Leiðtogar Óskar Þór Þráinsson, til vinstri, og Tómas G. Gíslason í hlaupagallanum hér fyrir framan Höfða.
Leiðtogar Óskar Þór Þráinsson, til vinstri, og Tómas G. Gíslason í hlaupagallanum hér fyrir framan Höfða. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sprett er úr spori á vefsíðunni hlaupadagskra.is sem sett var í loftið nýlega. Þar er heildstætt yfirlit yfir alla hlaupaviðburði sem efnt verður til á árinu, en þeir eru alls 118 og eitthvað gæti bæst við enn

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sprett er úr spori á vefsíðunni hlaupadagskra.is sem sett var í loftið nýlega. Þar er heildstætt yfirlit yfir alla hlaupaviðburði sem efnt verður til á árinu, en þeir eru alls 118 og eitthvað gæti bæst við enn. „Markmiðið er að svara þeirri þörf að á einum stað séu aðgengilegar upplýsingar um öll almenningshlaup sem efnt er til. Þótt stórir viðburðir hafi verið vel kynntir hefur sitthvað vantað inn, svo sem utanvegahlaupin sem njóta sívaxandi vinsælda,“ segir Óskar Þór Þráinsson hlaupari, sem með Tómasi G. Gíslasyni félaga sínum stendur að þessari síðu.

Hlauparar nái settu marki

Um hlaupin 118 sem komin eru á skrá er það að segja að 56 þeirra eru nú þegar staðfest eða skráning í þau hafin. Til 52 þeirra er efnt á höfuðborgarsvæðinu og utanvegahlaupin eru 51. Hið lengsta er samtals 250 kílómetrar en þar verður farið um eldgosaslóðir norður í landi. „Gata, utanvegir, víðavangur, hindrun og skemmtiskokk. Eitthvað fyrir alla hvort sem þú ert byrjandi eða reyndur hlaupari,“ tiltekur Óskar og bætir við að ótrúlegur fjöldi fólks sé kominn á sporið og taki nú á rás.

„Það er samspil margra þátta og þróun á samfélaginu sem hefur breytt afstöðu fólks til hlaupa. Fólk er almennt meðvitaðra um mikilvægi hreyfingar, fyrir líkama og sál. Þú þarft í rauninni ekki annað en þokkalega skó til að geta hlaupið af stað. Þá er líka gott að hafa við höndina snjallúr, hlaupaforrit og fleira slíkt svo að þú getir fylgst með eigin árangri og náð settu marki,“ segir Óskar og heldur áfram:

Góður hlaupafélagi lykilatriði

„Stórir viðburðir eins og Reykjavíkurmaraþonið og slíkir hafa líka gert fólki auðveldara en var að setja sér persónuleg takmörk og hrífast með. Heilsufarsbyltingin sem kom fram í covid og æðið fyrir utanvegahlaupum sem þá fór af stað hefur einnig gripið marga. Það er hluti af því að lifa og njóta í náttúrunni. Svo eiga samfélagsmiðlar líka sinn part af þessu. Myndbirtingar og frásagnir þar eru hvetjandi.“ Rúmur áratugur er síðan Óskar Þór Þráinsson byrjaði að stunda hlaup. Hann kveðst hafa verið stirður og í yfirþyngd á þeim tíma en þurft að taka sér tak. Hann byrjaði þá á 10 km skemmtiskokki í Reykjavíkurmaraþoni. Hálft maraþon tók hann ári seinna og næst heilt maraþon, sem er 42 km. Þaðan í frá komu utanvegahlaupin sterk inn.

„Vendipunkturinn í hlaupunum var þegar við Tómas G. Gíslason, minn besti hlaupafélagi, fórum saman að æfa fjallahlaup. Saman fáum við alls konar hugmyndir, alltaf til í ný markmið og ævintýri. Það að vera í hlaupahópnum Laugaskokki sem gerir út frá Laugardalslauginni í Reykjavík hefur líka verið mjög hvetjandi og skemmtilegt. Góður hlaupafélagi eða -hópur er eiginlega lykilatriði í að þróa hlaup úr áhugamáli í lífsstíl. Ég er í grunninn götuhlaupari og tek reglulega þátt í ýmsum slíkum götuhlaupum en stígarnir og náttúran eru þar sem ástríðan liggur. Ég vil helst vera skokkandi á stígum að kanna nýjar leiðir og upplifa náttúru Íslands. Utanvegahlaupin gefa þetta beint í æð.“

Aðsókn er meiri og viðburðum fjölgar

Hlaupadagskrá ársins er full af fjölbreytni svo að vandasamt er að velja úr öllu sem í boði er, segir Óskar. Nánast allar helgar frá 19. apríl til 25. október verði efnt til hlaupatengdra viðburða; eini lausi laugardagurinn sé 24. maí. Af nýmælum í ár megi nefna mörg spennandi utanvegahlaup, svo sem Sólstöðuhlaup á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð, Öræfahlaupið á Kristínartinda í Skaftafelli, Hafnarfjall Ultra við Borgarnes og Rauðavatn Ultra í Reykjavík.

„Til eru hlaup og vegalengdir sem henta öllum. Allir geta fundið sér skemmtun eða krefjandi verkefni, hvort sem það er 5 km skokk eða að vera á hlaupum upp og niður fjöll svo dögum skiptir. Á sama tíma og aðsókn að svona viðburðum eykst er verið að fjölga þeim. Skráningar hefjast jafnvel með margra mánaða fyrirvara. Slíkt helst í hendur við að margir skipuleggja hlaup sín langt fram í tímann. Og einmitt þess vegna setjum við Tómas félagi minn upp síðuna og leitum eftir stuðningi á Karolina Fund,“ segir Óskar Þór.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson