Við Skarfabakka Skemmtiferðaskipin eru búbót mikil.
Við Skarfabakka Skemmtiferðaskipin eru búbót mikil.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lágmarkskrafa er að stjórnvöld staldri við og hugsi málið betur, áður en tekin er ákvörðun sem gæti kostað landið tugi milljarða í tapaðar tekjur.

Ingvar Örn Ingvarsson

Nú er loðnubrestur á Íslandi. Bráðabirgðaniðurstöður bergmálsmælinga Hafrannsóknastofnunar staðfesta fyrri ráðgjöf um að engar loðnuveiðar verði leyfðar veturinn 2024/2025, og áfallið fyrir þjóðarbúið er gríðarlegt. Talið er að loðnubresturinn kosti íslenskt samfélag um 40 milljarða króna í tapaðar útflutningstekjur. Upphæðin er sláandi lík þeirri sem efnahagsleg umsvif skemmtiferðaskipa skila árlega til Íslands, samkvæmt skýrslu Reykjavík Economics vorið 2024.

Það er því kaldhæðnislegt að á sama tíma og þjóðin glímir við loðnubrest og tilheyrandi tekjutap glímir ný ríkisstjórn við arfleifð starfsstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem er annar heimatilbúinn loðnubrestur sem með ómarkvissum aðgerðum hrekur skemmtiferðaskip frá landinu með tilheyrandi tjóni fyrir íslenska ferðaþjónustu, sérstaklega á landsbyggðinni. Með fyrirhuguðu innviðagjaldi, nánar tiltekið 2.500 krónum á nótt á hvern farþega skemmtiferðaskipa í hringsiglingum um Ísland, er búið að leggja þungt gjald á grein sem skilar milljörðum í tekjur til sveitarfélaga á landsbyggðinni í gegnum 31 höfn sem skipin heimsækja á hverju ári. Eitt er svo gjaldið sjálft en hitt er útfærslan. Fyrirvarinn er enginn og engin undanþága var veitt fyrir ferðir sem hafa nú þegar verið seldar langt fram í tímann, eða um 2-3 ár. Að auki var ekkert samráð haft við hagaðila, þá sem hafa aðkomu að komu skemmtiferðaskipa til landsins.

Óviðráðanlegur brestur og valinn brestur

Upphæðirnar eru svipaðar en aðstæðurnar eru gjörólíkar. Loðnubresturinn er illviðráðanlegur nema að mjög takmörkuðu leyti. Ekki er hægt að smala loðnunni inn í landhelgina, enda ræðst veiðin fyrst og fremst af náttúrulegum aðstæðum og veiðistýringu.

Það er hins vegar vel hægt að tryggja áframhaldandi komur skemmtiferðaskipa til Íslands og tekjurnar sem fylgja þeim. Af einhverjum ástæðum kaus starfsstjórnin fremur að bægja verðmætunum frá. Með innviðagjaldinu er verið að setja vel skipulagða atvinnugrein sem þegar greiðir verulegar upphæðir inn í hagkerfið í hættu, án nokkurs aðlögunartíma eða rökstuddrar greiningar á áhrifunum. Við þessu öllu var varað og afleiðingarnar eru núna að koma í ljós.

Jöfn dreifing verðmæta meðal viðkvæmustu sveitarfélaga

Ein af helstu rökunum fyrir skatta- og gjaldtöku í ferðaþjónustu eru að tryggja þurfi sanngjarna tekjudreifingu og stuðla að uppbyggingu innviða þar sem þörfin er mest. Í ljósi þessa er enn fremur athyglisvert að bera saman áhrif loðnubrestsins og skemmtiferðaskipanna á landsbyggðina.

Loðnuveiðar dreifast að mestu á níu sveitarfélög sem hafa byggt upp öfluga vinnslu og innviði í kringum veiðarnar. Áhrif loðnubrests eru því staðbundin en afar djúpstæð fyrir þessi samfélög.

Skemmtiferðaskip hafa hins vegar viðkomu í 31 höfn víðs vegar um landið. Tekjur af þeim dreifast á fjölda bæjarfélaga sem oft njóta ekki hins hefðbundna ferðamannastraums og reiða sig því að stórum hluta á þessar tekjur. Þær skapa störf í ferðaþjónustu, veitingarekstri, afþreyingu og flutningum, sem styðja við fjölbreytt atvinnulíf í mörgum minni byggðarlögum. Að veikja ómissandi tekjustofn með nýju innviðagjaldi mun því hafa víðtækari áhrif en margir, og sérstaklega stjórnvöld, virðast gera sér grein fyrir. Í báðum tilfellum verða sveitarfélög á landsbyggðinni fyrir miklu höggi. Einn brestur er slæmur, en tveir enn verri.

Fljótfærnisafgreiðsla frumvarps í aðdraganda kosninga

Við getum lítið gert til að breyta náttúrulegum aðstæðum loðnunnar. En við höfum val þegar kemur að efnahagslegu umhverfi skemmtiferðaskipa. Með gjaldheimtunni mun stjórnvöldum einnig takast það ómögulega; að bæta ofan á náttúrulegan loðnubrest með heimatilbúnum skemmtiferðaskipabresti. Þó er enn tími til að endurskoða þessi mistök, sem voru ákveðin í fljótfærni, af umboðslausri starfsstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í aðdraganda alþingiskosninga fyrir jól.

Sveitarfélög, ferðaþjónustufyrirtæki og aðrir hagaðilar hafa linnulaust bent á það hversu stórt högg afleiðingarnar af innviðagjaldinu verða fyrir efnahagslífið. Algjör lágmarkskrafa er því að stjórnvöld staldri við og hugsi málið betur, áður en tekin er ákvörðun sem gæti kostað landið, og landsbyggðina sérstaklega, tugi milljarða í tapaðar tekjur, ofan í loðnubrest.

Loðnan kemur vonandi aftur en tekjur af skemmtiferðaskipum hverfa fyrir fullt og allt ef illa er að málum staðið. Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja að slíkt gerist ekki.

Höfundur er talsmaður Cruise Iceland.

Höf.: Ingvar Örn Ingvarsson