Tölvunotkun Halla Tómasdóttir forseti lék tölvuleik við nemendur í 4. bekk Hlíðaskóla í gær. Leikurinn verður notaður í fleiri skólum hér á landi.
Tölvunotkun Halla Tómasdóttir forseti lék tölvuleik við nemendur í 4. bekk Hlíðaskóla í gær. Leikurinn verður notaður í fleiri skólum hér á landi. — Morgunblaðið/Eyþór
Nemendur í 4. bekk Hlíðaskóla tóku í gær í notkun nýjan tölvuleik, DigiWorld, sem kynntur er í samstarfi breska sendiráðsins á Íslandi og Reykjavíkurborgar. Markmið leiksins er að hjálpa börnum að skilja hvernig hægt er að nota netið á öruggan hátt

Nemendur í 4. bekk Hlíðaskóla
tóku í gær í notkun nýjan tölvuleik, DigiWorld, sem kynntur er í samstarfi breska sendiráðsins á Íslandi og Reykjavíkurborgar. Markmið leiksins er að hjálpa börnum að skilja hvernig hægt er að nota netið á öruggan hátt.

Viðstaddar sérstaka athöfn í skólanum voru Halla Tómasdóttir forseti og Byrony Mathew, sendiherra Breta á Íslandi. Breska sendiráðið hefur unnið að þýðingu leiksins yfir á íslensku og er nú í samstarfi við Reykjavíkurborg að prófa að nota leikinn sem heimanám fyrir nemendur í 3. og 4. bekk, sem þeir vinna í eitt skipti með foreldrum og forráðamönnum sínum. Vonast er til að verkefnið geti einnig farið í skóla fleiri sveitarfélaga á landinu von bráðar, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Halla spjallaði við krakkana í Hlíðaskóla um notkun snjalltækja og netöryggi. Hún sagðist vera þakklát fyrir verkefnið DigiWorld þannig að allir gætu verið ábyrgir þátttakendur í stafrænum heimi, sem gæti verið flókinn fyrir marga. Halla spilaði leikinn við krakkana og fór í gegnum spurningar um ábyrga nethegðun með þeim, ásamt því að svara mörgum áhugaverðum spurningum sem þau lögðu fyrir forsetann.

Samtökin ParentZone settu leikinn á markað í Bretlandi. Samtökin aðstoða fjölskyldur að öðlast heilbrigðari og öruggari nálgun á stafræna hluta fjölskyldulífsins. Leikurinn tekur mið af aldri leikmanns og sýnir viðeigandi spurningar fyrir hvert aldursbil. Spurningarnar eru settar fram á myndrænan hátt með valkostum og útskýringum í léttum tóni.

Áhugasamir geta nálgast leikinn á slóðinni www.digiworld-is.theparentzone.co.uk.