Þórhallur J. Ásmundsson fæddist á Austari-Hóli í Flókadal í Skagafirði 23. febrúar 1953. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar þann 14. janúar 2025.

Foreldrar hans voru hjónin Ásmundur Frímannsson, fæddur á Steinhóli í Flókadal, og Ólöf Sveinbjörg Örnólfsdóttir frá Norðfirði. Fæðingardagur þeirra beggja var 20. júlí 1919. Systkini Þórhalls eru Frímann Arnar, f. 1942, Þórir Jón, f. 1947, Þórey, f. 1948, Guðrún Hjördís, f. 1951, Örnólfur, f. 1954, Kristinn Brynjar, f. 1955, og Jósef Smári, f. 1957.

Fyrri kona Þórhalls var Hólmfríður Hjaltadóttir, þau skildu. Saman áttu þau tvö börn: 1) Ásmundur, f. 22. júlí 1975, búsettur á Akureyri, kvæntist Hörpu Hafbergsdóttur. Þau skildu. Börn þeirra eru Andrea Ýr, f. 2. febrúar 2001, og Eyþór Logi, f. 26. júlí 2005. 2) Ólöf Arna, f. 15. desember 1979, búsett á sambýlinu við Fellstún á Sauðárkróki.

Seinni kona Þórhalls er Sólveig Halla Kjartansdóttir, f. 20. febrúar 1959. Börn Höllu af fyrra hjónabandi eru: 1) Sigrún Þóra Theodórsdóttir, gift Leikni Sigurbjörnssyni. Sonur þeirra er Theodór Willý. Sigrún átti fyrir börnin Rakel Rósu, Sólveigu Erlu og Friðbert Óskar með Þorsteini Erlingssyni. Rakel á Ragnheiði Mareyju og Sólveig á Sturlaug Leó. 2) Páll Sævar Theodórsson, kvæntur Lilith Theodórsson. 3) Theodóra Sif Theodórsdóttir. Hún bjó með Jónasi Kristni Guðbrandssyni. Þau eiga Indíönu Sól og Bríeti Sóleyju. Theodóra á Theodór Rúrik með Jóni Rúnari Gíslasyni.

Þórhallur ólst upp við öll almenn sveitastörf og lauk grunnskólaprófi frá Sólgarðaskóla 1967, unglingaskólaprófi frá Steinsstaðaskóla 1969 og gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar 1971. Í skólafríum á sumrin vann Þórhallur í brúarvinnuflokki Gísla Gíslasonar og var einnig örlítið til sjós. Leiðin lá í iðnskólanám á Húsavík haustið 1971. Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði á Sauðárkróki 1975. Næstu ár vann Þórhallur við húsasmíðar, en draumastarfið var alltaf blaðamennska, sem var honum í blóð borin frá barnæsku. Skömmu eftir að Dagur á Akureyri varð dagblað var Þórhallur ráðinn blaðamaður í Skagafirði og á Siglufirði, 1986. Tveimur árum seinna var hann ráðinn ritstjóri héraðsfréttablaðsins Feykis. Ritstjórastarfinu, auk reksturs blaðsins, sinnti Þórhallur í rúm 16 ár. Þá tók við blaðamennska á Hellunni á Siglufirði í nokkur ár og svipaðan tíma á Skessuhorni á Akranesi. Frá sumrinu 2015 vann Þórhallur mestmegnis við smíðar.

Aðaláhugamálin voru íþróttir, einkum knattspyrna lengst af, og spilaði hann með liðinu sínu í Flókadalnum, síðan tvö sumur með Völsungi á Húsavík. Lengst af knattspyrnuferlinum lék hann með Tindastóli, UMSS og Neista Hofsósi. Síðasta sumarið lék hann með GKS Siglufirði, 2004, þá orðinn 51 árs að aldri. Þórhallur ólst upp á gönguskíðum, eins og fleiri Fljótamenn, og fór aftur að iðka skíðaíþróttina 1994 og áhuginn blossaði upp aftur. Hann tók þátt í mörgum skíðalandsmótum og Íslandsgöngum. Níu sinnum þreytti hann Vasa-gönguna í Svíþjóð sem er 90 km löng ganga og einu sinni Birkebenarennet í Noregi.

Útför fer fra frá Siglufjarðarkirkju í dag, 1. febrúar 2025, klukkan 13.

Streymt verður frá útför.

Elsku Þórhallur minn.

Þakka þér fyrir það góða líf sem við áttum saman.

Kossi föstum kveð ég þig,

kyssi heitt mitt eftirlæti,

fæ mér nesti fram á stig, –

fyrst ég verð að kveðja þig.

Vertu sæll! og mundu mig

minn í allri hryggð og kæti!

Kossi föstum kveð ég þig

kyssi fast mitt eftirlæti.

(Jónas Hallgrímsson)

Þín

Halla.

Sumarið 2003 breyttist líf fjölskyldunnar til hins betra er þú komst inn í líf mömmu og hún fann hamingjuna aftur. Okkar fyrstu kynni voru góð og sá ég strax að mömmu leið vel með þér og það veitti mér mikla gleði. Ég fór svo inn í slæma neyslu en þú dæmdir mig ekki fyrir það, þér þótti bara miður að ég væri að fara svona með líf mitt. Þú stóðst á þínum prinsippmálum í sambandi við hegðun mína, svo að á þeim tíma var ég ekkert rosalega ánægður með þig, en eftir að hafa snúið mér á rétta braut aftur mat ég staðfestu þína mikils.

Við náðum að verða góðir vinir eftir þetta vesen á mér og þá sérstaklega núna á seinustu 10-11 árum. Ég mun alltaf meta hversu ofboðslega góður afi þú varst öllum barnabörnum ykkar mömmu, þú varst mömmu líka ofboðslega góður sem og okkur systkinunum og ég mun aldrei gleyma því. Svo núna í þínum erfiðu veikindum þá gerðir þú ekkert annað en að hvetja mömmu til að halda áfram með sitt líf því að þú vissir að þið sæjust aftur seinna. Það sem þú varst að segja henni mömmu að gera eftir að þú færir yfir verður núna mitt verkefni, en við ræðum það ekki opinberlega; nóg er nú kjaftað um fólk á Siglufirði svo að við erum ekki að fara gefa þeim neitt meira í gjöf fyrir kjaftasögurnar sem eru landsfrægar.

En ég lofa þér, Þórhallur minn, að ég mun hugsa vel um hana mömmu fyrir þig og sjá til þess að henni líði vel í lífinu.

Ég hlakka síðan til að hitta þig aftur þegar minn tími kemur og við getum þá örugglega fundið okkur ýmislegt að bralla, en þar til við sjáumst aftur bið ég þig að vaka vel yfir henni mömmu minni, systur og barnabörnum þínum, sem ég veit vel að þú munt gera án þess að ég biðji um það.

Kærar þakkir fyrir þær prinsippskoðanir sem ég lærði frá þér og fyrir okkar góða vinskap seinustu ár Þórhallur minn. Við munum sakna þín mikið en þú veist að þú verður með okkur alla daga í hjörtum okkar.

Megi guð blessa þig og varðveita.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Þinn fóstursonur,

Páll Sævar Theodórsson.

Að fæðast hefur sinn tíma. Að deyja hefur sinn tíma, segja prestarnir. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er, segir máltækið. Óvitandi komum við í þennan heim, óvitandi erum við um það hvenær við yfirgefum jarðlífið. Lífið sjálft er kannski mesta og flóknasta undur veraldar, lífveran með heilann sem stjórnstöð skilningarvitanna, í upphafi forritaðan dulrúnum erfðanna en að öðru leyti eins og óskrifað blað, safnar að sér vitneskju og þekkingu svo lengi sem hann endist eða líkamshylkið dugar. Trúarbrögðin kenna okkur að maðurinn hafi sjálfstæðan vilja, hvernig hann fer með þá hæfileika sem honum voru gefnir. Hver er sinnar gæfu smiður segir annað máltæki.

Litli drengurinn sem fæddist í Flókadalnum í febrúar 1953, fimmti í aldursröð átta systkina, fékk í vöggugjöf marga hæfileika sem hann þroskaði til góðra verka og skapaði sér líf og starfsvettvang sem þjónaði áhugamálum hans en hann hlaut einnig sinn skammt af erfiðleikum sem hann tókst á við og leysti með sóma.

Þórhallur lærði húsasmíði, stundaði um tíma og fórst það vel, en hann varð líka sinnar gæfu smiður. Sterkustu áhugamálin voru hins vegar íþróttir og blaðamennska og snemma beygðist krókurinn. Um 11 eða 12 ára aldur var hann byrjaður í blaðamennsku með því að skrifa niður það sem honum þótti fréttnæmt og setja upp í eiginlegt blað sem hét Nútíminn. Hann hafði þar viðtöl við nokkra valinkunna sveitunga, fór reyndar aldrei til þeirra en samdi sjálfur svörin við sínum eigin spurningum eftir því sem honum þótti best fara. Jón bróðir hans sagði að þessi útgáfa hefði verið mesta snilld en þegar hún fór að spyrjast út eyðilagði ritstjórinn allt upplagið. Móðirin ól með sér nokkrar áhyggjur af þessum og öðrum undarlegum uppátækjum drengsins og hafði orð á, en Ásmundur bóndi svaraði og lagði þunga í orðin: „Þú skalt ekki hafa áhyggjur af Þórhalli. Hann á eftir að spjara sig.“

Þegar Þórhallur tók við héraðsfréttablaðinu Feyki árið 1988 hafði ég um allmörg ár verið prófarkalesari blaðsins og hélt því áfram svo lengi sem hann var þar ritstjóri, að mig minnir. Þá kynntist ég Þórhalli vel og oft undraðist ég atorku hans og vinnusemi. Hvernig honum tókst að búa til heilt 8 síðna blað í hverri viku, stundum einn en oftast með lítilli aðstoð. Skrifaði blaðið, fór á vettvang atburða, safnaði auglýsingum, tók ljósmyndir, stjórnaði dreifingu og meira að segja braut sjálfur blaðið í síður fyrir prentun seinni árin. Þetta hefðu ekki allir leikið eftir.

Þórhallur var hraustur maður og vel á sig kominn, sem stælti líkama sinn með iðkun íþrótta, einkum fótbolta og skíðagöngu. En eftir um það bil 5 ára baráttu vann krabbameinið samt sigur á honum að lokum, einungis rúmlega sjötugum að aldri. Þórhallur var einstaklega góður í viðkynningu og hans er sárt saknað af mörgum sem kynntust honum. Aðstandendum og vinum öllum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hjalti Pálsson.

Mig langar í fáeinum orðum að minnast Þórhalls vinar míns sem lést fyrir skömmu.

Það eru um það bil fimmtíu ár síðan við Þóri eins og hann var kallaður hittumst fyrst er við lékum saman knattspyrnu á Króknum í einstaklega samhentum hópi.

Hvort sem það var utan vallar eða innan var Þórhallur mikilvægur liðsmaður. Hann hafði einstaka nærveru þar sem léttleikinn og góðlátlegt grín var allsráðandi. Hann gaf mikið af sér og var alltaf til í að grínast og hafa gaman af hlutunum. Á vellinum var hann svo með baneitraðan vinstri fót og fannst því algjör óþarfi að vera mikið að sparka með þeim hægri. Þórhallur var mjög öflugur íþróttamaður. Hann stundaði langhlaup með góðum árangri, var afreksmaður á skíðum og svo fór hann nokkrum sinnum í Vasa-gönguna í Svíþjóð. Þá hafði Þórhallur ótrúlegt minni og gat rifjað upp leiki sem höfðu átt sér stað fyrir 40-50 árum. Á örskotsstund gat hann rifjað upp hver hefði skorað og lagt upp á Skaganum 1975 og hvað mörg spjöld Öddi Ragnars fékk 1977. Snemma kom í ljós að blaðamennskan átti hug hans allan og hafði hann eitt sinn á orði að það hefði verið draumur hans alla tíð. Þórhallur skilur eftir sig stór spor sem blaðamaður. Hann var ritstjóri Feykis í 16 ár, einstakur penni sem stundaði ýmis ritstörf ásamt því að vera blaðamaður Skessuhorns um tíma.

Þóri var mikill liðsmaður og þegar Tindastóll varð Íslandsmeistari í körfu árið 2023 gátum við glaðst saman. Þegar við gömlu félagarnir munum nú horfa á leiki í „Síkinu“ mun hugur okkar án efa leita til Þóra. Íþróttahúsið fékk viðurnefnið eftir hugmynd frá Þóra og vissi ég að hann var afskaplega stoltur af því.

Fyrir síðustu jól, í veikindum sínum, gladdi hann það mjög þegar Feykir birti greinarnar hans um íþróttalífið í Fljótunum ásamt jólasögunni frá því að hann var að alast þar upp. Hann lét þess getið að þetta yrðu síðustu greinarnar sem kæmu frá honum. Ótrúlegt var að fylgjast með því hvað hann tók veikindum sínum með miklu æðruleysi þrátt fyrir að vita að hverju stefndi. Hann háði hetjulega baráttu við þennan illvíga sjúkdóm sem gefur ekki grið og varð að játa sig sigraðan að lokum.

Í veikindunum kom í ljós hvað fjölskyldan var honum dýrmæt og Halla stóð eins og klettur við hlið hans. Hann var stoltur af börnum og barnabörnum, talaði mikið um þau og var þeim góður afi. Einnig kom í ljós hvað íþróttirnar gáfu honum mikið á meðan hann gat fylgst með þeim. Gaman þótti okkur Eygló að heimsækja Höllu og Þóra til Siglufjarðar í fæðingarbæ minn. Ekki alls fyrir löngu gengum við tveir yfir Siglufjarðarskarð í sól og blíðu þar sem það var mikið spjallað og hlegið. Planið var að gera þetta á hverju ári en örlögin gripu í taumana svo ferðirnar verða ekki fleiri. Ég á eftir að sakna þín mikið kæri vinur og takk fyrir vináttuna og öll samtölin í gegnum árin.

Kæra Halla, systkini, börn og barnabörn. Þóra verður sárt saknað og missir ykkar er mikill en minningin um góðan og vandaðan dreng lifir.

Stefán Ólafur Ólafsson.

Kveðja frá Ungmennafélaginu Neista Hofsósi

Þórhallur Ásmundsson er fallinn frá alltof snemma og með söknuði kveðjum við góðan félaga. „Ásmundur bjó á Austarahóli og átti soninn snarpa“ var einhvern tímann sagt en sonurinn snarpi var Þórhallur sem alla ævi var kraftmikill, duglegur og afkastamikill maður sem vildi láta gott af sér leiða í samfélaginu.

Þegar Þórhallur mætti fyrst á æfingar með Neista árið 1990 var eins og hann hefði alltaf verið þar. Féll vel inn í hinn hæfilega kærulausa, skemmtilega og léttlynda hóp sem hamaðist á æfingum og sprellaði passlega inn á milli. Fljótt varð Þórhallur einn af lykilmönnum liðsins og spilaði í vinstri bakverði enda þekktur spyrnumaður með þeirri vinstri – Þórhallur með þrumufótinn – eins og stutt samantekt um hann byrjar.

Á þessum árum var Þórhallur líka ritstjóri Feykis og sýndi alveg ótrúlega elju og dugnað við að sinna því starfi með prýði ásamt fjölmörgu öðru auk þess að spila fótbolta. Enda var úthald og hlaupageta Þórhalls með ólíkindum og spilaði hann fram yfir fimmtugt með góðum árangri. Hann var líka góður langhlaupari og vel liðtækur skíðamaður eins og margir Fljótamenn. Svo var hann góður með hamarinn en smíðastörf stundaði hann um margra ára skeið.

Margar eftirminnilegar stundir átti Þórhallur enda skemmtilegur og uppátækjasamur. Eitt sinn fyrir leik í Reykjadal reyndi hann að færa til kant á hlaupabraut, sem var kringum knattspyrnuvöllinn, til að betra væri að taka hornspyrnur. Gott ef það gekk ekki ágætlega, a.m.k. voru hornspyrnur í leiknum góðar.

Í annað sinn skoraði hann óvart í eigin körfu í körfuboltaleik á Íslandsmóti. Svo spaugilegar þóttu aðfarir Þórhalls við þessa sjálfskörfu að þjálfari Neista valt af stól og á gólfið og veltist þar um af hlátri.

Í æfingaferð til Færeyja með Neista var í eitt sinn spilað á mjög flottum velli og Þórhallur talaði um að svona Stadion þyrfti að koma á Hofsós. „Það var Þórhalls eina von, að eignast FC Stadion“ sagði svo í samantektarkorni á uppskeruhátíð um haustið.

Svona var þetta, Þórhallur oft viljandi sem óviljandi hrókur alls fagnaðar og gleðiefnis. Sama hvað gekk á, alltaf hélt Þórhallur áfram léttur og hress og hvatti aðra til dáða. „Áfram Neisti“ kallaði hann og klappaði svo saman höndunum með sínu lagi sem fáum öðrum var gefið.

Með Þórhalli er fallinn frá öndvegisdrengur sem mikil eftirsjá er í. Kæra fölskylda Þórhalls, skyldmenni og vinir. Okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Haukur og Hjalti
frá Marbæli,
Magnús og Sigmundur frá Brekkukoti.

Um miðjan áttunda áratuginn urðu kynslóðaskipti í fótboltaliði Tindastóls. Við vorum að byrja nokkrir „original“ unglingsstrákar og því var það spennandi fyrir okkur þegar nokkru eldri leikmaður bættist í hópinn, Þórhallur Ásmundsson, ættaður úr Fljótunum.

Hann hafði spilað nokkur ár með með Völsungi og kom með dýrmæta reynslu í hópinn. Mætti með sítt og ljóst liðað hár og bítlaband. Hann heillaði okkur og fljótt kom í ljós að þarna höfðum við dottið í lukkupottinn.

Þórhallur varð lykilmaður með sinn einstaka vinstri fót og gríðarlega eljusemi. Þá var hann þindarlaus og gat hlaupið endalaust.

Hann var einstaklega jákvæður og átti stóran þátt í samheldni og góðum liðsanda. Þær eru margar sögurnar þar sem Þórhallur var í stóru hlutverki. Í einum leiknum sátum við þögulir og niðurlútir í hálfleik þar sem staða okkar var vægt sagt slæm. Þá kom hvatning frá Þórhalli. „Strákar, ég segi nú bara eins og Pálmi Gunnars söng: Ekki æðrast, enn er von.“ Og auðvitað léttist andrúmsloftið og við kláruðum leikinn.

Eftir að knattspyrnuferlinum lauk fórum við að leika okkur í körfubolta og enn var Þórhallur ómetanlegur í hópnum með sínar djúpu pælingar. Hann átti gott með að muna atburði og sögur og gátum við alltaf treyst hans minni.

Við söknum einstaks félaga sem litaði líf okkar og var drengur góður. Við Tindastólsfélagar minnumst hans með þakklæti og færum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Minning Þórhalls lifir.

Óskar G. Björnsson.

Félagi okkar, Þórhallur Ásmundsson, er fallinn frá. Þórhallur átti sterkar rætur í Ólafsfirði eftir gagnfræðaskólagöngu sína. Hann eignaðist marga vini fyrir lífstíð og urðu þau heiðurshjón Hilmar Tryggvason og Sigurbjörg Ólafsdóttir honum sérlega hugstæð, en um tíma bjó hann hjá þeim. Hilmar var öflugur rótarýmaður og hefur sjálfsagt vakið áhuga Þórhalls á þeim góðu gildum sem hreyfingin stendur fyrir. Þórhallur gekk í Rótarýklúbb Ólafsfjarðar árið 2020. Hann átti því ekki langa sögu innan klúbbsins en náði á skömmum tíma að tengjast meðlimum sterkum vinaböndum og dýpka þá vináttu sem hann átti fyrir.

Þórhallur nýtti reynslu sína sem blaðamaður vel við ritun fréttabréfa fyrir klúbbinn sem iðulega gáfu góða mynd af verkefnum samfélagsins hverju sinni. Erindi rótarýfunda vöktu jafnan mikinn áhuga hjá Þórhalli, hann var duglegur að spyrja fyrirlesara spurninga og kom góðum umræðum af stað. Hann tók virkan þátt í starfinu og sýndi mikinn dugnað og eljusemi við störf sín. Eftirminnilegt er þegar klúbburinn stóð fyrir því að klæða timbur utan um grindverkið við skíðastökkpallinn á Ólafsfirði. Þá mætti Þórhallur smiður sterkur til leiks og leiddi vinnuna áfram, gaf ekkert eftir í krefjandi aðstæðum. Eins var hann mjög duglegur að mæta í önnur verkefni sem klúbburinn tók sér fyrir hendur.

Fjarðargangan, sem Skíðafélag Ólafsfjarðar heldur ár hvert, er eitt af þeim verkefnum sem klúbburinn nýtir krafta sína í og hafa félagar meðal annars sinnt brautarvörslu undanfarin ár. Það má því segja að Þórhallur hafi verið okkar fulltrúi í göngunni sjálfri og fyllt okkur stolti þegar hann þaut fram hjá með brosið út að eyrum. Hann nýtti sína krafta í brautinni sjálfri og með því að hvetja fólkið í kringum sig til að taka þátt. Þvílíkur innblástur sem það var að fylgjast með honum ganga síðustu göngu. Með krabbameinið í farteskinu og máttfarinn eftir meðferðir en áfram gekk hann og kláraði með stæl. Skíðaíþróttin var honum mikils virði og því alveg í hans anda það góða samstarf sem Rótarýklúbburinn og Skíðafélagið hafa átt í gegnum tíðina.

Eins og gefur að skilja dró úr mætingu Þórhalls í starf klúbbsins eftir því sem veikindin herjuðu á en hugur félaga var alltaf hjá honum. Þótti okkur vænt um kveðjur sem okkur bárust af og til og vonum að honum hafi hlýnað við þær kveðjur sem voru sendar til baka. Við þökkum fyrir góðar samverustundir og farsælt samstarf síðustu ár, minning um góðan vin lifir í hjörtum okkar. Innilegar samúðarkveðjur sendum við til fjölskyldu, ættingja og vina.

Fyrir hönd Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar,

Sunna Eir Haraldsdóttir forseti.