Sigríður Inga Sigurðardóttir, Sigga frá Skuld, fæddist í Vestmannaeyjum 14. apríl 1925. Hún lést, eftir stutt veikindi, á hjúkrunarheimilinu Eir 16. janúar 2025.
Sigríður var næstyngst af ellefu systkinum og ólst upp á myndarheimilinu Skuld í Vestmannaeyjum. Foreldrar hennar voru Ingunn Jónasdóttir, f. 1883 á Helluvaði á Rangárvöllum, d. 1960, og Sigurður Pétur Oddsson, f. 1880 á Krossi í Landeyjum, d. 1945.
Þann 14. október 1944 giftist Sigríður Ingólfi Theódórssyni netagerðarmeistara, f. 1912, d. 1988. Börn þeirra eru: 1) Sigurður Ingi, f. 1945, hann er kvæntur Jónu Berg Andrésdóttur, f. 1947. Börn þeirra eru Andrea Inga, f. 1965, Tryggvi Rúnar, f. 1971, og Guðni Steinar, f. 1979. 2) Elín Björg, f. 1946, d. 1946. 3) Hugrún Hlín, f. 1948, d. 2003. Hún giftist Alfreð Guðmundssyni og eignuðust þau Sigríði Drífu, f. 1966, en þau skildu. Hún giftist svo Jónasi Traustasyni, dætur þeirra eru Hera Björg, f. 1974, og Ingunn Hlín, f. 1983, en þau skildu. Síðast giftist hún Baldri Þór Baldvinssyni. 4) Kristín Hrönn, f. 1960, gift Pierre Schwartz, f. 1960. Börn þeirra eru Michelle Inga, f. 1990, Ívar Örn, f. 1994, og Danielle Dröfn, f. 1994. 5) Elfa Dröfn, f. 1962, hún er gift Páli Kristrúnar Magnússyni, f. 1960. Börn þeirra eru Agnes Pálsdóttir Aarøe, f. 1986, og Róbert Hreiðar, f. 1995. 6) Harpa Fold, f. 1962, sonur hennar og Péturs Jónssonar er Ingólfur Elfar, f. 1980. Maki hennar er Erla Vilborg Adolfsdóttir, f. 1948. Fyrir átti Ingólfur dæturnar Jóhönnu Margréti, f. 1933, d. 2014, og Kornelíu Sóleyju, f. 1937, d. 2010, og var ætíð mikið og kærleiksríkt samband við þær og afkomendur þeirra.
Sigríður ólst upp hjá foreldrum sínum á barnmörgu heimili í húsinu Skuld í Vestmannaeyjum. Foreldrar hennar voru með útgerð og vandist hún á að sinna ýmsum störfum, bæði heimilisstörfum og að umsýslast í kringum bæði fisk og heimafé og þótti mikill dugnaðarforkur. Á sínum yngri árum var hún virk í bæði handbolta og frjálsum íþróttum. Hún giftist ung Ingólfi og studdi mjög við útgerð hans og vinnu. Hún var annálaður fagurkeri og bjó fólki sínu einstaklega fallegt heimili. Hún var einstakur gestgjafi og fór það svo að hún stofnaði sinn eigin rekstur, Gistiheimilið Hvíld í Vestmannaeyjum að Höfðavegi 16, árið 1985. Hún var virk í félagsstörfum í Vestmannaeyjum, í Kvenfélagi Landakirkju, í Vilborgarstúkunni í Oddfellow og Málfreyjum. Hún ákvað árið 2002 að flytja upp á fasta landið og vera nær börnunum sínum og afkomendum. Síðustu sex árin var hún á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi. Sigríður var mikil áhugamanneskja um heilbrigðan lífsstíl, þó að það orð hafi ekki verið til á þeim tíma. Ræktaði sitt eigið grænmeti, tíndi söl, stundaði líkamsrækt og var kvik og lipur í öllum hreyfingum, passaði upp á línurnar.
Útför hennar fer fram frá Landakirkju í dag, 8. febrúar 2025, kl. 13. Streymi er hægt að nálgast á vef Landakirkju, www.landakirkja.is
Nú hefur móðir mín lokið sínu lífshlaupi. Hún var lengi búin að biðja skaparann að taka á móti sér, fannst þetta orðið nógu langt.
Upp í hugann koma fyrstu minningar frá Heiðarvegi 36. Mamma var með græna fingur, ræktaði kartöflur og fleira grænmeti. Á hverju vori þurfti að stækka plássið og pæla stærri garða. Fram á sjötta áratug voru flestar húsmæður heimavinnandi og flest heimili með matjurtagarða. Hún móðir mín var stórtæk í sölvafjöru, tíndi söl öll sumur og átti milli ára. Hún átti alltaf heimabakað meðlæti, það máttu aldrei vera tómir kökustamparnir hjá henni. Samfélag húsmæðranna á Heiðarveginum var alveg einstakt. Mikill samgangur og margt brallað. Á sínum yngri árum fór mamma með föður mínum að vinna í netavinnu á bryggjunum á Siglufirði, en þaðan var hann og var netagerðarmeistari. Öll netavinna var þá unnin úti á bryggjunum.
Hún var í kvenfélagi Landakirkju og tók þátt í fjáröflunum kirkjunnar til fjölda ára. Einnig var hún í Oddfellowstúkunni Vilborgu og var meðlimur í mörg ár.
Foreldrar mínir byggðu sér hús við Höfðaveg 16 í Vestmannaeyjum. Þannig hagaði til að grafa þurfti djúpan grunn. Þá ákváðu þau að setja kjallara undir húsið með herbergjum, sem mamma fór svo að leigja út. Seinna meir stofnaði hún gistiheimilið Hvíld og rak það af miklum myndarskap til ársins 2002. Hún var ein af þessum kvenskörungum, ef henni datt eitthvað í hug var það framkvæmt.
Fyrr á árum ferðuðust foreldrar mínir nokkuð erlendis, fóru í hnattreisu með Gullfossi ásamt ferð með skipinu Balticu, sem lengi var í minnum höfð. Árið 2002 flutti hún til Reykjavíkur og hefur átt hér gott líf. Þegar fór að halla undan fæti flutti hún á hjúkrunarheimilið Eir.
Hún var búin að vera veik í nokkra daga þegar hún lést í hárri elli. Megi hún hvíla í friði.
Sigurður Ingi Ingólfsson
og fjölskylda.
Elsku duglega móðir mín fékk loksins langþráða hvíld þann 16. janúar sl. Hún varð 99 ára og níu mánaða gömul og við systkinin farin að plana 100 ára afmælið. Ég er stolt af því að geta kallað hana mömmu mína, Siggu frá Skuld, og hana þekkja allir. Hún var svo stórbrotinn karakter, skvísa og mannblendin, alltaf líf og fjör í kringum hana. Ég hef stundum sagt að stærsta áhugamál mömmu hafi verið að þrífa og halda fallegt heimili. Hún var alltaf að kenna mér hvernig ætti að vinda tuskur og þurrka af borðum. Mamma var nýtin og hagsýn húsmóðir en líka rausnarleg og veitti vel til þeirra fjölmörgu gesta sem heimsóttu hana í gegnum árin. Það var ótrúlegt magn sem hún bakaði ofan í okkur í hverri viku í uppvextinum og hún hafði gaman af því, pönnukökur bakaði hún fram undir nírætt. Mamma gekk líka í gegnum mikil veikindi, fékk tvisvar sinnum krabbamein og á öllum þeim veikindum sem komu að hennar borði sigraðist hún og stóð sterkari á eftir. Árin áður en hún flutti endanlega upp á land dvaldi hún mikið á heimili okkar hjóna, vegna læknismeðferða, og náði þá góðum og djúpum tengslum við börnin okkar, Agnesi og Róbert, það er þeim ómetanlegt.
Mamma var mikil fyrirmynd; hvernig hún hugsaði um heilsuna, hreyfði sig og passaði að bæta ekki á sig. Ræktaði sitt eigið grænmeti og þvílíkur kraftur. Sölvaferðir voru stórtækar svo vægt sé til orða tekið. Hreinsaði bara fjöruna, tók með sé barnapíu þegar við tvíburarnir vorum ungbörn og bara bar leikgrind ofan í fjöru. Það að detta þetta í hug er merkilegt en að gera þetta er stórkostlegt. Lýsandi fyrir mömmu; hún sá engar hindranir, bara lausnir, það mættum við öll taka okkur til fyrirmyndar. Það sýndi sig á þessum næstum hundrað árum að mamma er líklegasta viljasterkasta kona sem gengið hefur á íslenskri grundu.
Mamma átti sterka barnatrú og það var henni mikilvægt að fara með bænirnar sínar sem foreldrar hennar kenndu henni. Ef henni leið illa fór hún með nokkrar bænir og leið miklu betur á eftir, þessi var ein af hennar uppáhalds:
Nótt er komin, nú er ég inni,
nærri vertu Jesú mér.
Verndaðu bæði sál og sinni,
svæfðu mig á brjóstum þér.
Legg að höfði líknarhönd,
lát burt hverfa syndagrönd.
Öflugan settu englamúrinn
yfir mig, svo tek ég dúrinn.
Ég kveð hinstu kveðju fallegu móður mína með þakklæti í huga fyrir allt sem hún gaf mér og gerði fyrir mig. Stundum skammaðist hún í mér en oftast var það með góðum huga. Megi minning um þig lifa alla mína tíð elsku mamma mín.
Þín dóttir,
Elfa Dröfn.
Amma var kona sem allir báru virðingu fyrir er það helsta sem stendur upp úr þegar ég lýsi ömmu. Þegar ég var lítil var hún fyrir mér eins og drottning sem gat stýrt öllu með því einu að brosa og hringla með armböndunum. Hún fór aldrei út úr húsi nema setja á sig eldrauðan varalit, smá ilmvatn og hafði alltaf svo tignarlega nærveru.
Amma var kona sem gat allt og gerði allt. Hún var vön að stýra stóru heimili og síðar gistiheimilinu Hvíld, þar sem gestrisnin var alltaf til fyrirmyndar.
Amma og ég vorum alltaf góðar vinkonur, enda var mitt annað heimili hjá henni í Eyjum. Ég var svo heppin að fá að vera í „húsmæðraskóla ömmu“ frá níu ára aldri, þar sem ég lærði að strauja sængurföt, stoppa í sokka, skola silkiklúta úr LÚX-handsápu og þrífa sturtuflísarnar með tannbursta. Það er erfitt að ná með tærnar þar sem hún hafði hælana, en eitt hef ég þó erft frá henni og það er hugmyndaflug, drifkraftur og þrautseigja. Amma var litríkur karakter sem setti upp hattinn, fór í stígvélin og litaði hvönnina og flísarnar í garðinum í rauðum og gulum lit til að setja lit á tilveruna.
Margir hafa bragðað þjóðhátíðarkjötsúpuna hennar ömmu, sem var einstök af því að hún innhélt skessujurt, var elduð í fimm pottum og var hituð upp eftir því sem þjóðhátíðargestir skutu upp kollinum í stofunni.
Við töluðum reglulega saman og hún sat oft sem módel hjá mér í hárgreiðsluskólanum. Það kom sá dagur eftir að amma flutti í þjónustuíbúð á Eir að hún hringdi í mig og sagði: „Agnes, ég er búin að eignast vin.“ Mér datt í hug að nú væri hún búin að fá sér páfagauk eða álíka, ekki datt mér í hug að kona sem yfirleitt fúlsaði við öllu sem hét karlpeningur (þó að biðlana vantaði ekki) væri nú komin með kærasta. Sverrir var því boðinn velkominn í fjölskylduna, enda smitaði það út frá sér hversu ánægð þau voru saman. Að finna ástina á gamals aldri er ekki sjálfgefið. Það gaf ömmu mikið á meðan það varði.
Þegar amma varð 80 ára orti ég ljóð til hennar og vil ég að lokum gefa ömmu síðustu þrjú erindin í kveðjugjöf.
Þú klífur kletta, skriður, fjöll
og klöngrast yfir mosa og mjöll.
Með höfuð hátt,
þú æ hlærð dátt
með lundarfar gott við gesti og gátt.
Eyjamær með krafti og klóm
sem kastar boltum, tínir blóm.
Gjörvalla heimsins gleði
leggur glögg að veði
fyrir glæstan frama á
barnablómabeði.
Með tíu fingur, tíu tær,
tággrönn, í flestu afar fær.
Fullkomin freyja,
frú Vestmannaeyja
kennt hefur almúga góð orð að segja.
Nú hefur þú lifað átta tugi ára,
ávallt með reisn, þó komin sért til ára.
Lifi þú lengi,
svo lengi, svo lengi,
svo megum við njóta okkar góða
fengi.
Til Reykjavíkur leið þín lá,
svo litlu börnin fengir sjá.
Í fjölskyldunnar barmi
og ástarinnar faðmi,
þér fylgdu ávallt heilindi og sjarmi.
Nær tíu tugum fögnum við
að hafa haft þig, mér við hlið.
Frúin sú bjarta,
með þakklæti í hjarta,
ég veit þú Drottins himin munt skarta.
Að leiðarlokum þú loks munt
undirskrifa:
Ég lifi og þér munuð lifa.
Hvíldu í friði
að Eyja sáluhliði
þín bíður á himnum aðgöngumiði.
(APA)
Takk fyrir þig elsku amma. Ég elska þig að eilífu.
Agnes Pálsdóttir Aarøe.
Sigga í Vestmannaeyjum eða Sigga langa skipaði stóran sess í huga okkar fjölskyldunnar í Rauðagerðinu um áratuga skeið. Hún var sem besta langamma hjá börnunum enda þótt blóðskyldleiki væri ekki til staðar.
Ég hitti Siggu í fyrsta sinn fyrir tæpum 40 árum. Þá bjuggum við Sigrún á Kagså-kollegíinu í Kaupmannahöfn með Svein okkar um hálfs árs gamlan. Sigga var á ferð í borginni og langaði að heimsækja okkur og náttúrlega sérstaklega að sjá þann litla. Það var búið að segja mér dálítið af því hvað hún væri fín frú, ætti mikið af kristalsglösum og þess háttar, sem ég var kannski ekki alveg vanur að umgangast. Ég hafði því smá áhyggjur af því hvað þessari fínu frú myndi finnast um okkar fábrotna námsmannaheimilishald.
Þær áhyggjur hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar Sigga birtist. Hún var svo ánægð með allt sem hún sá, ánægð með hvernig við höfðum komið okkur fyrir, svo glöð yfir hvað Sveinn var myndarlegur og steininn tók úr þegar ég fór með þann litla og skipti á honum. Hún ætlaði varla að trúa sínum eigin augum, að hennar sögn, og sagðist aldrei hafa upplifað að pabbinn stæði í bleyjuskiptum.
Eftir að við fluttum heim þá hittum við Siggu oftar. Hún fylgdist alltaf af jafnmiklum áhuga með börnunum eftir því sem þeim fjölgaði og þau stækkuðu og þroskuðust. Jólagjafir til þeirra frá Siggu löngu voru fastur liður á jólunum langt fram eftir öllu.
Sumarið 1994 fórum við með Svein á pollamót í Vestmannaeyjum. Við gistum hjá Siggu, sem þá var farin að reka gistiheimilið Hvíld í sínu stóra húsi. Jói minn var þá fimm ára gamall, fjörmikill strákur sem tók á þeim tíma hóflegt mark á ráðum pabba síns. Ég gleymi ekki hvað Sigga var fljót að töfra hann upp úr skónum. Hún hrósaði honum fyrir hvað hann væri duglegur, bað hann að hjálpa sér, talaði við hann eins og fullorðinn mann og ég veit ekki hvað. Strákur snérist uppnuminn í kringum hana í von um að geta hjálpað henni eitthvað eða bara að vera nálægt Siggu sinni.
Meðan heilsan leyfði þá var Sigga fastur þátttakandi í þrettándaveislu stórfjölskyldunnar. Hún var alltaf jafn stórglæsileg og vel tilhöfð. Sigga fylgdist af áhuga með hve hópurinn stækkaði, hvað frændsystkinin voru orðin mannvænlegt fólk, og var alltaf jafn glöð og ánægð með að hitta fólkið sitt. Það var alltaf jafn gaman að hitta hana á þessum stundum og spjalla við hana um alla heima og geima. Hún sagði mér þá margt frá sínum fyrri árum, sem var fróðlegt að fá innsýn í.
Nú er Sigga í Vestmannaeyjum öll. Eftir sitja hlýjar minningar um þessa góðu og stórbrotnu konu sem reyndist okkur Sigrúnu og börnum okkar sem besta langamma. Fyrir það er fjölskyldan frá Rauðagerði 36 þakklát. Innilegar samúðarkveðjur til allra aðstandenda.
Gunnlaugur Auðunn Júlíusson.
Hinsta kveðja til vinkonu minnar sem var stórbrotin kona sem hefur lifað í nær 100 ár. Sigga í Skuld var hún oftast kölluð, ættuð frá Skuld í Vestmannaeyjum. Þar bjó Sigga lengst af ævinnar og átti þar stórbrotið líf. Hún var mamma bestu vinkonu minnar Hugrúnar sem ég kynntist í 12 ára bekk og hélst vinátta okkar alla tíð. Hugrún kvaddi þennan heim aðeins 55 ára að aldri.
Sigga kallaði mig oft stelpuna sína og fannst mér það ekki leiðinlegt. Þegar Hugrún fékk eitthvað fallegt þá fékk ég stundum líka. Það var líf og fjör á Heiðarveginum, en Sigga og Ingólfur áttu fimm börn, svo oft var fjör í kotinu. Ég átti góðar stundir með Siggu minni og heimsótti hana oft þar sem hún bjó í áratugi á höfuðborgarsvæðinu. Alls staðar var heimilið hennar notalegt og fallegt. Meira að segja í herberginu hennar á Eir voru falleg húsgögn og fallegar myndir á veggjum. Á Eir máttum við rúlla um gangana með hjólastólinn, skreppa út í garð eða niður í skemmtisalinn á 1. hæð. Hún var í uppáhaldi hjá starfsfólkinu, dugleg að borða, vildi alltaf vera fín og fara í lagningu. Sigga mín, ég þakka þér fyrir margar ánægjustundir á þinni löngu ævi. Nú knúsar þú Hugrúnu frá mér, talar við alla fallegu englana sem sitja á skýjum og taka á móti þér. Fólkinu þínu votta ég innilega samúð.
14. apríl næstkomandi hefðir þú átt 100 ára afmæli. Þá hugsum við til þín með gleði.
Þín
Hildur G. Jónsdóttir.
Heiðurskonan hún Sigga frá Skuld lést 16. janúar sl. í hárri elli á Hjúkrunarheimilinu Eir. Ég kynntist Siggu fyrst þegar ég starfaði nokkrum sinnum hjá Netagerð Ingólfs Theódórssonar í Vestmannaeyjum. Ingólfur Theódórsson eiginmaður hennar var á sínum tíma einn virtasti og áhrifaríkasti netagerðarmeistari á Íslandi og þó víðar væri leitað meðan hann lifði. Sigga studdi mann sinn af alúð og natni þar til hann féll frá að hún dreif sig í að stofna og reka gistiheimili í nýlegu einbýlishúsi þeirra hjóna. Þau voru nýflutt inn í húsið þegar eldgos hófst í Vestmannaeyjum 23. janúar árið 1973 og flestir Eyjabúa urðu að flýja þaðan um nóttina til Þorlákshafnar eins og frægt er frá þessum tíma. Þegar eldgosið hafði staðið í nokkra daga hafði safnast mikilli hraunaska og möl ofan á þak netagerðarinnar sem var við það að hrynja. Það var því bráðnauðsynlegt að safna liði til að bjarga nótum úr netagerðinni. Ég fékk leyfi hjá Magnúsi Gústafssyni forstjóra Hampiðjunnar til að fara með meistara mínum Guðmundi Sveinssyni í hópi manna til Eyja og taka þátt í björgunaraðgerðum í netagerðinni. Það gekk vel að bjarga og koma veiðarfærunum um borð í strandflutningaskipin Esju og Heklu sem voru orðnar vel hlaðnar þegar siglt var til baka til Þorlákshafnar. Sigga var ein af fáum konum sem neituðu að fara frá eyjunni því hún vildi alls ekki fara úr húsinu sínu fyrr en í lengstu lög. Það varð því úr að hún setti upp mötuneyti heima hjá sér fyrir björgunarmennina sem unnu næstum allan sólarhringinn og stóð sig eins og hetja við eldamennskuna fyrir björgunarliðið í netagerðinni. Sigga var glæsileg kona sem var alltaf mjög vel til fara og hún var með geislandi persónutöfra sem gerðu það að verkum að hún var mjög vel liðin og vinsæl meðal Eyjamanna. Guð blessi minningu Siggu frá Skuld.
Guðmundur
Gunnarsson.