Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Leigubílstjórar eru vongóðir um að nýr ráðherra samgöngumála skipi fulltrúa frá þeim í starfshóp sem nú vinnur að endurskoðun laga um leigubifreiðar, en forveri ráðherrans í embætti skipaði engan úr hópi leigubílstjóra í starfshópinn sem skipaður var í byrjun nóvember sl. Þetta segir Daníel O. Einarsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama, í samtali við Morgunblaðið.
Samkvæmt upplýsingum frá innviðaráðuneytinu voru skipaðir fimm einstaklingar í starfshópinn, tveir frá innviðaráðuneytinu, tveir frá Samgöngustofu sem fer með framkvæmd laganna og einn frá embætti ríkislögreglustjóra. Segir ráðuneytið að starfshópurinn muni eiga fundi með „ýmsum hagaðilum sem málið varðar“, að því er segir í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Segir þar að starfshópnum sé ætlað að skila tillögum að lagabreytingum í ljósi fenginnar reynslu af lögunum, ekki síðar en 2. apríl nk.
Starfshópurinn var skipaður með vísan til bráðabirgðaákvæðis í lögum um leigubílaakstur sem kveður á um að hefja skuli endurskoðun laganna eigi síðar en 1. janúar 2025.
Segir Daníel að Bandalag íslenskra leigubílstjóra hafi átt stuttan fund með starfshópnum og komið þar á framfæri ósk um að fulltrúi þeirra yrði tekinn inn í hópinn og helst tveir, og einnig lögmaður leigubílstjóra.
„Í gömlu lögunum voru lagðar miklar skyldur á leigubílstjóra og skyldum fylgja réttindi og öfugt. Þetta var tekið úr sambandi og er mjög áríðandi að leiðrétta það. Við spurðum fólkið í starfshópnum að því á hvaða sjónarmiðum endurskoðunin væri byggð og tókum fram að þau ættu að okkar mati að vera út frá öryggi almennings,“ segir Daníel og bendir á að slæm reynsla sé af lögunum hvað það varði, að mati leigubílstjóra. Einnig ætti að líta til afkomu fólks í stéttinni sem og samkeppnissjónarmiða.
„Svindl er ekki samkeppni,“ segir hann og vísar þar til ítrekaðra fregna um að reynt sé að hafa fé af fólki sem nýtir sér þjónustu leigubíla. Fram hefur komið að erlendir bílstjórar eigi þar gjarnan hlut að máli.
Daníel segir að leigubílstjórar bíði nú fundar með ráðherra vegna þessa.
„Við teljum að ráðherra geti haft áhrif á að við fáum okkar mann í starfshópinn,“ segir hann og kveðst búast við fundi fljótlega, enda væri málið ofarlega á dagskrá ráðherrans. Kvaðst hann vænta þaðan jákvæðra viðbragða.