Baksvið
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Ríkisstjórnin kynnti í vikunni þingmálaskrá sína, en þar eru talin upp fyrirhuguð frumvörp, innleiðingar á EES-reglum, þingsályktunartillögur og skýrslur ráðherra til Alþingis.
Alls ræðir þarna um 114 þingmál, en þau eru ærið misjöfn að vöxtum og inntaki. Þar má finna fyrirætlanir um hápólitísk frumvörp, sem viðbúið er að valdi deilum í þinginu ef ekki utan þess, en svo er margt annað sem er óumdeildara.
Húsverkin óumdeildu
Þar má nefna ýmsa endurskoðun laga, sem sum hefur verið áskilin í fyrri lögum en önnur vegna fenginnar reynslu, breyttra aðstæðna og þess háttar. Alls eru um 40 þingmál, sem segja má að falli undir slík húsverk á Alþingi og snúa oftar en ekki að tæknilegum atriðum, sem ólíklegt er að valdi djúpstæðum deilum.
Eins má telja innleiðingar vegna EES-samstarfsins, sem flest rennur nokkuð greiðlega í gegnum þingið, þó ugglaust valdi Bókun 35 ágreiningi sem fyrr. Þar verður fyrri andstaða Flokks fólksins að líkindum dregin fram, en eins er óvíst að sjálfstæðismenn verði samstiga í afstöðu til hennar.
Loks ber að nefna að talsvert er um endurflutt mál frá fyrri ríkisstjórn, 17 talsins, sem fyrri stjórnarflokkar gera varla miklar athugasemdir við, en Miðflokkurinn kann að hreyfa við einhverjum mótmælum.
Mismikið eftir ráðherrum
Þingmálaskráin er misjöfn að vöxtum eftir ráðherrum, þannig er að venju ekki mikið af málum frá forsætisráðherra og eiginleg mál utanríkisráðherra eru sömuleiðis ekki mörg, en hann mælir hins vegar fyrir allnokkrum málum til staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og um fullgildingu fríverslunarsamninga, sem verða sennilega stimpluð af þinginu án verulegrar fyrirstöðu.
Meira er að gera hjá fagráðherrunum, enda þurfa þeir flestir að hnika lögum til þess að koma málum sínum fram. Þar er kannski helsta undantekning menntamálaráðherra, sem hefur nokkurt svigrúm til breytinga án þess að þurfa að hrófla við löggjöfinni.
Þegar horft er til fjölda þingmála sker umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sig nokkuð úr, hann er með 16 mál á dagskrá. Fjöldinn segir þó ekki alla söguna, því þegar litið er til innihaldsins má segja að þar gæti einnig víðtækustu breytinganna, sem flestar miða að því að auðvelda orkuöflun.
Auðvelt er að greina ýmsa strauma í þingmálaskránni, fæsta óvænta miðað við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Gagnrýnendur hennar munu að líkindum ekki síst benda á að ekki sé mikið tillit tekið til landsbyggðarinnar og verðmætasköpunar, þangað á að sækja aukna skatta en síður á suðvesturhornið.
Hér að aftan verða rakin helstu mál hvers ráðherra, en það er vitaskuld ekki tæmandi upptalning. Þingmálaskráin er nokkuð framhlaðin, það er gert ráð fyrir því að leggja harla mikið fram í þessum mánuði og hérna megin páska.
Að fenginni reynslu er óvíst hvort þau skili sér öll á réttum tíma og síðan auðvitað ekkert öruggt um hvernig gangi að þoka þeim í gegnum þingið, þó vissulega hafi ríkisstjórnin rúman meirihluta og ráðherrarnir keppist við að undirstrika eindrægni stjórnarflokkanna.
Forsætisráðuneyti
Forsætisráðherra hyggst leggja fram tillögu um breytingar á skipan ráðuneyta innan stjórnarráðsins, þar sem ráðuneytum verður fækkað úr tólf í ellefu. Ætlunin er að það spari 350 milljónir króna, þó um þá útreikninga hafi verið efast. Þá verða lagðar fram árlegar skýrslur um upplýsingalög, allt í nafni aukins gagnsæis eins og vanalega.
Atvinnuvegaráðuneyti
Breytingar verða gerðar á búvörulögum, þar sem undanþágur svokallaðra framleiðendafélaga frá samkeppnislögum verða felldar úr gildi. Það er sagt miða að því að auka samkeppni í landbúnaði, en um það hafa hagsmunaaðilar efast og bent á gjaldþrot í greininni. Auk þess verða lög um jarðamál endurskoðuð með það að markmiði að skýra forkaupsrétt sameigenda jarða. Mestum deilum kunna þó að valda breytingar í sjávarútvegi. Þannig er fyrirhugað að leggja fram frumvarp ættað frá Svandísi Svavarsdóttur um víðtækt eftirlit með eignarhaldi og stjórnun í greininni, en í því fólust m.a. mjög umdeildar hugmyndir um að ríkisstofnanir deildu með sér trúnaðarupplýsingum. Þá er viðbúið að áform um að fjölga veiðidögum strandveiða (og þar með aflahlutdeild á kostnað annara veiða) standi í þinginu, en með því mun draga úr verðmætasköpun að ógleymdum ávirðingum á hendur þingmanni Flokks fólksins fyrir að hafa ekki gert grein fyrir hagsmunum sínum af eigin strandveiðum.
Dómsmálaráðuneyti
Helstu lagafrumvörp dómsmálaráðherra lúta að breytingum á lögum um lögreglu og tollgæslu vegna öflunar farþegaupplýsinga, einföldun málsmeðferðar við framsal sakamanna og nýtt fyrirkomulag sýslumannsembættanna, sem sameinuð verða í eitt embætti. Miklar efasemdir ríkja um þær breytingar á landsbyggðinni.
Félags- og húsnæðismálaráðuneyti
Áform eru um stofnun sérstaks Hlutdeildarlánasjóðs, sem mun veita lán til kaupa á íbúðarhúsnæði fyrir þá sem eiga erfitt með að komast inn á fasteignamarkað. Jafnframt verða húsaleigulög endurskoðuð, þar sem skráningarskylda leigusamninga verður almenn, sem viðbúið er að standi í einhverjum. Þá er gert ráð fyrir að samþykki nágranna fyrir dýrahaldi í fjöleignarhúsum verði afnumið til að auka frelsi eigenda.
Fjármála- og efnahagsráðuneyti
Ríkisreikningur 2023 verður að venju lagður fram til staðfestingar, auk þess sem ný lög um upplýsingatækni í rekstri ríkisins verða sett. Þá verður innleidd 15% lágmarksskattlagning á fjölþjóðleg stórfyrirtæki með yfir 750 milljónir evra í árstekjur, sem varla þjónar miklum tilgangi; skattar eru mun hærri hér en svo er óvíst að alþjóðlegur sáttmáli þar að lútandi lifi það af að Bandaríkin drógu sig nýverið út úr honum.
Heilbrigðisráðuneyti
Heimildir Lyfjastofnunar til að bregðast við lyfjaskorti verða efldar og reglur um lyfjaávísanir skýrðar. Frumvarp verður lagt fram um breytingar á lögum um sjúkraskrár, sem miða eiga að bættri rafrænni skráningu heilbrigðisupplýsinga, en ekki eru allir vissir um það sé allt til bóta. Þá verða gerðar breytingar á neyslurýmum fyrir fíkniefnaneytendur.
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti
Frumvarp verður lagt fram um stuðning við gerð íslenskra kvikmynda og sjónvarpsefnis frá erlendum streymisveitum, þar sem áskilið verður að hluti áskriftartekna renni þangað. Þá verða lög um fjölmiðla endurskoðuð með tilliti til opinbers stuðnings við einkarekna fjölmiðla. Nú þegar hafa komið fram ásakanir að með því vilji ríkisstjórnin kúska þæga fjölmiðla, sem óvíst er að samræmist góðri lýðræðisvenju.
Mennta- og barnamálaráðuneyti
Samræmt námsmat í grunnskólum verður endurskoðað, ný lög um námsgögn lögð fram og staðfestingarferli námsbrauta í framhaldsskólum einfaldað. Auk þess verður kynnt stefna um farsæld barna, sem felur í sér aukna samvinnu við sveitarfélög og skólastofnanir.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti
Lög um jöfnunarsjóð sveitarfélaga verða endurskoðuð og regluverk varðandi tekjustofna sveitarfélaga tekið til gagngerrar skoðunar. Þá verður framhald tryggt á tímabundinni niðurfellingu fasteignaskatta í Grindavík vegna náttúruvár.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti
Breytingar á að gera á raforkulögum með það að markmiði að auka raforkuöryggi almennings og tryggja gagnsæi í raforkuviðskiptum. Sérstaklega verður lögð áhersla á nauðsyn nýrra innviðafjárfestinga í raforkukerfinu, þar sem fjölgun gagnavera og raforkufrekra iðngreina hefur skapað mikla eftirspurn eftir áreiðanlegri og hagkvæmri raforku. Þá verður unnið að umbótum í leyfisveitingum fyrir nýjar virkjanir og endurbótum á flutningskerfi raforku, sem ráðherra telur lykilatriði fyrir framtíð íslensks orkumarkaðar. Stjórnarandstaðan hefur tekið því flestu líklega.
Utanríkisráðuneyti
Áhersla verður lögð á nýja stefnu Íslands í alþjóðlegum viðskiptum, þar sem fyrirhugað er að endurskoða fríverslunarsamninga og efla viðskipti við Asíu og Norður-Ameríku. Þá verður unnið að endurbótum á lögum um öryggi í tengslum við alþjóðlega netöryggissamninga.