Kristinn Lund fæddist í Nýhöfn á Melrakkasléttu 11. apríl 1948. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 27. janúar 2025.
Foreldrar hans voru Árni Pétur Lund, bóndi í Miðtúni, f. 1919, d. 2002, og Helga Sigríður Kristinsdóttir, húsmóðir í Miðtúni, f. 1921, d. 2007. Bræður Kristins eru Maríus Jóhann Lund, f. 1946, Níels Árni Lund, f. 1950, Benedikt Lund, f. 1952, Sveinbjörn Lund, f. 1955, og Grímur Þór Lund, f. 1961. Samfeðra Kristni var Árni Pétursson, f. 1938, d. 2013.
Kristinn giftist eiginkonu sinni, Guðnýju Kristínu Guttormsdóttur, f. 18. júní 1952 í Marteinstungu, 28. janúar 1973. Foreldrar hennar voru Guttormur Ármann Gunnarsson, f. 1913, d. 2009, og Elke Gunnarsson, f. 1931, d. 2024.
Börn þeirra eru fjögur: 1) Ármann Einar Lund, f. 1972, giftur Sigríði Láru Guðmundsdóttur, f. 1975. Börn þeirra eru Óskar Gauti, Hekla Kristín og Snorri Sveinn. 2) Helga Kristinsdóttir Lund, f. 1975, gift Tómasi Inga Tómassyni, f. 1969. Börn þeirra eru Ruth, Andreas Alex og Lúkas Leó. 3) Auðunn Guðni Lund, f. 1989. 4) Guðrún Lund, f. 1992, gift Max Hopkins, f. 1994.
Kristinn hóf skólagöngu í Núpasveitarskóla 1956 en 14 ára gamall fluttist hann til Reykjavíkur og gekk í Vogaskóla þar sem hann lauk landsprófi. Hann gekk í Menntaskólann á Akureyri og lauk námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Samhliða námi hóf hann störf hjá Sjávarafurðadeild SÍS og vann þar alla sína starfsævi þótt nafn og rekstrarform fyrirtækisins tæki nokkrum breytingum. Hann starfaði meðal annars sem framkvæmdastjóri fjármála um árabil.
Útför Kristins verður gerð frá Seljakirkju í dag, 7. febrúar 2025, klukkan 13.
Elsku pabbi, takk fyrir allt.
Pabbi ólst upp í Miðtúni á Melrakkasléttu og þaðan átti hann margar ljúfar minningar. Þegar hann hóf háskólanám í Reykjavík hófst nýr og fallegur kafli í lífi hans þegar hann kynntist ástinni í lífi sínu, henni mömmu. Þau voru samstiga í gegnum lífið, miklir vinir og óaðskiljanleg í 53 ár.
Heimili þeirra var sannarlega hjarta fjölskyldunnar. Pabbi byggði húsið í Kleifarseli 53 sjálfur af natni og alúð, enda skipulag og framkvæmdir hans hjartans mál. Við systkinin ólumst þar upp við frelsi, hlýju og kærleika. Sveitalífið var þó aldrei fjarri. Við dvöldum oft í Marteinstungu, bænum þar sem mamma ólst upp. Pabbi var óþreytandi við að leggja þar hönd á plóg – byggja, heyja, slátra, setja niður kartöflur og taka þátt í réttum. Fyrir okkur börnin var það ómetanlegt að fá að upplifa sveitina með honum, læra af þekkingu hans og njóta þess að vinna við hlið hans. Hann var alveg sérstaklega lausnamiðaður og nýtinn.
Þó að pabbi hafi verið óþreytandi til verka, þá gaf hann okkur líka dálítið enn dýrmætara, tíma sinn. Hann hlustaði af einlægni, hvatti okkur áfram og sýndi okkur hversu miklu við skiptum hann. Fyrir okkur systkinin var hann ofurhetja – gáfaður, ósérhlífinn og ávallt tilbúinn að rétta hjálparhönd, alltaf með hlýju og þolinmæði.
Það hefur ekki síður verið gott að leita til pabba eftir að við urðum fullorðin. Hann hjálpaði okkur öllum við húsframkvæmdir, stórar sem smáar. Eftir að barnabörnin komu var hann líka alltaf tilbúinn til að dekra við þau. Þau kölluðu hann „afa ís“ því hann átti alltaf ís í stóru frystikistunni sinni. Hann sýndi þeim ómælda þolinmæði og var alltaf til í ævintýri með þeim.
Pabbi var mikill sögumaður og hafði gaman af því að fræða okkur um ættina sína, sveitalíf og atburði líðandi stundar. Hann hann var skarpur stærðfræðingur og hafði sérstakan áhuga á útreikningum í tengslum við kosningakerfi landsins. Hann missti helst aldrei af fréttatíma og fyrir tíma netsins var hægt að treysta á að hann fylgdist með veðurhorfum í þeim landshluta sem við héldum okkur hverju sinni.
Við fórum í margar minnisstæðar ferðir saman, bæði innanlands og utan. Pabbi naut íslenskrar náttúru og þekkti landið vel, enda voru þau mamma dugleg að flakka um með tjaldið og síðar tjaldvagninn. Hann undi sér líka svo vel í sumarbústaðnum í Skorradal, þar nutum við margra samverustunda – sigldum á báti, tíndum ber, og busluðum í heita pottinum. Og hann hélt góðum tengslum við Melrakkasléttuna, fór með okkur á sjó þar, kenndi okkur að tína fjallagrös og að þekkja örnefnin. Þá eru þær óteljandi utanlandsferðirnar sem voru farnar, bæði fjölskyldan en líka þau tvö, mamma og hann, að skoða heiminn, framandi slóðir og fjarlæg lönd.
Elsku pabbi, takk fyrir allt. Þú kenndir okkur að vera dugleg, að standa okkar plikt og treysta á okkur sjálf. Þú varst alltaf þakklátur og stoltur, og við fundum vel hversu mikið þú elskaðir okkur öll. Minningarnar um hlýju þína, styrk og kærleika munum við varðveita vel.
Lengri grein má finna á
www.mbl.is/andlat
Ármann, Helga,
Auðunn og Guðrún.
„Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta.
Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið.
En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins.
Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.“
(Kahlil Gibran)
Sorgin og söknuðurinn breytist í hlýjar minningar með tímanum.
Kveðjum þig með hlýhug og söknuði, elsku tengdafaðir og afi.
Tómas Ingi Tómasson, Ruth Tómasdóttir,
Andreas Alex Tómasson
og Lúkas Leó Tómasson.
Forréttur; heill, heitur sviðakjammi með rófustöppu – og í beinu framhaldi heilsteikt lambalæri með tilheyrandi sósu og sultutaui og þá eftirréttir í fleirtölu. Það var kvöldverðarboð hjá Kristni og Guðnýju fyrir Miðtúnsbræður og eiginkonur. Svo voru sögur að norðan kryddaðar með eftirhermum og viðbótum; gerðar sagnhæfar. Að ári var veisla hjá þeim næsta.
Gerð er grein fyrir lífshlaupi Kristins á öðrum stað sem óþarft er að endurtaka.
Við bræður töldum það gæfu okkar að alast upp á gagnheilu og vinmörgu heimili við fjölbreytt sveitastörf; lærðum að halda á hamri, gera við dekk, fara í göngur, vaka yfir lambám og hjálpa til við burð, leggja net og gera að fiski sem og að slátra fé og verka kjöt. Allt notadrjúgt nám á lífsins vegi. Okkur fylgdi hávaði og læti en móðir okkar þoldi illa þegar einhver talaði um óþægð í sonum sínum. Hún gerði nefnilega mikinn mun á hávaða og óþægð. Aldrei – ég segi og skrifa aldrei – kom það fyrir að við segðum nei við foreldra okkar – „ef þú getur gert það sem beðið er um skaltu segja já og gera það strax“ var mottó þeirra.
Kristinn var hæverskastur af okkur en til í allt, líka ólæti. Fyrir þremur árum leystist 65 ára gömul gáta. Gífurleg sprenging varð niðri á sjávarmölum fjarri húsum en hávaðinn slíkur að fullorðnir töldu helst um að ræða ketilsprengingu í togara. Einhverjir töldu víst að við strákarnir ættum hlut að máli en þegar í ljós kom að Ninni hefði verið að leika sér niðri í Sandvík gekk sú kenning ekki upp. Sum sé: ég var grunaður en engum datt Kristinn í hug, en það var einmitt hann og Benni bróðir sem höfðu náð í mikið púður; Kristinn lagði þráðinn og kveikti í.
Kristinn var handlaginn og ódeigur við að fara í hvaða verk sem var; smíða, múra, leggja rafmagn og hvers konar viðgerðir. Húsi sínu og sumarbústað hélt hann mjög vel við og einhvern veginn gekk gamli Izusu-jeppinn hans alltaf. Í hann tróð Kristinn endalaust. Eitt sinn voru þau hjón á leið norður og Guðný settist upp í jeppann þegar Kristinn kom með heila steypuhrærivél og bætti við ofan á farangurinn – eða svo segir sagan og fellur vel að atorku Kristins.
Mörg ár spilaði Kristinn bridge við gamla skólafélaga sem heimsóttu hann eitt sumarið í Miðtún. Kristinn mat óendanlega æskuslóðir sínar og gat endalaust rifjað upp atvik – fólk og sagnir sem tengdust Sléttunni.
Í janúar 1973 áttu mamma og pabbi leið til Reykjavíkur og sjálfsagt að nýta þá ferð. Guðný og Kristinn ákváðu að gifta sig og skíra frumburðinn og ekki var eftir neinu að bíða hjá okkur Kristjönu og 28. janúar leiddum við brúðir okkar til altaris í Neskirkju – bræðrabrúðkaup – og nú 52 hamingjurík ár að baki. Eitt sinn fórum við saman í Húsafell og gistum í tveimur tjöldum. Um nóttina kom Kristinn með dúnsæng og lagði yfir mágkonu sína sem þá skalf svo úr kulda að Kristinn heyrði í henni yfir í næsta tjald. Svona var Kristinn og þetta vinarbragð gleymist ekki.
Við vottum Guðnýju og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð. Guð blessi þig Kristinn minn um alla eilífð.
Níels Árni og Kristjana.
Mánudagsmorgun þann 27. janúar varð bróðir minn, Kristinn Lund, bráðkvaddur á heimili sínu í Kleifarseli, 77 ára gamall. Heilsufar Kristins hafði verið á niðurleið síðustu ár, en enginn átti von á að endalokin væru svona nærri.
Kristinn var fæddur og uppalinn á Melrakkasléttu og næstelstur okkar sex Miðtúnsbræðra. Ég er yngstur, og þegar ég fór að muna eftir mér var Kristinn að mestu leyti farinn að heiman. En eins og allir bræðurnir kom hann norður í nánast öllum sínum fríum og hjálpaði við þau verk sem biðu. Hann var með eindæmum duglegur, verklaginn og skildi mikið eftir sig, hvaða verk sem var. Mikil var mín tilhlökkun að fá hann, eins og hina bræðurna, heim – þá fór allt í annan gír, bæði innandyra og utan.
Kristinn var líklega hæglátastur okkar bræðra og fannst ágætt að láta aðra hafa orðið. Hann hafði samt skýrar skoðanir og var rökfastur þegar á þurfti að halda. Ef umræðan við eldhúsborðið var komin í strand var oft einhver sem spurði: Hvað finnst þér, Kristinn? Þá hlustuðu allir, urðu sammála, og þannig var niðurstaðan fengin.
Kristinn hafði miklar taugar til hafsins, hóf sjómennsku ungur að árum, stutt á miðin undan Rauðanúpi þar sem veitt var á handfæri og sömuleiðis var hann við grásleppuveiðar þar heima. Á sjónum fann hann sig vel og ég ímynda mér að lítið hefði þurft til að hann hefði valið sjómennsku til frambúðar. Ein af mörgum minningum mínum tengist því þegar hann tók mig einan með á sjó í frekar leiðinlegu veðri – ég hef líklega verið ekki meira en liðlega 12 ára. Við mokfiskuðum á handfæri, drógum nokkur hundruð kíló, og hann hældi mér af öllu hjarta. Ég gladdist innilega og þakkaði honum oft síðar fyrir þessa ferð sem lifir nú skýr í sælli minningu.
Kristinn var vel greindur, lauk viðskiptafræði og starfaði mestan hluta ævinnar sem fjármálastóri hjá SÍF og síðar Íslenskum sjávarafurðum. Hann kynntist ungur Guðnýju, sem var hans trausti lífsförunautur og hjá honum þegar hann kvaddi. Þau eignuðust stóra og myndarlega fjölskyldu, sem nú saknar stólpans sem alltaf var liðfús til að hlaupa undir bagga og hjálpa, kvöld sem nætur.
Nú er komið djúpt skarð í hópinn og sem aldrei verður fyllt. Það er eðlilegur gangur lífsins og eitthvað sem við vitum að bíður okkar allra. En það breytir því ekki að söknuðurinn er mikill og minningarnar hrannast upp, bæði stórar og smáar. Þannig mun Kristinn lifa meðal okkar, og ég veit að við eftirlifandi bræður munum oft vitna í hann – stundum hlæjandi en oftar með söknuði og trega.
Blessuð sé minning Kristins bróður míns.
Grímur Þór Lund.
Elskulegur mágur okkar, svili, góður félagi og vinur til 54 ára er fallinn frá, tæplega 77 ára að aldri.
Við minnumst Kristins fyrst frá því að Guðný kom með hann heim í foreldrahús árið 1971 og það sást vel hve vandaður og klár hann var, alveg frá fyrstu kynnum. Hann small strax inn í lífið í sveitinni okkar, enda úr sveit sjálfur og kunni þar til allra verka. Það var gaman að vinna með Kristni, hann gat smíðað, heyjað og unnið bæði í fjósinu og fjárhúsinu. Þá sá hann til þess að hjálpa til við að allir fengju nóg af kartöflum og heimaslátruðu úr sveitinni, en hann var góður kokkur og hafði áhuga á að verka góðan mat. Minnisstætt er þegar hann breytti litla hvíta Fíatnum sínum, sem hafði gefið upp öndina, í reykhús fyrir fisk, en allt brann þetta til kaldra kola úti í móa, en mest sá Kristinn eftir fiskinum sem fór til spillis, enda úr Veiðivötnum. Allir höfðu gaman af.
Kristinn var gull af manni og hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom. Hann var útsjónarsamur, vandvirkur og atorkusamur, hvort sem var við inni- eða útistörf. Guðný og Kristinn voru samstiga í öllu og bjuggu sér og börnum sínum fallegt heimili, þar sem allir voru alltaf velkomnir. Hann var áhugasamur um umhverfi sitt og gaf sig að smáum og stórum, bæði mönnum og dýrum. Sérstaklega var hann ljúfur og hjálpsamur við tengdaforeldra sína og þökkum við ættingjar þá ræktarsemi og kærleik.
Þá má ekki gleymast að minnast á öll ferðalögin sem fjölskyldur okkar fóru í með Kristni og Guðnýju, bæði innanlands og utan. Það var oft farið í sumarbústaðinn þeirra í Skorradal og glaðst og oft var þröng á þingi. Ferðast var inn í Þórsmörk, Landmannalaugar og norður á Melrakkasléttu á ættaróðal Kristins, þar sem hann var uppalinn og svo má ekki gleyma árlegu veiðiferðunum í Veiðivötn, þar sem Kristinn var aðalútgerðarstjórinn og fórst það vel úr hendi. Alltaf voru börnin þeirra og okkar með í þessum dásemdarferðum, enda þekkjast frændsystkinin vel.
Þótt veikindi hafi gert vart við sig að undanförnu naut Kristinn þess að ferðast og vera með stórfjölskyldunum í leik og starfi. Nú síðast um og eftir áramótin, til hinnar sólríku og fallegu eyju, Tenerife, en þangað fór hann með fólkinu sínu og nokkrum úr tengdafjölskyldunni. Í þessari ferð naut Kristinn þess að vera úti í sólinni og ferðast um eyjuna.
En nú er komið að leiðarlokum, sem okkur finnst hafa komið allt of fljótt, og viljum hér þakka samfylgdina.
Elsku Guðný og fjölskylda, missir ykkar er mikill.
Hanna, Helga, Gréta,
Gunnar, Áslaug og
fjölskyldur þeirra.
Að Kristni Lund gengnum sækja minningar um góðan dreng að. Hann var áberandi hérna í nærsamfélaginu okkar við hluta Kögursels og Kleifarsels í Reykjavík þar sem hópur fjölskyldna um 24 starfsmanna Sambands íslenskra samvinnufélaga reisti íbúðarhús sín á árunum kringum 1980 innan vébanda til þess stofnaðs byggingarsamvinnufélags. Allt gekk það ótrúlega vel og samkvæmt fyrirfram gerðum áætlunum varðandi tímaramma og kostnað fyrir hvern aðila. Þar átti Kristinn stórt hlutverk innan stjórnar félagshópsins sem gjaldkeri og umsjónarmaður fjárreiða inn á við og út á við og tengiliður við húsbyggjendur, verkfræðistofu og verktaka. Við nafnarnir þekktumst vel fyrir sem starfsmenn í sama fyrirtæki, en þarna upphófst góð og varanleg vinátta í tengslum við húsbyggingarnar.
Við unnum báðir mikið hvor í sínu húsi eftir að þau voru afhent fokheld úr höndum verktaka. Þannig unnum við sjálfir hvers kyns verk við einangrun, innveggi og múrverk (þá voru steypt hús einangruð með einangrunarplasti að innanverðu) og annað í framhaldinu, enda vorum við byggingarvinnu vel kunnugir frá sumarstörfum skólaáranna. Að sjálfsögðu komu eiginkonurnar líka að tilfallandi verkum eftir aðstæðum. Svona háttur á við að koma sér þaki yfir höfuðið var algengur á þessum tíma, eða sem mest með eigin vinnuframlagi eftir efnum og aðstæðum og forsendum hvers og eins. Öll sú vinna, hvað okkur varðaði, var utan venjulegs vinnutíma á skrifstofunni, eftir launavinnu hversdags og um helgar og yfirleitt fram á nætur – í þögn eftir að útsendingum Rásar tvö lauk um miðnættið. Gott var þá að vita af verðandi nágrannanum líka við vinnu í sínu húsi skammt frá. Oft leitaði ég ráða hjá Kristni varðandi verklag, þar sem hann var kominn nokkru lengra áleiðis en ég við verkið og laghentur mjög. Eða fylgdist með hvernig hann gerði hlutina. Þar var gagnkvæm virðing. Alltaf mætti maður sömu ljúfmennskunni og þolinmæðinni ásamt mildum hlátri og vingjarnlegu brosi af hans hálfu.
Síðast hitti ég Kristin að máli fyrir um tveimur árum þegar ég loks kom því í verk að smíða sólpall við hús okkar hjóna. Þá staldraði hann við í göngutúrnum sínum um hverfið á sólríkum og hlýjum maídegi til að líta á verkið hjá mér og spjalla, eins og við vorum vanir að gera gagnkvæmt á byggingarárunum forðum. Hann sá vel fyrir sér, hrósandi um handverkið eins og hans var von og vísa, að þarna myndum við fá gott skjól fyrir norðannæðingnum og á móti sólu, þótt nokkuð þröngt væri jú á milli húsa. Síðan gekk hann í rólegheitunum áfram eftir góða kveðju og óskir.
Það er missir að Kristni Lund fyrir okkur hér í hverfinu, að ekki sé talað um fyrir fjölskyldu hans, og þökkum við hjónin hin ánægjulegu og mörgu samfylgdarár. Við sendum Guðnýju og fjölskyldu hjartanlegar samúðarkveðjur.
Kristinn Snævar Jónsson.
Kær vinur allt frá barnæsku er fallinn frá og enginn mun fylla hans skarð.
Andlát Kristins kom mér sem öðrum mjög á óvart og við það rifjuðust upp fyrir mér ótal, ótal minningabrot frá okkar samverustundum, ekki síst æskuárunum fyrir norðan. Ég var svo lánsamur að fara í sveit til frændfólks míns á Grjótnesi á Melrakkasléttu. Ég fór fyrst þangað þriggja ára og síðan hvert sumar til 16 ára aldurs. Á þessum árum kynntist ég jafnöldrum mínum á Sléttunni og þá hvað helst er ég var einn vetur í barnaskólanum í Núpasveit sem að hluta var heimavistarskóli. Herbergisfélagar mínir voru af Sléttunni, þeir Grétar í Blikalóni, Haukur á Sæbergi og svo Kristinn í Miðtúni, eða Brósi eins og hann var kallaður þá. Með okkur tókst einlæg vinátta sem hefur varað óslitið fram á þennan dag. Grétar er fallinn frá og nú Kristinn, allt of snemma. Kristinn var mér allt í senn, frábær vinur, traustur, heiðarlegur, greiðvikinn og skemmtilegur. Þótt dvöl minni í Grjótnesi lyki leið ekki það sumar að ég renndi ekki norður. Oft vorum við Kristinn saman í þessum ferðum og ófáar sögur til af brasi okkar að komast á leiðarenda á biluðum bíl – þá var nú gott að eiga Hauk vin minn í bakhöndinni sem allt gat lagað. Alltaf gekk það samt upp.
Foreldrar Kristins, þau Árni Pétur og Helga í Miðtúni, voru rómuð fyrir gestrisni og glaðværð. Þar var strákafjöldi á mínum aldri og alltaf eitthvað um að vera; heyskapur, smalanir og sjómennska svo eitthvað sé nefnt og ég reyndi að hjálpa til mér til ánægju. Kynni mín af Miðtúnsfjölskyldunni leiddu til traustrar vináttu við fleiri bræður Kristins sem varað hafa allt til þessa. Fyrir þessa vináttu gert ég ekki nógsamlega þakkað.
Kristinn flutti til Reykjavíkur og kvæntist Guðnýju, sveitastúlku ofan úr Holtum, og fljótlega komu börnin í heiminn, hvert öðru efnilegra. Vinskapur okkar hélt áfram. Óhikað segi ég að Kristinn og fjölskylda hans urðu mér sem mín fjölskylda þótt óskyld væru. Heimili þeirra stóð mér opið alla daga og þar þáði ég hvað eftir annað mat og í fjöldamörg ár var það viðtekin venja að koma til þeirra á föstudagskvöldum og horfa með þeim á sjónvarp og spjalla um heima og geima. Umræðuefnin skorti aldrei og mörg voru þau sótt í mannlífið norður á Sléttu. Þar gat ég tjáð hugmyndir mínar um uppbyggingu á Grjótnesi, bernskuheimili föður míns og sumarheimili mitt í langan tíma eins og fram hefur komið. Grjótnes er mér sem helgur staður.
Lífið er óútreiknanlegt. Nú er svo komið fyrir mér að ég get ekki vegna heilsuleysis fylgt vini mínum til grafar. Ég hafði aldrei hugleitt að Kristinn færi á undan mér enda hress og að því er virtist í fullu fjöri fram á síðustu stundu. Ég vil trúa því að það verði ekki langt í að ég hitti minn elskulega vin í ríki Guðs og þar mun Kristinn vera í móttökusveit.
Guðný mín. Ég votta þér og börnunum ykkar öllum mína innilegustu samúð og bið góðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.
Með þessum fátæklegu orðum kveð ég einlægan vin minn Kristin Lund og bið góðan Guð að blessa hann og varðveita um alla eilífð.
Baldur Björn Borgþórsson.
Sólin var örlát á Akureyri í byrjun október 1965 og því ákjósanlegt að halda sumarfótboltanum áfram næstu daga. Erindið þetta haust var þó að stunda nám við Menntaskólann á Akureyri. Flestir nýnemarnir voru frá öðrum byggðarlögum og þurftu að fóta sig í nýju umhverfi, ganga í nýjan skóla og kynnast nýjum félögum. Eins og gengur kynntist maður sumum betur en öðrum. Einn af mínum bestu félögum varð Kristinn Lund, ættaður frá Leirhöfn á Sléttu. Aðrir í níu nemenda hópi sem hélt sig mikið saman voru allt kaupstaðardrengir, þar af einn úr höfuðborginni. Sveitadrengurinn hafði þó veturinn á undan alið manninn í Reykjavík þar sem hann lauk landsprófi. Þessi hópur að einum undanskildum var í sama bekk og dvaldi á nýju heimavistinni. Kristinn var lítt fyrir að hafa sig í frammi eða taka stórt upp í sig. Var þó galsafenginn þegar við átti og ágætur oddamaður þar sem fjórir okkar voru bláir í skoðunum og fjórir rauðir. Samtöl og samleið okkar snerist þó um fleira en stjórnmál. Á þessum tíma bárum við ekki ábyrgð á öðru en sjálfum okkur og frelsið takmarkaðist við fátt annað en námið og fjárhaginn. Kristinn var þá eins og alltaf hófstilltur í öllu bralli og lét ekki teyma sig út í neina vitleysu, hvað þá vandræði. Hann hafði gaman af að taka myndir og varðveitti með því svip og andrúm þessa tíma. Eftirminnileg er myndasería hans úr ferð fimmta bekkjar til Færeyja vorið 1968.
Að loknu stúdentsprófi fór Kristinn í viðskiptafræði eins og þrír aðrir úr hópnum. Leiðir lágu nú ekki jafn mikið saman og áður. Eftir að hafa stofnað fjölskyldur tókum við upp þráðinn að nýju, þá við græna borðið í spili spilanna – bridds. Um svipað leyti hófu spilafélagarnir og makar þeirra að halda þorrablót til skiptis á heimilum sínum, fyrst árið 1978, eða fyrir 45 árum, og dró það í ýmsu dám af skemmtanabrag menntaskólaáranna. Breytingar urðu fljótlega við spilaborðið og í þorrablótum og ekki var verra að í hópinn bættust tveir læknar.
Kristinn bjó að fleiru en námsgáfum. Hann var einstaklega verklaginn og verkviljugur. Kom sér upp einbýlishúsi með eigin höndum; sá um smíði, múrverk og raflagnir og þurfti aðeins aðkeypta aðstoð við pípulagnir. Börn hans áttu svo hauk í horni þegar kom að viðhaldi og lagfæringum á þeirra heimilum. Margir aðrir nutu góðs af handlagni hans. Í einkalífinu var Kristinn sérlega lánsamur en á háskólaárunum kynntist hann Guðnýju sinni. Hann hafði líklega áttað sig á því í sveitinni forðum daga að bóndadóttir væri álitlegur lífsförunautur. Börnin urðu fjögur og þó að alzheimers-sjúkdómurinn væri farinn að læsa klónum í hann náði hann því síðasta sumar að leiða yngri dóttur sína upp að altarinu, tala til brúðhjónanna og stíga dans við brúðina. Og mikið var hann glaður og stoltur að sjá á þeirri ljósmynd sem tekin var af dansinum.
Nú er minn yfirvegaði og gagnholli vinur horfinn til feðra sinna. Sá þriðji úr níu manna hópnum gamla. Ég mun sakna hans og minnast. Við félagarnir og makar okkar sendum Guðnýju, börnum og barnabörnum innilegustu samúðarkveðjur.
Sigmundur Stefánsson.
hinsta kveðja
Honum var hollt að kynnast
hreinni ég engan fann.
Lengi hans munu minnast
margir, sem þekktu hann.
Hlýlundur, hress og glaður,
hjálpfús svo mjög af bar.
Djarfur og drenglundaður,
Dáður af flestum var.
(Valdimar K. Benónýsson)
Hvíl í friði elsku tengdapabbi og afi.
Sigríður (Sigga)
Lára, Óskar Gauti, Hekla Kristín og Snorri Sveinn.