Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) hefur birt lokaskýrslu um alvarlegt flugumferðaratvik þar sem hætta á árekstri skapaðist á milli tveggja flugvéla við Reykjavíkurflugvöll í febrúar í fyrra. Nefndin segir að fótboltaleikur í sjónvarpinu hafi truflað flugumferðarstjórana með fyrrgreindum afleiðingum.
„Það er niðurstaða RNSA að fótboltaleikurinn í sjónvarpinu, umræðurnar og skvaldrið í vinnurými flugturnsins hafi haft áhrif á aðdraganda þessa alvarlega flugumferðaratviks,“ segir í niðurstöðukafla skýrslunnar.
Í skýrslunni er farið yfir stöðu flugumferðar við Reykjavíkurflugvöll frá kl. 15.17 til 15.27, en árekstrarhætta skapaðist á milli tveggja flugvéla kl. 15.26. Tekið er fram að það hafi minnst verið 75 fet, eða um 23 metrar, á milli flugvélanna þar sem árekstrarhættan varð. Í kjölfar þessa alvarlega flugumferðaratviks var sjónvarpið aftengt, hinn 26. febrúar 2024.