Stefán Þór Pálsson fæddist í Reykjavík 2. júlí 1960. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 25. janúar 2025.
Foreldrar hans voru Páll Marteinsson (Poul Hagbart Mikkelsen), f. 11. desember 1921, d. 11. febrúar 2004, og Gyðríður Pálsdóttir, f. 7. desember 1918, d. 6. júlí 1989.
Systkini Stefáns eru: 1) Bergþóra Karen, f. 27. mars 1954, d. 25. desember 2011, sambýlismaður Tómas Oddgeirsson, f. 19. júlí 1944, d. 3. ágúst 1999. 2) Páll Ævar, f. 2. júlí 1960, maki Guðrún Tómasdóttir, f. 9. júlí 1965, börn þeirra eru a) Rakel Gyða, f. 17. nóvember 1989, maki Jón Óskar Þorsteinsson, f. 24. apríl 1985, börn þeirra eru Ylfa Rut og Ása Margrét; b) Ester Ósk, f. 7. janúar 1994, maki Guðmundur Már Þórsson, f. 11. ágúst 1994, þau eiga eina dóttur.
Stefán ólst upp í foreldrahúsum, fyrst í Reykjavík til átta ára aldurs og eftir það á Borgarholtsbraut í Kópavogi. Á barnsaldri sótti hann dægradvöl fyrir fatlaða í Reykjavík en 12 ára gamall flutti hann á Tjaldanesheimilið í Mosfellsdal sem var þá búsetuúrræði fyrir þroskaskerta. Árið 2003 flutti hann svo í Erluás 68 í Hafnarfirði og bjó þar í sambýli ásamt fleirum. Samhliða dvölinni í Erluási sótti hann vinnu á Hæfingarstöðinni við Dalveg í Kópavogi. Stefán var mjög félagslyndur og stundaði ýmiss konar tómstundir svo sem dans, kórastarf, leiklist, keilu og margt fleira. Þar var hann alls staðar hrókur alls fagnaðar.
Útför Stefáns fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 6. febrúar 2025, kl. 13.
Það er erfitt að trúa því að hann elsku besti Stebbi sé farinn frá okkur. Hann var alveg einstakur gleðigjafi, hjartahlýr og brosmildur frændi sem trúði á allt það besta í fólki. Það eru forréttindi að hafa fengið að fylgja honum í gegnum lífið en hann gladdi alla þá sem voru svo heppnir að fá að kynnast honum.
Stebbi var með Downs-heilkennið og bjó síðustu tuttugu árin á sambýli í Erluási. Á því hlýlega heimili náði hann aldeilis að blómstra og við erum virkilega þakklát öllu starfsfólkinu þar sem annaðist hann fyrir allt sem þau gerðu fyrir hann. Downs var ekki aðeins heilkenni sem hann lifði með heldur var það mikilvægur hluti af því hver hann var og gerði hann að þeim dásamlega og glaðlynda frænda sem hann var.
Stebbi var hrókur alls fagnaðar og nýtti hvert tækifæri til veisluhalda. Hann hlakkaði alltaf mikið til afmælis síns enda var það viðburður ársins í hans augum og var því alltaf fagnað með glæsibrag. Þegar hann átti stórafmæli var öllu til tjaldað og hann naut hvers augnabliks sem miðpunktur athyglinnar syngjandi og dansandi fyrir veislugesti.
Haldið var árlegt jólaboð í Erluási og þar var fastur liður að Stebbi klæddi sig upp sem jólasvein til að gleðja börn og aðra gesti. Jólasveinabúninginn greip hann í við mörg tilefni og skipti þar litlu hvort um væri að ræða jólaboð eða grillveislu um hásumar, það var alltaf tilefni til að klæða sig upp og halda uppi fjörinu.
Elsku Stebbi okkar, við elskum þig óendanlega mikið og erum svo þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig í lífi okkar öll þessi ár. Þín verður mjög sárt saknað.
Þín frænka,
Ester Ósk Pálsdóttir.
Oft og mörgum sinnum fékk ég að heyra frá Stebba frænda að ég væri „langbesta kona í heimi“. Þó svo að ég hafi langt í frá verið eina konan sem hann lét þessi orð um falla þá drógu þessi orð alltaf fram breitt bros á andlitinu og fylltu hjartað af hlýju. Stebbi frændi var nefnilega einstakur herramaður og þurfti ekkert að hafa fyrir því að heilla fólk upp úr skónum.
Það er skrítið að hugsa til þess að heyra ekki þessi orð hans aftur en sem betur fer erum við fjölskyldan rík af minningum sem lifa áfram og verður haldið á lofti við hvert tækifæri. Mér er það alltaf minnisstætt þegar við Stebbi fórum saman á dansiball í Vídalínskirkju. Þá kynntist ég því hversu frábær dansari Stebbi var, svo taktfastur og lipur og kunni danssporin upp á tíu. Ég var svo heppin að fá fyrsta dansinn en þegar lagið kláraðist tók Stebbi í höndina á mér og fylgdi mér, mér til undrunar, aftur í sætið mitt. Þar fékk ég koss á handarbakið, eins og hans var von og vísa, áður en hann sneri sér að næstu dömu og bauð upp í dans. Ég þurfti að gjöra svo vel að bíða þess að röðin kæmi aftur að mér. Eins og gefur að skilja var hann aðalmaðurinn á svæðinu – séntilmaðurinn Stebbi.
Margs er að sakna; allra leikrænu tilburðanna og frasanna sem einkenndu Stebba, James Bond-taktanna, handarbakskossanna og einlægu gleðinnar. Það eru hin mestu forréttindi og blessun að hafa fengið að ganga í gegnum lífið með jafn einstökum gleðigjafa. Takk fyrir allt, allra besti Stebbi minn – þú ert og verður „langbesti maður í heimi“.
Rakel Gyða Pálsdóttir.
Ég hitti Stefán Þór Pálsson (Stebba) fyrst fyrir rúmum áratug þegar dóttir mín flutti inn á sambýli fyrir fatlaða í Erluási. Stefán var einn þeirra íbúa sem fyrir voru á sambýlinu, hæglátur, kurteis og mikið snyrtimenni. Stefán var gamansamur og hrókur alls fagnaðar þegar sambýlingarnir gerðu sér glaðan dag. Hann var sérlega hjartahlýr. Sýndi sambýlingum sínum samhygð þegar eitthvað bjátaði á hjá þeim og starfsfólki sambýlisins sýndi hann þakklæti fyrir þá aðstoð sem það veitti honum.
Stebbi var einlægur FH-ingur. Eitt sinn þegar ég kom í Erluásinn upp úr hádegi á laugardegi tók Stebbi á móti mér í dyrunum, klæddur FH-treyju og fullur tilhlökkunar. Hann var á leið í Kaplakrika að horfa á knattspyrnuleik. Síðar um daginn átti ég aftur erindi í Erluásinn. Á leið minni þangað heyrði ég í útvarpinu að FH hefði tapað leiknum. Æ, æ, hugsaði ég, nú verður Stebbi leiður. En svo var nú aldeilis ekki. Stebbi var hinn kátasti og fræddi mig á því að FH-ingar væru langbestir. Úrslit leiksins spilltu ekki gleði Stebba yfir því að hafa í hópi FH-inga stutt sitt lið. Slík jákvæðni er til eftirbreytni.
Stebbi hafði áhuga á bílum, einkum stórum jeppum. Fyrir nokkrum árum keyptum við hjónin nokkuð veglegan slyddujeppa. Stoltur sýndi ég Stebba gripinn. Hann leit á mig glettnum svip, hristi hægt höfuðið og sagði: Nei, nei, þú átt að kaupa stóran jeppa.
Síðasta árið setti aldur og meðfylgjandi krankleiki mark sitt á Stefán. Gáski var ekki jafn ríkur þáttur í fari hans sem fyrr, en gæska hans var söm allt til hinstu stundar.
Sigurjón Högnason.