Oddný Elín Magnúsdóttir fæddist í Fagradal í Vopnafirði 27. apríl 1949. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Húsavík, 30. janúar 2025.

Foreldrar Oddnýjar Elínar voru Guðbjörg Ólöf Kristjánsdóttir, f. í Fagradal 14. júlí 1914, d. 1. september 1994, og Magnús Ólafur Guðmundsson, f. á Teigi í Vopnafirði 1913, d. 28. desember 2003. Þau giftu sig 17. júlí 1942, bjuggu saman í Fagradal frá 1942 til 1964, og ólu þar upp börn sín, áður en þau fluttu í þorpið til Vopnafjarðar og bjuggu þar til dánardags.

Eftirlifandi eiginmaður Oddnýjar Elínar er Halldór Valdimarsson, f. 27. ágúst 1950 á Húsavík. Oddný Elín og Halldór giftu sig 30. júní 1973. Synir þeirra eru þrír, Valdimar, f. 24. nóvember 1973, Óli, f. 10. maí 1975, og Magnús, f. 29. apríl 1980. Sambýliskona Óla er Berglind Ragnarsdóttir, f. 19. desember 1980, og eiginkona Magnúsar er Freyja Vilborg Þórarinsdóttir, f. 30. júlí 1980.

Barnabörn Oddnýjar Elínar og Halldórs eru Halldór Tumi Ólason, f. 11. september 2001, Elín Anna Óladóttir, f. 11. janúar 2003, Sigurður Búi Ólason, f. 15. desember 2009, Brynjúlfur Nóri Ólason, f. 7. maí 2012, Heimir Andri Magnússon, f. 18. janúar 2007, og Halldór Elí Magnússon, f. 17. desember 2011.

Bræður Oddnýjar Elínar eru Kristján Guðmundur, f. 31. maí 1943, og Árni Hlynur, f. 24. september 1953, báðir búsettir á Vopnafirði.

Oddný Elín lauk barnaskóla á Torfastöðum í Vopnafirði og unglingaskóla í Hveragerði. Hún lauk námi frá Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði, og að því loknu stundaði hún nám við Mynd- og handíðaskóla Íslands í Reykjavík, 1969 til 1973, og lauk þaðan námi úr textíldeild. Árið 2002 lauk Oddný Elín BA-námi í þjóðfræði frá Háskóla Íslands, og sótti endurmenntunarnámskeið á sviði ritunar og skapandi skrifa.

Oddný Elín bjó með Halldóri í Grindavík, einn vetur, 1973-1974, þar sem Halldór var kennari. Eftir það fluttust þau í Laugar í Reykjadal og bjuggu þar fram til 1983, þar sem þau stunduðu kennslu og Oddný Elín sinnti listinni. Frá 1983 bjuggu þau á Húsavík. Halldór var þar kennari og síðar skólastjóri og Oddný Elín sinnti kennslu og námskeiðahaldi.

Frá því Oddný Elín lauk námi við Mynd- og handíðaskólann sinnti hún list sinni, einkum á sviði textíls, vefnaðar og útsaums, og hélt fjölmargar sýningar, ýmist sjálf eða með öðrum listamönnum, á 50 ára löngum ferli.

Um langt skeið ferðuðust Oddný Elín og samstarfskona hennar, Jenný Karlsdóttir, um landið og skrásettu altarisdúka og sögu þeirra í kirkjum landsins. Er það verk langt komið.

Síðasta sýning Oddnýjar Elínar var samsýning með Hólmfríði Bjartmarsdóttur, textíllistakonu og samstarfskonu til langs tíma, í Safnahúsinu á Húsavík vorið 2024. Sýningin nefndist Huldulönd – íslensk náttúra og yfirnáttúra. Þar voru útsaums- og veflistaverk til sýnis.

Skömmu fyrir andlát sitt sýndi Oddný Elín að auki útsaumsverk á kaffihúsi á Húsavík.

Útförin fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 7. febrúar 2025, klukkan 14.

Ég man þegar ég sá Onnu í fyrsta skiptið. Það var um veturinn 2001/2002, þegar við Maggi vorum nýbyrjuð saman og hann bjó á stúdentagörðunum. Ég var í heimsókn hjá honum eina helgina á Eggertsgötunni þegar þessi hlýlegu hjón birtust skyndilega í dyragættinni, með gamlan snúrusíma í hendi. Fallega brosið hennar og Fagradalsaugun, ég fann strax mikla hlýju frá þessum góðu hjónum – sem Maggi þorði reyndar ekki að bjóða inn í kaffi á þeim tíma. Eitthvað segir mér að þessi fyrstu kynni hafi ekki eingöngu snúist um að tengja Magga betur við heimahagann með landlínu – heldur hafi Onna, lúmsk eins og hún gat verið, viljað forvitnast aðeins um ráðahag litla barnsins síns. Ég fann strax hversu vel Onna hugsaði um sitt fólk. Hún sendi Magga sínum búsáhöld í búið, tuskur og lopasokka, og stútfullan bauk af smákökum – mömmukökum með miklu kremi – og laufabrauði fyrir jólin.

Ég þekki fáa með eins næmt auga fyrir fegurð og Onna – sannur listamaður á heimsmælikvarða. Einhvern veginn vissi hún alltaf hvað vantaði upp á, gerði allt notalegra og fallegra í kringum sig. Við áttum margar dýrmætar stundir saman yfir prjónunum, sem var hennar jóga eins og hún sagði sjálf. Ég hafði aldrei verið mikil prjónakona en hún kenndi mér að prjóna sjal eitt sumarið. Hún hjálpaði mér að fitja upp lykkjur, rekja upp eða fela byrjendamistök og halda ótrauð áfram. Það varð svo að árlegri venju hjá mér að taka upp prjónana í sumarfríum á Húsavík eftir að við fluttum til Bandaríkjanna. Mikið sem mér þykir vænt um þessar prjónastundir okkar saman.

Að fara með Onnu í búðir var líka mikil skemmtun. Ég hafði eiginlega meira gaman af því að fylgjast með henni en að versla sjálf. Sérstaklega skemmtilegt var að fara með henni í forngripa- og skrautmunabúðir. Eitt sinn fórum við í Fröken Blómfríði á Akureyri, þar sem hún var með augastað á stofustól. Þegar inn var komið var hún fljót að hverfa í eitthvert skúmaskot og finna réttu diskana eða glösin sem pössuðu fullkomlega í safnið. Þá leið ekki á löngu þar til hún hafði spottað skáp fyrir forstofuna og sófa fyrir Halldórsstaði. Ég ímyndaði mér að hún væri með innbyggðan radar fyrir fallega muni og málband í auganu – því allt sem hún fann passaði fullkomlega. Sama var upp á teningnum í litlum bókabúðum, útimörkuðum eða jafnvel á Nútímalistasafninu í New York. Það var ómetanlegt að fá að njóta þessara ferða með henni.

Heimir Andri og Halldór Elí áttu margar góðar stundir með ömmu sinni, hvort sem var á Halldórsstöðum, heima á Garðarsbraut eða í Bandaríkjunum. Höfðu þeir gaman af því að spjalla við hana, horfa á sjónvarpið saman, og fylgjast með henni baka pönnsur og prjóna. Mikið sem þeir eiga eftir að sakna ömmu Onnu og minnast hennar sem góðrar og yndislegrar ömmu, sem var blíð og góð, og alltaf brosandi.

Ég er lánsöm og þakklát fyrir Onnu – betri tengdamömmu er ekki hægt að hugsa sér. Hún kenndi mér að sjá fegurðina í umhverfinu, slaka betur á og njóta augnabliksins.

Hvíl í friði elsku Onna.

Þín tengdadóttir,

Freyja.

Minningarnar eru margar og samfylgd okkar flestra við Onnu nær yfir hálfa öld. Sveitastúlkan sem bjó í Fagradal fram að fimmtán ára aldri kom inn í okkar litlu fjölskyldu sem kona Halldórs, á svipuðum tíma og Björg og Hallgrímur tóku saman. Ótal samverustundir á Húsavík og á Halldórsstöðum eru okkur ofarlega í huga sem og á Laugum í Reykjadal, á meðan Onna og Halldór bjuggu þar. Náið samband og frændsemi í fjölskyldunni hefur leitt af sér góð samskipti allra kynslóða og erum við afar þakklát fyrir það.

Uppruni Onnu var henni alltaf nálægur. Sterkar tengingar við Fagradal í Vopnafirði, við náttúruna og dýrin, söguna og þjóðfræðina komu greinilega fram í lífi hennar og listsköpun. Listrænir hæfileikar Onnu voru ótvíræðir og elja hennar og skapandi hugsun kom fram í öllum þeim fallegu listaverkum sem hún skilur eftir sig. Hægt er að dást að úthaldi Onnu við listsköpun sína meðfram uppeldi piltanna, heimilishaldi, kennslu og öðrum verkefnum. Hún var iðin við að kynna sér listsköpun á ýmsum sviðum, lauk námi í þjóðfræði við Háskóla Íslands, rannsakaði altarisdúka í kirkjum landsins og miðlaði þekkingu sinni með greinaskrifum í tímaritið Hugur og hönd, svo fátt eitt sé nefnt. Ferill sem hver listamaður gæti verið mjög stoltur af með þátttöku í fjölda samsýninga og einkasýninga síðustu árin. Í hversdagslífinu má einnig nefna ljósmyndir sem Onna tók á ferðum þeirra Halldórs um landið. Þær voru afar fallegar, náttúran í aðalhlutverki og var greinilegt að næmt auga var þar á bak við myndavélina.

Onna var líka skapandi á heimili þeirra Halldórs á Garðarsbraut á Húsavík og ekki var alltaf alveg víst að herbergjaskipan væri alltaf sú sama milli heimsókna okkar þangað. Næmt auga Onnu fyrir notuðum borðbúnaði í hinum ýmsu söluplássum skilaði sér líka á Garðarsbraut og þegar þau Halldór skipulögðu sinn hluta Halldórsstaðahússins á afar smekklegan hátt.

Onna hafði ekki alltaf hátt en hún var ákveðin og sjálfri sér trú. Þessir eiginleikar hafa skilað sér til hennar afkomenda og bera henni gott vitni.

Þakklæti er okkur efst í huga þegar við kveðjum Onnu í dag og við vottum Halldóri, piltum og allri fjölskyldunni samúð okkar.

Minningin lifir.

Fyrir hönd Bjargar og Hallgríms, Stefáns Þórs og Huldu og fjölskyldna okkar allra,

Þóra Hallgrímsdóttir.

Elsku vinkona, þá er komið að kveðjustund, en því miður ekki eftir einn kaffibolla eins og við höfðum svo oft talað um að fá okkur einhvern tímann þegar þú værir á ferðinni fyrir sunnan.

Við kynntumst þegar fjölskylda þín flutti inn í þorp og þú fórst að vinna á símanum.

Á þessum tíma var margt brallað, verið á rúntinum með handavinnu og sísyngjandi við mismikinn fögnuð okkar góðu vina sem alltaf voru til í að leyfa okkur að verma aftursætið.

Eins gengum við oft út á tangasporð og höfðum leyfi þeirra bræðra Steindórs og Alberts að ganga um þeirra land þegar okkur lysti. Þú varst fjölhæf, góð og skemmtileg og þegar þú varst í Handíða- og myndlistarskólanum leigðum við saman einn vetur upp í rjáfri á Laugaveginum. Dyrabjallan okkar var langur spotti með bjöllu á endanum. Við tókum með okkur vopnfirskan kettling, Nikkólínu, sem kunni ekkert á bæjarlífið og fór sínar eigin leiðir. Að lokum var kisa flutt aftur austur í trékassa með loftgötum sérsmíðuðum af Jóni frænda þínum. Eins skrifuðumst við á við Jón Þór og það var algjör hátíð þegar við fengum bréfin frá honum, enda skiptum við bréfunum á milli okkar um vorið.

Svo var það morgunreiðtúrinn sem við fórum inn í Gerði, þeir urðu ekki fleiri. Við áttum að mæta í vinnuna klukkan tíu þannig að tíminn var naumur. Þú varst góð og vön hestakona og áttir þinn eigin hest, en ég algjör grænjaxl enda fékk ég lánaðan hest sem bæði var heymóður og með hornös og rétt drattaðist áfram. Þú vildir leyfa mér að reyna almennilegan hest, en varaðir mig við að þinn hestur væri vís til að standa grafkyrr ef hann fyndi að knapinn væri óöruggur og það gerði hann. Við komumst loks inn í Gerði en urðum að fá pabba til að sækja okkur svo við næðum í vinnuna á réttum tíma.

Já Onna mín, það er svo margs að minnast. Þú varst hagmælt, vel lesin og ég held að allt hafi leikið í höndunum á þér.

Svo hittir þú hann Halldór þinn og þið settust að norður í landi og eignuðust strákana ykkar en ég flutti suður og samverustundirnar urðu færri og færri en síminn bætti það upp.

Onna mín, þín verður sárt saknað en kaffisopann tökum við seinna í annarri vídd og rifjum upp gamla og nýrri daga.

Ég votta Halldóri, sonum ykkar og fjölskyldum mína innilegustu samúð.

Þín æskuvinkona,

Inga Hanna.

Elsku Oddný Elín frænka er látin, farin í sumarlandið góða, bjarta og fallega.

Fallega eins og hún sjálf bæði að utan og innan, með ákaflega góða nærveru, umhyggjusöm, brosmild og glaðleg. Mér þótti undurvænt um hana frænku frá Fagradal, dalnum fagra þar sem hún og mamma mín, Elín, fæddust og slitu barnsskónum. Á bænum var tví- og þríbýlt þar sem foreldrar þeirra bjuggu og tíð og góð samvera á milli þeirra. Þar skottuðust þær stöllur um, léku sér saman, að skoða grösin og blómin, leggi og skeljar, steina og allt sem fyrir augu og eyru bar. Voru náttúrubörn með meiru. Oft var leikið með fallegu brúðurnar þegar ekki gafst veður til að vera úti við. Þær klæddar, greitt á þeim hárið og lagðar í rúmin. Á kvöldin hlustað á sögur, lesin kvæði í símastofunni. Það var spilað á orgelið og á aðfangadag var m.a. sungið jólalag afa og dansað í kringum jólatréð, sem var svo stórt og fallegt, kertin lýstu svo fallega.

Áfram skottast um hér og hvar í íbúðarhúsinu, kannski hjá afa og ömmu eða

frænda eða frænku, stórum sem smáum, sumarkrökkum, búfénaði, hvað þá öllum hundunum, en þeir voru nokkrir. Nóg var hægt að gera fyrir ungan huga og hugmyndaríkan. Í mörg horn var að líta hjá fullorðna fólkinu á stórum bæ og tekið þátt í verkum úti sem inni.

Á bænum var ljúft að vera í sældartíma þeirra ára, heppnar að fæðast á þeim dýrðarstað sem bærinn fagri stendur á. Draumar og þrár biðu handan við hornið, að kom að því að þær urðu fulltíða og lögðu af stað út í hinn stóra heim, þegar þær fluttu alfarnar að heiman. Fóru í húsmæðraskóla og síðan í vinnu. Hittust og giftust eftirlifandi eiginmönnum sínum, eignuðust börnin og héldu falleg listræn heimili. Enda báðar mjög handlagnar í útsaumi, málun og öllu handverki bæði heima við og í vinnu. Ávallt héldu þær sambandi, slógu á þráðinn eða hittust eins oft og færi gafst, þegar leið lá hjá heimilum þeirra, sem og á fjölskyldumótum, H-mótum. Þegar þær hittust var alltaf eins og þær hefðu hist í síðustu viku. Miklir kærleikar og hlýja var þeirra á milli, slík og þvílík að langar leiðir sást. Oft leitaði hugurinn til æskuslóðanna og minnst með hlýju og kátínu. Ekki yrði ég hissa ef þær hafa hist þar á ný og rifja upp gömlu tímana.

Senn í lofti sólin hækkar,

sérhver stundin vitni ber.

Skíman glæðist,

skuggum fækkar.

skammir dagar telja af sér.

Lifnar vonin, líka dugur

ljósið verka fer.

Ljósi fagna litlu blómin,

líf er nóg um dal og hól.

Þrestir kveð' og reyna róminn,

rjúpan eggjum finnur ból.

Allt ber vott að líf og ljóminn,

leiðist að með sól.

(Sveinn Jónsson, Fagradal)

Samúðarkveðju sendi ég ættmennum mínum, megi góðar vættir vernda ykkur og blessa.

Anna Hreindal.