Bragi Björn Orri Hjaltason fæddist 30. júní 1931 í Reykjavík. Hann lést 25. janúar 2025 á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund við Hringbraut.
Foreldrar hans voru Óvína Anne Margrét Arnljóts Velschow, f. 4. mars 1900 á Sauðanesi á Langanesi, d. 2. desember 1993 og Hjalti Magnús Björnsson, f. 27. janúar 1892 á Ríp í Hegranesi, Skagafirði, d. 30. apríl 1986.
Systkini Orra eru: Halldóra Valgerður, f. 29. maí 1927, d. 1. febrúar 2013; Snæbjörn Arnljóts, f. 17. desember 1928, d. 30. apríl 2015; Guðríður Valborg, f. 22. mars 1938.
Orri ólst m.a. upp á Mímisvegi og Sjafnargötu. Árið 1945 fluttist fjölskyldan á Hagamel 8 í Reykjavík og þar bjó Orri í 78 ár.
Orri kvæntist, 8. apríl 1961, Hebu Guðmundsdóttur, f. 25. október 1938. Þau bjuggu allan sinn búskap á Hagamel 8, uns þau fluttu árið 2023 á Grandaveg 42f.
Börn Hebu og Orra eru: 1) Örn, f. 18. mars 1962, kvæntur Guðrúnu Másdóttur. Börn þeirra eru Ásgerður, Bragi og Sigrún Heba. 2) Unnur, f. 30. ágúst 1967, gift Patrick Ramette. Börn þeirra eru Alexander Paul Orri og Elín Claire Heba. 3) Óvína Anna Margrét, f. 19. ágúst 1968, sambýlismaður er Charles Mackay. Börn hennar úr fyrra hjónabandi eru Orri Martinez og Pedro Hrafn Martinez.
Eftir verslunarskólanámið 1952 lagði Orri land undir fót. Hann starfaði við kúasmölun og skógarhögg í Klettafjöllunum í Kanada og stundaði m.a. spænskunám við háskóla í Vancouver. Þá lá leið hans til Montevídeó í Úrúgvæ, þar sem hann starfaði á skrifstofu kjörræðismanns Íslands í sex mánuði, sigldi þaðan til Spánar og hélt áfram spænskunámi í Madrid í hálft ár.
Í London nam hann útvarpsvirkjun og í kjölfarið hóf hann innflutning og þjónustu á sjónvarpstækjum, fyrst á Keflavíkurflugvelli en síðan um allt land. Þessu sinnti hann næstu þrjá áratugina þar til hann hóf heildsölu á efnavörum fyrir bifreiðar og skip. Hann starfaði við það allt þar til heilsu hans tók að hraka við 87 ára aldur.
Orri verður jarðsunginn frá Neskirkju í dag, 6. febrúar 2025, kl. 15.
Orra, tengdaföður mínum, kynntist ég fyrir um 35 árum. Hæglátur og lét lítið fyrir sér fara og maður fárra orða – eins og hann væri í keppni við sjálfan sig um það hvernig hann gæti gert sig skiljanlegan með sem fæstum orðum. Málalengingar áttu ekki við hann Orra minn. Þegar kom að verklegum framkvæmdum var annað upp á teningnum. Ef snjóaði mátti bóka að Orri væri úti með skófluna að halda tröppum og gangstígum í kringum húsið hreinum. Hann gat setið lengi við að dytta að bílnum, hreinsa þakrennur, gera við laskaða húsmuni og svo mætti lengi telja.
Orri var meira fyrir ávexti og hollan mat en maður átti að venjast um samtíðarmenn hans. Appelsínur, epli og sítrónur reglulega á borðum á Hagamel, þökk sé Orra.
Á Spáni nutu þau hjón, Orri og Heba, tilverunnar mjög reglulega. Þar var Orri ekki hinn hefðbundni túristi, því hann var altalandi á spænsku og gat því rætt við innfædda á þeirra tungumáli.
Lítinn áhuga hafði Orri á að hætta að vinna þegar aldur færðist yfir – það var ekki fyrr en veikindi hömluðu honum sem hann varð að játa sig sigraðan, þá orðinn 87 ára. Vann hann baki brotnu fram að því, áhugasamur og gaf sér tíma til að spjalla við viðskiptavinina því Orri var aldrei að flýta sér.
Ég minnist Orra með þakklæti og hlýhug fyrir samveruna.
Guðrún Másdóttir.
Orri Hjaltason var eiginmaður móðursystur minnar og faðir frændsystkina minna, vinur pabba og mágur mömmu. Ég ólst upp nokkrum götum frá heimili hans og Hebu frænku á Hagamel og var mikið inni á heimilinu og í kringum móðurfjölskyldu mína sem barn og eftir að ég komst á fullorðinsárin og bjó meira og minna erlendis þá reyndi ég að heimsækja þau hjón þegar ég var á landinu. Síðast hitti ég Orra á heimili þeirra hjóna deginum áður en hann var lagður inn á Grund. Hann var orðinn lúinn og er eflaust hvíldinni feginn.
Sem barn fylgist maður með hinum fullorðnu, lærir af þeim bæði hegðun og viðhorf. Það er heilt þorp sem hefur áhrif og mótar okkur. Orri var eitt af því fullorðna fólki sem skildi eftir sig minningabrot í huga mínum sem eru sterk og hafa ekki horfið, þrátt fyrir að hugurinn hafi síðar fyllst af atburðum og fólki sem hefur orðið á vegi mínum.
Ég man mjög vel eftir foreldrum Orra, en sérstaklega eftir frú Margréti sem bjó líka á Hagamelnum. Hún var ekki eins og annað fólk, ekki eins og aðrar konur. Hún var ekki sérstaklega barngóð eða hafði áhuga á að leika við mig eða að reyna að vera vinsæl hjá börnunum – það var ekki þannig. Heildsalafrúin var stórbrotinn karakter, sjálfsörugg, „sigld“ eins og hún orðaði það og minnti á hefðarfrú úr menningarheimi Evrópu, karakter úr „Veröld sem var“ sem fyrir dularfulla atburðarás var stödd við eldhúsborð í Vesturbænum á 9. áratug 20. aldar. Enda skildist mér seinna að uppruni Margrétar sjálfrar hefði verið innblástur að nóvellu Nóbelskáldsins sem síðar varð gerð kvikmynd eftir. Það var eitthvað í viðhorfi og talsmáta hennar sem gaf til kynna að það væri eitthvað stærra þarna úti í heimi sem biði mín.
Orri erfði jarðbundnari gerð af veraldarvönu fasi móður sinnar. Hann nálgaðist ekki heiminn sem annan stað sem hægt væri að heimsækja í fríum heldur var hann hluti af þessum stóra heimi. Hann hafði venjur sem þóttu framandi á Íslandi, eins og að drekka vatn með sítrónu. Það þótti einu sinni stórmál. Hugmynd úr öðrum framandi heimi. Að sjá Orra vera alveg sama þótt fólki fyndist þetta sérkennilegt sýndi mér að þarna úti væri heimur fullur af alls konar hugmyndum og háttum sem væru áhugaverðir og gildir, þrátt fyrir að fólk fussaði yfir þeim hér heima. Skilaboðin voru skýr: maður þyrfti ekki að fylgja hinum og taka upp sömu venjur. Það heitir að vera á undan sínum tíma. Sjálfstæður í hugsun.
Það var dýrmætt veganesti. Það var svo löngu síðar þegar ég fór í ferð til Úrúgvæ í undirbúningsvinnu fyrir næsta listaverk að það rifjaðist upp fyrir mér að Orri, og stórkaupmaðurinn faðir hans þar á undan, höfðu verið ræðismenn Úrúgvæ á Íslandi. Það var gaman að geta sagt frá því í vegaferð um fáfarin iðnaðarsvæði Úrúgvæ meðfram Ríó de la Plata á landamærum Argentínu að ég hefði alist upp í návist fulltrúa þeirra á lítilli eyju lengst uppi við heimskautsbaug, bara eins og ekkert væri eðlilegra.
Hvíl í friði.
Hulda Rós Guðnadóttir.
hinsta kveðja
Kveð með hjartans þökkum fyrir samfylgdina, djúp vináttubönd, ættartengsl, ómældar samverustundir, drengskap, góða nærveru og gleðistundir.
Kveð Orra með söknuði og djúpu þakklæti fyrir góðar minningar.
Dóra Egilson.