Vilborg Jónsdóttir fæddist á Siglufirði 2. ágúst 1932. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 29. janúar 2025.

Hún var yngsta barn hjónanna Helgu Jóhannesdóttur, f. 1890, og Jóns Antons Gíslasonar, f. 1889, sem stofnuðu heimili sitt í Suðurgötu 37 á Siglufirði árið 1916. Systkini Lillu, eins og hún var alltaf kölluð, voru: Hrönn, f. 1918, Ragnheiður, f. 1919, Dóróthea, f. 1922, Snorri, f. 1925, Jóhannes, f. 1926, Unnur, f. 1928, og Petra, f. 1931, og eru þau öll látin, þau voru alla tíð mjög náin og góðir vinir.

Eiginmaður Vilborgar var Baldvin Ingimar Baldvinsson, flutninga- og vörubílstjóri á Siglufirði, f. 30. nóvember 1929, d. 10. maí 1998. Þau gengu í hjónaband 1952 og stofnuðu heimili sitt í Suðurgötu 47 þar sem þau áttu heimili alla tíð. Þau eignuðust fjögur börn sem eru:

1) María, f. 1. nóv. 1951, m. Eiður Helgi Sigurjónsson, f. 1948, synir þeirra eru þrír: a) Ívar Sigurjón, f. 1971, hann á fjögur börn og tvö barnabörn, m. Ragnhildur Reynisdóttir. b) Ingimar, f. 1978, m. Sarah Branci og eiga þau þrjú börn. c) Birgir, f. 1981, sem á einn son.

2) Birgir Anton, f. 25. júní 1956, d. 21. okt. 2022, m. Birna Dís Benediktsdóttir, f. 1949, þeirra sonur er Brynjar Ýmir, f. 1984, m. Björg Þórsdóttir, og eiga þau þrjár dætur, áður átti Birna Benedikt Orra, f. 1967, d. 2001, og Helgu Rún, f. 1973.

3) Jón Helgi f. 10. okt. 1961, m. Agnes Þór Björnsdóttir, f. 1962 og eiga þau þrjú börn: a) Vilborg, f. 1982, m. Hjörtur Snær Þorsteinsson, eiga þau þrjú börn. b) Steinar Þór, f. 1986. c) Sindri Þór, f. 1993, m. Auður Ósk Einarsdóttir.

4) Baldvin Steinar, f. 30. okt. 1966, m. Hrefna Katrín Svavarsdóttir, f. 1971, börn þeirra eru fjögur: a) Guðný Eygló, f. 1994, b) Baldvin Ingimar, f. 1996, m. Sara Jóhannsdóttir, þau eiga einn son, c) Anna Día, f. 2001, m. Heimir Smári Traustason, d) Eiríkur Hrafn, f. 2009.

Skólaganga Lillu var hefðbundin, hún gekk í barnaskóla Siglufjarðar, sem var uppi á kirkjulofti, og byrjaði ung að hjálpa til í síldinni og gæta barna. Eftir að hennar börn uxu úr grasi fór hún að vinna utan heimilis, í Sigló-síld og Egilssíld.

Lilla og Ingi nutu þess að ferðast um landið, fyrst með börnin sín og síðar tvö saman, enda voru þau samstillt hjón og góðir vinir. Eftir að Ingi dó var hún dugleg taka þátt í viðburðum, ferðast með FEB á Siglufirði, samveru í Skálahlið og síðast en ekki síst að syngja með Vorboðakórnum.

Útför Vilborgar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 8. febrúar 2025, klukkan 13.

Elsku tengdamamma.

Takk fyrir þau rúm þrjátíu ár sem vegir okkar hafa legið saman. Ég kveð þig með söknuði og ljúfum minningum. Þú gladdist alltaf þegar sólin lét sjá sig í firðinum og vorið var á næsta leiti. Þess vegna langar mig að kveðja þig með ljóði eftir ömmu mína sem á svo vel við. Nú getur þú, með Inga þinn loksins aftur þér við hlið, hlustað á vorið vakna í firðinum okkar kæra.

Bráðum vermir vorsól land

vakna blóm í haga

aldan leikur létt við sand

langa bjarta daga

Fuglinn kveður kátan brag

kliður vorsins hljómar

lífsins sæla sigurlag

sálu mannsins ómar

Lækur sindrar silfurtær

hans seiður drauma vekur

og von sem nýja vængi fær

í vorsins gleði flugið tekur

Þá er gott að eiga frið

á yndi vorsins hlýða

svo andinn skynji almættið

í alheims geimnum víða

(Hrefna Líneik Jónsdóttir frá Seljanesi v/Ingólfsfjörð)

Saknaðarkveðjur,

Hrefna Katrín
Svavarsdóttir.

Ég kynntist tengdamömmu minni þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir 42 árum með börnin mín tvö sem hún og Ingi tóku svo sannarlega opnum örmum. Hún var mér einstaklega kær, hafði góða nærveru og var í eðli sínu alltaf svo þakklát og lét það vel í ljós. Svo var hún líka svo skemmtileg, jákvæð og til í allt.

Hún var góður og skemmtilegur ferðafélagi og fórum við árlega í fjölskylduferðir þar sem þau hjónin nutu samvista við börn sín og fjölskyldur þeirra. Meðal áfangastaða voru Húnavellir, Reykhólar, Barðaströnd og Reykholt. Leiðin um Grímstungu- og Arnarvatnsheiði er sérstaklega eftirminnileg fyrir margra hluta sakir, þar sem gangandi fóru hraðar yfir en slyddujepparnir.

Þá er ógleymanleg ferðin sem við Biggi og Brynjar fórum með Lillu og Inga til Flórída. Ferðin var farin í tilefni af fermingu Brynjars og var fyllt á sjóð minninganna þessar tvær dýrmætu vikur því skömmu eftir heimkomuna varð Ingi bráðkvaddur, aðeins 68 ára. Þetta var fyrsta sólarlandaferð þeirra hjóna en átti sko alls ekki að vera sú síðasta eins og raunin varð fyrir Inga.

Lilla fylgdist með öllum viðburðum í bænum, þáði alltaf ísbíltúra eða að kíkja inn á Akureyri, renna suður og að fara í utanlandsferðir með fólkinu sínu. Og ekki þurfti að ganga á eftir henni að kíkja til okkar niður í Suðurgötu 37 því „Ömmuhús“ var hennar, þar fæddist hún og ólst upp, hún var ekki komin inn úr dyrunum þegar hún sagði: „Biggi, við þurfum endilega að laga hlerann“ eða: „Við þurfum endilega að mála girðinguna.“ Hún var svo vakandi og mikill þátttakandi með okkur í 37 enda hafði hún leynt og ljóst umsjón með húsinu, fór niðr’eftir þegar von var á okkur í bæinn og kveikti á ofnum. Þegar við vorum farin úr húsinu gekk hún úr skugga um að allt væri í lagi og allir gluggar lokaðir.

Nú hefur elsku tengdamamma fengið hvíldina, hún er komin í faðm Inga síns og Bigga þar sem eflaust er glatt á hjalla og sagðar sögur, eins og títt var bæði á Suðurgötu 37, á æskuheimili Lillu, og seinna Suðurgötu 47 þar sem þau hjónin héldu alla tíð heimili. Þrátt fyrir að vera komin á tíræðisaldur hélt hún vöku sinni allt til loka en líkaminn var orðinn lúinn.

Ég er þakklát fyrir hana og alla gleðina sem hún skilur eftir sig.

Nú er dapurt í firði og dapurt í borg

en dýrlega minningin sárust

og fjölmargir vinir, þeir fylltust af sorg

þegar fréttir um andlátið bárust.

Þú áttir svo friðsama og fallega lund

og framleiddir bros, hvar sem
gekkstu,

og gaman var alltaf að fara á þinn fund

er á frjálslegu strengina lékstu.

Þú áttir svo mikið í minningasjóð

og muninn var frjósamur, ríkur.

Þú varst svo einlæg og öllum svo góð

að enginn var sjálfri þér líkur.

Og nú ertu horfin, vor dásemdar dís,

og dapur er ástvinafjöldinn.

Í Paradís er sú vera þér vís

er verndar þig handan við tjöldin.

(Ben. Björnsson)

Birna Dís Ben.

Kveð ég nú ömmu mína og minnist hennar.

Hún var kölluð Lilla því að hún var yngst af átta systkinum og það festist við hana. Hún var aldrei kölluð annað af barnabörnum sínum en amma Lilla. Amma var Siglfirðingur af Guðs náð, þar var hún fædd og uppalin. Þar vildi hún líka enda sína ævi og gerði það. Hún beið eftir sólardegi Siglfirðinga, lét hann líða og kvaddi svo á friðsælan hátt næstu nótt.

Amma var síldarstúlka á sínum yngri árum og stóð yfir tunnum ásamt systrum sínum og móður. Amma giftist afa Inga og bjuggu þau saman á Suðurgötu 47. Þar ólu þau upp sín börn. Amma var mikil húsmóðir, eldaði góðan mat og bakaði. Sá um heimilið og börnin og fór síðar að vinna aftur úti, mest í fiski og síld. Amma var af kynslóð sem upplifði miklar þjóðfélagslegar breytingar. Hún var einnig af þeirri kynslóð sem kvartaði ekki mikið og krafðist ekki mikils.

Hún var safnari og safnaði ýmsum hlutum. Hún var frændrækin og félagsvera. Fór í göngutúra með vinkonum, spilaði vist og fékk alltaf góða hönd og var vinsæll makker. Hún söng í kór eldri borgara og spilaði boccia. Hún grínaðist með að íþróttaferill sinn hefði hafist eftir 65 ára og hún raðaði inn verðlaunum.

Amma lék aðalhlutverk í mínu lífi og það voru forréttindi að fá að alast upp með góða ömmu í sama bæ. Ég er alnafna hennar og má segja að hún hafi ofdekrað mig. Minningarnar eru endalausar. Minningar um góðan mat, spjall og hlý faðmlög. Heitt súkkulaði, ólsen-ólsen, pönnukökur og soðið brauð með rúllupylsu. Amma var mikill sælkeri og var alltaf til í ísrúnt. Hún sullaði alltaf niður á blússuna og þá hlógum við báðar. Það var aldrei spurning um hvort heldur hvenær ísinn færi að sullast. Skemmtilegast var að fá að gista hjá ömmu. Áður en farið var að sofa sat amma hjá mér og sagði að ég væri besta barn á Íslandi. Síðustu ár snerist það svo við og ég sat hjá henni og sagði henni að það væri hún sem væri besta amma á Íslandi.

Amma var mér ómetanleg. Hún var minn helsti stuðningsmaður í hverju því ég tók mér fyrir hendur, alltaf tilbúin með hrós og vel valin orð.

Amma sinnti ömmustarfinu af alúð. Amma var bóngóð og hjálpaði mér mikið með Helga minn þegar hann var lítill. Amma gaf honum skyr og leyfði honum að sitja uppi á eldhúsborði og horfa út um gluggann. Ís var líka alltaf til í frystikistunni í kjallaranum. Alltaf var gamli hægindastóllinn hans afa settur kyrfilega fyrir stigaopið svo að engin börn ættu á hættu að fara sér að voða. Amma var alltaf áhyggjufull út af því að eitthvað kæmi fyrir og fannst manni stundum nóg um hvað hún hafði miklar áhyggjur af okkur öllum. Við gerðum oft góðlátlegt grín að henni með það.

Á þessum tímamótum er þakklæti mér efst í huga. Þakklæti fyrir að hafa átt svona góða ömmu. Þakklæti fyrir að endaspretturinn hafi verið friðsæll. Þakklæti fyrir allar minningarnar og fyrir þau áhrif sem amma hafði á okkar líf. Elsku amma Lilla, ljós þitt og minning mun lifa áfram í svo ótal mörgu í okkar daglega lífi, ég er þér svo ævinlega þakklát.

Þín sonardóttir,

Vilborg Jónsdóttir.

Ég kallaði hana ömmu byssó en hún gaf mér byssu í jóla- og afmælisgjafir alla barnæskuna, og síðasta byssan kom líklega í hús árið áður en ég fermdist. Þá fékk ég loftbyssu frá henni og var dauðöfundaður af vinum mínum í hverfinu fyrir að eiga svona kúl ömmu.

Sumarið eftir að ég fermdist og afi dó bjó ég hjá ömmu og vann ég í bakaríinu hjá Balda og það var allt annað en leiðinlegt. Til að mynda urðum við amma vitni að lögregluumsátri hjá nágrannanum þar sem fíkniefni voru víst falin í veggnum, alveg eins og í hasarmynd. Þá var grínast með hvort ég hefði orðið fyrir einhverjum áhrifum vegna þessa þar sem svefnsófinn sem ég svaf í sneri að umræddum vegg og hlógum við mikið að þessu.

Amma stóð alltaf með manni, eins og þegar ég fékk forláta veiðistöng lánaða hjá afa og húkkaði í máv sem dró stöngina með sér á haf út, þá var það klárlega fuglinum að kenna, ekki stráknum. Hún var alltaf til í að fíflast með okkur krökkunum og tók sig ekki hátíðlega og bauð okkur Steinari alltaf skít ofan á brauð, þegar nutella var í boði. Dætur mínar þrjár voru ekki gamlar þegar þær trítluðu upp í 47 og komu alltaf með eitthvert gotterí frá langömmu til baka.

Við fjölskyldan eigum eftir að sakna þess að vinka henni þar sem hún stendur á tröppunum í Suðurgötunni og biður okkur að fara varlega og láta vita þegar við komum heim.

Brynjar Ýmir Birgisson.

Elsku Lilla amma hefur fengið hvíldina og hittir nú fyrir Inga sinn, Bigga og aðra ástvini sem hafa kvatt.

Ég fékk þau Lillu Jóns og Inga Bald í bónus þegar ég var 10 ára og tóku þau mér og Benna bróður opnum örmum og sýndu okkur alltaf hlýju og áhuga. Heimili þeirra í Suðurgötu 47 var alltaf fullt af lífi, gleði, hlýju, mat og nammi sem þau spöruðu ekki. Þá giltu engar reglur og kunnum við barnabörnin vel við þessar gjafir sem langömmubörnin nutu einnig þegar fram liðu stundir.

Lilla amma var áhugasöm um fólkið sitt og spurði alltaf frétta og mundi ótrúlegustu hlutu í því samhengi um alla sína afkomendur. Eftir að elsku Ingi dó 1998 átti Lilla amma erfitt í dálítinn tíma en tók smám saman gleði sína á ný og tók þátt í svo til öllu sem eldri borgarar á Siglufirði buðu upp á. Hvort sem það var kórstarf, boccia, spilamennska eða ferðalög. Einu sinni stærðum við okkur af því að hún væri Norðurlandameistari í boccia en hún var víst Norðurlandsmeistari í sínum aldursflokki. En góð saga á aldrei að gjalda sannleikans og hlógum við mikið að þessum misskilningi.

Hún var einstaklega lífsglöð og lifandi kona, kom alltaf tiplandi niður götuna til okkar í Suðurgötu 37 þegar við vorum þar, í húsinu sem hún fæddist og ólst upp í ásamt stórum og samheldnum systkinahópi. Lilla amma elskaði fólkið sitt og fjörðinn sinn og fannst hann öðrum fremri. Svei mér þá ef fjörðurinn elskaði hana ekki til baka.

Helga Rún Viktorsdóttir.

Ég gekk inn á heimilið hjá Lillu föðursystur minni, á Suðurgötu 47 á Siglufirði, án þess að gera boð á undan mér. Allt frá því að ég man eftir mér, lítill drengur, fagnaði hún alltaf eins og hún hefði verið að bíða eftir mér. Kyssti mig á báða vanga og ávarpaði „elsku drengurinn minn“. Svona heilsaði hún mér nú síðast þegar ég hitti hana í haust.

Lilla var gæfusöm manneskja. Hún fæddist og bjó alla sína tíð á Siglufirði. Yngst átta systkina og nú síðust þeirra til að kveðja. Hún að hitti lífsförunaut sinn Inga Bald þá ung að árum á Siglufirði. Þar bjuggu þau allan sinn búskap í húsinu sínu við Suðurgötu 47 og ólu þar upp börnin sín fjögur.

Hún Lilla var glaðlynd. Það var líf og fjör í kringum hana. Stutt í glens og gaman. Heimili þeirra var einstaklega gestkvæmt og þau gestrisin. Þar var miðpunktur fyrir ættingja þegar þeir áttu leið til Siglufjarðar.

Það tók enginn þeim hjónum Lillu og Inga Bald fram í frásagnarlist. Þau voru eins og nú er kallað „uppistandarar“ þegar þau vildu það við hafa. Það var tilhlökkun og eftirvænting að fá jólakotið frá Lillu og fjölskyldu. Auk hefðbundinnar jólakveðju var í kortinu upprifjun frá skemmtilegu atviki liðins árs.

Lilla og Ingi bjuggu í nágrenni afa og ömmu. Hún ásamt systrum sínum á Siglufirði kom að ég held daglega til þess að hitta og aðstoða forelda sína og gerði þeim þannig kleift að búa heima þar til yfir lauk.

Biggi sonur þeirra Lillu og Inga Bald og ég vorum fóstbræður og brölluðum margt saman. Við eignuðumst hús afa okkar og ömmu, æskuheimili Lillu, og gerðum það upp með fjölskyldum okkar. Í því verkefni studdu hún og Ingi Bald okkur og hvöttu áfram. Það munaði um það. Lillu fannst miklu skipta að húsið, heimili afa og ömmu, með gömlu húsmununum, tilheyrði fjölskyldunni um ókomna tíð.

Lilla var opin og einlæg manneskja og átti gott með að deila tilfinningum sínum. Líka þeim erfiðu og þungu. Það var mikið högg þegar Ingi Bald dó skyndilega tæplega sjötugur og síðar Biggi fyrir tveimur árum.

Lilla glímdi við heilsubrest síðustu árin. Veikindin voru alvarleg og endurtekin. En alltaf reis hún upp og hélt sínu striki.

Við kveðjustund þökkum við Þóra samfylgdina, trausta frændsemi og vináttu.

Jón HB Snorrason.