Sigrún Guðnadóttir fæddist í Kaupmannahöfn 6. mars 1948. Hún lést á Hrafnistu Laugarási 30. janúar 2025.
Foreldrar Sigrúnar voru Álfheiður Kjartansdóttir þýðandi, f. 8. október 1925, d. 28. nóvember 1997, og Guðni Guðjónsson grasafræðingur, f. 18. júlí 1913, d. 31. desember 1948. Árið 1954 giftist Álfheiður Jóhannesi Jóhannessyni listmálara, f. 27. maí 1921, d. 12. október 1998.
Systkini Sigrúnar eru Kjartan, f. 1955, Sigurður, f. 1959, Egill, f. 1961, og Halla, f. 1965.
Sigrún giftist þann 29. nóvember 1969 Ingimari Sigurðssyni lögfræðingi, f. 18. maí 1945. Þau eignuðust þrjár dætur. Þær eru: 1) Guðný Rósa myndlistarmaður, f. 12. september 1969. Hún er gift Gauthier Hubert listmálara og eru börn þeirra Silja, Agnea og Andri. 2) Álfheiður kennari, f. 27. september 1971. Hún er gift Gunnari Þór Ólafssyni byggingatæknifræðingi og eru synir þeirra Hörður Ingi, Sigurður Guðni, Kjartan Ólafur og Jón Halldór og barnabörnin tvö. 3) Halldóra verkefnastjóri, f. 3. janúar 1980. Maki hennar er Róbert Grönqvist framkvæmdastjóri. Dóttir Halldóru frá fyrra sambandi er Sigrún Lára og börn Róberts frá fyrra sambandi eru Guðrún Emma, Benedikt og Kristján.
Sigrún ólst upp á Háteigsvegi í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 og lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1972. Samhliða háskólanáminu kenndi hún stærðfræði við Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Tjörnina. Sigrún sérhæfði sig í veirufræði og lauk viðbótarnámi við SBL Solna í Stokkhólmi, Háskóla Íslands og VRD Colindale í Lundúnum.
Sigrún vann alla starfsævina á veirufræðideild Landspítalans, frá árinu 1972 til 2008. Samhliða því sinnti hún stundakennslu við læknadeild Háskóla Íslands. Hún vann að fjölbreyttum rannsóknum í veirufræði, birti vísindagreinar og tók þátt í fjölmörgum ráðstefnum í sínu fagi. Hún tók einnig virkan þátt í starfi Félags íslenskra náttúrufræðinga.
Útför Sigrúnar verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 7. febrúar 2025, klukkan 15.
ég er að missa móður mína
hún er að hverfa mér hægt,
hljóðlega, hlæjandi…
múttan mín
veirupinninn
er þar komin skýringin á því
hversvegna ég fel mig meðal
skordýra?
á milli blaðsíðna skrái ég
fjölda fálma, fótalag,
límkennda húð,
form vængja,
gagnsæ brotabrot.
feta mig áfram með lokuðu
augunum inn á við.
næri kvíða
nálgast kjarnann
um herðablöð, hnakka og
raddbönd spinnur sig vefur.
höfuð festist
háls frýs
hryggur harðnar
stáli sleginn
sorg í leysingum.
innan augna býr um sig
birta. mömmumóða
sætur sigrúnarstyrkur.
skellir upp úr
án þess þó að trufla aðra
kryfur köngulær kátust.
meistari augnabliksins,
mamman mín, ég elska þig
alltaf…
Guðný Rósa.
Elsku amma okkar.
Með þér var heimurinn einn stór leikvöllur.
Hvert sem við fórum með þér var ávallt líf og fjör.
Hvort sem það var í bílnum að drepa tímann með leikjum, sitjandi í bústaðnum uppi í Töglum að spila, í göngutúr í Brussel að leita að myndum í skýjunum eða hlæjandi í Sóltúninu að borða saman ísblóm. Með þér var alltaf gaman.
Þú varst frábær fyrirmynd í vísindastarfi og sýndir öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur einlægan áhuga. Þið afi hvöttuð okkur ávallt til dáða hvort sem var í listum eða vísindum.
Þú tapaðir aldrei þinni yndislegu nærveru og þó að seinustu árin hafi verið þung í þínum veikindum þá skein hlýjan þín alltaf í gegn. Langömmubörnunum þínum, Álfu Mjöll og Kvasi Fannari, þótti mjög vænt um að koma til þín og segja þig hafa verið bestu langömmu í heimi og að þau elski þig.
Allar fallegu minningarnar og birtan sem stafaði frá þér, elsku amma, munu ætíð fylgja okkur.
Mikið erum við lánsöm að þú hafir verið amma okkar.
Við söknum þín og elskum þig að eilífu.
Rokkarnir eru þagnaðir
og rökkrið orðið hljótt.
(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)
Dreymi þig ljósið, sofðu rótt.
(Jónas Hallgrímsson)
Hörður Ingi, Sigurður Guðni, Kjartan Ólafur, Jón Halldór, Silja, Agnea, Andri og Sigrún Lára.
Það hafa nú ekki verið nein smá viðbrigði fyrir hana Sigrúnu systur mína þegar ég kom í heiminn. Hún var þá sjö ára, hafði misst föður sinn níu mánaða gömul og alist upp ein hjá mömmu, sem bjó ásamt foreldrum sínum og bróður og fjölskyldu hans í ástríku umhverfi á tveim efri hæðum Háteigsvegar 42. Svo breyttist allt, fyrst kom pabbi til skjalanna 1954 og svo ég ári síðar. Afi og amma fluttu út og hún ekki lengur prinsessan og miðpunktur athygli. En ég verð að segja; aldrei nokkurn tíma kvartaði hún yfir þessu eða lét bitna á mér á nokkurn hátt. Ekki heldur þegar fjölskyldan stækkaði, tveir bræður og svo litla systir 1965, en þá var hún líka orðin 17 ára og nóg að gera við að hlusta á Bítlana, vera í MR og vera hluti af því, sem seinna var kallað '68-kynslóðin.
Hún var einfaldlega ekki þannig gerð að hún væri að kvarta og barma sér, hún var glaðsinna, jákvæð og hjálpsöm. Reyndar líka klár, fljót að hugsa og minnug. Enda gekk henni vel í skóla og fékk háar einkunnir, reyndar hærri í raungreinum, sem hún hafði meiri áhuga á en „kjaftafögum“ og tungumálum. Þegar kom að háskóla valdi hún nám í líffræði, sem þá var að hefjast í HÍ. Hún fetaði þar í fótspor föður síns, Guðna Guðjónssonar, sem var vel metinn náttúrufræðingur. Hann var nýkominn til landsins frá Kaupmannahöfn, þar sem Sigrún fæddist, í nýtt sérsniðið starf sem fyrsti grasafræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands þegar hann lést fyrir aldur fram í lok des. 1948. Sigrún hélt minningu föður síns á lofti og ræktaði sambandið við þann arm fjölskyldunnar eftir mætti. Ég minnist ferða sem barn á Hrefnugötuna til Guðnýjar ömmu hennar, sem ég leit á sem mína og var mjög ánægður með að eiga svona margar ömmur.
Eftir útskrift meðal fyrstu líffræðinga frá HÍ starfaði hún allan sinn feril hjá veirufræðideild LSP, fyrst hjá Margréti Guðnadóttur, sem hún leit á sem sinn helsta mentor. Sigrún var send á námskeið og námsferðir víða, man eftir að ég heimsótti hana í Stokkhólmi 1975, þegar Baader-Meinhof sprengdu vesturþýska sendiráðið og við og fjölskylda hennar fylgdumst með í beinni útsendingu í sjónvarpi.
Hún var nefnilega fljót að finna sér góðan eiginmann og hafði eignast tvær dætur þegar þar var komið, enda orðið þröngt á Háteigsveginum í ómegðinni, sem minnst var á hér að ofan. Þriðja dóttirin bættist við og nú eru komin átta barnabörn og tvö barnabarnabörn, sem öll eru hvert öðru efnilegra og eiga örugglega eftir að halda arfleifð Sigrúnar á lofti um langa tíð.
Eins og fyrr segir var Sigrún bæði klár og kvikk og fyrir vikið var það afar mikið högg þegar hún greindist með alzheimer fyrir nokkrum árum. Eins og allir vita þá er það sjúkdómur sem veldur sérlega miklu álagi á aðstandendur. Ég votta samúð og verð að hrósa og þakka nánustu fjölskyldu Sigrúnar fyrir hversu vel þau sinntu henni í þessum erfiðu aðstæðum.
Ég enda svo á að lýsa ævarandi þakklæti til Sigrúnar, ekki bara var hún mér afar góð stóra systir, heldur gaf hún mér bestu fermingargjöfina; Hvíta albúm Bítlanna, því mun ég aldrei gleyma.
Kjartan Jóhannesson.
Elsku Sigrún, elsku stórkostlega Sigrún.
Ljós, birta, jákvæðni, umhyggja, öryggi, óbilandi húmor og þakklæti fyrir að hafa fengið að eiga þig og þína yndislegu fjölskyldu að er það fyrsta sem kemur upp í hugann er við systkinin skiptumst á minningum.
Þið Ingi voruð fastur punktur í tilveru okkar á uppvaxtarárunum og eigum við minningar úr ótal ferðalögum, sumarbústaðarferðum, fjallgöngum, útivist og veislum. Stundirnar í Bólstaðarhlíðinni eiga sér sérstakan stað í hjörtunum þar sem ást og kærleikur réði ríkjum. Þann góða anda tókuð þið með ykkur hvert sem þið fóruð og það var einstaklega notalegt að koma heim á Borgarholtsbrautina þegar þið voruð í heimsókn. Iðulega sátuð þið inni í stofu og fyrsta merkið var hláturinn þinn sem heyrðist inn í forstofu og jafnvel út í innkeyrslu. Þú varst snillingur í mannlegum samskiptum og gerðir allar stundir skemmtilegri enda einstaklega fyndin, orðheppin og hnyttin.
Þú lést þér ekki nægja að passa þessa þrjá krakkagorma sem rifust endalaust og vöknuðu fyrir allar aldir, heldur tókstu einnig virkan þátt í svo með mörgu okkur. Allt virtist vera svo lítið mál í þínum augum og þú virtist geta allt. Þú passaðir vel upp á þitt fólk og þótt oft væri glens og fjör þá varstu með puttann á púlsinum og allt undir kontról. Sem dæmi er það þér að þakka að eitt okkar er enn með alla 10 fingur.
Elsku Sigrún. Mikið ofboðslega verður þín sárt saknað. Þú munt alltaf eiga sérstakan stað í hjörtum okkar og við búum að því alla ævi að hafa átt þig að. Við heyrum enn smitandi hláturinn og sjáum þig ljóslifandi fyrir okkur, stelpulega og unga í anda.
Berglind, Hugrún og Bjarni Halldórs- og Jónínubörn.
Við kynntumst í landsprófi í Gagnfræðaskóla Austurbæjar, önnur nýflutt í borgina, feimin og óframfærin landsbyggðarstúlka, hin heimavön borgardama. Við urðum vinkonur og fylgdumst að gegnum menntaskóla og háskóla. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og tímarnir breyttir um viðhorf til menntunar kvenna eins og eftirfarandi sýnir. Efnafræðikennari í stærðfræðideild sagði við stelpur í stelpubekk: „Hvað eruð þið að gera hérna stelpur, þið eigið allar eftir að gifta ykkur?“
Sigrún var fínleg og falleg stúlka, eldklár og jafnvíg á allar námsgreinar, en einkum lá þó stærðfræðin vel fyrir henni og naut ég þess að fá stuðning við mína veiku hlið. Hún var einnig flink handavinnukona og prjónaði sér hinar fegurstu flíkur, einkum minnist ég fallegu handprjónuðu kjólanna hennar sem enginn lék eftir. Hún var listelsk og listræn og púðarnir hennar voru frumlegir og unnir af fádæma hugmyndaauðgi. Við deildum bókmenntaáhuga, vorum saman í leshring, sem hittist vikulega undir stjórn Baldvins Halldórssonar og lásum og ræddum ljóð. Við stunduðum félagslífið ákaft og mörg kvöld enduðu í risherberginu á Grettisgötu 94, þar sem við ásamt Guðfinnu Thordarson, þeirri þriðju í þríeykinu, ræddum málin, reyndum að leysa lífsgátuna og spáðum í framtíðina. Hugrekkið var nóg og við tókum að okkur að kenna líffræði í nýjum menntaskóla, Menntaskólanum við Tjörnina, þótt við værum að byrja í háskólanámi. Við vorum samferða í líffræðináminu í Háskólanum, en þá var hún orðin mamma og farin að búa með Ingimar sínum og áður en náminu lauk hafði önnur dóttir bæst við litlu fjölskylduna. Þá fækkaði spjallstundunum og félagslífið snerist um aðra og mikilvægari hluti.
Samverustundunum fækkaði með auknum önnum okkar allra, barneignir, búseta í öðrum löndum og öðrum landshlutum áttu þar hlut að máli. Þó slitnaði aldrei þráðurinn, þau Ingimar heimsóttu okkur hjónin til Svíþjóðar og ég minnist þess hve hamingjusöm og ástfangin þau voru, og gleði okkar yfir að fá þau í heimsókn. Við bekkjarsysturnar höfum haldið hópinn og hist reglulega í saumaklúbb gegnum árin og farið í mörg skemmtileg ferðalög saman. Alltaf var Sigrún til í að taka þátt þar til sjúkdómurinn sem bar hana ofurliði tók völdin. Það hefur verið sárt að horfa á hana hverfa frá okkur hægt og hljótt. Ég votta Ingimar, dætrunum þremur og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð. Megi hún hvíla í friði.
Ragnheiður Ásta
Magnúsdóttir.
Nú hefur kær bekkjarsystir okkar Sigrún Guðnadóttir kvatt. Síðustu æviár hennar voru erfið í glímunni við alzheimer-sjúkdóminn. Leiðir okkar lágu saman í MR þar sem við vorum í stærðfræðideildarbekk, sem var stelpubekkur. Við útskrifuðumst svo með stúdentspróf vorið 1968.
Á árum okkar í MR voru miklar breytingar að eiga sér stað í samfélaginu. Unglingar voru að verða til, áður höfðu börn orðið karlar eða konur við fermingu. Við hrifumst af Bítlunum og Rolling Stones og tvistuðum og djæfuðum á böllum í Íþöku, Glaumbæ og Sigtúni. Það var líka mikil ólga í réttindabaráttu kvenna og okkar árgangur sló nýtt met í fjölda stúlkna sem fóru í stærðfræðideild. Stór hluti bekkjarins útskrifaðist síðan með háskólapróf og atvinnuþátttaka okkar er eftirtektarverð.
Sigrún var námshestur og raungreinar lágu sérstaklega vel fyrir henni. Hún var mjög glaðsinna og félagslynd og setti svip sinn á bekkinn. Hún var líka listfeng og mikil prjónakona. Það voru ýmsar prjónaflíkurnar sem urðu til í tímum, sérstaklega var mikið prjónað í sögutímum.
Að loknu stúdentsprófi lá leið Sigrúnar í líffræðinám við HÍ ásamt sex öðrum bekkjarsystrum, en það nám hófst haustið 1968. Á námsárunum vann hún samhliða námi við rannsóknir prófessors Guðmundar Eggertssonar erfða- og sameindalíffræðings, sem var jafnframt skipuleggjandi líffræðinámsins. Eftir útskrift árið 1972 hóf Sigrún störf við rannsóknir prófessors Margrétar Guðnadóttur á Tilraunastöð HÍ í meinafræði á Keldum. Síðan vann Sigrún á rannsóknarstofu í veirufræði við Landspítalann, sem Margrét stýrði um langt árabil. Starfstími Sigrúnar á „veirunni“ varð langur og farsæll.
Um svipað leyti og Sigrún hóf háskólanám kynntist hún Ingimari, ástinni sinni og lífsförunaut. Dæturnar urðu þrjár og barnalánið er mikið.
Við bekkjarsysturnar höfum haldið hópinn í gegnum árin, bæði allar saman og í tveimur saumaklúbbum. Það hefur ávallt verið glatt á hjalla hjá okkur bæði á stuttum samfundum og í lengri ferðum. Sigrúnar er sárt saknað.
Við vottum Ingimari, Guðnýju Rósu, Álfheiði, Halldóru og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð.
F.h. bekkjarsystra í 6. bekk Z í MR árið 1968,
Bjarnheiður K.
Guðmundsdóttir,
Guðfinna Thordarson og Guðrún V. Skúladóttir.