi verið að gefa út byggingarleyfi fyrir kjötvinnsluna fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lægi fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Það sé svo hlutverk Skipulagsstofnunar að taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum.

Samkvæmt 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana getur pökkun og niðursuða á jurta- og dýraafurðum, þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2, verið háð umhverfismati, en gólfflötur kjötvinnslunnar í Álfabakka er 3.200 fermetrar.

Álitamál með kjötvinnsluna

Það er mat byggingarfulltrúa að álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat fyrirhugaðrar kjötvinnslu hefði átt að liggja til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um breytingu á útgefnu byggingarleyfi. Að mati byggingarfulltrúa er álitamál hvort kjötvinnsla af því umfangi sem samþykktir aðaluppdrættir heimila samræmist skipulagsáætlun sem gildir um Álfabakka 2A. Honum sé ekki kunnugt um tilkynningu til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða kjötvinnslu áður en sótt var um fyrrgreinda breytingu á byggingarleyfinu.

Verkstöðvun kjötvinnslu

Ætti að stöðva framkvæmdir með öllu á meðan málið verður til lykta leitt

Rangt að starfrækja stærðarinnar kjötvinnslu á þessum stað

Heildarrúmmál skemmunnar er yfir 90.000 rúmmetrar

Óheimilt var að gefa út byggingarleyfi fyrr en álit Skipulagsstofnunar lægi fyrir

Höf.: Óskar Bergsson