Leiklist
Silja Björk
Huldudóttir
Nú þegar fréttir berast af því að þjóðfélagsþegnar í lýðræðisríkjum séu sviptir áunnum réttindum með aðeins einu pennastriki, afturhaldsöflum vex ásmegin og jaðarsettir hópar upplifa meiri fordóma og aukið ofbeldi í sinn garð er þakkarvert að Borgarleikhúsið velji að sviðsetja Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur í nýrri leikgerð Bjarna Jónssonar og Grétu Kristínar Ómarsdóttur, sem einnig leikstýrir. Það skiptir nefnilega máli hvaða sögur eru sagðar og settar í fókus, hvort heldur er í listum eða fjölmiðlum. Auðvelt er að sjá magnaða sögu Auðar sem óð til jaðarsettra hópa þó vissulega séu hugmyndir um sköpunar- og fegurðarþrána og frelsið til að velja sér eigin braut í lífinu ekki síður fyrirferðarmiklar.
Verkið hverfist um fjögur ungmenni, tvær konur og tvo karlmenn, sem öll láta sig dreyma um að vera skapandi en glíma við ólíkar hindranir í þeim efnum. Sögumiðja verksins er Hekla Gottskálksdóttir (Íris Tanja Flygenring) sem ríflega tvítug að aldri árið 1963 yfirgefur heimahagana í Dölunum og heldur til Reykjavíkur með nokkur handrit í ferðatöskunni og óþrjótandi þörf fyrir að skrifa. Í borginni eru fyrir æskuvinirnir Ísey (Birna Pétursdóttir) og Jón John (Fannar Arnarsson) og fljótlega tekur Hekla saman við bókavörðinn Starkað (Hjörtur Jóhann Jónsson). Ólíkt hinni barnlausu Heklu er Ísey gift húsmóðir sem sinna þarf bæði manni og börnum, en skrifar í laumi, í og með til að flýja daufa og einsleita tilveru sína. Jón John skapar listaverk með saumaskap sínum, en er litinn hornauga í samfélaginu ekki aðeins vegna snilligáfu sinnar með saumavélina heldur einnig vegna kynhneigðar og uppruna, enda hernámsbarn. Ólíkt Heklu og Íseyju vefst það hins vegar ekki fyrir Starkaði að gangast við titlinum sem skáld, þó honum gangi erfiðlega að fá eitthvað birt eftir sig og raunar enn erfiðara að fá hugmynd að efni til að skrifa um, eða finna réttu orðin.
Titill verksins fangar stemningu söguheimsins þar sem meiri eftirspurn er eftir líkama Heklu en því sem er að gerast í höfðinu á henni, en henni er margítrekað boðið að taka þátt í keppninni um Ungfrú Ísland sem hún hefur engan áhuga á, körlum verksins til mikillar undrunar – því hvaða konu dreymir ekki um að að vera sæt og hampað fyrir útlit sitt? Sem fyrr segir staðsetur Auður verkið 1963, árið sem Surtseyjargosið hófst, Kennedy var myrtur, Sylvia Plath fyrirfór sér og Marteinn Luther King hélt fræga mannréttindaræðu sína þar sem hann ræddi draum sinn um endalok kynþáttahaturs. Við erum stödd í tíma rétt áður en stúdentar, konur og aðrir valdalitlir hópar þjóðfélagsins gera uppreisn í baráttu fyrir auknu jafnrétti í samfélaginu. En þó Auður nýti ýmislegt úr tíðaranda sjöunda áratugar síðustu aldar ber að varast að meðtaka verkið sem sögulegan skáldskap.
Nálgun Grétu Kristínar ber þess sterk merki að hún, í samstarfi við Bjarna meðhöfund sinn að leikgerðinni, leitast við að fanga slagkraft sögunnar og táknheim sem tekst býsna vel. Þegar við bætist að hún í leikstjórn sinni nýtir allar aðferðir leikhússins á skapandi hátt verður útkoman sérdeilis áhrifarík. Eðli málsins samkvæmt fá ungu manneskjurnar fjórar mestan fókus meðan ýmsar aukapersónur eru dregnar upp í sterkum og oft á tíðum gróteskum dráttum, hvort heldur það eru skáldbræður Starkaðar á Mokka, skipsfélagar Jóns Johns á sjónum eða tilvonandi tengdafjölskylda Heklu í Hveragerði.
Endurtekningar í hreyfimynstri persóna, úr smiðju Camerons Corbett, og í stökum atriðum virka vel til að sýna hlutverkin sem aðalpersónur verksins ýmist festast í eða reyna að brjótast út úr innan samfélagsins. Leiksýningin er á snjallan hátt römmuð inn af hugmyndinni um það hvað sé skáldskapur og hver segi söguna, en Hekla þarf, eins og fleiri konur á undan henni, að gefa út undir karlmannsnafni eigi skáldskapur hennar að rata til lesenda.
Öll sjónræn umgjörð uppfærslunnar er mikið sjónarspil, hvort heldur snýr að glæsilegum búningum Filippíu Elísdóttur sem fanga einstaklega vel tíðarandann eða frábærri lýsingu Pálma Jónssonar sem einnig gerði myndbönd í samvinnu við Brynju Björnsdóttur sem njóta sín vel á stórum hvítum dúkum leikmyndarinnar. Heillandi var þegar lýsingin gegnum dúkinn var notuð til að skapa senur sem minntu á brún/hvítar ljósmyndir. Einfaldleikinn ræður ríkjum í hugvitsamlegri leikmynd Kristins Arnars Sigurðssonar, sem Brynja Björnsdóttir er meðhöfundur að, þar sem stálgrindur á hjólum eru á fleygiferð um sviðið og þjóna ýmist sem rúta, kaffihús, risloft eða hafnarbryggja, svo fátt eitt sé nefnt.
Leikhópurinn blómstrar undir styrkri stjórn Grétu Kristínar. Allir leikendur, fyrir utan leikarana fjóra sem túlka ungmennin í forgrunni verksins, bregða sér í ótal hlutverk sem þjóna framvindunni. Valur Freyr Einarsson dregur upp fallega mynd af föður Heklu; Vilhelm Neto er skemmtilegur fisksali og eftirminnilegur yngri bróðir Heklu, sem glímir við allt og alla að þeim forspurðum; Sólveig Arnarsdóttir dregur upp forvitnilega mynd af tveimur afar ólíkum mæðrum og Unnsteinn Manuel Stefánsson hefur góða nærveru sem erlendur hermaður og nýtur sín vel í heilmiklum tónlistarflutningi sem setur sterkan svip á sýninguna.
Hjörtur Jóhann Jónsson, sem fyrir löngu hefur stimplað sig inn sem einn besti dramatíski leikari sinnar kynslóðar, fær í hlutverki Starkaðar að sýna hversu gott vald hann hefur einnig á kómíkinni. Fannar Arnarsson, Birna Pétursdóttir og Íris Tanja Flygenring eru öll tiltölulega nýgengin til liðs við Borgarleikhúsið sem má hrósa happi yfir að fá hæfileikafólk á borð við þau í hópinn. Bæði Fannari og Birnu tekst einstaklega vel að miðla mótlæti persóna sinna og djúpstæðri sorg í erfiðum aðstæðum, sem neyðir hann til að flýja land til að fá að vera hann sjálfur og hana til að leggja skrifin á hilluna í ljósi stækkandi fjölskyldu.
Að vissu leyti má segja að Hekla birtist í verkinu fullsköpuð úr höfði Seifs sem skáld sem fylgir köllun sinni sama hvað. Í þeim skilningi er persónulegt ferðalag hennar frekar stutt, því hún veit allan tímann hvað hún ætlar sér. Í raun má segja að hún sé frekar tæki af hálfu höfundar til að varpa ljósi á samfélagsgerðina þar sem heiminum er stjórnað af miðaldra hvítum karlmönnum sem hafa engan áhuga á að deila völdum sínum eða áhrifum með hvort heldur er konum, hinsegin fólki eða öðrum jaðarsettum hópum. Hekla lætur hvorki þvinga sig inn í hlutverk eiginkonunnar né músunnar, enda er hún í reynd skáldskapurinn sjálfur sem flæðir um verkið eins og náttúruafl. Íris Tanja hefur til að bera þann sviðssjarma sem þarf til að hlutverkið virki og hún nýtir vel beint samband sitt við áhorfendur.
Hér er á ferðinni kraftmikil sýning sem aðstandendur geta verið stoltir af. Öllum meðölum leikhússins er beitt af listfengi til að beina sjónum að ólíku hlutskipti kynjanna sem og völdum og valdaleysi mismunandi hópa samfélagsins. Eftir situr líka spurningin um það hversu mikið eða lítið hefur í reynd breyst þegar kemur að hlutskipti ólíkra hópa þjóðfélagsins á þeim ríflega sextíu árum sem liðin eru frá sögutíma verksins.