Ellert B. Schram, fv. ritstjóri og þingmaður, fæddist í Reykjavík 10. október 1939. Hann lést 24. janúar 2025.

Foreldrar hans voru Björgvin Schram, stórkaupmaður í Reykjavík, f. 3. október 1912, d. 24. mars 2001, og Aldís Þorbjörg Brynjólfsdóttir húsmóðir, f. 23. mars 1917, d. 5. maí 1991.

Ellert lauk embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1966 og öðlaðist lögmannsréttindi sama ár. Ellert var blaðamaður á Vísi, vann á málflutningsskrifstofu Eyjólfs K. Jónssonar og fleiri 1965 og 1966, var skrifstofustjóri borgarverkfræðings 1966-71, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins 1971-79 og 1983-87, alþingismaður Samfylkingarinnar 2007-2009 og hefur verið varaþingmaður, síðast árið 2019. Hann var ritstjóri Vísis og DV 1980-95, formaður KSÍ 1973-89, forseti ÍSÍ 1991-97 og forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, ÍSÍ, 1997-2006. Ellert var formaður Íslenskrar getspár, ritstjóri KR-blaðsins, Úlfljóts, Stefnis og bókarinnar KR – Fyrstu hundrað árin, sem var samin og útgefin í tilefni aldarafmælis KR 1999.

Hann var formaður Stúdentaráðs HÍ, formaður SUS 1969-73, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1969-73 og 1978-81, í Rannsóknarráði ríkisins 1971-80, var fulltrúi Alþingis á allsherjarþingi Sþ 1972, sat á þingi Alþjóðaþingmannasamtakanna 1971-79, var fulltrúi Íslands í þingmannanefnd EFTA 1983, sat í Útvarpsráði 1975-83 og fulltrúi Alþingis hjá Evrópuráðinu 2007-2008. Ellert sat í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) 1982-86 og 1990-94, var einn af varaforsetum UEFA 1984-86 og gegndi áhrifastörfum fyrir UEFA allt til 2010.

Ellert var Íslandsmeistari í fótbolta með KR 1959, 1961, 1963, 1965 og 1968 og bikarmeistari 1960, 1961, 1962, 1963, 1964, 1966 og 1967. Hann var lengi markahæsti KR-ingur frá stofnun félagsins, eða allt til 2019 er Óskar Örn Hauksson sló metið.

Ellert lék 23 landsleiki 1959-70, var sæmdur titlinum knattspyrnumaður ársins 1965, 1969, 1970 og 1971, sat í stjórn knattspyrnudeildar KR 1960-69 og var formaður síðustu tvö árin. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og gullmerki KR, var heiðursformaður KSÍ, heiðursforseti ÍSÍ og heiðursfélagi KR síðan 2019.

Ellert skrifaði einnig bækurnar Eins og fólk er flest, safn greina og smásagna, árið 1991, og Á undan sinni samtíð, sem kom út 2006. Árið 2020 komu endurminningar hans út á bók er nefndist Ellert – Endurminningar Ellerts B. Schram.

Eftirlifandi eiginkona Ellerts er Ágústa Jóhannsdóttir. Börn þeirra eru Eva Þorbjörg og Ellert Björgvin. Með fyrri eiginkonu, Önnu G. Ásgeirsdóttur, átti Ellert börnin Ásdísi Björgu, Örnu, d. 2022, Aldísi Brynju og Höskuld Kára. Sonur Ellerts og Ásdísar Þórðardóttur er Arnar Þór Jónsson. Barnabörn eru 17 talsins og eitt langafabarn.

Útför Ellerts fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 7. febrúar 2025, og hefst athöfnin klukkan 15.

Í dag er til moldar borinn faðir minn Ellert B. Schram. Pabbi ólst upp í Vesturbænum og þar kunni hann alltaf best við sig. Við sjávarsíðuna og á KR-vellinum þar sem hann lét drauma sína rætast. Pabbi var heimsborgari og ferðaðist víða en samt sem áður leitaði hjartað alltaf vestur í bæ. Þau voru ekki mörg árin á hans langa æviskeiði þar sem hann bjó fyrir austan læk.

Sonur hjónanna Björgvins Schram og Aldísar Þorbjargar Brynjólfsdóttur, eða afa Björgvins og ömmu Dídíar. Í Sörlaskjólinu óx hann úr grasi á árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Þetta var tími breytinga í íslensku samfélagi. Pólitískra átaka þar sem stórar hugmyndafræðilegar stefnur tókust á. Pabbi drakk þetta í sig og aðhylltist snemma stefnu frelsis gegn hvers konar höftum verandi sonur stórkaupmanns. Hann tók virkan þátt í stjórnmálaumræðum og gekk ungur í Sjálfstæðisflokkinn. Pólitískar víglínur voru alls staðar á þessum tíma. Hann var í fararbroddi í baráttunni gegn einokun ríkisins í ljósvakamiðlum. Í raun ruddi brautina þegar kom að frelsi fjölmiðla.

Pabbi var keppnismaður fram í fingurgóma. Það var alveg sama hvað hann tók sér fyrir hendur. Íþróttir, pólitík eða félagsstörf. Hann vildi alltaf gera betur, ná lengra og hærra. Við börnin fórum ekki varhluta af þessu keppnisskapi þegar tekin voru upp spil við stofuborðið heima þar sem gleði leiksins og kappsemi fóru saman. Hann hafði líka metnað fyrir hönd sinna barna. Gladdist þegar vel gekk en spurði alltaf hvort ekki væri hægt að gera betur. Setja markið hærra.

Pabbi var stundum erfiður og breyskur eins og manneskjan er. Oft tókumst við á og ekki alltaf sammála. Stundum var gjá á milli feðga. En römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til. Við áttum okkar stundir, faðir og sonur, þar sem við öttum kappi á leikvelli og skiptumst á skoðunum um menn og málefni. Líka í stúkunni á KR-vellinum þar sem við hittumst alltaf á sama stað án þess að mæla okkur mót. Jafnvel þegar gustaði á milli okkar. Við fundum væntumþykju í þessari nálægð. Standandi hlið við hlið með ósögð orð og stundum óleystar deilur. Þetta var bara okkar staður og okkar lið.

Hjarta pabba sló alltaf með KR og slæm úrslit gátu varpað skugga á næstu daga. Allir við Sörlaskjólið gátu séð hvernig leikurinn fór út frá göngulagi hans á heimleiðinni eftir leik. Léttstígur eða þungur í spori. Fólk þurfti ekkert að fletta upp úrslitunum. En það var alltaf næsti leikur, næsta leiktíð, næsta markmið. Þar voru tækifærin til að gera betur og aldrei gefast upp.

Pabbi talaði oft um að taka skóna af hillunni. Jafnvel þegar hann var kominn á sjötugsaldur. Til að hjálpa liðinu. Auðvitað sagt í gríni en það mátti alltaf sjá glitta í löngunina hjá þessum aldna höfðingja með þessa kappsömu sál til að ganga inn á völl og taka þátt í leiknum. Ég hugsa til hans nú á iðagrænum velli í sumarlandinu. Í KR-treyjunni, sparkandi í bolta og hvetjandi menn áfram. Þú ert kominn heim faðir minn.

Höskuldur Kári Schram.

Það er með sorg sem ég kveð Ellert B. Schram, fyrrverandi tengdaföður og afa dóttur minnar. Fjölskylda hans hefur misst ástvin en hann fékk loks að fara eftir erfiða baráttu. Ég er þakklátur fyrir vináttuna. Þakklátur fyrir allar stundirnar. Oft kom ég við í Sörlaskjólinu með Birnu úr leikskólanum og við rökræddum við eldhúsborðið um pólitík og siðfræði. Ellert var ástríðufullur og sat ekki á skoðunum sínum, skýr og rökfastur. Hann var alþýðlegur, hlýr, góður hlustandi með sterka réttlætiskennd.

Þannig naut Ellert farsældar sem ritstjóri og sem forystumaður í íþróttahreyfingunni. Með þessa eiginleika vann hann sem þingmaður frá því hann fyrst tók sæti á þingi 32 ára og þar til hann barðist fyrir bættum kjörum aldraðra í þingræðu 79 ára gamall. Þá sagði hann:

„Ég kem ekki í þennan sal á fótboltaskóm til að sparka í einn eða neinn. Ég er heldur ekki á inniskóm (forseti hringir) til að slappa af. Erindi mitt í þingsal er að gera mitt besta til að minna þingmenn á aldrað fólk sem býr við fátækt, veikindi, einangrun og tómleika. Það fólk á inni hjá okkur hinum (forseti hringir) að rétta því hjálparhönd.“

Ellert var skemmtilegur maður og átti gott með að fá fólk til að hlæja, og oftast gerði hann mest grín að sjálfum sér. Eitt sinn bauð Ellert mér með á þorrablót KR. Það var mikil veisla og margt um manninn. Rétt þegar við höfðum sest til borðs kemur maður til Ellerts og hvíslar að honum hvort hann geti hlaupið í skarðið af því ræðumaður kvöldsins hafði forfallast. Eftir smá umhugsun samþykkir Ellert og nær í Opalpakka í vasann og tekur upp penna. Ég sé að hann hripar niður örfáar línur aftan á Opalpakkann og bætir svo aðeins í á meðan við spjöllum við matarborðið. Nú fer að líða að ræðunni og ég spyr hvort hann sé tilbúinn. „Já, þetta er ekkert mál, aðalatriðið er að vita hvernig maður ætlar að byrja og hvernig maður ætlar að enda. Allt annað kemur af sjálfu sér.“ Síðan stóð Ellert upp og hélt ræðu svo að veislugestir veltust um af hlátri og ég hugsaði: hvernig fór hann að þessu kallinn?

Ég votta fjölskyldu Ellerts, Ágústu, börnum hans og barnabörnum mína dýpstu samúð.

Ketill Berg Magnússon.

Fréttirnar um að Ellert hefði skilið við okkur komu sannarlega ekki á óvart. Börnin mín, barnabörnin hans, höfðu þegar kvatt afa sinn. Þótt langt sé liðið frá því ég kynntist Ellert sá ég hann ekki leika listir sínar á knattspyrnuvellinum. Hins vegar átti ég góðar stundir með honum annað veifið á KR-vellinum. Einu sinni óskapaðist ég út í varnarleikinn og sagði að það yrði mjög til bóta ef hann dustaði rykið af fótboltaskónum. Eitt augnablik hélt ég að hann tæki mig á orðinu og væri í búningi innan undir eins og Súperman og myndi hlaupa inn á – þá hálfsextugur maðurinn. Vissulega var þetta allt í gamni, en innst inni held ég að hann hefði alveg verið til í að hlaupa inn á völl, skriðtækla mann og þruma boltanum í netið. Og aldrei brást það þegar há fyrirgjöf kom fyrir að Ellert hnykkti til höfðinu eins og hann væri að skalla boltann.

Ástæða þess að ég dáði Ellert var þó ekki glæstur árangur hans á knattspyrnuvellinum í stjórnmálum eða á ritvellinum þótt af nógu væri að taka. Það var ekki árangurinn, heldur hvernig hann brást við mótlæti. Stjórnmálaferill hans á vettvangi Sjálfstæðisflokksins varð ekki jafn glæstur og búist var við og um tíma fylltist Ellert gremju.

Þá gerðist það sem kannski fæstir bjuggust við af þessum stolta manni. Hann horfðist í augu við sjálfan sig og dró ályktanir af því sem aflaga hafði farið. Og það sem meira var; hann breyttist og það til batnaðar. Þegar ég kynntist honum á unglingsaldri jaðraði hann við að vera Darwinisti, sem flokkaði fólk í tvennt: þá sem „stóðu sig“ og þá sem gerðu það ekki. Með aldri og þroska jókst samkennd hans með náunganum í takt við það sem mannskilningur hans jókst. Þess sáust merki í ágætum pistlum hans þar sem manneskjan með öllum sínum kostum og göllum var í forgrunni.

Og þegar hann tók forystu í samtökum eldri borgara var hann ekki að hugsa um sjálfan sig, heldur hag þúsunda manna, sem fá ekki að njóta áhyggjulauss ævikvölds vegna vanþakklætis og skammsýni okkar sem yngri eru.

Á þeim hálfa fimmta árutug sem við þekktumst skiptust á skin og skúrir. En þráðurinn slitnaði aldrei. Ellert var fyrirliði, markakóngur og vítaskytta á knattspyrnuvellinum og í lífinu líka. En rétt eins og á vellinum snýst árangur um að laga það sem aflaga fer, gera sitt besta og þegar kraftana þrýtur að hvetja þá áfram sem tekið hafa stöðuna á velinum. Standa uppi í stúku og lifa sig inn í leikinn og skalla ósýnilega bolta.

Alvaldur dómarinn hefur nú flautað leikinn af.

Ég votta eftirlifandi eiginkonu hans Ágústu, börnum hans Ásdísi, Aldísi, Höskuldi, Evu og Ellert yngra samúð mína, og börnunum mínum Ásgerði og Þorgrími Kára sem nú syrgja afa sinn.

Árni Snævarr.

Það er nokkuð sérstakt að eiga vin hátt á níræðisaldri og geta rakið vináttuna til bernskuáranna í Melaskólanum. Nokkuð sérstakt er um leið að feður okkar þekktust í gegnum fótboltann og starf við heildverslun. Mæður okkar voru vinkonur og spiluðu bridge af miklu kappi og sjálfir vorum við góðir vinir alla tíð. Línurnar voru lagðar fyrir okkar tíð með hjólaferð mæðra okkar á Þingvelli að áeggjan Aldísar, móður Ellerts. Aldís hafði haft veður af veru Björgvins þar og rakst „óvænt“ á hann. Með honum var þar Tómas vinur hans, pabbi minn. „The rest is history.“

Við fylgdumst að í gegnum skólana og lífið. Þegar við vorum komnir í Verslunarskólann mynduðum við lítinn hóp nokkrir skólafélagar og lásum saman námsefnið. Við Ellert lásum saman undir stúdentspróf og þá var oft verið í Sörlaskjóli. Þar var hann sífellt að henda bolta í veggi og grípa. Þar sem Eddi var, þar var bolti.

Kristján Sveinsson augnlæknir var náfrændi minn. Ég kom við hjá honum einn daginn til að fá skoðun á augunum. Hann var fljótur að afgreiða frænda sinn. Sagði að miklum lestri fylgdi skert sjón! Þetta sagði ég Aldísi, móður Ellerts. „Ja, þetta eru nú greinileg merki þess að þið hafið ekki trassað heimalesturinn.“ Mér fannst alla tíð að Aldís væri vinur minn og að ég skipti máli. Það var góð tilfinning.

Eddi var fótboltamaður af guðs náð. Hann var vinur og félagi, skemmtilegur, hláturmildur með einstaklega smitandi hlátur, uppátektasamur og stundum svolítið stríðinn. Hann var uppspretta góðra minninga.

Ég held að við höfum báðir metið hinn í fremstu röð vina okkar.

Ragnar Tómasson.

„Allt á sinn tíma. Ég hef ekki gert mér mikla rellu út af dauðanum. Auðvitað söknum við ættingja og vina sem hverfa á braut en það væri mikil sóun á lífsgæðum að eyða lífinu í sífelldum ótta og skugga dauðans. Hann er einfaldlega óumflýjanlegur.“

Þessi ábending, í formála að endurminningum Ellerts B. Schram, lýsir honum vel: Lífið er til þess að lifa því – leika sem flesta leiki og helst vinna þá alla, eins og gullaldarliðið hans vann Íslandsmótið 1959. Einn er þó sá leikur sem allir tapa og ljúka þar með þátttöku sinni í mótinu. En KR-ingar missa ekki af leikjum með því að velta sér upp úr tapleikjum.

Ellert var keppnismaður af lífi og sál, með trausta sjálfsmynd. Hann sótti tilgang sinn og styrk í storma sinnar tíðar. Lífsgleði hans var leikgleði og knattspyrnan var honum kær leikur. Á þeim vettvangi komst hann í fremstu röð sem máttarstólpi í gullaldarliði elsta og sigursælasta knattspyrnufélags þjóðarinnar og síðar sem fyrirliði íslenska landsliðsins. Hann var átrúnaðargoð okkar strákanna og stelpurnar í Vesturbænum fóru á Melavöllinn til að kikna í hnjánum þegar hann skoraði skallamörk fyrir KR.

Þegar kappleikjunum fækkaði keppti Ellert um hylli mannlífsins, sankaði að sér trúnaðarstörfum, gekk inn og út af Alþingi eins og kostgangari, var um árabil ritstjóri eins áhrifamesta dagblaðs landsins, gegndi æðstu trúnaðarstörfum íslenskrar íþróttahreyfingar og varð varaformaður Knattspyrnusambands Evrópu.

Á vellinum naut hann hreysti og atgervis, en í mannlífinu reyndi á mannkosti hans. Hann var vænn maður og sanngjarn, umhyggjusamur og ráðhollur. Það fundum við á ritstjórn DV er hann sá þar um starfsmannamál um árabil. Hann ávann sér trúnað og vinsældir allra sem þar leituðu til hans. Reyndar átti hann ætíð miklum vinsældum að fagna og naut persónufylgis alla tíð, í hvers kyns prófkjörum og kosningum. Framkoma hans og framsögn báru með sér að hann var hreinskiptinn og laus við hégóma, tilgerð og yfirlæti. Hann var og vildi vera „Eins og fólk er flest“ – en það var yfirskriftin á greinasafni sem kom út á bók eftir hann.

Ellert var góður stjórnandi því þar fór frábær fyrirliði – fremstur meðal jafningja. Hann hlustaði vel á aðra, var næmur á kosti manna og galla, hvatti sitt fólk til dáða, hældi þeim sem það áttu skilið og kunni að meta frumkvæði – með hliðsjón af samstilltri heild.

Þetta hárfína jafnvægi milli einstaklingsframtaks og samstilltrar liðsheildar er lykillinn að hvoru tveggja, góðu knattspyrnuliði og stjórnmálaskoðunum Ellerts. Hann unni frelsi og réttindum einstaklinga, en taldi það jafnframt ófrávíkjanlega skyldu samfélagsins að annast þá sem fara halloka í lífinu. Þetta var, hvort tveggja, sannfæring hans, alla tíð. Hann var frjálslyndur krati eins og svo margir aðrir sjálfstæðismenn og gat því allt eins verið á þingi fyrir Samfylkingu eins og Sjálfstæðisflokk.

Þegar Ellert hringdi og bar það undir mig hvort hann ætti að þiggja sæti hjá krötum spurði ég á móti hvað hann vildi sjálfur gera. En það var óþarfi: Hann var ekki vanur að sleppa góðum leik. Ég svaraði því að bragði: „Gerðu það sem þú vilt, Eddi minn! Þú skuldar Sjálfstæðisflokknum nákvæmlega ekkert!“

Síðast en ekki síst var Ellert sannur vinur – í blíðu og stríðu – þ. á m. Þórólfs Beck, uppáhaldsfrænda míns, sem lék með honum í gullaldarliðinu fræga. Við Ellert áttum, eins og feður okkar, samleið í KR, og síðan í SUS og loks á DV um langt árabil. Það var gott að eiga hann að. Áratuga vinátta hans var traust og einlæg og mér mikils virði.

Við Marta sendum Ágústu, börnum Ellerts og öðrum ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

Kjartan Gunnar
Kjartansson.

Í dag kveðjum við KR-ingar einn af okkar bestu mönnum.

Ellert hefur alla tíð verið mjög virkur í starfi KR sem og einn af okkar bestu stuðningsmönnum. Það er ekki langt síðan við sáum Ellert síðast á vellinum að hvetja sína menn áfram, þrátt fyrir veikindi sín var hann duglegur að mæta á Meistaravelli.

Ellert byrjaði ungur að æfa knattspyrnu með KR, og átti ekki langt að sækja áhugann, enda var faðir hans einn af bestu leikmönnum KR auk þess að gegna forystuhlutverki innan félagsins.

Það var fljótt ljóst að Ellert var mikið efni og varð hann strax lykilmaður í sínum aldursflokki. Í upphafi lék hann sem framherji og var mjög marksækinn. Fyrstu leiki í meistaraflokki lék hann 1957 og frá 1958 var hann fastur maður í einu sigursælasta liði sem KR hefur átt í fótboltanum, eða „gullaldarliðinu“. Ellert var lengst af fyrirliði meistaraflokks og var mikill keppnismaður sem þoldi illa að tapa, en hann var líka góður foringi sem hvatti menn stöðugt áfram og var góður félagi jafnt í blíðu sem stríðu.

Ellert varð fimm sinnum Íslandsmeistari með meistaraflokki og sjö sinnum bikarmeistari, er það met sem hann á enn með Bjarna Felixsyni félaga sínum. Auk þessa varð hann nokkrum sinnum Reykjavíkurmeistari, haustmeistari og sigurvegari í meistarakeppni KSÍ.

Ellert lék alls 272 leiki með meistaraflokki og skoraði í þeim 120 mörk, sem var lengi met fyrir KR. Í Íslandsmótinu voru leikir hans 126 og mörkin 62, sem var hvort tveggja met fyrir KR á sínum tíma og stóðu þessi markamet bæði til 2019.

Ellert lék líka 23 A-landsleiki og skoraði í þeim sex mörk og var hann fyrirliði í sex af þeim leikjum.

En Ellert lék ekki aðeins knattspyrnu fyrir KR. Árið 1965 var handknattleikslið KR í mikilli fallhættu. Þeir leituðu þá til Ellerts um að standa í markinu í þeim leikjum sem eftir voru, sem hann gerði og tókst, ásamt félögum sínum, að bjarga liðinu frá falli.

Ellert sat í stjórn knattspyrnudeildar KR 1960-1969, þar af sem formaður 1967-1969. Einnig þjálfaði hann meistaraflokk karla hjá KR sumarið 1973. Hann tók þá að sér að ritstýra 100 ára afmælisriti KR, „Fyrsta öldin“, ásamt ýmsum öðrum ritum.

Ellert gaf ekki bara af sér til KR heldur var hann öflugur bandamaður íslenskrar knattspyrnu hérlendis sem erlendis.

Hann var meðal annars formaður Knattspyrnusambands Íslands í 16 ár. Hann var í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu – UEFA í um níu ár, þar af sem einn af varaformönnunum 1984-1986. Loks var hann forseti Íþrótta- og ólympíusambandsins í alls 15 ár. Var hann vel liðinn alls staðar og höfum við í KR fengið kveðjur að utan frá samstarfsmönnum hans þar eftir að andlát hans var tilkynnt.

Ellert var kjörinn heiðursformaður KSÍ þegar hann lét af formannsembættinu árið 1989. Þá var hann útnefndur heiðursfélagi KR árið 2020.

Að leiðarlokum viljum við KR-ingar þakka Ellert fyrir samfylgdina, vináttuna og tryggðina við félagið. Við sendum fjölskyldu Ellerts innilegar samúðarkveðjur.

F.h. Knattspyrnufélags Reykjavíkur,

Þórhildur Garðarsdóttir, formaður KR.

Ungir sjálfstæðismenn boðuðu til aukaþings haustið 1968, þar sem opinskátt var rætt um hvernig draga mætti úr flokksræði og auka valddreifingu í Sjálfstæðisflokknum í ljósi hugmynda, sem birtust í kröfum ungs fólks austan og vestan Atlantsála undir merkjum svokallaðrar '68-hreyfingar. Það var í þessu andrúmslofti, sem við Ellert hófum ásamt fleirum náið samstarf í Sjálfstæðisflokknum til að gera breytingar sem þessar. Í september 1969 var Ellert kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Á landsfundi flokksins síðar um haustið fluttum við tillögur um að breyta kosningafyrirkomulagi til miðstjórnar til að draga úr valdi þingflokks og styrkja stöðu almennra flokksmanna. Fram að þessu höfðu nánast eingöngu starfandi alþingismenn verið kjörnir. Auk þess var ákveðið á þessum landsfundi að stefnt yrði að því að alla jafna væru framboðslistar valdir að loknum prófkjörum, þar sem allir flokksmenn gátu gefið kost á sér. Talsverðar deilur urðu um skipulagsbreytingarnar. Forystumenn flokksins voru lítt hrifnir af þeim, en urðu að játa sig sigraða í atkvæðagreiðslu á fundinum. Haustið 1970 fór fram prófkjör um skipan framboðslista flokksins í Reykjavík. Ellert B. Schram, ótvíræður forystumaður unga fólksins, gaf kost á sér, hlaut góða kosningu og var kjörinn á þing vorið 1971, þá yngsti þingmaðurinn 32 ára að aldri. Á þessum árum voru heimili okkar við sömu götu í gamla vesturbænum, börnin á svipuðu reki og mikil samskipti.

Ellert var endurkjörinn 1974 og 1978. Í prófkjöri 1979 hlaut hann öruggt sæti, en vegna mikillar óánægju með hlut fulltrúa verkalýðsarms flokksins í prófkjörinu bauðst hann til að hafa sætaskipti við Pétur sjómann Sigurðsson og fór í baráttusætið, en náði ekki kosningu. Hann varð ritstjóri Vísis og síðan DV, þegar Vísir og Dagblaðið sameinuðust. Ellert var aftur kosinn á þing 1983, en fékk ekki þau embætti, sem hann sóttist eftir í þingflokknum. Í kjölfarið ákvað hann að taka ekki þátt í nefndarstörfum og öðrum störfum á vegum flokksins. Hann var áfram ritstjóri á DV við góðan orðstír og hafði veruleg áhrif með skrifum sínum í blaðið. Ljóst var að Ellert taldi erindi sínu í Sjálfstæðisflokknum lokið um þessar mundir, en það var eftirspurn eftir honum víða annars staðar. Hann gekk í Samfylkinguna 2003 og var kosinn á þing 2007 eftir að hafa verið varaþingmaður tímabilið áður.

Ellert var eftirsóttur forystumaður á fjölbreyttum vettvangi. Mannkostir hans komu snemma í ljós og birtust hjá knattspyrnumanninum Ellert. Hann hafði sterkt sjálfstraust og mikið keppnisskap og þoldi illa að tapa. Hann lagði sig ávallt fram í því sem hann tók sér fyrir hendur og gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Hann var vinsæll og góður samstarfsmaður, hreinskilinn, velviljaður og hrókur alls fagnaðar í vinahópi. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt Ellert B. Schram að góðum vini.

Við Sigríður Dúna sendum Ágústu og fjölskyldunni allri samúðarkveðjur.

Friðrik Sophusson.

Í dag er kvaddur hinstu kveðju góður félagi minn og vinur, Ellert B. Schram heiðursforseti ÍSÍ.

Það má með sanni segja að íþróttir hafi haft mikil áhrif á allan hans lífsferil. Hann átti frábæran knattspyrnuferil bæði með félagsliði sínu KR og einnig með landsliði Íslands. Einnig átti hann farsælan og fjölbreyttan starfsferil, lengst af sem blaðamaður, ritstjóri, alþingismaður og í þágu íþrótta. Hann sinnti mörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sat á Alþingi bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna.

Ellert starfaði um áratuga skeið innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Hann var forseti ÍSÍ í 15 ár, frá árinu 1991 til 2006, og áður formaður KSÍ í 16 ár frá árinu 1973 til 1989. Með starfi sínu fyrir íþróttirnar hafði hann gríðarlega mikil jákvæð áhrif á íþróttastarfið í landinu. Ellert var sæmdur ýmsum heiðursviðurkenningum fyrir störf í þágu íþrótta, bæði hér heima og erlendis.

Ég kynntist Ellert fyrst á Íþróttaþingi ÍSÍ árið 1994 og var það upphafið að löngu samstarfi okkar og vináttu. Hann var alla tíð virkur í samskiptum við ÍSÍ og fylgdist vel með starfi sambandsins. Gat ég alltaf leitað til hans til skrafs og ráðagerða um málefni íþróttahreyfingarinnar.

Fyrir allmörgum árum stofnuðum við nokkrir félagar úr íþróttahreyfingunni golfhóp og hófum golfiðkun fyrir alvöru. Golfferðirnar urðu nokkrar þar sem við spiluðum golf yfir daginn og bridge á kvöldin. Þá var Ellert í essinu sínu og hrókur alls fagnaðar. Keppnismaðurinn Ellert dró ekki af sér í golfinu þótt á móti blési í bókstaflegri merkingu. Hann mætti líka manna best þótt hann væri elstur okkar félaganna. Hann kom sér upp golfsveiflu sem skilaði honum alltaf á braut. Fannst sumum í hópnum sem þetta hlyti að vera tilbreytingalaust og lítt skemmtilegt enda voru þeir sjálfir í náttúruskoðun út um víðan völl. Ellert lét slíka gagnrýni ekki á sig fá og hélt sínu striki.

Það var alltaf gaman í kringum Ellert. Hann var jákvæður og glaðsinna og átti auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á hlutunum. Þegar vel lá á honum þá runnu upp úr honum sögurnar, sem hann tók alltaf fram að væru „true story“ þótt fáir hafi kannski lagt trúnað á það. Ein frægasta sagan, sem hann sagði gjarnan á mannamótum, var af því þegar hann var eitt sinn að taka hornspyrnu í leik með KR og sá að nú þurfti að hafa mikið við. Tók hornspyrnuna og náði að hlaupa inn í teiginn og skalla sína eigin hornspyrnu í markið. Þetta þótti öllum sem á horfðu með miklum ólíkindum – að hans sögn.

Það verður sjónarsviptir að Ellert og ég er þakklátur honum fyrir hressandi og gefandi samfylgd. Þessi flugmælski og skemmtilegi maður, sem bar höfuðið hátt, hafði skoðanir á öllum hlutum og var traustur félagi, hefur nú sagt sína síðustu sögu. Við hin getum rifjað upp og glaðst yfir minningum okkar um lífskúnstnerinn Ellert B. Schram.

Fyrir hönd Íþrótta- og ólympíusambands Íslands færi ég Ágústu og fjölskyldu Ellerts innilegar samúðarkveðjur.

Lárus L. Blöndal,

forseti ÍSÍ.

Ellert B. Schram, fyrrverandi formaður KSÍ, lést 24. janúar síðastliðinn 85 ára að aldri. Íþróttahreyfingin og þá knattspyrnan sérstaklega átti hug og hjarta Ellerts og fékk að njóta starfskrafta hans um langt árabil.

Ellert átti farsælan feril sem knattspyrnumaður. Hann lék sem framherji fyrir KR frá 1957 til 1971, skoraði 62 mörk í efstu deild og var lengi markahæsti KR-ingurinn frá stofnun félagsins. Ellert varð Íslandsmeistari með KR fimm sinnum og bikarmeistari sjö sinnum, og var sæmdur titlinum knattspyrnumaður ársins fjórum sinnum. Hann var einnig hluti af íslenska landsliðinu frá 1959 til 1970 og lék 23 landsleiki þar sem hann skoraði sex mörk. Eftir að leikmannsferli hans lauk tók Ellert við sem þjálfari KR árið 1973.

Félagsstörfin voru Ellerti hugleikin og hann sat í stjórn knattspyrnudeildar KR 1960-69 og var formaður þar síðustu tvö árin. Ellert var formaður Knattspyrnusambands Íslands 1973-89 og forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands 1991-2006. Þá sat hann í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) 1982-86 og 1990-94, var einn af varaforsetum UEFA 1984-86 og gegndi áhrifastörfum þar allt til ársins 2010. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og gullmerki KR, var heiðursformaður KSÍ, heiðursforseti ÍSÍ og heiðursfélagi KR.

Þessi ferilskrá er auðvitað einstök, enda var Ellert um margt einstakur maður. Við minnumst hans og allra þeirra góðu verka sem hann vann fyrir íslenska knattspyrnu.

KSÍ minnist fallins félaga með hlýhug og vottar fjölskyldu og aðstandendum samúð.

Takk fyrir allt, Ellert. Hvíldu í friði.

Þorvaldur Örlygsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands.

Í dag kveðjum við góðan vin og samherja. Minningar um frelsi og leiki æskudaganna rifjast upp. Fótboltinn var langvinsælasta dægradvölin. Nær allir strákar á okkar aldri léku sér í fótbolta. Nóg var um auð og óbyggð svæði í Vesturbænum. Leðurboltar voru hins vegar ekki alltaf til taks, en nægur var áhuginn. KR var okkar félag. Þar hittumst við fyrst og fengum gott uppeldi. Skömmu síðar var félagssvæði KR, Meistaravellir, tekið í notkun og aðstaða til æfinga og félagsstarfa tók stórstígum framförum. Þar var okkar annað heimili. Eddi var tveimur árum yngri en undirritaðir. Við lékum saman í öllum yngri flokkum KR, en þó lengst í elsta aldursflokki, sem á góðum stundum er nefndur „gullaldarlið KR“. Vorum við sigursælir og margir titlar unnust. Samtals stóð þessi samvera og samvinna okkar í tæpa tvo áratugi. Þá var gaman að vera ungur og geta hlaupið og sparkað. Lífið var einfalt og lítið um áhyggjur.

Eddi Schram var mjög góður knattspyrnumaður, sem stundaði æfingar af kostgæfni og alúð. Hann var hláturmildur, léttur í lund og naut þess að spauga og glettast á góðri stund. Við minnumst ótal keppnis- og æfingaferða hvort sem farið var til Ísafjarðar, Akureyrar, Kaupmannahafnar, Liverpool eða upp á Skaga. í fótboltanum var Eddi gallharður keppnismaður og fór í alla leiki til að sigra. Hann var einbeittur og jafnan bestur þegar mest var undir. Síðustu árin okkar í boltanum kom í ljós að Eddi hafði til að bera meiri metnað og framsýni en við hinir. Hann vildi aukna ábyrgð, vera fyrirliði, taka vítaspyrnur og komast í stjórn deildarinnar og hafa þar áhrif. Greinilega að vera maður með mönnum. Þetta tókst honum allt, var m.a. formaður Knattspyrnudeildar KR, þegar hann var enn leikmaður.

Eddi Schram var ótrúlega kröftugur og dugmikill maður. Alltaf til í næstu áskorun og fleiri og fjölbreyttari verkefni.

Nú er okkar góði félagi allur. Hann átti í stríði við sorglegan og ömurlegan sjúkdóm. Eftir lifa minningar um einstakan KR-ing, sem alltaf var til í keppni og naut þess að takast á og berjast fyrir félagið sitt og framtíð íslenskrar æsku.

Með mikilli virðingu sendum við Ágústu og fjölskyldu Ellerts okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Heimir Guðjónsson og Sveinn Jónsson.

Höfðinginn er fallinn frá, leiðtoginn Ellert B. Schram, sem Íslendingar báru ómælda virðingu fyrir sökum heiðarleika, hnyttni og fagmennsku á hans fjölbreytta leikvelli. Ellert var andlit Knattspyrnufélags Reykjavíkur áratugum saman, síðar KSÍ, ÍSÍ og í raun fyrirliði á þeim vettvangi sem hann starfaði um ævina.

Ellert var ekki eingöngu brautryðjandi heldur fæddur sigurvegari, vann á annan tug titla með KR, markahæstur í sögu félagsins áratugum saman, sem miðvörður, og í fjögur skipti valinn knattspyrnumaður ársins.

Okkur í Val var ætíð hlýtt til Ellerts og það var gagnkvæmt. Þótt hann væri með sigurblóð KR í æðum leit hann á önnur félög sem jafningja og gerði ekki upp á milli manna. Öll samskipti félaganna, með hann í broddi fylkingar, voru á bróðurlegum og faglegum nótum. Einstakt vinarþel.

Knattspyrnufélagið Valur sendir Ágústu Jóhannsdóttur, eftirlifandi eiginkonu Ellerts, sem og afkomendum og vinum samúðarkveðjur vegna fráfalls þessa merka Íslendings.

Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Val,

Þorgrímur Þráinsson.

Ég held ég hafi fyrst heyrt um Ellert B. Schram þegar ég var í menntaskóla og hann var nýkjörinn þingmaður aðeins 32 ára. Það var eftir honum tekið hvar sem hann fór þó að hann væri ekki á mínu pólitíska litrófi enda afsprengi Vesturbæjaríhaldsins sem róttækri stelpu innan úr Vogum var fremur uppsigað við. Örlögin höguðu því hins vegar þannig að Malla systir hans varð mikil vinkona mín í Kvennaframboðinu og Veru. Um það leyti sem Malla var að stíga sín fyrstu skref í pólitíkinni með Kvennaframboðinu 1982 var Ellert að skella hurðum hjá Sjálfstæðisflokknum. Ekki datt mér þá í hug að við ættum síðar eftir að verða samferða í pólitíkinni.

Þegar ég varð borgarstjóri Reykjavíkurlistans 1994 lauk 60 ára nær samfelldu valdatímabili Sjálfstæðisflokksins í borginni. Þó að Ellert væri ekki lengur virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins þá rann honum blóðið til skyldunnar enda hafði hann verið skrifstofustjóri borgarverkfræðings og ýmsir Sjálfstæðismenn sem hann hafði starfað með í embættiskerfinu voru þar ennþá. Í Endurminningum Ellerts sem komu út árið 2020 kemur vel fram að hann tók út pólitískan og starfslegan þroska sem starfsmaður Geirs Hallgrímssonar sem hann mat mjög mikils. Hann gerði sér samt vel grein fyrir að breytinga væri þörf. Sjálfstæðisflokkurinn gæti ekki slegið eign sinni á borgina og haldið áfram að úthluta lóðum og gæðum eins og hann lýsir í endurminningum sínum. Hann var forseti ÍSÍ þegar ég var borgarstjóri og við áttum gott samstarf um málefni íþróttahreyfingarinnar og oft áhugavert spjall á KR-vellinum.

Fyrir alþingiskosningarnar 2003 tók ég að mér forystuhlutverk í Samfylkingunni og var forsætisráðherraefni flokksins og lagði áherslu á frjálslynt lýðræði og mikilvægi þess að ákvarðanir í pólitík og viðskiptum byggðust á sanngjörnum leikreglum en ekki liðsskiptingu. Þetta hafði hljómgrunn hjá Ellert eins og hann lýsir í endurminningum sínum og hann ákvað að hafa vistaskipti og ganga til liðs við Samfylkinguna. Hann varð varaþingmaður 2003 en datt svo öllum að óvörum inn á þing í kosningum 2007. Hann reyndist mér mjög vel í þeim ólgusjó sem braut á þingi og ríkisstjórn í hruninu 2008. Hann hafði bæði þá lífsreynslu og pólitísku reynslu sem þurfti við þessar aðstæður. Sjálf var ég að glíma við heilaæxli en vildi standa vaktina, kannski lengur en stætt var. Ég man sérstaklega eitt kvöld í lok október 2008 þegar Ellert tók af skarið og sá til þess að ég var send heim. Það var mikið gustukaverk.

Ellert var vissulega elsti og reyndasti þingmaður Samfylkingarinnar en hann var aldrei gamall. Alveg fram undir það síðasta var eitthvað strákslegt við Ellert, stríðnisglampi í augunum, göngulagið unglegt og glaðværð í fasinu. Ellert og Ágústa voru einstaklega glæsilegt par og það fór ekki fram hjá okkur Vesturbæingum þegar þau voru á ferðinni, lífsglöð, hláturmild og örlát. Ég kveð höfðingjann og þakka stuðning hans og vináttu. Við Hjörleifur sendum Ágústu, börnum hans og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur. Góður maður er genginn.

Ingibjörg Sólrún

Gísladóttir.

Það er mikill sjónarsviptir að Ellerti B. Schram, fyrrverandi ritstjóra, alþingismanni og forseta ÍSÍ. Hans má raunar minnast með mörgum fleiri titlum því ferill hans sem íþróttamaður, forystumaður og þátttakandi í þjóðlífinu var magnaður og einstakur. Ég kynntist Ellerti fyrst þegar hann var ritstjóri DV og réð mig tvítugan sem sumarstarfsmann á DV. Alltaf síðan var milli okkar strengur sem aldrei slitnaði. Ég kynntist þar ekki aðeins frábærum blaðamanni heldur frjálslyndum, víðsýnum og sértaklega brosmildum mannvini. Og raunar líka knattspyrnumanninum, því eitt hádegi í viku fórum við starfsmennirnir í fótbolta á gervigrasið í Laugardal. Þar eins og í svo mörgu öðru var hann kóngur á vellinum.

Við Ellert endurnýjuðum kynnin þegar ég var kominn í borgarmálin en hann helgaði íþróttahreyfingunni að mestu krafta sína. Í honum bjó þó alltaf þessi ríki áhugi á almannahag og þetta pólitíska blik í auga. Einhverju sinni hittumst við fyrir tilviljun á flugvelli í London. Þar vorum við báðir að millilenda. Talið barst að aðdáun Ellerts á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hann var Evrópusinni og harður á því að þjóðin ætti að njóta miklu ríkari arðs af fiskveiðiauðlindinni. Hann hafði tekið eftir því að Ingibjörg Sólrún hafði fært borgina til nútímans og aflagt gamaldags úthlutunarkerfi og innleitt faglegt stjórnkerfi og þjónustu í staðinn. Mér fannst hann kominn á framboðsbuxur. Ég hafði milligöngu um að þau töluðu saman eftir að heim var komið og niðurstaðan var að Ellert fór í framboð og náði sæti á Alþingi Íslendinga fyrir Samfylkinguna, þar sem hann hafði áður setið fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Leiðir lágu einnig saman síðar þegar Ellert tók að sér að minni beiðni að leiða vinnu og leggja grunn að sýn og aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar varðandi heilsueflingu aldraðra, íþróttir og lýðheilsu eldra fólks. Hann var þá orðinn forystumaður í samtökum eldri borgara í Reykjavík. Þetta var tímamótastarf og tillögur sem meðal annars leiddu til þess að nær öll hverfaíþróttafélög borgarinnar eru nú með öflugt starf fyrir eldri borgara. Þannig liggja víða gæfusporin eftir Ellert.

Þrátt fyrir fortíð sína í Sjálfstæðisflokknum upplifði ég Ellert alltaf sem klassískan frjálslyndan jafnaðarmann. Hann fékk ýmsar kveðjur frá sínum gömlu félögum, sjálfsagt ekki allar fagrar, en hann hóf sig yfir það allt. Hann kenndi okkur líka að pólitík er hópíþrótt og það skiptir máli að styðja við forystufólkið og standa saman. Það var þyngra en tárum tæki að sjá á bak Ellerti inn í hinn erfiða sjúkdóm sem alzheimer er. Ágústa og fólkið hans hlúði vel að honum og ég votta henni og fjölskyldunni og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Mér er eftirminnilegt síðasta skiptið sem ég heimsótti Ellert, til að gefa honum bók. Eins og áður var stutt í brosið og blik í auga – hin mannlega reisn var líka hin sama þótt ljóst væri að hinn grimmi sjúkdómur væri kominn með yfirhöndina. Með Ellerti er sannarlega góður maður genginn. Blessuð sé minning Ellerts B. Schram.

Dagur B. Eggertsson.

Ellert B. Schram, heiðursforseti ÍSÍ, vinur minn og samstarfsmaður til yfir 35 ára, er látinn eftir erfið veikindi. Með Ellert er horfinn einn fremsti og öflugasti íþróttaforystumaður Íslands frá upphafi skipulagðs íþróttastarfs. Ellert hafði gríðarmikil og djúpstæð áhrif á þróun og uppbyggingu íþróttahreyfingarinnar í íslensku samfélagi á þeim langa tíma sem hann helgaði hreyfingunni starfskrafta sína. Hann breytti stefnu íþróttahreyfingarinnar, stærstu fjöldasamtaka Íslands, gerði hana sterkari, öflugri og áhrifaríkari í íslensku samfélagi. Setti á dagskrá ný mál og stefnur, stóð að sameiningu Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands, barðist fyrir stofnun Íslenskrar getspár og kom fram sem sterkur fulltrúi íþróttahreyfingarinnar hérlendis og erlendis. Svo ekki sé talað um alþjóðleg störf hans á vegum FIFA og UEFA. Eða stjórnmálavafstur og störf fyrir eldri borgara.

Upp í hugann streyma minningar og þakklæti fyrir samferðina með þessum góða dreng. Foringi, fyrirliði, leiðtogi, keppnismaður, gleðigjafi, sprellari, brosmildur, kurteis, glöggur, heiðarlegur, vingjarnlegur, traustur, áreiðanlegur og skemmtilegur, stundum smá prímadonna. Allt eru þetta lýsingar á vini mínum og samferðamanni. Milli okkar skapaðist gegnheilt traust og vinátta sem hélst alla tíð. Fyrir það er þakkað. Við spiluðum golf reglulega, fórum í golfferðir og stofnuðum ásamt félögum okkar golfhóp íþróttaforystumanna sem enn starfar af krafti.

Ellert var gæfumaður í lífinu. Hann var stoltur af Ágústu konu sinni, börnum og afkomendum. Og nú er þessi öðlingur horfinn til austursins eilífa eftir farsælt og gott lífsstarf. Íþróttahreyfingin hefur misst einn af sínum allra bestu sonum. Fyrir öll hans góðu störf og vináttu vil ég þakka. Ég sendi elsku Ágústu og fjölskyldunni allri einlægar samúðarkveðjur. Megi minning hans lifa.

Stefán Snær Konráðsson.

Í dag kveð ég mikinn foringja, vin og golffélaga.

Leiðir okkar lágu saman í íþróttahreyfingunni, þar sem við sátum saman í stjórn Íþrótta- og ólympíusambandsins og nutum forystu hans til margra ára. Ég læt öðrum eftir að rekja öll hans afrek á vettvangi íþrótta, ritlistar og stjórnmála.

Fljótlega fundum við sameiginlegt áhugamál í frístundum – golfið. Við spiluðum fyrsta hringinn saman í Sydney á Ólympíuleikunum árið 2000, og síðan fjölgaði stundunum á golfvöllunum. Stuttu eftir aldamót í kjölfar 50 ára afmælis míns stofnuðum við ásamt Stefáni og Lárusi golfhóp íþróttaforystumanna, og spilum við enn saman nánast vikulega yfir sumarið. Í hópnum vorum við flestir sextán, og nú er Ellert sá fjórði sem kveður.

Ellert var einnig hluti af tveimur öðrum golfhópum sem ég tilheyrði, Kóngum & gosum og Blautum piltum, og ber ég kveðju þeirra. Í fyrstu var hann varamaður, en það átti ekki vel við hann – það hafði hann aldrei verið! Fljótlega varð hann fullgildur liðsfélagi sem átti betur við hann.

Við fórum saman í ótal ferðir, bæði innanlands og erlendis, og vorum alltaf herbergisfélagar – nema þegar Ágústa var með. Ein eftirminnilegasta ferðin var til Oliva Nova í góðra vina hópi, þar sem við fögnuðum 70 ára afmæli Ellerts. Margar góðar minningar koma upp í hugann við þessi tímamót. Golfhringjunum fækkaði eftir að veikindi hans fóru að há honum, en hann mætti þó enn á svokallaða töflufundi lengi vel, jafnvel eftir að hann var kominn á Sóltún.

Mörg gullkorn féllu á þeim fjölmörgu stundum sem við áttum saman. Eitt sinn, þegar við vorum erlendis, spurði ég hann hvers vegna hann heilsaði öllum sem hann hitti – sérstaklega konum. Hann svaraði: „Þá er ég málkunnugur viðkomandi næst þegar við hittumst.“

Ellert var alltaf hress, kátur og með mikið keppnisskap. Okkur kom alltaf mjög vel saman, enda létum við stjórnmál alveg vera utan umræðunnar!

Elsku Ágústa, börn og barnabörn – megi Guð gefa ykkur styrk á þessari stundu.

Örn Andrésson (Öddi).

Ætli ég hafi ekki verið níu eða tíu ára þegar ég byrjaði að lesa forystugreinar Ellerts B. Schram í DV og laugardagspistlana sömuleiðis, auk þess sem ég seldi blaðið og bar út til áskrifenda. En það var ekki fyrr en löngu seinna sem ég gerði mér grein fyrir því hversu mótandi áhrif þessi skrif höfðu haft á skoðanir mínar um mikilvægi lýðræðis, mannréttinda, opins og frjáls þjóðfélags.

Ég svaraði að sjálfsögðu undir eins játandi þegar ég var fyrir fáeinum árum beðinn um að skrá endurminningar Ellerts. Þær komu út á bók fyrir jólin 2020. Mánuðina á undan höfðum við Ellert setið löngum stundum vestur í Sörlaskjóli og rifjað upp gamla tíma. Oftar en ekki var Ágústa Jóhannsdóttir með okkur, hin góða og glæsilega kona Ellerts.

Í stjórnmálunum var Ellert boðberi nýrra tíma. Hann gat þess einhverju sinni í laugardagspistli í DV að frelsisbaráttan ætti ekki að beinast eingöngu að frjálsum markaði, peninga- og viðskiptafrelsi heldur einnig því að losa menn úr viðjum þröngsýni – ekki væri minna vert um frelsi hugans.

Ágústu og afkomendunum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Ellerts B. Schram.

Björn Jón Bragason.

Hann var ekki hár í loftinu þegar hann flutti í Sörlaskjól 1 og var einnig með lágvaxnari nemendum í 8 ára B í Melaskóla, en það kom ekki að sök, hann var fastur fyrir, félagslyndur og fljótur að kynnast. Ekki leið á löngu áður en við ákváðum að stofna spilaklúbb. Í fyrstu spiluðum við vist. Þrír okkar áttu foreldra sem spiluðu bridge og beindu okkur fljótlega í þá áttina. Varamaður í klúbbnum var Aldís, móðir Ellerts. Hún kenndi okkur Vínarkerfið og nokkrar sagnir að auki. Það var glatt á hjalla þegar hún var með og gaman að spila við hana. Þessi spilaklúbbur starfaði í 70 ár.

Við ákváðum að slíta honum er við urðum 79 ára. Þá voru reyndar tveir af fimm fallnir frá. Ellert var potturinn og pannan allan tímann. Klúbburinn stundaði einnig veiðiskap, vor og haust, ferðaðist saman innanlands og utan. Fórum meðal annars á Wembley, þar sáum við við hve vel kynntur Ellert var í Evrópuboltanum.

Þegar við fermdumst var Ellert ennþá lágvaxnastur í hópnum en upp úr því flaug hann fram úr okkur í vexti og varð fljótt með hávaxnari mönnum.

Um pólitík var bannað að tala í klúbbnum, verður því að leita annað í þeim efnum.

Við sem tórum þökkum Ellert fyrir samfylgdina, stofnum ef til vill klúbb hinum megin.

Ágústu og fjölskyldu Ellerts þökkum við skemmtileg kynni í gengum tíðina og færum við þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Haukur Filippusson,

Reinhold Kristjánsson.

Við njótum fjársjóðs minninga þegar minnst er okkar góða vinar, Ellerts B. Schram. Á langri ævi, þar sem starf hans var gjöfult og margt, nutum við samvista og liðsinnis hans. Alla tíð batt galdrataug knattspyrnunnar okkur saman innan sem utan vallar, þar sem drengileg keppni fléttaðist vináttu og einstaklega traustu samstarfi. Ellert var fæddur foringi, sem gekk fram af drengskap, góðum vilja og elju í öllum þeim merku málum sem hann kom að á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Hann markaði mikilvæg og djúps spor í sögu knattspyrnunnar og við þökkum fyrir þá einstöku samleið vináttu og samstarfs sem við áttum þar. Af Skaganum sendum við samúðarkveðju og minnumst Ellerts með djúpri virðingu. Megi orðstír og afrek vinar okkar lifa og minning hans skína björt.

Gunnar Sigurðsson,

Gísli Gíslason,

Jón Gunnlaugsson.

Ellert B. Schram, fyrrverandi ritstjóri Vísis, er allur.

Við kynntumst fyrst þegar hann var ritstjóri dagblaðsins Vísis, kringum 1980. Var það í byrjun ferils míns sem dagblaðarithöfundur. Reyndist honum þá ljúft að kaupa af mér aðsendar skoðanagreinar um menn og málefni og birta þær sem kjallaragreinar. Þótti mér þá ljúft að hitta þennan brosmilda, unglega og uppörvandi ritstjóra, sem var svo opinn fyrir að gefa mér, yngri menntamanna-rithöfundi, tækifæri, en hann var rúmum áratug eldri. Ekki mun honum hafa þótt verra að við vorum báðir sjálfstæðismenn!

Ég hélt síðan áfram að skrifa í það blað og arftaka þess, DV, á árunum 1980-1996 og fannst mér þá að hans uppörvandi persónuleiki héldi áfram að vera einn af uppörvandi leiðarsteinunum í lífi mínu!

Í þá daga var ég þegar að verða listfengt ljóðskáld. Ellerti hefði víst þótt að dæmigert viðfangsefni frá mér endurómaði í nýlegra ljósi frá mér ef hann gæti nú séð ljóð mitt um stríðs-óróatíma nútímans. En það ljóð nefnist: Prímatarnir stríðsóðu, og vil ég nú þakka mín góðu kynni við hann með því að birta niðurlag þess hér:

Og nú er að gerast líkt í
mannheimum

er Nató endurþéttir hringinn sinn

utan um aðskotahring Rússlands

er stefnir á hringdansleikinn í
Úkraínu!

Og við, gömlu karlaparnir,

spennum eyrun, taugarnar,

og endurupplifum óöryggi kalda
stríðsins!

„Friði var ei skapað nema að
skilja.“

Tryggvi V. Líndal.