[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Systkinin Árný Helga og Stefán Þór, börn Sigríðar Drífu Þórólfsdóttur og Birkis Þórs Stefánssonar í Tröllatungu á Ströndum og nemendur í Verkmenntaskólanum á Akureyri, keppa á gönguskíðum á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar, EYOF, sem fer fram í Bakuriani og Batumi í Georgíu 9.-16

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Systkinin Árný Helga og Stefán Þór, börn Sigríðar Drífu Þórólfsdóttur og Birkis Þórs Stefánssonar í Tröllatungu á Ströndum og nemendur í Verkmenntaskólanum á Akureyri, keppa á gönguskíðum á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar, EYOF, sem fer fram í Bakuriani og Batumi í Georgíu 9.-16. febrúar. Þetta verður í fyrsta sinn sem þau keppa á sama móti erlendis. „Helsta markmið mitt er að vera valin í A-landsliðið og komast á Ólympíuleikana,“ segir hún. Hann tekur í sama streng. „Markmiðið mitt undanfarin ár hefur verið að keppa á EYOF og næsta markmið er að komast á Ólympíuleika.“

Framkvæmdastjórn ÍSÍ kynnti íslenska hópinn í vikunni, en í honum er einn keppandi á listskautum, átta í alpagreinum, sex á gönguskíðum og einn á snjóbretti, auk þjálfara, flokksstjóra, dómara, sjúkraþjálfara og fararstjóra.

Árný Helga, sem verður 18 ára í apríl, keppti á bikarmótum í Þýskalandi og Svíþjóð í fyrra og er nú á leið á þriðja mót sitt erlendis. Hún er skráð í fimm km göngu með hefðbundinni aðferð, 7,5 km skaut, sprettgöngu einstaklinga og 4x5 km sprettgöngu liða. „Ég hugsa aðallega um að klára göngurnar og hafa gaman,“ segir hún. Stefán Þór verður 17 ára í desember. Hann var í æfingaferð í Noregi sl. haust en keppnin í Georgíu verður hans fyrsta á erlendri grundu.

Byrjuðu á túninu heima

Foreldrar systkinanna hafa mikið verið á gönguskíðum og komu þeim fljótlega á bragðið. „Ég hef verið á skíðum síðan ég byrjaði að ganga,“ segir Árný Helga. „Ég steig fyrst á skíði þegar ég var eins og hálfs árs,“ segir Stefán Þór.

Til að byrja með gengu systkinin í snjónum á túninu í Tröllatungu en faðir þeirra lagði þar fljótlega göngubrautir. Þau byrjuðu síðan að æfa í Selárdal hjá Skíðafélagi Strandamanna, þegar þau voru rúmlega fimm ára, og síðan leiddi eitt af öðru, en eftir að þau byrjuðu í námi í VMA hafa þau æft og keppt undir merkjum Skíðafélags Akureyrar.

Að ganga á gönguskíðum hefur verið helsta áhugamál Árnýjar Helgu alla tíð. Leiðin frá Tröllatungu til Georgíu er löng en skíðakonan hefur náð góðum árangri og fékk til dæmis Bellubikarinn, sem Skíðafélag Akureyrar veitti íþróttakonu og íþróttamanni ársins í fyrsta sinn í lok nóvember á nýliðnu ári. „Leiðin hefur verið erfið en ég er mjög ánægð með að hafa byrjað aftur eftir að hafa verið í pásu árið 2020 vegna vöðvabólgu.“

Stefán Þór hefur hug á að fara í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri en hann er í grunndeild málmiðnaðar og ætlar síðan í vélvirkjun. Hann hefur keppt í hlaupum á sumrin. „Það er góð æfing fyrir gönguna.“ Stefnan hafi verið sett á EYOF, þegar hann heyrði fyrst af keppninni fyrir um fimm árum, og hann hafi æft markvisst fyrir hana undanfarin þrjú ár. „Það er geggjað að vera valinn og fá tækifæri til að keppa á nýjum brautum.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson