Sigurbjörn Þorkelsson
Þótt yfir mig fenni og ég verði undir fargi vonbrigða og volæðis bið ég að kærleikur þinn, góði Jesú, mér bjargi. Í hjarta mínu brenni og fái um æðar mínar að flæða og hjörtun freðnu að bræða.
Því þótt í tilverunni frysti, fenni og skafi fáum við að lifa í þínu skjóli, því þú ætíð ert með okkur og vakir okkur yfir. Þú ert okkar vörður, vígi og skjöldur. Okkar eilífðar hnoss, ljómi og ljós.
Þess vegna biðjum við þig, vinurinn besti, að halda áfram að vaka okkur yfir og vernda. Lýstu okkur og leiddu og tak okkur þér í fang þegar við getum ekki meir. Því að í þinni fylgd og í þínum faðmi þurfum við ekkert að óttast, þótt yfir okkur þyrmi, við finnum til innilokunarkenndar, vera líkt og strá í vindi, vingull sem sveiflast og veit ekki hvað verður.
Leyfðu okkur að upplifa og finna að við erum umlukt kærleika þínum, sem bregst okkur aldrei.
Hvílík blessun, sem hylur okkur á bak og brjóst, verndar okkur og varðveitir. Kærleikur þinn og blessun er ótæmandi uppspretta. Lækur sem ekki þornar upp, heldur streymir fram og líður aldrei undir lok.
Gefðu okkur kjark til að velja kærleika þinn. Hjálpaðu okkur að stíga inn í hann, hvíla í honum og njóta hans, því hann er eina svarið í þjáðum heimi.
Við treystum því að þú slökkvir aldrei þitt kærleiksbál, eins og þú hefur heitið. Tendraðu það í hjörtum okkar mannanna svo það fái lifað í okkur. Svo við fáum samlagast því um eilífð alla.
Þess biðjum við samkvæmt þínu boði í nafni frelsarans okkar, Jesú Krists, okkar eilífa lífgjafa.
Með kærleiks- og friðarkveðju.
Lifi lífið!
Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.