Inga Rósa Guðjónsdóttir fæddist í Neskaupstað 13. mars 1948. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 27. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru Guðjón Guðmundsson, f. 13.10. 1904, d. 22.4. 1987 og Sigurbjörg Bjarnadóttir, f. 13.6. 1909, d. 13.9. 2006.

Systkini Ingu Rósu eru Sigríður Sveina, f. 1933, Bjargey, f. 1934, d. 1998, Guðmundur Albert, f. 1937, d. 2018 og Guðlaug, f. 1944.

Árið 1973 giftist Inga Rósa Gísla Eiríkssyni, f. 24.4. 1944, d. 2.1. 2012. Dætur þeirra eru Kristín Guðrún, f. 1975 og Hrönn, f. 1982.

Synir Hrannar með Arnari Björnssyni eru Ragnar Bergur, f. 2005 og Hafþór Orri, f. 2008. Fyrir átti Inga Rósa Ágúst, f. 1971, með Magnúsi Jónatanssyni.

Sambýliskona Ágústar er Silvana Castellana, f. 1967, dóttir þeirra er Elín Stella, f. 2000. Eftirlifandi sambýlismaður Ingu Rósu er Randver Ármannsson, f. 1945. Börn hans eru Steinunn Ýr, Erla Hrönn og Pálmi Freyr.

Inga Rósa ólst upp í Neskaupstað, kláraði sína skólagöngu á Eiðum og fór síðan í Hússtjórnarskóla í Danmörku 1966-1967 með Bubbu vinkonu sinni. Hún starfaði á Pósti og síma á meðan hún bjó í Neskaupstað. Árið 2000 fluttu Inga og Gísli í Kópavog. Starfaði fyrst á Pósthúsinu í Kópavogi, síðan hjá Lyfju Smáratorgi og síðustu starfsárin sem skólaliði í Álfhólsskóla.

Inga Rósa verður jarðsungin frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 7. febrúar 2025, kl. 13.

Það var svo gott að elska hana Ingu. Hlýtt faðmlag, dillandi hlátur og einlæg ást. Við kynntumst Ingu fyrir tæplega sjö árum. Hún kom áreynslulaust inn í fjölskylduna og það var eins og hún hefði verið með okkur allan tímann. Brosmild og skemmtileg sögukona sem elskaði okkur og börnin okkar eins og ömmur gera.

Pabbi og Inga misstu bæði sína maka alltof snemma en voru heppin að finna hvort annað seinna á lífsleiðinni. Þau þekktust frá æskuárunum á Norðfirði og þess vegna var sambandið þeim náttúrulegt frá upphafi. Eins og þau væru búin að vera saman miklu lengur. Inga skammaði pabba fyrir að hafa ekki hringt fyrr þegar hann loksins tók upp símann til að athuga hvort þau ættu kannski að kíkja saman í kaffi. Hann baunaði á hana til baka og þannig hófst þeirra fallega samband. Þau voru ástfangin frá upphafi og nutu lífsins saman. Keyptu sér húsbíl og íbúð og sköpuðu yndislega fallegt heimili. Heimsóttu börnin hennar til útlanda og dvöldu veturna á Spáni. Ferðuðust um heiminn og voru með enn fleiri ferðalög skipulögð. Öflugt fólk á áttræðisaldri sem lét ekkert stöðva sig við að njóta efri áranna.

Það var yndislegt að vera í kringum Ingu, síhlæjandi, klára og hressa. Við fundum fyrir virðingu og væntumþykju sem var um leið gagnkvæm og skýr. Hún var örlát á hrós og kunni að setja sína væntumþykju í orð. Varð amma barnanna okkar allra og gaf okkur margar fallegar stundir og minningar. Við græddum sömuleiðis tengingar við börnin hennar Ingu sem við verðum ævinlega þakklát fyrir og fyrir samband þeirra við pabba sem er einstakt. Það tókst að fagna áttræðisafmæli hans rétt fyrir andlát Ingu og treysta fjölskylduböndin og við vitum að henni þótti það mikilvægt.

Inga fékk slæmar fréttir síðastliðið sumar og kvaddi okkur í lok janúar. Hún fékk að kveðja sitt fólk og fara eins og henni einni var lagið þó kveðjuna hafi borið skjótt að. Hún tókst á við sín veikindi á einstakan hátt, tignarleg, æðrulaus og glöð. Hún dó eins og hún lifði – með reisn.

Farðu í friði elsku Inga. Við elskum þig og erum þakklát fyrir allt sem þú gerðir fyrir og með pabba. Hjartans samúðarkveðjur Ágúst, Silvana, Stína, Hrönn, Elín Stella, Ragnar Bergur og Hafþór. Takk fyrir Ingu og takk fyrir pabba.

Elsku pabbi, við erum til staðar fyrir þig eins og alltaf.

Guðbjörg og Pálmi.

Elsku hjartans litla systir mín hefur kvatt þetta líf. Engan gat grunað að það bæri svo fljótt að. Þetta var rothögg, því við öll bjuggumst við mun lengri tíma með henni. Hún fór í gegnum lyfjameðferðirnar með bjartsýni, seiglu og æðruleysi, gerði grín að sjálfri sér, glettist með allt ef eitthvað bjátaði á. Ég veit núna að hún hlífði mér meira en þörf var á. Svo sannarlega ætlaði mín að berjast, enda með kraft austfirsku fjallanna innra með sér. Það sem ég á eftir að sakna hennar og elsku Sigga systir líka og fjölskyldur okkar beggja.

Í gegnum árin höfum við svo sem ekki alltaf verið bestu systur, stundum hefur slegið í brýnu á milli okkar, en sem betur fer alltaf náð að sættast og bæta okkur. Seinustu árin hefur systraástin yfirtekið allt, svo margt sem við áttum eftir að gera saman, hlæja saman, því það gerðum við óspart. Inga mín gaf dögunum lit. Það gerði hún strax sem barn er hún söng svo vel fyrir okkur að margir fengu ryk í augun. Ég man að Silla frænka var leiknust í að fá hana til að syngja, hjá henni fékk hún líka besta hrósið.

Inga var búin að búa ein árin eftir að Gísli dó. Svo kom að því að hress náungi að austan bankaði upp á, elsku Randver, sem hefur verið hennar lífsförunautur síðustu árin. Þau áttu góðan tíma saman, ferðuðust í húsbíl og seinna í hjólhýsi um landið, reyndu að elta sólina, sem gekk reyndar best í gömlu heimahögunum. Oft nutu þau líka sólar og yls sólarlanda. Margt var í bígerð, sem veikindin slógu af.

Nú vil ég trúa að hún sé komin í faðm fjölskyldu og vina og sé vel fagnað. Megi góður Guð gefa Ágústi, Silvönu, Stínu, Hrönn, Elínu Stellu, Alexandro, Ragnari Bergi, Hafþóri Orra og Randveri og hans fjölskyldu styrk og blessun. Þau áttu alla hennar ást og umhyggju. Ég þakka Ingu minni eitt og allt og bið Guð að blessa hana.

Dreymi þig sólskin og sumarfrið,

syngjandi fugla og lækjarnið.

Allt er hljótt, allt er hljótt

ástin mín, góða nótt.

(Ási í Bæ)

Þín systir,

Dulla.

Guðlaug Guðjónsdóttir.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Elsku Inga Rósa mín, móðursystir og fallega frænka mín sem ég er búin að alast upp með frá barnæsku á Nesgötunni. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur systkinin, við gátum alltaf stólað á Ingu frænku. Þú og amma alltaf tilbúnar til að aðstoða mig með bræður mína þegar mamma og pabbi voru að vinna seinnipartinn við þrifin í skólanum. Þegar þau fóru með drengina í útilegu og ekki pláss fyrir dótturina í bílnum þá tókst þú mig að þér og bakaðir fyrir mig brúna rúllutertu með smjörkremi í sárauppbót og sú rúlluterta varð síðan fastur liður í mínum jólaundirbúningi.

Þrátt fyrir sjö ára aldursmun á okkur frænkum var ýmislegt sem við brölluðum saman. Þú leyfðir mér að hlusta með þér á plöturnar þínar, þú varst svo heppin að eiga plötuspilara og við elskuðum Cliff og Bítlana. Svo komumst við að því að það væri svo gott að þvo hár upp úr kúahlandi, hárið yrði svo glansandi fínt. Ákváðum nú að gera tilraun með það og tókst þér að útvega kúahland frá beljunum í Miðbæ. Við vorum fljótar að losa okkur við innihald fötunnar niðri í fjöru, þvílík stækja sem gaus upp og ekki fór hlandið í hárið. Gleymi ekki ykkur Bubbu þegar þið komuð af Húsmæðraskólanum í Danmörku með nokkur aukakíló á ykkur eftir góða matinn þar. En þá komst þú með inn á heimilið skúffukökuuppskrift sem var uppáhald allra barna í fjölskyldunni og var mamma duglegust að baka hana.

Já elsku frænka, það er hægt að skrifa langa ritgerð um líf þitt en okkar samband hefur verið eins og systrasamband og finnst mér eins og ég sé að missa stóru systur sem hefur stutt mig í gegnum lífið og þið Gísli voruð svo yndisleg við mig þegar ég varð einstæð með börnin. Ekki óraði okkur fyrir því þegar þú fékkst krabbameinsgreininguna síðastliðið sumar að sjúkdómurinn myndi taka þig svona fljótt frá okkur. Þú varst svo ótrúlega dugleg og æðrulaus í meðferðinni og vonaði maður að þú fengir fleiri mánuði með Ranna þínum og börnum og barnabörnum. Sjáumst í blómabrekkunni elsku frænka. Þín,

Ásdís.

Landnáms-amma

I.

Óratími leið síðan þau höfðu hist,

en að hausti til hann hringdi.

„Það var mikið að í þér heyrðist.“

Hann kekki í hálsinum kyngdi,

brosti, og augunum aftur lygndi.

Ilmandi búnt færði hinn hjartkæri

og um tímana gömlu líflega skröfuðu.

Grín gerðu að sínu gráhæri

og djúpum brosviprum sem dilluðu.

Ætíð ung í anda, þau blómstruðu.

Sögur um heimalandið hann sagði.

„Fornar hetjur Ísland höfðu fundið.“

En seinna hann á Rósina starði.

Á augabragði upp fyrir honum hafði
runnið,

að Inga hafði óhjákvæmilega land
hans numið.

II.

Fjölskyldunni afi kynnti hlýlega konu,

sem að landnáms-ömmu snögglega
varð.

Í mjúkan faðm sinn tók hún
Njálssonu.

Galopnaði hliðin, í sinn fagra
lystigarð.

Engin Rós mun fylla hennar skarð.

Kristjana Bríet

Birgisdóttir.

Jafnaldri og bekkjarsystir úr barnaskóla, Inga Rósa, er fallin frá. Í útbænum í Neskaupstað fyrir utan Lúðvíksgilið voru ekki mörg börn þegar við vorum að alast upp. Við vorum þrír strákarnir, sem lékum okkur mest saman, og svo voru þrjár stelpur, sem einnig voru leikfélagar. Inga Rósa var ein þeirra. Við strákarnir vorum auðvitað meira saman en þegar þurfti fleiri með var fyrst leitað til Ingu Rósu og hennar félaga. Síðan ef þurfti fleiri til var leitað í hóp jafnaldra á Eyrinni. Þarna ólumst við upp og lékum okkur saman. Stundum slettist eitthvað upp á vinskapinn en aldrei lengi. Við fengum mikið frelsi en samt var fylgst vel með okkur. Fjaran, bryggjurnar, göturnar og túnin voru okkar leiksvæði. Ýmislegt brallað sem treysti böndin, kofabyggingar, prakkaraskapur og margt annað. Ótrúleg bönd sem þarna urðu til og ekki þarf að tala um. Árin liðu og unglingsárin tóku við og vinahópurinn stækkaði og þéttist. Inga Rósa var í hópnum alla tíð, allir skotnir í henni, enda ávallt glöð, sæt og hláturmild. Þegar hópurinn var kominn með bílpróf var farið í eftirminnilega ferð um landið og komið víða við. Sú ferð var stundum rifjuð upp síðar. En upp úr þessu skildi leiðir eins og gengur. Sumir fluttu burt til náms eða vinnu og menn og konur fundu sér sína förunauta. Alltaf vissum við þó hvert af öðru og svo fóru fermingarbarnamótin að taka við með nokkuð reglulegu millibili, en að öðru leyti var ekki stöðugt samband. En einu sinni Nobbari, ávallt Nobbari, var viðkvæðið. Af 39 bekkjar/fermingarsystkinum eru nú sjö látin. Minningin um Ingu Rósu lifir. Hún eignaðist góðan förunaut síðustu árin. Randver, ég sendi þér mínar bestu kveðjur. Öðrum aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Gunnar Ingi Gunnarsson.