Lilja fæddist 21. ágúst 1924 á Vorsabæjarhóli í Gaulverjabæjarhreppi, skírð 14. september það sama ár. Hún lést á Hrafnistu Hafnarfirði

25. janúar 2025.

Lilja ólst þar upp á Vorsabæjarhóli til sex ára aldurs, þaðan lá svo leiðin með fjölskyldunni til Stokkseyrar þar sem hún sleit barnsskónum.

Sextán ára urðu mikil kaflaskil, Lilja missti móður sína og við það urðu miklar breytingar í lífi hennar. Lilja flutti til Reykjavíkur, var hjá föðursystur sinni og fór að vinna við afgreiðslustörf.

Foreldrar hennar voru þau Helga Pálsdóttir, húsfreyja og klæðskeri, f. 30. maí 1896 í Árnessýslu, d. 11. júní 1941, aðeins 45 ára gömul, og Guðmundur Guðmundsson, bóndi í Rútsstaða-Norðurkoti í Árnessýslu, síðar trésmíðameistari og verkamaður á Stokkseyri og í Reykjavík, f. 7. mars 1893 í Árnessýslu, d. 7. ágúst 1983.

Bróðir Lilju var Guðmundur Helgi vélstjóri, rafvirki og rafmagnsfræðingur í Reykjavík, f. 10. júní 1941, d. 25. mars 2001.

Lilja giftist 7. júlí 1945 Ragnari Breiðfjörð Sveinbjörnssyni, matsveini og bryta í Reykjavík, f. 20. júní 1917 í Stykkishólmi, d. 11. júní 1972. Þegar þau giftu sig var Ragnar 28 ára en Lilja 20 ára, spannaði hjónabandið því yfir 27 ár.

Börn þeirra hjóna eru: 1) Sveinbjörn Sævar, prentari og framkvæmdastjóri í Mosfellsbæ, f. 24. ágúst 1944. 2) Páll Steinar, ljósahönnuður, rafvirkjameistari og gullsmiður í Garðabæ, f. 9. janúar 1949. 3) Guðmundur, vörumerkjastjóri og skrifstofumaður í Garðabæ, f. 7. júní 1955.

Útför fer fram frá Grensáskirkju í dag, 6. febrúar 2025, kl. 13.

Í dag kveðjum við bræður móður okkar, Lilju Steinunni Guðmundsdóttur, þá góðu konu, þakklátir fyrir lífið sem hún gaf okkur – lífið sem hún veitti, ástina, uppeldið, viskuna og leiðsögnina.

Hún tilheyrði kynslóð sem þekkti vel að nýta allt til fulls. Hún kunni að spara, var handlagin saumakona, þekkti ekki matarsóun og hélt heimili með þremur fjörugum og um leið smá óstýrilátum strákum, meðan eiginmaðurinn Ragnar Breiðfjörð Sveinbjörnsson frá Stykkishólmi stundaði sjómennsku og var sjaldan heima eins og lífið gekk fyrir sig í þá daga.

Má segja að fólk af hennar kynslóð hafi haft einstaka hæfileika til að lifa af. Heimilið var hjarta fjölskyldunnar og móðir okkar lagði sig alla fram um að skapa hlýlegt og gott umhverfi fyrir alla.

Eins og margar af hennar kynslóð bjó hún yfir ótrúlegum hæfileikum til að sigrast á áskorunum lífsins. Hún var vinnusöm og dugleg, barðist fyrir sínu, sá til þess að allt gengi upp og sinnti skyldum sínum af alúð og ábyrgð.

Lengst af bjuggu Lilja og Ragnar með okkur bræðrum í Stóragerði 4 í Reykjavík. Eftir andlát föður okkar sem lést langt fyrir aldur fram, aðeins 55 ára gamall, hélt móðir okkar ótrauð áfram og sá um sig sjálf fram til 98 ára aldurs. Fljótlega eftir fráfall pabba fékk hún vinnu á Grensásdeild Borgarspítalans til næstu tuttugu ára. Móðir okkar hafði alla tíð yndi af söng og hóf að syngja fjögurra ára gömul.

Síðar söng hún með barnakór á Stokkseyri, Skaftfellingakórnum í þrjátíu ár og síðast kór eldri borgara. Söngurinn var henni hugleikinn og gaf henni mikla gleði alla tíð.

Seinni hluta ævi sinnar ferðaðist hún víða, bæði innanlands og erlendis þar sem hún naut lífsins til hins ýtrasta. Flestar ferðir hennar erlendis voru með Heimsklúbbi Ingólfs Guðbrandssonar, og á þeim árum heimsótti hún fimm heimsálfur og safnaði ómetanlegum minningu sem hún geymdi í hjarta sínu alla tíð.

Hvíl i friði, elsku móðir okkar.

Páll Ragnarsson,
Sveinbjörn Sævar Ragnarsson,
Guðmundur Ragnarsson.