Oddný Dóra Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 13. október 1930. Hún lést 25. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru Jón Leví Guðmundsson gullsmiður í Reykjavík, f. 27. janúar 1889 í Tungu á Vatnsnesi í V-Húnavatnssýslu, d. 17. mars 1941, og Magnea Lára Magnúsdóttir, f. 11. mars 1903 í Reykjavík, d. 24. júlí 1992.

Systkini Oddnýjar Dóru: Helga, f. 5. ágúst 1935, maki Hilmar Haraldsson, f. 12. september 1935, d. 31. desember 2014; Sigurður, f. 30. október 1939, d. 16. janúar 2006, maki Sigríður Oddsdóttir, f. 11. júlí 1945.

Oddný Dóra giftist eiginmanni sinum, Þóri H. Konráðssyni, hinn 6. júní 1953. Oddný Dóra og Þórir eignuðust einn son, Konráð, f. 4. október 1956, d. 11. september 2007. Eiginkona hans var Vala Dröfn Hauksdóttir, tæknifræðingur og rafeindavirkjameistari. Foreldrar Völu eru Haukur Eggertsson, f. 24. ágúst 1934, d. 3. júní 2019, og Herdís Þorsteinsdóttir, f. 9. júní 1943. Konráð og Vala eignuðust eina dóttur, Oddnýju Þóru, f. 31. júlí 2001. Unnusta Oddnýjar Þóru er Auður M. Hafsteinsdóttir.

Oddný Dóra starfaði allan sinn starfsferil við bókhald og fjármálastjórn. Meðal annars hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Vélabókhaldinu frá 1979 til 1986, Raftækjaverslun Íslands 1986 til 1992 og síðustu ár starfsævinnar sem fjármálastjóri hjá Fasa fötum frá 1992 til 2004.

Oddný Dóra gekk til liðs við oddfellowstúku nr. 1, Bergþóru, árið 1976 og var því búin að vera félagi í Oddfellow í rétt tæp 49 ár þegar hún lést. Einnig var hún félagi í kvenfélaginu Keðjunni.

Útför Oddnýjar Dóru fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 7. febrúar 2025, klukkan 13.

Sumarið 1994 varð örlagasumar í mínu lífi, þá kynntist ég honum Konráð sem síðar varð eiginmaður minn. Og þá kynntist ég líka henni Oddnýju Dóru tengdamömmu minni sem meðal ættingja og nánustu vina var ávallt kölluð Obba. Brosmild, stutt í hláturinn, ákveðin og alveg bálskotin í honum Þóri sínum. Hún varð fljótt viss örlagavaldur í mínu lífi. Það var hún sem benti mér um haustið á atvinnuauglýsingu frá Eimskip og hvatti mig til að sækja um á vettvangi sem mér hafði bara aldrei dottið í hug að stefna inn á eða inn á tölvubrautina. Um svipað leyti benti hún okkur Konna á að íbúð væri til sölu í Goðatúni og hvatti okkur til að skoða og kaupa því það væri mun meira vit en að fara á leigumarkaðinn. Báðar þessar ábendingar Obbu skiluðu okkur Konna miklu; ég fékk vinnu hjá tölvudeild Eimskips og við keyptum íbúðina í Goðatúni.

Eftir að íbúðarkaup voru ákveðin þá sagði ég upp leiguíbúðinni og flutti í Aratúnið til Obbu, Þóris og Konna. Það átti bara að vera í örfáar vikur en varð í nokkra mánuði því það þurfti að gera örlítið meira en að mála í íbúðinni litlu. Þá kynntist ég Obbu enn betur. Komst til dæmis að því að matur klukkan sjö þýddi að þá var byrjað að elda, og á meðan voru allir inni í eldhúsi að spjalla um daginn og veginn, en ekki að maturinn væri tilbúinn klukkan sjö. Obba hafði gaman af því að elda og gefa fólki að borða. Hún var með sótsvartan húmor en fór vel með hann, ráðagóð og alltaf tilbúin í spjall um allt og ekkert. Fylgdist af áhuga með því sem var að gerast hjá okkur skötuhjúunum.

Eftir að Þórir dó árið 2003 ákváðum við að kaupa hús með möguleika á tveimur íbúðum. Við Konni sáum auglýst raðhús á Móaflöt, fórum að skoða og leist vel á. Hringdum í Obbu, sem var nýfarin í eitthvert ferðalag um landið, og sögðum henni af þessu. „Gerið bara tilboð,“ sagði hún, sem við gerðum og því var tekið. Hún flutti til okkar á Móaflötina í mars 2004 eftir að búið var að standsetja íbúðina fyrir hana. Hún naut sín vel í sambýlinu og við nutum góðs af því, ekki síst hún Oddný Þóra sem gat alltaf tölt yfir til ömmu.

Obba lagðist í ferðalög eftir að hún var flutt á Móaflötina. Hún hafði unun af því að ferðast, kynnast nýjum stöðum, prófa eitthvað nýtt, sjá eitthvað nýtt. Og ekki má gleyma innanlandsferðunum með Helgu og Siggu en hún var rúmlega níræð þegar sú síðasta var farin.

Það var henni mikið áfall þegar einkasonur hennar, Konráð, féll frá 2007 en við stelpurnar þrjár á Móaflötinni studdum hver aðra áfram í lífinu og stóðum af okkur alla þá storma og óvæntu sendingar sem til okkar komu.

Haustið 2022 varð hún fyrir því óhappi að lærbeinsbrotna og náði sér ekki almennilega á strik eftir það hvað hreyfigetu varðar. Hún náði að búa áfram heima fram í febrúar 2024 en þá fékk hún pláss á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ. Áfram var fylgst með fréttum og því sem var að gerast hjá hennar nánustu.

Hvíl í friði Obba mín, takk fyrir þessi rúmlega 30 ár saman.

Vala Dröfn Hauksdóttir.

Oddný Dóra Jónsdóttir, góð vinkona okkar, hefur kvatt þetta líf. Kynni okkar hófust þegar við réðum hana sem sem bókara í fyrirtækinu okkar Fasa-Fötum ehf. 1993. Oddný var þá komin af léttasta skeiði, orðin 62 ára, en bjó yfir mikilli þekkingu í bókhaldi og umsýslu með fjármálum eftir margra ára reynslu á þessum vettvangi. Þetta fannst okkur rétt ákvörðun, enda starfaði hún hjá okkur vel fram yfir sjötugt. Hún reyndist mjög farsæll starfsmaður og var dugleg að tileinka sér nýjungar. Samstarf við endurskoðanda fyirtækisins var mjög gott, skilaði hún gögnum til hans yfirleitt villulaust og hún fékk mikið hrós frá endurskoðandanum fyrir sína vinnu. Oddný var gift afskaplega notalegum manni, Þóri Konráðssyni vélstjóra og skipaeftirlitsmanni, og var samband þeirra alveg einstakt, svo eftir var tekið. Sem dæmi þegar Þórir hringdi og til að ná í Oddnýju leyndi sér ekki hvað sambandið var innilegt og gott og þau smituðu hreinlega umhverfi sitt, þar með okkur, með jákvæðum straumum. Þórir lést í mars 2003. Oddný og Þórir áttu einn son, Konráð, sem lést fyrir aldur fram haustið 2007. Hún var búin að koma sér upp lítilli notalegri íbúð með syni sínum og tengdadóttur, Völu Dröfn Hauksdóttur, og nöfnu sinni Oddnýju Þóru. Hún var dugleg að nýta sér það sem boðið var upp á fyrir eldri borgara og fékk þjálfun í að mála mjög fallegar myndir. Eftir að Oddný hætti störfum hjá okkur vorum við í óreglulegu sambandi en þó alltaf eitthvað, en eingöngu í síma í covid-faraldrinum. Við heimsóttum Oddnýju síðast í nóvember þegar hún var komin inn á Hjúkrunarheimilið Ísafold í Garðabæ. Þar leið henni vel og var búin að gera notalegt í kringum sig. Yndislegt að vita af henni þar í góðum aðstæðum. Takk, kæra Oddný, fyrir allt.

Blessuð sé minning heiðurskonunnar Oddnýar Dóru Jónsdóttur.

Ásbjörn Björnsson og Kristín Guðnadóttir.