Guðni Aðalsteinsson
Öldrun þjóðarinnar er í brennidepli þessi misserin. Það er fagnaðarefni að framfarir í læknisfræðum og almenn lífsgæði hafa stuðlað að því að eldra fólki fjölgar með hverju ári og það er hraustara og virkara en nokkru sinni fyrr. Það miðlar dýrmætri reynslu og þekkingu og leggur verðmætt framlag af mörkum til samfélagsins. Sífellt fleiri átta sig á að í öldrun er fólgið virði, en ekki byrði.
Þrátt fyrir jákvæða þróun sem öldrun þjóðarinnar leiðir af sér, skapar hún einnig áskoranir. Stefna heilbrigðisyfirvalda er að fólk búi heima hjá sér eins lengi og mögulegt er, en engu að síður blasir við stóraukin þörf fyrir hjúkrunarheimili þar sem veitt er umönnun fyrir þá sem, þrátt fyrir stuðning, geta ekki búið heima.
Vandinn í bráð og lengd
Ítrekað hefur verið bent á að staðan sé líkleg til að versna verulega á næstu árum ef ekki verður gripið til aðgerða og hjúkrunarrýmum fjölgað. Samkvæmt landlækni bíða nú um 500 einstaklingar eftir plássi á hjúkrunarheimili og endurtekið birtast fréttir um skort á hjúkrunarrýmum sem auka útskriftarvanda á sjúkrahúsum landsins. Fjölmiðlar hafa greint frá því að á sjúkrahúsinu á Akureyri sé eitt af hverjum fimm sjúkrarúmum nýtt fyrir aldraða sem ekki komast inn á hjúkrunarheimili og það bíði um 100 aldraðir á Landspítalanum sem lokið hafa meðferð en næstu úrræði vantar fyrir. Þetta ástand hefur keðjuverkandi áhrif á aðra þjónustu og hlutverk sjúkrahúsanna. Álag á starfsfólk spítalanna eykst og kostnaður sömuleiðis. Auk þess má ekki líta fram hjá þeim neikvæðu áhrifum sem þetta ástand hefur á lífsgæði eldra fólks sem liggur fast inni á sjúkrahúsum, fjarri fjölskyldu og félagsstarfi.
Líklegt er að staðan muni versna enn frekar ef ekki verður gripið til skjótra aðgerða. Ráðgjafarfyrirtækið KPMG birti fyrir skömmu mælaborð sem ætlað er að meta þörf hjúkrunarheimila út frá nýjustu opinberu tölum ásamt spám um mannfjöldaþróun. Útreikningar sýna að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum um allt að 3.700 á næstu 15 árum. Til samanburðar eru nú um 3.000 hjúkrunarrými á landinu, sem þýðir að fjöldi hjúkrunarrýma þarf að meira en tvöfaldast til að mæta eftirspurn. Niðurstöðurnar eru sláandi og draga upp mun alvarlegri mynd en áður hefur verið sett fram, en fyrri áætlanir hins opinbera gerðu ráð fyrir að þörf væri fyrir um 1.600 ný hjúkrunarrými.
Leggjum grunn að áhyggjulausum efri árum
Fjármála- og efnahagsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið kynntu fyrir rúmu ári nýtt fyrirkomulag fasteignamála vegna hjúkrunarheimila sem gefur fasteignafélögum og öðrum sérhæfðum aðilum kost á að byggja hjúkrunarheimili á grundvelli útboða sem leiða til hagstæðustu útkomu fyrir ríkið með tilliti til kostnaðar og gæða. Þetta er skynsamleg nálgun. Uppbygging 2-3 hjúkrunarheimila á hverju ári er fjárfesting sem samanlagt gæti numið yfir 200 milljörðum króna næstu 15 ár. Til þess að ná háleitum markmiðum um uppbyggingu hjúkrunarheimila þarf atbeina einkaframtaksins. Einkageirinn býr ekki eingöngu yfir fjárhagslegum burðum til þess að fjárfesta í þessum mikilvægu innviðum, heldur býr hann einnig yfir hæfni og þekkingu til þess að ráðast í aðkallandi uppbyggingu í þágu samfélagsins.
Það er óásættanlegt að eldra fólk kvíði þeim tímapunkti í lífinu þar sem það mun þurfa á meiri stuðningi að halda. Mikilvægt er að tryggja að eldra fólki standa til boða aðstoð þegar að því kemur og að slík aðstoð verði því sæmandi. Höfum í huga að þessi kynslóð ruddi þann veg sem aðrir nú njóta.
Reitir eru með metnaðarfullar áætlanir um hvernig við getum lagt okkar af mörkum til að mæta vaxandi þörf fyrir hjúkrunarrými. Má þar nefna rammasamning Reita og Íslenskra fasteigna um uppbyggingu fimm hjúkrunarheimila með samtals 400-600 hjúkrunarrýmum á næstu árum. Um er að ræða fjárfestingu upp á allt að 35 milljarða króna. Fyrsta heimilið innan þessa rammasamnings verður 7.000 fermetra fasteign í Hamraneshverfinu í Hafnarfirði með 80-100 hjúkrunarrýmum. Það hjúkrunarheimili gæti verið tilbúið til afnota innan 18-24 mánaða en forsenda þessarar hröðu uppbyggingar er að ríkið ljúki framkvæmda- og leigusamningum um rekstur hjúkrunarheimila.
Ráðgert er að breyta skrifstofubyggingu sem áður hýsti höfuðstöðvar Icelandair við Öskjuhlíð í 87 rýma hjúkrunarheimili. Drög að leigusamningi við Framkvæmdasýslu ríkisins liggja fyrir og nú stendur bara upp á ríkisvaldið að gera samning við rekstraraðila svo hægt sé að hefjast handa. Samhliða þessu höfum við undirritað viljayfirlýsingu við Reykjavíkurborg um uppbyggingu lífsgæðakjarna á sama svæði sem verður hluti af stærri byggðarkjarna með þjónustuíbúðum og almennum leiguíbúðum með þjónustu á borð við matvöruverslun og heilsutengda starfsemi.
Farsæl lausn við því brýna verkefni að tryggja næg hjúkrunarrými fyrir eldri borgara krefst samvinnu þvert á opinbera og einkageirann. Reitir eru staðráðnir í að mæta áskoruninni og vinna í nánu samstarfi við alla aðila til að tryggja eldri borgurum áhyggjulaus efri ár og þá tilveru sem þeir eiga skilið.
Höfundur er forstjóri Reita.