Árið án sumars „Sjónrænt er sýningin firna sterk og leggst þar allt á eitt, sviðsmynd, búningar og lýsingin.“
Árið án sumars „Sjónrænt er sýningin firna sterk og leggst þar allt á eitt, sviðsmynd, búningar og lýsingin.“ — Ljósmynd/Owen Fiene
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið Árið án sumars ★★★★· Höfundar, leikstjórar og flytjendur: Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Guðmundsson, Saga Kjerúlf Sigurðardóttir, Sigurður Arent Jónsson og Védís Kjartansdóttir sem skipa leikhópinn Marmarabörn. Dramatúrg: Igor Dobričić. Aðstoðarleikstjórn: Birnir Jón Sigurðsson. Leikmynd og búningar: Guðný Hrund Sigurðardóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist: Gunnar Karel Másson. Leikhópurinn Marmarabörn frumsýndi á Stóra sviði Borgarleikhússins föstudaginn 31. janúar 2025.

Dans

Sesselja G.

Magnúsdóttir

Árið er 1816. Það er árið sem vísað er til í sögubókum sem „árið án sumars“. Fimm ungmenni, Mary Godwin (seinna Shelley), stjúpsystir hennar Claire Clairmont og kærasti Lord Byron, læknirinn hans dr. Polidori og Percy Shelley, hafa komið sér fyrir á sveitasetri við Genfarvatn til að njóta sumarsins; lesa, skrifa og sóla sig. Sumarið lætur aftur á móti ekki á sér kræla. Þess í stað er kalt og rigningasamt og sólin nær ekki að skína í gegnum skýin. Ástæða kuldans er eldgos í fjallinu Tambora í Indónesíu árið áður en fyrir utan eyðileggingu í nánasta nágrenni olli gosið hálfrar gráðu kólnun um allan heim vegna þess að öskuagnir frá því náðu upp í heiðhvolfið og höfðu áhrif á veðráttu miklu víðar. Í Evrópu og Norður-Ameríku komu afleiðingarnar fram í því að sumarið 1816 var sérstaklega votviðrasamt og kalt. Kuldinn og sólarleysið voru ekki aðeins til almennra leiðinda heldur orsökuðu uppskerubrest, hungur og dauða. Ein birtingarmyndin var sú að vegna skorts á höfrum urðu samgöngur erfiðar. Hafrar voru helsta fóður hesta sem voru samgöngutæki þessa tíma svo án hafra varð erfiðara að komast á milli staða. Eitthvað sem reyndar er talið hafa ýtt undir að reiðhjólið hafi komið fram 1817.

Fimmmenningarnir urðu þó ekki svo mikið varir við hörmungarnar sem gosinu fylgdu enda úr efri lögum samfélagsins, sem hungur og kuldi náðu ekki til. Þeirra vandamál var að þeim leiddist því það var varla hundi út sigandi. Þau notuðu því ýmsar aðferðir til að drepa tímann innandyra á meðan veðrið hamaðist fyrir utan. Ein þessara aðferða var að lesa og segja hvert öðru hryllingssögur sem endaði á því að þau ákváðu að skrifa sínar eigin sögur. Útkoman var eftirtektarverð. Mary Shelley skrifaði söguna um Frankenstein, dr. John Polidori skrifaði smásöguna „The Vampyre“ og Lord Byron skrifaði ljóðið „Darkness“.

Árið er 2025. Fimm vinir sem mynda leikhópinn Marmarabörn frumsýna verkið Árið án sumars á Stóra sviði Borgarleikhússins. Veður og vindar hvína fyrir utan enda skekja gular og appelsínugular viðvaranir landið. Það vantar bara að það byrji að gjósa á Reykjanesinu enn eina ferðina. Verkið vísar í ferð fimmmenninganna til Genfarvatns 1816 og afurðir þeirrar ferðar. Í upphafi fylgdust áhorfendur með þegar flytjendurnir mátuðu sig inn í aðstæðurnar við Genfarvatn. Þau spiluðu hnit og fundu upp á leikjum, eins og hver er maðurinn og „actionary“, til að drepa tímann og velta fyrir sér líkindum sínum við fimmmenningana frá 1816. Hver myndi passa best í hvaða hlutverk? Þessi fyrsta sena var leikræn og innihélt þónokkurn texta. Í senunum sem á eftir komu varð kóreógrafísk framsetning meira áberandi og orðin hurfu. Þannig breyttist áherslan frá því að túlka ungskáldin í að túlka skrímslin sem urðu til í sögunum þeirra. Mennskan lét í minni pokann fyrir forynjum. Vampírur óðu um sviðið og skrímsli Frankensteins með litlaus augu, málmtennur og langar málmneglur tóku yfir. Að mati undirritaðrar varð sýningin heilsteyptari og sterkari eftir því sem orðunum fækkaði og líkamarnir tóku yfir.

Sjónrænt er sýningin firna sterk og leggst þar allt á eitt, sviðsmynd, búningar og lýsingin. Leikmynd og leikmunir, lauflaust tré, líkkista, sverð, bækur, kampavínsflaska, hvítt efni og rauðar örvar í mismunandi stærðum undirstrika efni verksins en samkvæmt kynningartexta er hér á ferð „rómantísk hrollvekja um vináttu og veður“. Búningarnir voru yfirgengilegir í byrjun en töff. Þeir urðu einfaldari þegar kóreógrafían tók yfir en voru áfram töff. Rauði liturinn var áberandi en líka silfraður og svartur. Lýsingin var hrein og skýr. Hún gat líka framkallað galdur eins og í dansinum í lokin sem virkaði saklaus og einfaldur þangað til lýsingin afhjúpaði andlit flytjendanna og í senunni þar sem slopparnir og grímurnar skiptu um lit.

Tónlistin eða hljóðmyndin var áhrifamikil. Hún fékk hárin stundum til að rísa eins og með öskrunum, átakanlegum og ógnvekjandi, en náði líka til fínni sviða eins og með hljóðunum í málmnöglunum. Tæknibúnaður Borgarleikhússins var líka nýttur á skemmtilegan hátt eins og í upphafssenunni þar sem flytjendurnir birtust á sviðinu, á palli sem var dreginn fram. Senan var grípandi og sló tóninn fyrir það sem á eftir kom. Í henni stóð Sigurður í bláum búningi, Saga sat með bók og kerti fyrir utan pallinn í svörtum kjól, hulin svartri slæðu og Védís stóð í silfraðri múnderingu. Katrín birtist hangandi í loftinu, svartklædd að lesa bók, en settist fremst á pallinn með bókina sína þegar hún seig niður og Kristinn steig upp úr líkkistu í hárauðum búningi.

Húmor og hlýja eru aldrei langt undan í verkum Marmarabarna. Það var ekki annað hægt en að flissa þegar Kristinn kom upp úr líkkistunni með snakk og bjór eða orkudrykk og það sama má segja um það þegar líkkistan breyttist í ljósabekk. Það var líka smá fyndið þegar flytjendurnir borðuðu grímurnar af andliti hver annars þó að það væri líka ógeðfellt á að horfa. Hlýjan og húmorinn eru sjarmerandi leið til að koma efni til skila en geta dregið tennurnar úr annars beittum boðskap.

Það er samt svo einkennilegt með öll verk Marmarabarna í þríleiknum, Að flytja fjöll, Eyður og nú Árið án sumars, að þau eru þeirrar náttúru að efni þeirra og framsetning virka ósköp sakleysisleg meðan á sýningu stendur en ásækja mann svo lengi að henni lokinni. Árið án sumars virkar til dæmis frekar átakalaus saga um vini sem þurfa að finna sér eitthvað að gera til að drepa tímann innandyra vegna þess að veðrið er ekki upp á marga fiska. En þegar betur er að gáð fjallar verkið um loftslagsvá, því hvað gerist ef hitastigið á jörðinni breytist þó að það sé ekki nema um hálfa gráðu, firringu og afmennskun.