Klambratún umvafið snjó.
Klambratún umvafið snjó. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eitt fórnarlambanna er Frederick Trump, tæplega fimmtugur innflytjandi frá Þýskalandi. Hann veikist hastarlega ... og deyr daginn eftir, alveg grunlaus um það að rúmum hundrað árum síðar verði sonarsonur hans umtalaðasti maður veraldar og eigi undir högg að sækja vegna veirufaraldurs í ætt við spænsku veikina.

Staðan í veraldarvafstrinu er fljót að breytast, og kollvarpast jafnvel í einu vetfangi. Dæmi þessa snúast mörg og jafnvel flest um þessar mundir um Donald Trump, þann sérkennilega töfrakarl. Það eru aðeins rúm fjögur ár síðan Trump tapaði naumlega bardaganum við Joe Biden og náði ekki endurkjöri þá. En Trump hafði óvænt lagt Hillary Clinton haustið 2016 og sú góða frú var ekki lengi að tilkynna Bandaríkjunum hvers vegna og hvernig það, sem átti ekki að geta gerst, gerði það. „Trump vann með svindli,“ sagði Hillary og slíkt átti ekki að geta gerst. Hillary Clinton reyndi að fá George W. Bush í lið með sér, sem hafði á sinni tíð setið sem forseti í átta ár, en í upphafi þess ferils hafði Bush yngri naumlega unnið varaforseta Bills Clintons, Al Gore, sem hafði í lok kjördags hringt til Bush og óskað honum innilega til hamingju með kosningasigurinn. Þannig er hefðbundið að ljúka hverju sinni „bardaganum mikla um Hvíta húsið“. Sá sem tapaði játaði þá beisku niðurstöðu og sýndi innri styrk og óskaði sigurvegaranum hjartanlega til hamingju með þá niðurstöðu, sem hann væri vel kominn að. En hálftíma síðar eða svo hringdi varaforsetinn á ný og ræddi við Bush, sem hafði talið sig hafa nú verið kjörinn forseti í hálftíma eða svo. Gore taldi að hann yrði því miður að afturkalla fyrri siguróskir sínar, því að komið hefði í ljós um nýliðið kvöld að mjög mjótt væri enn á munum við talningu atkvæða í Flórída og þeir sem best þekktu til teldu að lokaniðurstaða þessara kosninga myndi eftir allt saman falla með Gore en ekki Bush!

Og reyndustu talningarmenn teldu nú að sigurinn gæti auðveldlega lagst með Gore og væri sú niðurstaða sennilegri en hitt, og að Al Gore hefði þar með unnið kosningarnar. Bush svaraði Gore og sagðist furðu lostinn á þessum hringlanda, sem væri einstakur í sögunni. Gore sagðist leiður yfir því að hann hefði orðið að færa Bush þessar fréttir, en þessi gæti orðið niðurstaðan og þá myndi hún standa. Vikum saman báru hinir „reyndu talningarmenn í Flórída“ hvert og eitt atkvæði upp að skæru ljósi og þessar vikur sem þá liðu virtust heldur falla með Gore en Bush! Bush fordæmdi þennan furðulega skopleik, sem væri algjörlega óþekktur í sögu Bandaríkjanna. Bað hann loks Hæstarétt í Washington að höggva á þennan skrítna hnút. En það vildi sá mikli réttur ekki gera, að svo stöddu, demókrötum til mikillar gleði. Þessi „skrípaleikur“ gekk í nokkrar vikur enn og þegar málið var lagt á ný fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna tók hann ákvörðun í tveimur áföngum. Naumur meirihluti réttarins féll þannig að rétt væri að Hæstiréttur myndi láta málið til sín taka efnislega, enda þyrfti þetta mál efnislega meðferð, og að þessi hörmulegi skrípaleikur gæti ekki gengið lengur. Ríflegur meirihluti Hæstaréttar sagði niðurstöðuna vera þá að Bush hefði sigrað í Flórída og væri hann þar með orðinn forseti Bandaríkjanna næstu fjögur árin.

Höfðu demókratar í flimtingum að Bush yngri hefði orðið forseti með naumustu ákvörðun Hæstaréttar, fimm atkvæðum á móti fjórum. En þetta var ekki efnislega rétt hjá þeim, því að hin efnislega niðurstaða Hæstaréttar var að Bush hefði unnið Gore og fékkst hún með sjö atkvæðum á móti tveimur í dómsalnum. En demókratar héldu sig ætíð að sinni kenningu, enda þótti þeim að hún hljómaði betur. Fjórum árum eftir þessi átök var mun rólegra á ný.

Í árslok 2020 vann Joe Biden óvænt

En í árslok 2020 vann Joe Biden óvænt sitjandi forseta, Donald Trump, og Trump skóf ekki af því og sagði augljóst að Joe Biden hefði unnið með svindli. Donald Trump ákvað því að láta ekki sjá sig við innsetningarhátíðina með vísun til svindlkenninganna. En haustið 2024 var miklu rólegra yfir vötnunum og bærileg mæting var við innsetningarathöfnina á dögunum og öllu því fínasta tjaldað til. Enda var nú svo komið að hópur ríkustu manna Bandaríkjanna, sem upp á síðkastið höfðu gengið erinda demókrata Bidens, drifu sig nú í veislur til Trumps í Flórída og hann notaði tækifærið undir borðum til að spyrja hina veskisstóru gesti hvort þeir myndu ekki slá í púkk með nokkrum tugum milljóna dollara til að innsetningarathöfnin gæti orðið sem glæsilegust. Og „litlu drengirnir“ voru fljótir til að seilast í veskin sín, enda yrðu þessi hátíðarhöld að fara fram með glæsileik. Trump hélt nú það.

Á Íslandi er því gjarnan haldið fram að „af sé vináttan þegar ölið sé af könnuninni“. En Trump er, eins og flestir vita, algjör bindindismaður frá öndverðu, svo að „ölið“ er ekki mælistika í hans mörgu húsum, út um hvippinn og hvappinn. En þeir sem eru ekki í aðdáendaklúbbi Trumps, og þar mun vera fjölmenni, benda á að gaman gæti verið að sjá, þó ekki væri nema einu sinni, hvernig „ölið“ og innri Trump færu saman, en aðrir, og þeir sem varkárari eru, segja að þau ósköp væru áhætta sem ekki væri rétt að taka. Enda eru mörg dæmi um það að ýmsum þyki rétt að ganga varlega um þegar Trump sé ekki fjarri.

Mandelson lávarður

Maður heitir Mandelson og er að auki breskur lávarður, en er að auki þannig blandaður að hann hefur lengi verið áhrifamikill innanbúðarmaður hjá breska Verkamannaflokknum og hefur staðið flesta aðra þar af sér. Sagt er að það sé lögmál í Verkamannaflokknum að það sem Manderson vilji fá þar, stórt eða smátt, það fái Mandelson lávarður. Nýverið hefur lávarðurinn látið berast til flokksforystunnar í Downing-stræti 10 að hann vilji verða sendiherra Breta í Washington, við „hirð“ Donalds Trump. En á þessu eru nokkrir annmarkar, þegar að er gáð, og verður þeirra allra ekki getið hér. En eitt er nú þekkt, sem er að Mandelson er hinn mesti orðhákur, veit flest betur en aðrir og lætur iðulega vaða á súðum. Og sagt er að inni í breska Verkamannaflokknum gildi sú regla að það sem Mandelson lávarður vilji og flokkurinn hefur vald og hendi á, það fái Mandelson, enda megi beina mulningsvél hans að vinum og samherjum, ekki síður en að óvinunum, ef þannig standi hagsmunir Mandelson af sér. Til viðbótar er bent á að þótt Mandelson eigi þá sögu að vera mjúkmáll þegar það hentar er hin hliðin mun varasamari. En nú barst inn í innstu röð Verkamannaflokksins tilkynning um að Mandelson lávarður hefði nú óvænt gert upp við sig að hann langaði að verða sendiherra Breta í Washington þar sem miðpunktur alheimsins virðist vera í augnablikinu. Sagðist lávarðurinn ekki sjá neina annmarka á því að hann fengi þessa stöðu og enginn væri heldur betur að henni kominn og enginn hefði meiri getu, hvað þá meiri reynslu, þekkingu og klókindi, til að fara með þetta mikilvægasta sendiráð Breta um þessar mundir, þegar Trump virtist hafa síðasta orðið um stórt og smátt og hinar fyrstu tvær vikur hans í embætti sýndu að Trump færi sínu fram, hvað sem minni spámenn segðu. Augljóst var að Mandelson taldi sig ekki vera í hópi minni spámanna. Þá benti einhver hjálparkokkur, frekar lágt raðaður í Downing-stræti 10, á að þegar Trump var forseti Bandaríkjanna og húsbóndi í Hvíta húsinu, árin 2016 til 2020, hefði lávarðurinn talið nauðsynlegt að láta til sín taka. Og ekki væri hægt að segja að hann hefði ekki hitt í mark þá né geigað, sem gerist iðulega hjá mönnum sem alltaf þurfa að láta til sín taka, hvort sem það er heppilegt eða óheppilegt. Og þar með var óneitanlega annmarki við að eiga, þegar valdamesti maður í heimi var annars vegar og hins vegar merkur lávarður, sem gat ekki haft fulla stjórn á því hvenær hann, sem væri allra manna mestur snillingur, ætti að þegja og hvenær ekki.

Sagt er að Starmer forsætisráðherra hafi óskað eftir því að fá sýnishorn af speki okkar fremsta lávarðar. Var þá svarið að það auðveldaði málið að af mörgu væri að taka. Þegar Starmer, dreyrrauður, nefndi þetta við „snillinginn“ varð Mandelson hugsi uns hann sagði: „Ég mun lýsa því yfir að mér skjátlaðist þegar ég fullyrti á sínum tíma að Donald Trump væri hættulegur maður, fyrir heiminn allan.“ Sagt var að Starmer hefði látið spyrja hvort hann hefði líkt Trump við Hitler og Mússólíni, eins og andstæðingar forsetans hefðu gert allósparlega. Mandelson var spurður hvort þessi stutta skýring myndi koma honum út úr fyrrnefndum ógöngum. Lávarðurinn átti dálítið bágt þegar blaðamenn spurðu hann hvort þessi óheppilegu og óvarkáru ummæli yrðu til þess að Bandaríkin myndu afsegja hann sem sendiherra Breta í Washington. Lávarðurinn hélt ekki, enda hefði hann áttað sig á að framkomin ummæli hefðu verið ósanngjörn, ósæmileg og óheppileg og gætu misskilist, og hann hefði kynnt það fyrir fulltrúum Bandaríkjanna þannig að allur misskilningur ætti að vera úr sögunni. Ráðuneytismenn sem tóku þetta tal hugsuðu sumir: „Mikil er trú þín, kona“.

Spænska veikin

Það gerðist fleira 2020, þegar Trump féll fyrir Biden. Þá kom út bókin Spænska veikin, eftir Gunnar Þór Bjarnason, sem er mjög fróðleg en jafnframt mjög dapurleg. Aðdraganda þessara veikinda er lýst. Um þau segir, eftir að fróðlegir fyrstu kaflar eru að baki: „Þannig hefst saga spænsku veikinnar. Hún er sem sagt bandarísk að ætt og uppruna og barst frá Kansas út um allar jarðir. Spænska veikin er fuglaflensa, berst úr fuglum í menn, hugsanlega með viðkomu í svínum. Færð hafa verið sterk rök fyrir því, að hún hafi fyrst borist í menn í Haskell-sýslu í Kansas snemma árs 1918.“ Þessu öllu er síðan lýst með mjög gagnlegum hætti.

Í kafla á blaðsíðu 34 segir að í flestum ritum um spænsku veikina sé þó talið langlíklegast að hún hafi fyrst komið upp í Kansas á þann hátt sem hér hefur verið rakið. Það verður þó sennilega aldrei fullsannað. Aftur á móti ber öllum saman um að hún eigi ekki rætur að rekja til Spánar. Spænska veikin er alls ekki spænsk, svo mikið er víst. En nafnið festist. Því verður varla breytt úr þessu þótt mörgum Spánverjum þyki það eflaust súrt í broti. Frá Funston-herbúðunum í Kansas berst inflúensan hratt um Bandaríkin. Í apríl og maí herjar hún á austurströndina, New York, Washington, Fíladelfíu og fleiri borgir, en sveitahéruð sleppa betur. Mjög margir veikjast en dauðsföll eru tiltölulega fá, þótt fleiri séu en í hinni venjulegu árstíðabundnu inflúensu. Eitt fórnarlambanna er Frederick Trump, tæplega fimmtugur innflytjandi frá Þýskalandi. Hann veikist hastarlega á leið til heimilis síns í New York, dag einn seint í maí, skríður sárþjáður undir sæng um leið og hann kemst heim og deyr daginn eftir, alveg grunlaus um það að rúmum hundrað árum síðar verði sonarsonur hans umtalaðasti maður veraldar og eigi undir högg að sækja vegna veirufaraldurs í ætt við spænsku veikina.