Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Banki, sem er í raun bara annað heiti yfir grunn, er skilgreindur sem neðansjávarhæð eða hafsvæði sem er grunnt miðað við sjávarbotninn í kring. Myndast á slíkum svæðum oft uppstreymi næringarefna sem skapa grundvöll fyrir fjölbreytt lífríki og kjöraðstæður fyrir fiska. Frægustu bankarnir eru eflaust Doggerbanki í Norðursjó og Miklibanki við Nýfundnaland, en staða fiskistofna á þessum svæðum er þó ekki sérlega góð sökum ofveiði.
Við Dohrnbanka er, eins og við marga banka, að finna einstaklega gjöful fiskimið og sækja þangað skip meðal annars vænan þorsk í stórum stíl. Fiskimiðin voru hins vegar ekki uppgötvuð fyrr en 1955 í leiðangri vesturþýska rannsóknarskipsins Anton Dohrn. Skipið á sér merka sögu og átti um árabil tíða viðkomu á Íslandsmiðum og í íslenskum höfnum.
Saga skipsins er rakin á sérstökum vef sem tileinkaður er rannsóknaskipinu (anton-dohrn.de) og er þar að finna aragrúa af upplýsingum svo sem afrit af dagbókum rannsóknastjóra.
Mikil fjárfesting
Árið 1952 – sjö árum eftir lok seinni heimsstyrjaldar – ákvað matvæla-, landbúnaðar- og skóglenduráðuneyti Vestur-Þýskalands að fjármagna smíði hafrannsóknaskips og kaup á öllum tilheyrandi rannsóknabúnaði. Hófst þá umfangsmikið skipulags- og hönnunarferli og að því loknu var smíðin boðin út. Að loknu útboðsferli varð Mützelfeldt-skipasmíðastöðin í Cuxhaven fyrir valinu og hófst smíði í byrjun maí 1953. Um var að ræða sérlega framsækið verkefni en mikill efnahagsvöxtur einkenndi þessi ár í Vestur-Þýskalandi enda var það á þessum árum sem hið mikla Wirtschaftswunder (efnahagsundur) var að hefjast.
Skipið fékk nafn sitt 16. agúst 1954 og var sjósett sama dag. Sem fyrr segir fékk skipið nafnið Anton Dohrn og var það í höfuðið á samnefndum líffræðingi sem opnaði fyrstu hafrannsóknastöð í heimi í Napólí 1872. Barnabarn Antons Dohrns, dr. Antonie Dohrn, skírði skipið.
Anton Dohrn fékkst síðan formlega afhentur við hátíðlega athöfn 10. febrúar 1955, eða fyrir nákvæmlega sjö áratugum á mánudag. Fyrir hönd Sambandslýðveldisins Þýskalands (Vestur-Þýskalands) tók Theodor Heuss forseti við skipinu. Sá var fyrsti forseti Vestur-Þýskalands og gegndi embætti til ársins 1959. Minnugir muna eflaust að hinn merki maður Konrad Adenauer var kanslari á þessum árum.
Hið þá glænýja hafrannsóknaskip Vestur-Þjóðverja var 999 brúttótonn og smíðað sem síðutogari, en um var að ræða fyrsta tveggja þilfara síðutogarann á heimsvísu. Í áhöfninni voru alls 30, þar af voru 15 sem sinntu vísindamönnum auk þess sem um borð voru skipslæknir, veðurfræðingur og veðurathugunarmaður.
Vel búið
Anton Dohrn var líklega eitt fullkomnasta rannsóknaskip síns tíma og var meðal annars um borð einstaklega rúmgott vinnsludekk sem gaf færi á að setja upp fjölbreyttar fiskvinnsluvélar til prófana. Gat lestin geymt um þúsund kör af fiski, en 18 rúmmetra frystigeymsla var um borð og gat hún kælt alveg niður í -25°C.
Eins og lesendur hafa kannski áttað sig á snerust hafrannsóknir á þessum tíma jafn mikið um rannsóknir á fiskveiðum og rannsóknum á hafinu sjálfu og lífríki þess. Vistkerfisnálgun og sjálfbær nýting auðlinda hafsins var jú ekki komin á það stig sem við þekkjum í dag. Tilgangur hafrannsóknaskipsins var því ekki síður að finna gjöful mið fyrir þýska fiskiskipaflotann en að rannsaka lífríki sjávar.
Um borð voru einnig ýmiss konar rannsóknastofur, þar á meðal sjóskrárherbergi, hafrannsóknarstofa, líffræðirannsóknastofa, fiskirannsóknastofa, sýklarannsóknastofa, rannsóknarstofa fyrir veiðarfæri, bergmálsmælingastofa, myrkraherbergi, sædýrageymsla með fiskabúrum og vatnsmælingarás sem lá lóðrétt í gegnum skipið, en efri endi þess var í vélarrúmi fyrir vindur skipsins.
28 sinnum umhverfis hnöttinn
Anton Dohrn hélt í 164 rannsóknaleiðangra og var alls 3.727 daga á sjó. Í 8.157 skipti voru sýni sótt með trolli og 7.777 sinnum með nót. Á þeim tíma sem Anton Dohrn sinnti hafrannsóknum sigldi skipið meira en 600 þúsund sjómílur, rúmlega 1.110 þúsund kílómetra. Það er ígildi tæplega 28 ferða umhverfis jörðina.
Skipið er frægt fyrir tvær sérstakar uppgötvanir. Fyrst og fremst uppgötvun fyrrnefndra fiskimiða milli Íslands og Grænlands, sem fékk nafnið Dohrnbanki, árið 1955 og síðan uppgötvun neðansjávarfjallsins Anton Dohrn út af Suðureyjum (e. Hebrides) við Skotland.
Eftir 17 ár í þjónustu Vestur-Þýskalands sem hafrannsóknaskip var skipinu lagt sumarið 1972. Í desember það ár gekk það þó í endurnýjun lífdaganna sem eftirlitsskip með nafnið Meerkatze og sinnti slíku eftirlitsstarfi næstu árin, að mestu við Íslandsstrendur. 1986 var skipið síðan selt í brotajárn.
Íslandsmið hátíðlega kvödd
Greint var frá því í Morgunblaðinu í júlí 1977 að Meerkatze (áður Anton Dohrn) hefði í tilefni af síðustu ferð sinni frá Íslandi boðið merkum gestum um borð. Mættu skipherrar Landhelgisgæslunnar og forstjóri hennar sem og yfirhafnsögumaður Reykjavíkurhafnar.
„Ég hef alla tíð kunnað vel við mig á Íslandsmiðum, nema hvað í þorskastríðinu leið mér aldrei vel og þá gátum við aldrei leitað hafnar, það var erfiður tími. Hins vegar held ég að lífið hafi þá verið miklu erfiðara hjá fiskimönnunum. Þá – og nú segi ég sem betur fer – var okkur fyrirskipað af þýskum stjórnvöldum að aðstoða ekki togarana þegar íslensku varðskipin voru að ergja þá,“ var haft eftir Harald Paetow skipstjóra Meerkatze við tilefnið.