Flest bendir til að ekki hafi verið um skipulagða árás að ræða

Full ástæða er til að horfa með samúð og áhyggjum á þær fréttir sem bárust nýlega frá Svíþjóð. Skyndilega var gerð skotárás á Risbergska-skólann í Örebro þar í landi. Fullyrt er að ellefu manns hafi látið lífið í árásinni og að minnsta kosti sex hafi særst.

Ekki hafa fengist haldbærar skýringar á árásinni, þegar þetta er skrifað. Ofbeldismaðurinn, sem var á bak við þessa árás, er talinn vera á meðal þeirra sem létu lífið. Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar sagði á blaðamannafundi í kjölfar þess að fréttir bárust af ódæðinu að þetta væru verstu fjöldaárásir í sögu Svíþjóðar. Sænski for­sæt­is­ráðherr­ann kvaðst skilja mjög vel að þessi mikla árás­ vekti margar spurn­ing­ar á meðal alls al­menn­ings, en ít­rekaði einnig að eng­in frek­ari hætta steðjaði að almenningi að svo stöddu. „Það er ekkert hættulegra að fara í skólann í dag en það var í gær,“ sagði sænski forsætisráðherrann.

Það má sjálfsagt færa slíkt fram sem almenn sannindi, en nokkur hætta hlýtur þó að vera á að margur Svíi sé ekki eins öruggur nú og hann var í gær, þótt allir beri sig vel. En rétt er að taka fram að þær fréttir sem þegar hafa borist af þessu voðaverki benda eindregið til að það tengist ekki skipulögðum „glæpaklíkum“. Sá sem talinn er hafa framið þetta óhugnanlega verk hafi búið við persónulega erfiðleika og atvikið hafi verið tengt honum einum. En hitt gæti engu að síður sjálfsagt vakið athygli og nokkurn ugg hvar í Svíþjóð atvikið átti sér stað.

Hingað til hafa skotárásir af slíku tagi einkum tengst höfuðborg landsins eða ýmsum úthverfum hennar. Um allnokkra hríð hafa borist reglulegar fréttir um beitingu skotvopna þar, og stundum tekið fram að lögreglan eigi bágt með að bregðast eins fljótt við slíkum fréttum og hún vildi, því að hún þurfi í raun að ná að „vígbúast“ áður en óhætt sé að bregðast af öryggi við slíkum fréttum. Vera má að slíkt tal séu ýkjur. Á það er einnig bent, með réttu eða röngu, að „glæpaklíkurnar“ þjálfi ungmenni til að sinna erindum sínum, þar sem þau eigi auðveldara með að sleppa við refsingu vegna lágs aldurs.

En þótt annars konar verknaður hafi verið á ferðinni nú í Örebro, eiga orð forsætisráðherra Svíþjóðar rétt á sér. Hann sagði „daginn vera fullan af sorg og að enginn ætti að upplifa þá martröð að vera í kennslustofu og óttast um líf sitt.“