Sigurður Sveinsson Hálfdanarson fæddist í Reykjavík 28. júní 1935. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 14. janúar 2025.
Foreldrar hans voru Aðalbjörg Skæringsdóttir húsmóðir frá Rauðafelli í Austur-Eyjafjallahreppi, f. 23. mars 1911, d. 28. maí 1997 og Hálfdan Auðunsson bóndi frá Dalseli í Vestur-Eyjafjallahreppi, f. 30. apríl 2011, d. 19. október 2001, kvæntur Sigríði Kristjánsdóttur. Stjúpfaðir hans var Hermann Guðjónsson, f. 13. október 1912, d. 26. maí 1990.
Systkin hans sammæðra eru Hildur Kristín Hermannsdóttir, f. 19. júní 1939 og Erling Þór Hermannsson, f. 12. september 1945, d. 18. nóvember 2023. Systkin hans samfeðra eru Kristján, f. 6. júní 1945, Auðunn Hlynur, f. 17. ágúst 1946, d. 24. desember 2022, Guðlaug Helga, f. 20. maí 1948, Hálfdan Ómar, f. 3. desember 1949, Markús Hrafnkell, f. 4. febrúar 1951, Arnlaug Björg, f. 15. október 1952, Heimir Freyr, f. 21. febrúar 1958, Guðrún Ingibjörg, f. 19. júní 1960 og Sigríður Hrund, f. 21. nóvember 1963.
Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Theodóra Sveinsdóttir, f. 15. mars 1936. Foreldrar hannar voru Sveinn Haraldur Magnús Ólafsson, f. 18. janúar 1909, d. 8. febrúar 1996 og Ásta Jenný Sigurðardóttir, f. 14. október 1914, d. 22. maí 1990. Sigurður og Theodóra gengu í hjónaband 11. október 1958 og eignuðust tvær dætur. 1) Áslaug Adda, f. 7. janúar 1958, maki Smári Jónsson, f. 30. ágúst 1958. Sonur Áslaugar frá fyrra hjónabandi er Guðjón Guðjónsson, f. 3. mars 1980, maki Valdís Rán Samúelsdóttir og eiga þau soninn Samúel Inga, f. 22. mars 2019. Dóttir Áslaugar og Smára er Áslaug Theodóra, f. 25. janúar 1991, maki Davíð Ágúst Kúld Kristinsson og eiga þau dæturnar Elvu Björk, f. 26. ágúst 2019 og Köru Dögg, f. 31. október 2023. Sonur Smára frá fyrra sambandi er Jón Fannar, f. 8. mars 1981. 2) Helga Hanna, f. 5. mars 1962, maki Ægir Steinn Sveinþórsson f. 25. júlí 1964, d. 17. apríl 2017. Dætur þeirra eru Ásta, f. 21. janúar 1991 og Silja, f. 25. janúar 1993. Fyrir átti Theodóra Ástu Huldu Kristinsdóttur sem hann tók sem dóttur sína, f. 30. apríl 1953, maki Ögmundur Kristinsson, f. 23. desember 1953, sonur þeirra er Sveinn Kristinn, f. 8. febrúar 1975, maki Halla Árnadóttir og eiga þau tvo syni, Ögmund Árna, f. 30. desember 2002 og Gunnlaug Árna, f. 21. desember 2005.
Sigurður ólst upp í Þingholtunum og gekk í Miðbæjarskólann og Menntaskólann í Reykjavík. Fyrstu árin vann hann m.a. hjá Hamilton á Keflavíkurflugvelli og í Iðnaðarbankanum, en 1. janúar 1964 hóf hann störf hjá Slökkviliði Reykjavíkur og starfaði þar allan sinn starfsaldur. Meðfram starfinu kenndi hann á námskeiðum hjá Rauða krossi Íslands.
Útför hans fer fram í Bústaðakirkju í dag, 6. febrúar 2025, kl. 13.
Dagana áður en pabbi kvaddi var bjart og fallegt vetrarveður í Reykjavík og við gátum notið þess að horfa saman á útsýnið úr herberginu hans á Skjóli. Eftir að hann veiktist af Alzheimers-sjúkdómnum voru bíltúrar góð leið til að vera saman og eiga samskipti. Þá vakti hann gjarnan athygli okkar á fallegu tré sem á vegi okkar varð, spegilsléttu vatni eða fallegri Esjunni, enda var hann mikið náttúrubarn.
Pabbi ólst upp á fallegu heimili ömmu og afa á Óðinsgötu 15 ásamt systkinum sínum. Hann átti góðar og skemmtilegar minningar frá æskuárunum með góðum vinum. Sveitin hans var honum mjög kær. Á ferðum okkar lá leiðin oft að Rauðafelli undir Eyjafjöllum þar sem hann var í sveit hjá Sigga og Rönku. Þá var iðulega gengið inn í heiði í fallegu og fjölbreyttu landslagi. Gönguleiðin upp að Seljavallalaug var ævintýri út af fyrir sig, þar sem jurtir og steinar vöktu athygli okkar og áhuga. Í hinni einstöku Seljavallalaug kenndi pabbi okkur að synda en þar hafði hann sjálfur lært að synda. Á Seljalandi var okkur alltaf tekið opnum örmum og þaðan eigum við góðar minningar. Á áttunda áratugnum hófu fjölskyldurnar á Seljalandsbæjunum skógrækt í Kverkinni vestan við bæina. Pabbi tók þátt í því starfi frá upphafi og fljótlega fórum við systur að mæta í vinnuferðirnar með fjölskyldum okkar. Var það upphaf að góðri vináttu og skemmtilegum stundum.
Pabbi og mamma höfðu unun af ferðalögum innan lands sem utan. Við ferðuðumst mikið um landið með tjaldið í skottinu og við systur vorum svo heppnar að pabbi var vel að sér í landafræði og mamma í sögu. Þegar kom að því að ferðast um hálendið var forláta Land Rover keyptur sem kom okkur um holótta fjallvegi og yfir óbrúaðar ár. Minningar um tjald, svefnpoka, prímus og saxbauta eru minningar sem ylja. Fyrsta ferð okkar fjölskyldunnar til útlanda var til Spánar og London. Þar kynntumst við sólarströnd, stórborg og menningu sem okkur þótti framandi. Síðustu 25 árin dvöldu pabbi og mamma stóran hluta ársins í Flórída. Þau áttu sér þar unaðsreit og undu sér vel í góðra vina hópi og stunduðu golf af kappi. Þar áttum við fjölskyldan góðar stundir í yndislegu umhverfi.
Pabbi átti farsælan starfsferil. Hann gekk í slökkviliðið árið 1964. Hann var með kennsluréttindi í skyndihjálp og meðfram starfinu kenndi hann námskeið á vegum Rauða krossins. Hann var stoltur af starfi sínu og unni því. Þar eignaðist hann góða vini og þeirra fjölskyldur urðu okkar fjölskylduvinir.
Pabbi var sá sem allt gat lagað og byggt upp, hann var sá sem nennti endalaust að aðstoða okkur og styðja og hann var sá sem kynnti íslenska náttúru fyrir okkur og gerði okkur að náttúrubörnum. Við kveðjum góðan pabba með miklu þakklæti, ást og söknuði en gleðjumst um leið yfir því góða lífi sem hann lifði. Fallegu lúpínurnar eru í mestum blóma á afmælisdeginum hans og munu minna okkur á hann um ókomin ár.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Helga Hanna, Áslaug Adda og Ásta Hulda.
Nú þegar ég horfist í augu við sorgina sem fylgir því að ég mun aldrei framar heyra hið glaðlega „ha-ha-hæ!“ þegar afa minn bar að garði eða upplifa yfirvaraskeggs-stingukossana sem fylgdu yfirleitt í kjölfarið skjóta svo ótalmargar minningar upp kollinum.
Ég kann ekki að lýsa nærveru afa míns öðruvísi en sem sterkri undiröldunni sem leynist undir spegilsléttum haffletinum á sólríkum degi. Að baki brosinu, hlýjunni og rólyndinu bjó yfirvegun og styrkur þeirra sem hafa lengi starfað sem viðbragðsaðilar.
Það er kannski ekki svo sérstakt að þegar ég sest við þessi skrif birtast mér fyrstar minningarnar af honum síðan ég var barn. Umsvifalaust er fyrir hugskotssjónum mér stofan hjá afa og ömmu hvar ég sit með Tópas-pakka í höndunum, bréf af Half and Half-píputóbaki hvílir við hlið pípunnar á borðinu við hægindastólinn hans afa og mér líður vel. Kannski mun afi leyfa mér að prófa Macintosh-tölvuna sem hipsterar dagsins í dag myndu skera af sér hárhnútinn til að eignast. Næst sit ég í „Grotsky“, rússajeppanum sem afi breytti í ferðabíl, þar sem hann situr í bílstjórasætinu innan um alls konar tæki og talar í talstöðina.
Í huga mér sem barn var afi einhvers konar snillingur því hann gat lagað allt og kunni allt. Nú, verandi hálffimmtugur, hefur lítið slegið af þeirri upplifun minni því allt frá armbandsúrum til bílvéla lék í höndunum á honum.
Ég á minningu síðan ég var á að giska 7-8 ára þar sem ég sit að taka í sundur enn einn fjarstýrða bílinn í herberginu mínu og afi og amma reka inn trýnið. Afa var greinilega skemmt og spurði mig hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Svar mitt var á þá lund að ég ætlaði að vinna við alls konar tæki og bætti við í huganum „eins og þú!“. Hann spurði þá hvort ég ætlaði að verða verkfræðingur en þar sem ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvað verkfræðingur var dró ég þá ályktun að það hlyti að vera. Ekki varð úr að ég yrði verkfræðingur en ég stóð við mitt og hef eytt stærstum hluta starfsævinnar í að vinna við alls konar tæki. Stundum velti ég fyrir mér hvernig í ósköpunum mér tekst að leysa hitt eða þetta vandamálið í þessu brasi en þá rennur upp fyrir mér uppruninn og ég bæti við í hljóði: „Takk, afi.“
Ég þarf nú að kveðja afa minn þótt ég byrji kannski á því að þurrka saltvatnið af lyklaborðinu. Ég veit að sorgin mun dofna og ég vona að þegar ég kveð þennan heim muni ég skilja eftir mig þannig minningar að þær verði sorginni yfirsterkari eins og afi minn gerir nú.
Það sem eftir lifir ævi minnar mun ég minnast afa míns í hvert sinn sem ég stend með unnið verk í höndunum og í hvert sinn mun ég segja í hljóði: „Takk, afi!“
Guðjón Guðjónsson.
Ég mun hugsa um allar góðu minningarnar með afa Sigga þegar söknuðurinn verður mikill. Þær eru svo ótal margar og góðar og það er ég ævinlega þakklát fyrir. Ég hugsa hlýlega til þess hvernig hann heilsaði mér alltaf með útbreiddan faðminn, tilbúinn að gefa mér innilegt faðmlag þegar ég kom í heimsókn. Því faðmlagi fylgdi „hahahæ“ og hann var alltaf með bros á vör, glaður að sjá mig. Síðan annað eins faðmlag og vink úr glugganum þegar ég fór. Frá honum hef ég ætíð fundið fyrir þeirri hlýju og góðvild sem hefur einkennt þennan góða mann.
Hann var einstaklega fær í því að laga hluti og brasa í því sem þurfti að gera við. Mjög sterk minning hjá mér er þegar ég var lítil og belti sem ég átti slitnaði. Beltið var keðja sem ég sá ekki fram á að væri hægt að laga en mamma sannfærði mig um að afi gæti lagað bókstaflega allt. Við fórum því í heimsókn og hann fór beinustu leið upp á háaloft með beltið. Auðvitað náði hann að sjóða beltið saman aftur með glæsibrag. Besti, klári afi minn sem náði að gera við allt eins og ekkert væri sjálfsagðara með bros á vör. Á þann hátt þekkja hann margir, hann var einstaklega góður við alla sem urðu á vegi hans, alltaf tilbúinn að hjálpa vinum og vandamönnum og gefa góð ráð.
Ég á ótalmargar minningar frá Flórída með afa og ömmu. Gönguferðirnar á morgnana þar sem afi var fremstur í flokki, allir bílarnir sem hann var svo ánægður að keyra, út að borða og sundlaugarbakkinn. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að fara með honum í eina af hans síðustu ferðum til Flórída og fengið að heyra nokkrar sögur af honum sem ungum manni yfir kaffibolla. Þessum stundum mun ég aldrei gleyma og mun ég varðveita þær að eilífu.
Að hafa afa í kringum mig hefur alltaf veitt mér öryggi og hef ég fengið fullt af góðum ráðum frá honum um lífið sem hafa ómað í huga mér seinustu daga og vikur.
Takk fyrir allt afi. Þín
Áslaug Theodóra (Thea).
Fyrsta minningin mín af afa er úr leikskóla. Deildin mín fór í heimsókn á slökkviliðsstöðina og afi átti leið fram hjá hópnum. Það var jú hápunkturinn að allir sæju að afi minn væri í slökkviliðinu.
Afi var slökkviliðsmaður og það breyttist ekki þegar hann fór á eftirlaun. Enginn var betur til þess að fallinn að kveikja í brennu í Kverkinni, gróðurlundi stórfjölskyldunnar. Jafnvel þó að starfið hafi verið stór hluti af því hver afi var þá leitaði hugurinn til mennta á hans yngri árum. Hann hóf nám í MR en þurfti að hætta vegna veikinda og þegar ég fetaði sömu leið fann ég fyrir stolti hans á hátt sem þurfti ekki að hafa orð á. Fallegasta myndin sem ég á af okkur saman er frá útskriftardeginum mínum.
Það er ekki hægt að skrifa um afa án þess að nefna Flórída því þar tókst þeim ömmu að láta drauma sína rætast. Þar áttu þau sér annað heimili í samfélagi sem minnist afa sem hjálpsams öðlings. Hann sem gerði sér far um að rétta öðrum hjálparhönd allt frá smáum viðvikum á heimilum til bílaviðgerða. Þrátt fyrir að þau amma yndu sér best í sólinni sáu þau til þess að missa aldrei af mikilvægum viðburðum í lífi afkomendanna.
Sumrunum vörðu þau þó alltaf heima og ég minnist þess sérstaklega þegar við frænkurnar eyddum nokkrum dögum með þeim á Seljalandi, þá farið að líða á seinnihluta barnæskunnar. Það skemmtilegasta sem við gerðum var þegar afi keyrði með okkur í gömlu hlöðuna þar sem við ærsluðumst í heyinu og þurfti nánast að draga okkur aftur til baka í kvöldverð.
Ég hitti afa síðast í heimsókn minni til landsins um jólin og þá varð það að duga að finna að hann skynjaði fjölskylduböndin. Ég fékk það sterkt á tilfinninguna að við myndum ekki hittast aftur í þessu lífi. Það reyndist rétt. Hann bjó að því að hafa hugað vel að heilsunni og stundað reglulega hreyfingu sem hann naut góðs af þar til undir blálokin. Mín trú er sú að hann hafi kvatt sáttur þegar líkami og sál voru farin að bregðast honum í hárri elli.
Nú finn ég vorsins heiði í hjarta.
Horfin, dáin nóttin svarta.
Ótal drauma blíða, bjarta
barstu vorsól inn til mín.
Það er engin þörf að kvarta,
Þegar blessuð sólin skín.
(Stefán frá Hvítadal)
Silja Ægisdóttir.
Siggi var 14 árum eldri en ég og fyrstu tólf árin vissi ég ekki af tilvist hans. Hann og fjölskylda hans komu inn í líf okkar systkinanna eins og ferskur andvari. Það var ótrúlega gaman að eiga allt í einu eitt systkini í viðbót við öll hin.
Siggi sór sig svo sannarlega í ættina og margir sögðu að af öllum bræðrunum væri hann líkastur föður okkar, og ekki bara í útliti heldur líka í töktum og tilsvörum.
Siggi kunni ýmislegt fyrir sér og það kom sér vel í sveitinni. Einhverju sinni kom hann í heimsókn að sumri til þegar heyskapur stóð sem hæst og þá voru vandræði með súgþurrkunarblásarann við hlöðuna. Vandinn lá í því að reimhjólið var örlítið of rúmt á öxlinum og vildi losna. Siggi kunni ráð við því. Hann náði í hamar og kjörnara og hjó spor með honum í yfirborð öxulsins. Þá hljóp upp brún undan oddinum og lyfti yfirborðinu. Hann kjörnaði svo allan hringinn á öxlinum og þegar þessu var lokið hafði ummál hans aukist svo að nú þurfti að slá reimhjólið upp á hann og það losnaði ekki upp frá því.
Heimsóknir Sigga og Theu voru ávallt fagnaðarefni hjá okkur og þau kunnu greinilega vel við sig á staðnum. Svo fór að þau báðu um svolítinn reit fyrir sig niðri á Bláaur, þar sem ekkert var nema mölin og svolítill mosi. Þetta var nokkru fyrir aldamótin. Það leyfi var auðfengið og þau hófust síðan handa við að koma upp trjágróðri og öðrum gróðri á reitnum, sem fékk heitið Melasel. Þarna er nú yndisreitur, inni í skóginum sem Siggi átti þátt í að koma upp með okkur hinum.
Kynni mín og samskipti við Sigga og Theu jukust til muna eftir aldamótin og við áttum margt eftir saman að sælda. Sunnudagurinn 6. júní 2004 varð okkur báðum mjög minnisstæður. Við höfðum verið tveir að planta trjám lungann úr deginum og á leiðinni heim úr skógarreitnum hittum við Smára, tengdason Sigga, í Melaseli. Hann sagði okkur frétt dagsins: að forseti Íslands hefði neitað fjölmiðlalögum ríkisstjórnarinnar staðfestingar. Það þótti okkur góður endir á góðum degi.
Síðustu árin kom ég alloft í Sóleyjarrimann og fékk ávallt höfðinglegar móttökur. Við Siggi fórum nokkrum sinnum tveir einir austur á Seljaland og undum okkur vel þar yfir helgi, við útiveru og spjall. Hann var einstaklega þægilegur og hafði notalega nærveru.
Við fórum stundum á æskuslóðir hans, að Rauðafelli, seinast í ótrúlega fallegu vetrarveðri, snjór var yfir öllu og náttúran eins fögur og hún getur orðið. Þá fann ég hve vænt honum þótti um þennan stað.
Undir lokin bilaði minnið en öðlings- og ljúflingseðli hans breyttist ekki hið minnsta. Hann þekkti mig ávallt og tók á móti mér með geislandi brosi. Hann mundi þó ekki alltaf nafn mitt, en vissi hins vegar ætíð að ég væri bróðir hans.
Í síðustu heimsókn minni til hans sagði hann setningu sem ég ætla að muna, sem og brosið sem var þá á vörum hans. Hann sagði: „Ég man að við höfum átt góðar stundir saman.“
Ég kveð með söknuði og þakklæti góðan bróður og kæran vin. Far þú í friði.
Ég votta Theu og fjölskyldunni dýpstu samúð.
Ómar.