Sæmundur Guðmundsson fæddist 1. ágúst 1930. Hann andaðist 3. janúar 2025.
Útför fór fram 23. janúar 2025.
Okkur hjónum var hann pabbi og tengdapabbi, hann var okkur fyrirmynd, stuðningur og hjálparhella í lífinu. Hann kenndi okkur svo óendanlega margt, handverk, virðingu fyrir samfélaginu og samferðamönnum. Hvernig á að standa við bakið á þeim sem standa manni næst og eru manni kærastir. Fyrir börnunum okkar var hann einstakur afi. Hann var afi Sæmi, sem átti afasveit sem var farið í á sumrin þar sem var leikið, smíðað, farið á sjóinn og svo ótal margt annað sem er svo verðmætt í minningunni og mun lifa með okkur öllum. Og það er sveitinni í Kvígindisfirði að mestu leyti að þakka hvað afabörnin fengu að vera mikið með afa sínum, kynnast honum og læra af honum, upplifa og njóta.
Hann var ekki búinn að lifa nóg. Hann átti svo mörg verkefni sem hann langaði til að taka á. Við höfum listann hans með okkur inn í framtíðna. Þrátt fyrir að vera ekki alltaf á sama máli var það hans máti að allir væru sáttir og í samlyndi. Þannig virkaði lífið best. Hann var með sterkar skoðanir á því hvernig skyldi haga hlutunum. Heima, í Kvígindisfirði eða í ríkisstjórninni. Hann passaði vel upp á sitt fólk og fylgdist með því sem var að gerast í lífinu hjá öllum hans.
Hann passaði að koma alltaf vel fyrir og vera smartur í tauinu. Góður ilmur og greiðan í hendinni er minning sem lifir hjá mörgum um hann elsku pabba.
Það er mögnuð ævi sem hann átti að baki. Með vinnusemi, elju og dugnaði fór hann allt sem hann ætlaði sér. Það var enginn hnútur sem hann gat ekki bundið og enginn hnútur sem hann gat ekki leyst. Bæði í lífinu og á snærinu sem hann notaði til að binda á kerruna.
Takk pabbi fyrir að vera eins og þú varst því það gerði mig að því sem ég er í dag.
Takk fyrir þrjóskuna. Takk fyrir umburðarlyndið. Takk fyrir sögurnar.
Takk fyrir kvöldbænirnar. Takk fyrir fordæmið fyrir mig og börnin mín.
Takk fyrir stuðninginn. Takk fyrir skjólið.
Elsku pabbi. Hvíldu í friði, þín minning lifir í hjörtum okkar.
Sæunn og Eðvarð.