Vinnustofa Ásmundar er endursköpuð á sinn hátt og reynt er að fanga stemninguna sem þar ríkti.
Vinnustofa Ásmundar er endursköpuð á sinn hátt og reynt er að fanga stemninguna sem þar ríkti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vinnustofa listamannsins á síðustu öld og vinnustofa listamannsins í dag eru ólíkir staðir en samt verða til sömu undrin á þessum stöðum.

Sýningin Ásmundur Sveinsson: Undraland stendur nú yfir í Ásmundarsafni. Ásmundarsafn var heimili og vinnustofa Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara (1893-1982) sem hann hannaði og byggði en segja má að húsið sé einn hans stærsti skúlptúr. Árið 1940 þegar Ásmundur hóf vinnu við húsið stóð það í túnfæti býlis sem bar það ævintýralega bæjarheiti Undraland. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg hús sitt og verk eftir sinn dag og safn helgað minningu hans var stofnað þar árið 1983.

Sýningin í Ásmundarsafni er tvískipt. Annars vegar er um að ræða sýningu á verkum Ásmundar Sveinssonar og hins vegar er þar vinnustofa starfandi listamanns.

Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri er sýningarstjóri þess hluta sýningarinnar sem snýr að verkum Ásmundar. „Á þeirri sýningu leitumst við við að endurskapa stemninguna á þeim tíma sem Ásmundur vann að verkum sínum í húsinu og opnaði vinnustofuna gjarnan fyrir gestum og gangandi. Þar sýnum við fjöldann allan af verkum og í hluta sýningarsalarins er vinnustaðurinn endurskapaður, meðal annars með gripum sem tilheyrðu vinnustofu Ásmundar. Þegar við vorum að móta Ásmundar-hluta verkefnisins leituðum við fanga í ljósmyndum af vinnustofu hans og sýningum sem hann setti upp í skemmunni en þar sýndi Ásmundur oft verk sín. Axel Hallkell Jóhannsson hannaði rýmið með ljósmyndirnar sem útgangspunkt og gerði þær líka að hluta sýningarinnar,“ segir Ólöf Kristín. „Við gátum valið úr fjölda verka eftir Ásmund en höfðum að leiðarljósi að velja verk sem studdu við þá hugsun að endurskapa vinnustofu og augljóslega tengjast hendi listamannsins, völdum frekar útskurð, leir og verk sem hafa ákveðna mýkt í efni og nálægð við handverkið.“

Hinn hluti Undralands felst í þátttöku starfandi listamanna og þar er sýningarstjóri Markús Þór Andrésson. „Við bjóðum nokkrum listamönnum að vinna að listsköpun í einum sýningarsal safnsins. Hver listamaður fær þar rými í um átta vikur. Markús Þór hefur átt samtöl við listamennina um hugmyndir sem þeir eru að vinna að og þeir munu nýta þetta rými í því ferli. Við köllum þetta verk í vinnslu og vitum í raun ekki hvað mætir gestum sem hingað leggja leið sína á tímabilinu. Þetta er tækifæri til að skyggnast inn í skapandi ferli.“

Hluta sýningarsalar hefur því verið breytt í vinnustofu. „Við erum með húsgögn í rýminu sem henta almennt til vinnu, borð og stóla og þess háttar og svo kemur hver listamaður með sitt yfirbragð og hluti,“ segir Ólöf Kristín.

Fyrsti gesturinn sem vinnur þarna að list sinni er Unnar Örn. „Hann hefur í mörgum verka sinna verið að fást við menningaarfinn og stofnunina sem ákveður hvað varðveita skuli til framtíðar og spyr gagnrýninna spurninga um þetta.

Hann er núna að rannsaka Ásbúðarsafn, sem geymir um 20 þúsund muni sem safnað var af Andrési Johnson í Ásbúð í Hafnarfirði (1885-1965). Þjóðminjasafnið eignaðist munina en hann þótti hinn mesti minjasafnari. Frá unga aldri safnaði hann ýmsu, svo sem póstkortum, merkjum, peningum, peningaseðlum, frímerkjum og óteljandi öðrum smámunum sem til féllu frá degi til dags. Það eru ákveðnar heimildir og gögn sem fylgja þessari safneign sem Unnar Örn er að fara í gegnum og um leið skoða hvað það er sem við varðveitum, hvers vegna við varðveitum það og til hvers og svo auðvitað velta fyrir sér spurningunni um það hver ákveði hvað skuli varðveitt.“

Hluti af sýningu Unnars Arnar er gamalt strætóbiðskýli sem komið hefur verið fyrir örskammt frá safninu. Það kom sér vel fyrir blaðamann sem mætti þó nokkuð fyrir opnunartíma safnsins og kom því að lokuðum dyrum. Rigning var og blaðamaður leitaði skjóls í skýlinu og las bók þar til dyr safnsins voru opnaðar. Þessi hluti sýningarinnar ber hinn mjög svo viðeigandi titil Bið.

Aðrir listamenn sem eiga eftir að vera með vinnustofu í Ásmundarsafni eru: Ásta Fanney Sigurðardóttir, Halldór Ásgeirsson, Armanda Riffo og Sara Riel.

„Listamennirnir munu vinna að ólíkum verkefnum. Við hjá safninu vitum ekki mikið um það hvað kemur út úr því en mér finnst þetta spennandi leið til að brjóta upp hefðbundið starf safnsins og bjóða heim örlítilli óvissu. Ég vona að fólk líti á það sem tækifæri til að heimsækja safnið oft árið 2025 og vita ekki nákvæmlega hvað mætir því.

Það er líka skemmtilegt að velta fyrir sér hvað tímarnir hafa breyst. Vinnustofa listamannsins á síðustu öld og vinnustofa listamannsins í dag eru ólíkir staðir en samt verða til sömu undrin á þessum stöðum.

Titillinn á sýningunni vísar einmitt í þau undur sem eiga sér stað á vinnustofum listamanna þegar listaverk verður til. Titillinn vísar líka til sögu svæðisins í kringum Ásmundarsafn og bæjarins sem var rétt norðan við húsið og hét Undraland,“ segir Ólöf Kristín.

Næstkomandi föstudag, 7. febrúar, verður Safnanótt í Reykjavík og Ásmundarsafn opið til kl. 23. Þá verður hægt að heimsækja vinnustofu Unnars Arnar en einnig verður Ólöf Kristín með leiðsögn um Undraland Ásmundar Sveinssonar kl. 19:30. Safnanótt verður líka nýtt til að safna og deila sögum af Ásmundi og upplifun gesta og gangandi af vinnustofu hans hér í eina tíð.