Sigurjón Eiðsson fæddist í Reykjavík 11. maí 1949. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 27. janúar 2025.

Foreldrar hans voru Eiður Ottó Bjarnason, f. 24.3. 1923, d. 25.6. 1982 og Soffía Sigurjónsdóttir, f. 7.9. 1925, d. 12.2. 2018.

Alsystkini Sigurjóns eru: Hafdís Bára, Hörður, d. 2015, Ottó Eiður, Björg, Bjarni, Auður, Jón Helgi og Kristinn. Samfeðra: Karl.

Sigurjón giftist Jóhönnu Magnúsdóttir, f. 28.4. 1948, þann 20.12. 1970. Foreldrar hennar voru Magnús Pálsson, f. 28.11. 1913, d. 12.8. 1980 og Magnea Valgerður Snorradóttir, f. 18.7. 1915, d. 30.10. 1974.

Börn Sigurjóns og Jóhönnu eru: 1) Björk, f. 19.2. 1969, maki Ívar Ásgrímsson, f. 11.4. 1965, börn þeirra: Alex Óli, Arnór Bjarki, Sigurjón Unnar og Hanna Lára. 2) Soffía, f. 3.9. 1973, maki Snæbjörn Steingrímsson, f. 28.11. 1972, börn þeirra: Steingrímur Goði, Sara Sif, Bryndís Lóa og Hildur Björk. 3) Hulda, f. 19.7. 1979, maki Björn Ásberg Árnason, f. 13.4. 1965, börn þeirra: Aron Ásberg, Kristófer Ásberg, Ragnhildur Ásberg, Hilmir Ásberg og Gabríel Ásberg og 4) Magnús, f. 1.8. 1982, maki Kristín Birgisdóttir, f. 12.10. 1984, barn þeirra er Lilja Karen. Barnabarnabörnin eru 10.

Sigurjón ólst upp í Reykjavík en flutti snemma til Hafnarfjarðar þar sem hann bjó enn þegar hann lést. Sigurjón byrjaði snemma að vinna í Ofnasmiðju Reykjavíkur með föður sínum, þá lá leiðin í Panelofna en hann rak bæði Ofnasmiðju Kópavogs og Panelofna ásamt bræðrum sínum. Starfsferilinn endaði Sigurjón hjá KPMG Borgartúni.

Útför Sigurjóns fer framfrá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 6. febrúar 2025, kl. 13.

Elsku pabbi minn, mikið ofboðslega er það sárt að hafa þig ekki lengur hér hjá okkur, að geta ekki tekið utan um þig og sagt þér aftur hvað ég elskaði þig mikið og hversu þakklát ég er fyrir þig og allt sem þú gerðir fyrir mig og kenndir mér. Fyrir mér gastu allt. Ég var mikil pabbastelpa og þegar þú byggðir okkur hús á Víðivanginum þegar ég var 10 ára gömul varði ég miklum tíma með þér þar við hin ýmsu verk sem þú kenndir mér og hef ég ávallt verið stolt af því að hafa lært vinnusemina þína og geta gengið í hin ýmsu verk.

Minningarnar eru margar um ljúfan og góðan pabba sem renndi sér á skautum yfir tjörnina með mig í snjóþotu, spilaði við okkur fótbolta í sumarbústaðaferðum. Þú tókst lófana mína í þína og hlýjaðir mér þegar ég kom köld inn og hlóst svo innilega að Tomma og Jenna fyrir fréttir. Allar ferðirnar okkar til Akureyrar, í sumarbústaði og til útlanda. Fyrir ellefu árum byrjuðum við að æfa okkur saman til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu, þú í toppformi og búinn að vera að stunda bootcamp í hádeginu með vinnufélögunum og alltaf úti að labba og hjóla. Þú fórst með vinnufélögunum í göngur á Hvannadalshnjúk og Hornstrandir. Þú máttir sko vera stoltur af því að vera í góðu formi og hugsa vel um þig. Þakklát er ég ykkur mömmu fyrir allar þær góðu minningar sem við eigum og börnin okkar og barnabörn, dyrnar hjá ykkur stóðu alltaf opnar fyrir okkur hvort sem það var í mat eða að flytja aftur heim. Það var ávallt fullt hús og nægur matur fyrir alla þótt nokkrir bættust við.

Síðustu árin höfum við svo skapað ógleymanlegar minningar í sveitinni hjá Magnúsi jafnt sem í vinnuferðum, sauðburði og réttum. Sveitin var þinn uppáhaldsstaður þar sem þú undir þér vel að taka til hendinni og dunda þér við hin ýmsu verk. Við systur munum gera okkar besta að hjálpa Magnúsi í sveitinni og halda minningunni þinni á lofti.

Elsku pabbi, þú passar litla engilinn minn. Þar til minn tími kemur og við hittumst á ný. Þín pabbastelpa,

Soffía.

Elsku pabbi.

Síðustu dagar hafa verið tómir og dimmir. Að kveðja þig er svo sárt, sorgin og söknuðurinn er svo sár. Eftirsjáin er svo mikil og tilfinningarnar ótal margar. Veikindin þín síðustu vikur og sérstaklega síðustu dagana þína sitja í mér, hvað fór í gegnum hugann þinn á þessum tíma? Hvað ef spurningar spilast aftur og aftur í höfðinu á mér eða skiptir það kannski engu máli af því að það er löngu búið að ákveða hvenær og hvernig hlutirnir eiga að fara? Af hverju sagði ég þér ekki allt sem ég var að hugsa og er að hugsa núna? Ég vildi óska þess líka að þú hefðir getað sagt mér hvað þú varst að hugsa en þú vildir hlífa okkur fyrir sársaukanum eins og þér einum var lagið, alltaf að hugsa um aðra jafnvel þótt margar þungar raunir væru að berjast um í þér. Grátið þið mikið og faðmið mig, sagðir þú og stuttu síðar lokaðir þú augunum inn í svefninn langa. Allt í einu er augnablikið farið og kemur aldrei aftur. Ég veit að minningarnar eru ótal margar og dýrmætar en á þessum tímapunkti er bara svo erfitt að horfa á myndir og minnast því þær verða ekki fleiri. Ég vildi að ég hefði knúsað þig fastar, oftar og sagt við þig hversu heppin ég var með pabba.

Ég hreyfi mig fyrir þig pabbi, þú varst íþróttaálfurinn okkar og gafst ekkert eftir. Hljópst og gekkst á fjöll án þess að blása úr nös. Göngutúrarnir okkar eftir að þú veiktist voru ljúfir, best var þegar þeir enduðu á góðum cappuchino og einhverju með. Það var alltaf svo notalegt líka að fá þig í mat, spjalla um hitt og þetta og enda svo á að taka eftirréttinn í sófanum með körfuboltanum. Þeir voru ófáir leikirnir sem við horfðum á saman og það rifjast upp fyrir mér þegar ég var unglingur að við ákváðum að kaupa áskrift að Stöð 2 til að horfa á NBA og á þeim tíma var Michael Jordan skærasta stjarnan.

Allar sumarbústaða- og utanlandsferðirnar í gegnum tíðina eru ótal margar og eftirminnilegar en síðustu ár er ég svo þakklát fyrir sveitina hans Magnúsar bróður því hún gaf okkur öllum svo dýrmætar stundir saman. Það var þinn griðastaður og þú blómstraðir í sveitahlutverkinu. Vissir allt og gast allt. Það var allra besta skyndihugmyndin þegar við tvö ákváðum að skella okkur eina helgi í sumar í sveitina. Þá var mikið spilað, kíkt á aðra sveitabæi í nágrenninu með sveitafólkinu okkar og að sjálfsögðu brasað svolítið úti á túni en það gaf þér án efa mestu hugarorkuna.

Takk fyrir allt pabbi, það er enginn eins og þú. Takk fyrir þig og mömmu, án ykkar værum við systkinin og börnin okkar ekki þessi heild sem við erum. Ég veit að veikindi mömmu höfðu mikil áhrif á þig og gríðarlega sorglegt var að horfa á hvernig heilsa ykkar beggja hrundi þegar ykkar tími var loksins kominn til að njóta saman því þið áttuð það svo sannarlega skilið. Líkt og segir í laginu sem þú hélst upp á með Hjálmum, Leiðin okkar allra:

„Guð einn veit hvert leiðin liggur, lífið flókið er. Oft ég er í hjarta hryggur en ég harka samt af mér.“

Elsku pabbi, þú þarft ekki að harka af þér lengur. Ég elska þig meira en allt. Þín dóttir,

Hulda.

Elsku besti pabbi minn.

Þetta eru búnir að vera sárir og erfiðir dagar en á sama tíma dýrmætt að geta yljað sér við góðar minningar og hugsað til þín. Allar minningarnar rifjast upp eins og stundirnar sem við hittumst öll nánast daglega á æskuheimilinu okkar á Víðivangi og ekki var það lítill fjöldi samankominn. Þessar stundir okkar með þér og mömmu og barnabörnunum gerðu okkur nánari. Þið tókuð alltaf vel á móti okkur og styrktuð okkar samband enn frekar á milli okkar systkina og barna. Auk allra ógleymanlegra ferða í gegnum tíðina, í sumarbústaði hér áður fyrr og utanlandsferðir og í seinni tíð í sveitina til Magnúsar bróður. Þú varst sko í essinu þínu í sveitasælunni og alls konar dútli þar. Okkar síðasta ferð saman um verslunarmannahelgina er svo góð minning, við tvö á leið norður talandi um allt milli himins og jarðar. Við tókum að okkur að snúa heyinu á túnunum, ég þurfti náttúrulega að prófa að keyra traktorinn og þú sast mér við hlið að leiðbeina mér af því þér fannst ég taka of langan tíma í þetta og of skarpar beygjur.

Síðasta árið komstu oft í mat til mín þrátt fyrir að neita alltaf í fyrstu boðinu af því það mátti nú aldrei hafa of mikið fyrir þér en þá vissi ég hvað það þyrfti að segja, pabbi ég er búin að kaupa í matinn, kemur þú ekki? Þá varstu ekki lengi að segja já og kvöldin voru ljúf með þér þar sem stundum var tekið í spil eða bara sest í sófann og horft á körfuboltaleiki. Það sem við erum búin að fara á óteljandi marga leiki saman og fylgjast með Ívari og krökkunum spila körfubolta.

Það var alltaf gott að biðja þig pabbi um hina ýmsu hluti eins og að laga bílinn, þvottavélina eða ofnana svo fátt eitt sé nefnt. Þegar ofnarnir hitnuðu ekki heyrðist alltaf frá Ívari, hringdu í pabba þinn og það var alltaf sama svarið, já ég kem. Það sem stendur samt upp úr eru síðustu árin með þér í sveitinni hjá Magnúsi við hin ýmsu sveitastörf, spil, söng og dans. Það sem var gaman að dansa við þig pabbi og núna síðast í eldhúsinu hjá Magnúsi þar sem þú sveiflaðir mér um gólfið.

Þangað til við dönsum aftur í sumarlandinu kveð ég þig í bili elsku besti pabbi. Ég elska þig. Þín dóttir,

Björk.

Guð einn veit hvert leið mín liggur er setning í laginu sem við völdum að sungið yrði í dag. Við mundum eftir því að þú baðst um þetta lag þegar við sátum við eldhúsborðið í sveitinni og sungum saman og hlustuðum á tónlist. Í dag svo mikilvægar minningar því í sveitinni áttum við pabbi okkar bestu tíma saman.

Ef ég spóla til baka og hugsa um æskuárin þá vann pabbi mikið og alltaf nóg að gera að dytta að og laga í húsinu sem hann byggði yfir fjölskylduna. Yndislega æskuheimilið umlukið hrauni en hraunið var ein ævintýraveröld fyrir ungan dreng með frjótt ímyndunarafl. Bókina Jón Oddur og Jón Bjarni las pabbi fyrir mig sem patta og var bókin lengi í miklu uppáhaldi. Pabbi var þúsundþjalasmiður og gerði allt sjálfur sem hann gat, hann hefði mátt gefa mér ögn af þessum dugnaði sem hann bjó yfir. En pabbi var stoltur af okkur krökkunum yfir þeim verkefnum sem við tókum okkur fyrir hendur og talaði um að við hefðum fengið hitt og þetta frá mömmu. En pabbi gerði sér ekki grein fyrir hversu mikið hann gaf okkur og ég vona að ég hafi verið mjög skýr við hann hversu mikið hann gaf mér. Pabbi var nefnilega algjör öðlingur sem vildi allt fyrir mig og sína stóru fjölskyldu gera og var alltaf boðinn og búinn til þess að koma og græja hlutina.

Pabbi vann mestallan sinn starfsaldur í ofnabransanum, mér þótti alltaf gaman að koma í vinnuna til pabba þó svo ég vissi að þarna lá ekki minn áhugi. En talandi um áhuga þá ákvað ég 2017 að gerast bóndi og þar sameinuðust áhugamál okkar pabba í eitt. Báðir höfðum við verið í sveit sem peyjar, pabba þótti gott að koma í sveitina til okkar Kristínar en þar gat hann unað sér vel við að dytta að og laga eins og hann gerði svo vel.

Tvö orð sem lýsa pabba best er æðruleysi og úrræðagóður. Hann var mín mesta hjálparhella á sauðburði og öllu fjárstússi heima og ekki má gleyma réttunum á haustin. Pabbi endaði starfsferilinn í KPMG og þar leið honum vel, fór að hjóla, hlaupa og í ræktina. Gekk fjöll og firði með samstarfsfólki. Mamma og pabbi voru dugleg að ferðast til heitari landa og var það þeirra áhugamál. Ef ég hef ekki komið því nógu skýrt fram þá voru svo mikil verðmæti í pabba, ekki bara fyrir okkur börnin hans og okkar afkomendur heldur einnig fyrir mömmu. Pabbi barðist lengi við mein í lunga en með æðruleysi sínu, baráttu og vilja, tókst hann á við það verkefni. Pabbi hugsaði um mömmu eins lengi og hann gat og má segja að hann hafi verið hennar stoð og stytta í hennar veikindum þó svo veikindi hans herjuðu á. Pabbi var á sjúkrahúsi síðustu tvo mánuðina sem hann lifði og fór ég oft suður til að hitta hann. Mig langar að þakka systrum mínum sem sinntu pabba okkar af mikilli ástúð og umhyggju á erfiðum tímum en fyrst og fremst vil ég þakka þér elsku pabbi minn fyrir allt og allt. Þinn sonur,

Magnús.

Með sorg í hjarta minnumst við þín elsku afi. Með dýrmætum minningum og góðum stundum sem við höfum búið til í gegnum árin með þér og ömmu. Við vorum svo heppin að hafa haft þig sem afa okkar. Þú varst alltaf svo rólegur og yfirvegaður en samt alltaf hress og skemmtilegur og vildir allt fyrir alla gera, varst oftast kominn innan fimm mínútna þegar einhvern vantaði hjálp við ýmis verkefni, allt frá því að skutla á æfingar eða hvað sem var sem þarfnaðist einhvers viðhalds þar sem þú varst svo handlaginn.

Þú varst einstök fyrirmynd og sýndir okkur með þínu fordæmi mikilvægi þess að vera dugleg, vinnusöm og góð við aðra. Þið amma voruð svo góð heild og þótti okkur alltaf gott að koma til ykkar á Víðivanginn enda alltaf opnar dyr og fullar skúffur af allskonar gúmmelaði. Við eigum ótal margar minningar frá Víðivangi, það var alltaf gaman að koma í pössun til ykkar og við enduðum alltaf skemmtilegan dag uppi í sófa fyrir framan sjónvarpið með kókflösku og eitt sett. Afi passaði mikið upp á það að við myndum klára allan mat af disknum okkar og engum mat var sóað.

Nú á eldri árum eigum við frábærar minningar með honum úr partíum hjá okkur stórfjölskyldunni en hann elskaði að draga okkur út á dansgólfið og tjútta! Það toppar sko enginn dansinn hans afa og kölluðum við hann oft „mörgæsina“ á dansgólfinu. Mikið eigum við eftir að sakna þess að dansa með þér í næsta partíi en við vitum að þú munt vera með okkur öllum stundum í anda. Þú varst líka svo frábær langafi og áttir þú svo dýrmætar minningar með þeim.

Elsku afi okkar, við lofum því að passa upp á ömmu fyrir þig og við sjáumst síðar í sumarlandinu. Knús og kossar upp til þín. Þín afabörn,

Alex Óli, Arnór Bjarki, Sara Sif, Sigurjón Unnar, Hanna Lára, Ragnhildur Ásberg, Bryndís Lóa og Hilmir Ásberg.

hinsta kveðja

Elsku afi.

Takk fyrir að passa okkur. Takk fyrir allar samverustundirnar í sveitinni.

Takk fyrir að draga með okkur kindurnar í réttunum. Takk fyrir að tefla við okkur. Takk fyrir að veiða með okkur. Takk fyrir að spila við okkur. Takk fyrir að keyra okkur á æfingar. Takk fyrir allt.

Við munum sakna þín.

Hildur og Gabríel.