Ragnar J. Jónsson fæddist 4. janúar 1937. Hann lést 9. janúar 2025.
Útför fór fram 21. janúar 2025.
Lífsbók Ragnars Jónssonar hefur verið lokað.
Við Ragnar kynntumst á níunda áratug síðustu aldar í starfi á vettvangi handknattleiksdeildar FH.
Við fyrstu kynni skynjaði maður að þar fór maður sem talaði um handknattleik af þekkingu. Hann hafði verið máttarstólpi í FH-liði Hallsteins Hinrikssonar sem lagði grunn að glæstum sigrum FH. Á þeim tíma var hann í landsliði Íslands sem lék á stóra sviði handboltans. Mjög líklega hefði Ragnar í dag haslað sér völl utan landsteinanna sem leikmaður – slíkir voru hæfileikarnir.
Á níunda áratugnum tók Ragnar við þjálfun meistaraflokks kvenna í FH og gerði að Íslands- og bikarmeisturum. Margar þeirra urðu landsliðskonur.
Við fyrstu kynni var Ragnar stríðinn, skoðanafastur og ekki allra. Þegar komið var inn fyrir skelina var þar mjúkur og hjálplegur maður. Ég og mín fjölskylda nutum þess og í dag er þakkað fyrir ánægjuleg kynni. Með árunum urðu samskiptin minni – en góðar minningar eru frá þeim tíma.
Ég sendi Guðrúnu, Bergþóru, Jóni Erling, tengda- og barnabörnum samúðarkveðjur.
Genginn er góður félagi.
Egill Bjarnason.