Jóhanna Soffía Tómasdóttir fæddist í Skagafirði 19. apríl 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri 15. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru Sigríður Jónsdóttir frá Stöpum og Tómas Jónsson. Hún var næstelst
af átta alsystkinum (ásamt Guðbjörgu tvíburasystur sinni), og átti tvær eldri hálfsystur, sammæðra.

Þegar þær tvíburasystur voru níu ára gamlar fóru þær í fóstur til Sigurlaugar Ólafsdóttur og Jóhanns Sigurðssonar, sem bjuggu á Löngumýri í Skagafirði.

Þar stundaði Jóhanna nám við farskólann og unglingadeildina í Varmahlíð. Árið 1946 flutti hún til Akureyrar og hóf fljótlega nám við Gagnfræðaskóla Akureyrar, þaðan sem hún útskrifaðist sem gagnfræðingur árið 1948.

Jóhanna eignaðist með Gunnari Jóhanni Sigurjónssyni, f. 3. ágúst 1925, d. 28. ágúst 2004, átta börn, þau eru: Sigurlaug Þóra, f. 8. desember 1950, d. 19. febrúar 2024, Tryggvi, f. 1. maí 1953, Gunnar Jóhann, f. 6. október 1954, d. 30. mars 2024, Sigríður Dóra, f. 14. janúar 1956, Gunnhildur, f. 11. nóvember 1957, d. 25. desember 1957, Sigurjón, f. 11. febrúar 1959, Gunnhildur Harpa, f. 10. mars 1961, og Tómas, f. 16. desember 1964.

Barnabörnin eru níu, barnabarnabörnin 15 og barnabarnabarnabörnin fjögur.

Jóhanna sinnti alla starfsævina verkakvenna- og umönnunarstörfum, stærstan partinn á Akureyri en einnig í Reykjavík um nokkurra ára skeið.

Útför Jóhönnu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 7. febrúar 2025, klukkan 13.00.

Leiðin sem lífið lagði fyrir mömmu var langt í frá að vera alltaf auðveld, eða greiðfarin, en aldrei hvarflaði að henni að leggja árar í bát eða gefast upp. Markmiðin voru alltaf skýr, leiðin að þeim ekki alltaf einföld, en hún hélt áfram og náði oftast að marki.

Markmiðið var alltaf að efla hag fjölskyldunnar og halda henni saman. Hluti af því var draumurinn um eigið húsnæði, sem rættist árið 1970, þegar hún eignaðist sína fyrstu íbúð í Brekkugötu. Eftir það bjó hún alla ævi í eigin húsnæði, ef frá eru talin síðustu æviárin sem hún eyddi í góðu yfirlæti í Lögmannshlíð.

Hún lagði mikla áherslu á að standa ávallt í skilum, að koma börnunum til mennta og var óspör á hvatningu í þá átt og stolt þegar vel gekk og við útskriftir.

Mamma tók virkan þátt í félagsstörfum, hafði sterka réttlætiskennd, vildi rétta hlut þeirra sem höllustum fæti standa. Hún starfaði lengi í Mæðrastyrksnefnd, lengst af sem formaður, tók þátt í starfi Verkalýðsfélagsins Einingar og var sæmd gullmerki félagsins.

Hún starfaði einnig með Málfreyjum og í kvenfélögum.

Mamma ferðaðist ekki mikið, vinnan hlaut að hafa forgang. En þegar Gunnhildur Harpa greindist með alvarlegan hjartagalla lagði hún óhikað í löng og ströng ferðalög. Þær mæðgur dvöldu lengi í Kaupmannahöfn 1965 og fóru til London árin 1973, 1974 og 1987. Þessar ferðir voru að mestu bundnar við sjúkrahúsdvöl, um stórar aðgerðir var að ræða, en stöku stund gafst þó til skoðunarferða.

Þegar hún var komin fast að áttræðu rættist gamall draumur hennar er hún ferðaðist um Íslendingaslóðir í Kanada. Þar kom hún meðal annars til Gimli, Heclu-eyju, Árborgar og Árness, hitti fjölda ættingja og vitjaði legstaðar langömmu sinnar.

Mamma hafði yndi af hannyrðum, saumaði út, flosaði og heklaði. Hún saumaði sér íslenskan þjóðbúning, upphlut, og klæddist honum stolt á mannamótum og við sérstök tækifæri.

Lækkar lífdaga sól.

Löng er orðin mín ferð.

Fauk í faranda skjól,

fegin hvíldinni verð.

Guð minn, gefðu þinn frið,

gleddu' og blessaðu þá

sem að lögðu mér lið.

Ljósið kveiktu mér hjá.

(Herdís Andrésdóttir)

Við eigum og geymum minninguna, og minnumst móður okkar með þakklæti og kærleika, hvíli hún í friði.

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas.

Við áttum aldrei margar stundir eða marga daga saman. Höf og álfur skildu okkur að. Marga af dögunum sem við áttum saman vorum við of ung til þess að eiga skýrar minningar.

En við eigum myndirnar sem við skoðum oft. Þar sjáum við okkur saman, á Íslandi, í Lindasíðunni, í afmælinu þínu, þegar þú komst til okkar í Beaverbrook og þegar við fórum saman til Winnipeg og Gimli.

Við munum eftir helgarsímtölunum.

Við munum líka eftir því þegar þú talaðir við okkur um hvað mikilvægt væri að standa sig í skólanum.

Það er það sem við munum alltaf eiga; minningarnar um ömmu á Íslandi.

Jóhanna Sigrún Sóley Tómasdóttir og
Leifur Enno Tómasson.