Gögnin Jón Ármann Steinsson með upplýsingarnar sem hann vill gjarnan koma í hendur yfirvalda.
Gögnin Jón Ármann Steinsson með upplýsingarnar sem hann vill gjarnan koma í hendur yfirvalda. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Ármann Steinsson, útgefandi bókarinnar Leitin að Geirfinni, hefur undir höndum ljósastæði úr bílskúrnum við heimili Geirfinns Einarssonar á Brekkubrautinni í Keflavík. Að sögn vitnis sem vísað er til í bókinni beið Geirfinnur þar bana í átökum við mann sem hann þekkti að kvöldi 19

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Jón Ármann Steinsson, útgefandi bókarinnar Leitin að Geirfinni, hefur undir höndum ljósastæði úr bílskúrnum við heimili Geirfinns Einarssonar á Brekkubrautinni í Keflavík. Að sögn vitnis sem vísað er til í bókinni beið Geirfinnur þar bana í átökum við mann sem hann þekkti að kvöldi 19. nóvember 1974. Jón telur það vera þess virði að láta rannsaka ljósið til að kanna hvort þar geti leynst lífefni sem geti stutt frásögn vitnisins.

„Í skýrslum, öðrum en þeim sem gerðar voru við upphaf rannsóknarinnar í Keflavík, kemur fram að öskur hafi heyrst fyrir utan heimili Geirfinns þetta kvöld og vitni lýsa sem drápsöskrum. Við erum með vitni sem sá Geirfinn í átökum við annan mann, sem við getum nafngreint, inni í bílskúrnum. Þar var Geirfinnur veginn og að sögn vitnisins gerðist það beint undir flóðljósi í bílskúrnum. Ljósið var splunkunýtt og Geirfinnur hafði nýlega sett tvö slík ljós í bílskúrinn. Annað þeirra var við glugga og fyrir utan þann glugga var vitnið og sá þar af leiðandi ágætlega inn í skúrinn,“ segir Jón Ármann í samtali við Morgunblaðið en hvernig veit hann að Geirfinnur hafi skömmu fyrir hvarfið sett upp ljós í bílskúrnum og það hafi verið enn í skúrnum þar til nýlega?

„Geirfinnur og eiginkonan höfðu verið að endurnýja húsakynnin samkvæmt okkar upplýsingum. Eftir að þau fluttu inn tóku þau húsnæðið í gegn og Geirfinnur byrjaði á bílskúrnum. Hann málaði skúrinn að innan og setti síðan upp þessi ljós. Í framhaldinu var unnið í íbúðinni. Geirfinnur hafði málað barnaherbergið að loknum vinnudegi sama dag og hann var drepinn. Þess vegna voru börnin hjá afa og ömmu þetta kvöld, þ.e.a.s út af lyktinni sem málningin gaf frá sér í barnaherberginu. Varðandi ljósin þá hafa fleiri en einn minnst á við okkur að þessi ljós í skúrnum hafi verið sérlega björt.“

Fékk leyfi húseigenda

Rannsóknarvinnan sem liggur að baki bókaútgáfunni stóð yfir árum saman en Sigurður Björgvin Sigurðsson er höfundurinn og systir hans Soffía Sigurðardóttir vann einnig að bókinni. Á einhverjum tímapunkti höfðu Jón Ármann og samstarfsfólk samband við núverandi húsráðanda á Brekkubrautinni. Hann féllst góðfúslega á að sýna þeim bílskúrinn.

„Þegar ég skoðaði bílskúrinn þá hafði verið skipt um klæðningu en næsta verkefni núverandi húseiganda var að skipta út rafmagninu. Ég spurði hvort ég mætti eiga ljósastæðið og það var sjálfsagt mál. Ljósið var skrúfað upp í loftið í bílskúrnum og líklega hefur enginn snert á því í áratugi. Ég setti ljósastæðið í svartan poka og teipaði fyrir. Ég vil afhenda lögreglunni ljósastæðið ef áhugi skapast fyrir því að leysa málið. Þetta er 50 ára gamalt flóðljós og því hefur ekki verið skipt út. Það er 100% öruggt,“ segir Jón og bendir á að með nútímatækni sé mögulegt að blóðdropar eða úði geti greinst á ljósbúnaðinum.

„Blóð eyðist aldrei og er eitt sterkasta lífefni sem til er. Það er DNA-greinanlegt jafnvel þótt í mjög litlu magni sé,“ segir Jón Ármann en samkvæmt lýsingum vitnisins var banahöggið veitt með einhvers konar verkfæri. Mögulega hamri þótt slíkt sé ekki fullyrt. Hefur Jóni verið tjáð að undir ljósinu hafi verið borð þar sem verkfæri voru geymd sem styðji við lýsingar vitnisins.

Hægt er að leysa gátuna

Líkt og fram hefur komið hér í blaðinu er Jón Ármann með gögn undir höndum með upplýsingum og vísbendingum úr rannsókninni sem ekki birtust í bókinni. Upplýsingar sem eigi heima hjá yfirvöldum sem geti rannsakað slíkar vísbendingar í krafti rannsóknarheimilda ef áhugi er fyrir hendi.

„Við höfum verið í sambandi við ráðuneytið og við erum tilbúnir að afhenda gögnin. Þá er bara spurning um hvenær ráðuneytið vilji taka við gögnunum. Mér þykja viðbrögðin í ráðuneytinu vera jákvæð. Áður höfðum við beint samband við þáverandi ráðherra sem taldi gögnin ekki eiga heima hjá sér. Nú höfum við verið í samskiptum við embættismenn í ráðuneytinu og höfum ekki fengið neitt nema jákvæð viðbrögð,“ segir Jón og fer ekki leynt með þá skoðun sína að rannsóknin á mannshvarfinu hafi verið á algerum villigötum á sínum tíma. Í bókinni eru færð fyrir því ýmis rök.

„Ég vil að hægt sé að vísa til þess að yfirvöld hafi tekið við gögnunum og því sem við höfum komist að varðandi morð Geirfinns. Ég vil að allir viti að þessi gögn séu hjá yfirvöldum vegna þess að þetta er mál sem þjóðin hefur áhuga á. Við erum að tala um réttarmorð og nýr dómsmálaráðherra hefur tækifæri til að vera réttum megin í sögunni. Hægt er að leysa gátuna um hvarf þessa manns í eitt skipti fyrir öll. Í þessum síðasta kafla sýnum við hvernig fulltrúar réttvísinnar brugðust og niðurstaðan er að mínu mati það ljótasta í íslenskri réttarfarssögu.“

Vonandi birt síðar

Jón Ármann talar gjarnan um gögnin sem síðasta kafla bókarinnar þótt óbirtur sé. „13. og síðasti kaflinn í bókinni er þá tilbúinn með heimildaskrá, tilvísunum og öllu tilheyrandi. Það tók reyndar miklu lengri tíma en ég reiknaði með. Við gátum illa fundið gögn vegna óreiðu í kerfinu og við náðum því ekki að finna allt sem okkur langaði til að hafa með,“ segir Jón Ármann en á honum má skilja að þar sé hann að tala um ýmsar heimildir sem hefðu getað sett hlutina í betra samhengi fyrir þá sem taka við gögnunum. Heimildir sem hefðu getað nýst til að sýna betur bæjarfélagið Keflavík árið 1974. Hann ber þó starfsfólki Þjóðskjalasafnsins afar vel söguna en segir hins vegar almennan vanda hafa verið til staðar á Íslandi þar sem trassað hafi verið að varðveita alls kyns heimildir um lífið í landinu.

„Við munum að einhverju leyti birta eitthvað úr kaflanum en síðar mun kaflinn í heild sinni vonandi bætast við nýrri útgáfu bókarinnar. Á þessum tímapunkti getum við hins vegar ekki birt nöfn vegna persónuverndarlaga og höfum heldur ekki rannsóknarheimildir. Við getum vonandi birt allt sem við höfum síðar í bókinni ef úr verður opinber rannsókn.“

Höf.: Kristján Jónsson