Viðtal
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Við erum ekkert af baki dottin með þessa hugsjón okkar og þessi fjárfesting er til marks um það,“ segir Finnur Ólafsson, einn aðstandenda brugghússins Galdurs á Hólmavík.
Brugghúsið var sett á stofn árið 2021 og hefur síðan sent frá sér nokkrar bjórtegundir sem notið hafa talsverðra vinsælda. Innan tíðar verður hætt að tappa bjórum Galdur á flöskur og framleiðslan færð yfir í dósir í staðinn. Keypt hefur verið dósalína í brugghúsið og Finnur og félagar stefna hátt.
„Við erum búnir að vera í þeim fasa að horfa til framtíðar og ákveða hvernig við ætlum að haga rekstrinum. Með því að skipta yfir í dósir teljum við að við munum skila betri vöru til neytandans,“ segir hann.
Yfir 20 milljóna fjárfesting
Mikil vinna hefur verið lögð í hönnun á umbúðum að sögn Finns og það kostar sitt að kaupa inn tæki. „Já, þetta er talsverður kostnaður. Auk þess að kaupa dósalínu höfum við skipt út olíugufukatli fyrir rafmagnsgufuketil. Þetta er hvort tveggja mun umhverfisvænna en verið hefur. Allt í allt er þetta fjárfesting upp á ríflega 20 milljónir króna. Það er annaðhvort að fara „all in“ í þetta eða sleppa því bara,“ segir Finnur og hlær.
Sumarið 2023 var opnuð gestastofa við brugghúsið þar sem gestir geta kynnt sér framleiðsluna og keypt sér bjóra Galdurs. Þeir eru auk þess seldir í ríkinu en þar hefur salan verið „hægvaxandi“ að sögn Finns. Stefnt er að því að bjórar Galdurs verði fáanlegir í dós í Ríkinu frá 1. apríl. Dósirnar eru þó komnar til landsins og tilraunir með framleiðslu og átöppun hafnar.
Samfélagsverkefni
Galdur er eins konar samfélagsverkefni á Hólmavík. Notuð eru náttúruleg hráefni og steinefnaríkt vatnið af Ströndum er sagt gefa bjórnum einstakt og afgerandi bragð. Finnur og Aleksandar Kuzmanic hafa haft veg og vanda af uppbyggingunni en fyrirtæki og einstaklingar taka þátt. Hluthafar eru 62 talsins.
Galdur er til húsa í stórri skemmu þar sem rækjuvinnslan Hólmadrangur var til húsa. Eftir að henni var lokað ákváðu heimamenn að kaupa húsnæðið og byggja upp aðstöðu fyrir smærri matvælaframleiðendur og aðra nýsköpun. „Það var mikil áhersla lögð á það meðal eigendahópsins hjá Galdri að þetta félag yrði leiðandi í þeirri uppbyggingu,“ segir Finnur.
Brjóta þarf upp gólfið
Þessi aðstaða fékk nafnið matvæla- og nýsköpunarmiðstöðin Kuklið og hefur hún smám saman verið að taka á sig mynd síðasta árið. Í fyrravor fékk Fjórðungssamband Vestfirðinga 15 milljón króna styrk af byggðaáætlun stjórnvalda til framkvæmda við húsið.
„Verkefnið er ekki komið langt af stað en við höfum verið að vinna í húsinu frá því í sumar. Núna í vikunni stendur til að fara með stóra gröfu þar inn til að brjóta upp gólfið því það þarf að breyta frárennsliskerfinu,“ segir Finnur.
Gera þarf ýmsar breytingar á húsinu til að laga það að breyttri notkun. „Hugmyndin er að á endanum verði til eins konar setur sem rúmar marga aðila. Þar geti myndast góður kjarni og fólk geti skipst á hugmyndum, búnaði og fleiru þvert á starfsemi sína. Þannig þurfa ekki allir að byrja frá grunni. Framtíðarsýnin er að vera með iðnaðareldhús þar sem fólk geti leigt sér aðstöðu og skilað frá sér fullnaðarafurðum bæði af landi og sjó.“