Ingibjörg Jónsdóttir fæddist á Ísafirði 30. nóvember 1932. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 27. janúar 2025.
Foreldrar hennar voru hjónin Jón B. Jónsson, f. 19. apríl 1908, d. 20. desember 1997, og Helga Engilbertsdóttir, f. 3. mars 1912, d. 23. mars 2005.
Systkini hennar eru Helga Hulda, f. 23.7. 1934, d. 10. maí 2023, Vignir Örn, f. 31.8. 1935, drengur, f. 20.4. 1939, fæddur andvana, Jón Þór, f. 8.12. 1942, d. 21.1. 2015, og Margrét, f. 25.1. 1951.
Hinn 9. janúar 1954 giftist Ingibjörg Oddi Jakobi Bjarnasyni, f. 27.10. 1932, d. 9.10. 2004.
Börn þeirra: 1) Helga, f. 23.4. 1954, dóttir hennar er Linda Sigurbjörg, f. 25.9. 1975, maki hennar er Þorsteinn, dætur hennar: a) Hafdís Hrönn, f. 1991, maki Jóhann, dætur hennar eru Birna Dís og Sóldís Birta, dóttir hans Emilía Freyja. b) Katrín Embla, f. 1998, maki Edward, dóttir þeirra Síerra Björk. c) Elva Björk, f. 2001. Börn hans a) Agnesa, maki Guðjón Freyr, börn þeirra Guðrún Adda og Estel. b) Ólöf Adda, maki Bjarki Freyr, börn þeirra Malen Dís og Nóel Teó. c) Sindri. d) Vigdís Stella.
2) Jón Benjamín, f. 13.8. 1956, eiginkona Guðlaug Valdís Ólafsdóttir, dætur þeirra a) Ingibjörg Erna, f. 1981, maki Ágúst, dætur þeirra Elva Valdís og Klara Björk, synir hans Helgi Aron og Kristófer Thor. b) Herdís Harpa, f. 1987, maki Arnar Hafsteinn.
3) Guðrún, f. 31.12. 1960, eiginmaður Björn Guðbjörnsson, börn hennar: a) Alexander Þór, f. 1988, maki Hugrún, dætur þeirra Ásdís Eva og Helga Sara. b) Oddur Þór, f. 1995. c) Thelma Dís, f. 1998. Dætur hans: a) Harpa Karen, maki David, dætur þeirra eru Dalía Dís og Helena Kristín. b) Inga Sigríður, maki Agnar, börn þeirra Andrea Björt og Róbert Þór, börn hans Hekla Sif og Birkir Logi. c) Rakel Birna, maki Jón Árni, dóttir þeirra Emma Von.
4) Oddný Kristín, f. 6.7. 1964, eiginmaður Magnús Ólafsson, börn hennar: a) Vigdís Huld, f. 1989, maki Einar Örn, synir þeirra Matthías Örn og Mikael Oddur. b) Victor, f. 2001.
Börn hans: a) Guðlaug María, maki Jón, barn þeirra Sebastían Breki. b) Ólafur, maki Anna Lillian, barn þeirra Magnús Þröstur. c) Margrét Edda, maki Andri Már, börn þeirra Eyva Máney og Anja Marin. d) Þóra Kristín.
5) Viðar Ingi, f. 25.2. 1976, synir hans: a) Leó Ingi, f. 1997, maki Helena Amalie, synir þeirra eru Felix og Júlíus. b) Kristófer Kári, f. 2002.
Ingibjörg gekk í barna- og gagnfræðaskóla á Ísafirði, hún fór í Húsmæðraskólann Ósk 1952-1953. Hún vann ýmis störf á yngri árum, m.a. á saumastofu og í síldarsöltun, en þegar börnin fæddust varð hún heimavinnandi. Þegar börnin urðu eldri vann hún m.a. í rækjuvinnslu, Sjúkrahúsi Ísafjarðar en lengst af í Íshúsfélagi Ísfirðinga þar sem hún vann í aldarfjórðung og lauk þar starfsævinni árið 1999. Ingibjörg eða Imma eins og hún var alltaf kölluð var mikil hannyrðakona, saumaði og prjónaði mikið og fengu börn og barnabörn að njóta þess.
Útför Ingibjargar fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 8. febrúar 2025, klukkan 11.00.
Elsku Imma, mín kæra tengdamamma. Ég vil með þessu litla bréfi þakka þér samveruna og allt sem þú kenndir mér og gerðir fyrir mig.
Brotthvarf þitt hefur mikil áhrif á mig og fjölskyldu mína. Árið 1978 kom ég ung stúlkan til Ísafjarðar, nýútskrifuð úr námi og búin að fá vinnu fyrir vestan. Vildi kanna hvort framtíð mín gæti legið við fjörðinn fagra Skutulsfjörðinn. Ég hafði kynnst syni þínum Jóni B. á námsárunum. Þegar til Ísafjarðar kom féll ég í faðm sonar þíns og ekki síður faðm ykkar tengdapabba, þið tókuð mér opnum örmum. Síðan eru liðin 47 ár.
Þú fórst ekki með neinum látum í gegnum lífið, enda með eindæmum róleg og yfirveguð, en þú varst föst fyrir. Það tók mig smá tíma að komast inn fyrir skelina en þegar þangað var komið smullum við saman. Við vorum ekki alltaf sammála, þú þurftir tíma til að átta þig á tengdadótturinni sem hafði drukkið í sig baráttusöngva kvenna eftir stóra kvennafrídaginn enda við hvor af sinni kynslóðinni. Það var skóli að fylgjast með þér, þú varst sterk og mikil móðir og húsmóðir.
Þó sumir ungarnir þínir væru að fljúga úr hreiðrinu þegar okkar leiðir lágu saman voru þeir ekki allir flognir. Þú lést ekki mikið á því bera, en afköst þín voru mikil. Öll handavinna lék í höndum þér, og gómsætu réttirnir og kökurnar voru dásamlegar.
Mér eru minnisstæð fyrstu jólin sem ég dvaldi hjá ykkur á Engjaveginum, jólabúðingurinn með hnausþykku heitu berjasaftinni, engu líkt. Saftina mátti finna á háaloftinu, þið hjónin lögðust í ber á haustin. Dætur okkar áttu alltaf athvarf hjá þér, oftar en ekki komu þær við hjá ömmu til að fá sér hressingu og spjalla á leið heim úr skólanum.
Áföll verða, tengdapabbi kvaddi þennan heim og fyrir þér breyttist allt, enda þið búin að fylgjast að í meira en hálfa öld. Nokkrum áru seinna kvaddir þú Engjaveginn og fluttir á Hlíf í íbúð fyrir aldraða. Þar áttum við margar samverustundir, prjónuðum, spiluðum og spjölluðum. Ósjaldan fórum við í bíltúra, fengum okkur ís í Bolungarvík eða fórum í Gunnukaffi á Flateyri, nú ylja ég mér við þessar góðu minningar. Þegar árin færast yfir getur heilsan bilað.
Þegar þú lagðir frá þér prjónana áttaði ég mig á því að ekki var allt eins og það átti að vera, minnið var farið að gefa sig, þannig þróuðust þín síðustu ár og mikilvægt að vitja þín daglega, það þroskaði mig.
Þú fluttir á hjúkrunarheimilið Eyri þar sem þú naust mikillar hlýju og góðrar umönnunar og þar eignaðist þú dásamlega vinkonu, hana Siggu. Þið handfjötluðuð spilin ykkar alla daga, þar til þú dróst þig í hlé, kvaddir spilafélagann, okkur öll og þennan heim.
Sjá hinn fagra fjallahring
fjörðinn vefja örmum sínum,
þar er engin umbreyting
allt frá bernskudögum mínum,
ennþá gnæfir hyrnan háa
hátt við loftið fagurbláa.
Ó, hve sælt að sofna hér
síðasta blund að ævikveldi
helst er kvöldsól kveðja fer,
krýnir fjöllin rauðum eldi,
englaskari ofan stígur
upp með sálu mína flýgur.
Hér eftir verður það ekki faðmurinn þinn elsku Imma sem umlykur okkur þegar við komum vestur heldur faðmur fjalla blárra.
Ég mun ávallt sakna þín.
Þín tengdadóttir,
Valdís.
Elsku besta amma mín, það er sárt til þess að hugsa að þú sért farin frá okkur úr þessum heimi.
Þegar ég sit hérna og skrifa þessa minningargrein um þig með tárin í augunum á köldum vetrardegi og drekk ylvolgan kaffibolla með mikilli mjólk og borða dökkar súkkulaðirúsínur í þínum anda, eins og okkur báðum þótti best, leiði ég hugann að deginum þegar þú lést. Það gerðist í birtingu þegar sólin var farin að sýna sig upp úr fjallaskörðum eftir dimman snjóþungan vetur fyrir vestan. En áður en þú féllst frá vorum við fólkið þitt í þann mund að fara að leggja leið okkar til þín. En sumir náðu að hitta þig en aðrir ekki áður en þú ákvaðst að nú væri tíminn þinn kominn og kvaddir þennan heim snemma morguns með snævi þakta jörð. Það var gott fyrir þig að þú fékkst hvíldina sem þú þurftir og náðir að sofna svefninum langa eftir erfið veikindi undanfarin ár. Leið þín lá um þennan stað, Ísafjörð, og leið ykkar afa saman og nú liggur leið þín um þennan veg inn í himnaríki að hitta afa. Mikið verður hann nú ánægður að sjá þig loksins og nú verðið þið sameinuð á ný. Það yljar mér um hjartarætur þegar ég hugsa um allar fallegu minningarnar um þig frá því ég var barn og unglingur allt fram á fullorðinsaldur, en þær mun ég geyma eins og gull. Ég ólst upp við það að hafa ömmu og afa alltaf hjá mér, nánar tiltekið þá bjuggum við öll á Ísafirði. Amma og afi voru nánast í næsta húsi við mig, sem er ákaflega dýrmætt fyrir barn að alast upp við, og voru samverustundirnar því mjög margar eins og gefur að skilja. Góðhjartaðri manneskju er erfitt að finna á þessari jörðu og þú varst með hjarta úr gulli svo góð við allt og alla. Þú elsku amma mín varst svo hæfileikarík, svo góð í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur og gerðir allt svo vel, hvort sem það var að ala upp börn, prjóna, hekla, baka eða elda. Svo áttir þú líka einn leyndan hæfileika, en það var að syngja, sem ég held að ekki margir hafi fengið að kynnast nema ég og þitt allra nánasta fólk og þvílík gullrödd sem þú hafðir. Elsku amma mín, ég mun aldrei gleyma síðasta brosinu þínu þegar ég kom að hitta þig á aðfangadag jóla áður en þú fórst frá okkur. Þú varst svo falleg en þú varst svo ótrúlega þreytt þennan dag og svona þreytta hafði ég ekki séð þig áður, en þú hresstist við það eitt að sjá mig. Ég fann að það gaf þér svo mikið að hitta okkur fólkið þitt. En þarna vissi ég að þú ættir ekki langt eftir því mig hafði dreymt að þú færir bráðum að kveðja okkur. Þegar ég ætlaði að kveikja á kerti hjá elsku afa inni í kirkjugarði sama dag og ég hitti þig tókst mér ekki að kveikja á kertinu, það hafði aldrei gerst áður, en ég náði svo að kveikja á endanum. Ég held að afi hafi verið að stríða mér þarna eins og honum einum var lagið og einungis mánuður leið hjá og þá slokknaði ljós þitt á þessari jörðu.
Minning mín um góðhjartaða konu hana elsku ömmu mína mun lifa um ókomna tíð. Góða ferð elsku amma mín upp til himna og ég bið að heilsa elsku afa mínum, ég veit hann mun taka vel á móti þér. Hvíldu í friði.
Þitt barnabarn
Herdís Harpa Jónsdóttir.
Elsku besta amma og nafna mín á Engjó.
Þú varst einstök kona og sýndir afkomendum þínum mikla umhyggju. Hlý faðmlög, endalausir kaffitímar, bestu dísudraumar í heimi og framleiðsla á svo fallegu handverki fyrir okkur.
Það voru alltaf góðar móttökur á Engjaveginum hjá ömmu og afa, hægt var að koma þar við hvenær sem var sólarhringsins ef þörf var á. Það eru því góðar og dýrmætar minningar um þig og ykkur afa sem munu fylgja okkur afkomendunum alla tíð.
Þegar ég var orðin fullorðin og flutti tímabundið vestur með stelpurnar mínar fékk ég að endurupplífa þennan lúxus að geta kíkt við hjá ömmu daglega, þú varst þá flutt á Hlíf en góða tilfinningin við að hitta þig var alltaf sú sama.
Amma kær, ert horfin okkur hér,
en hlýjar bjartar minningar
streyma
um hjörtu þau er heitast unnu þér,
og hafa mest að þakka, muna og
geyma.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Takk fyrir allt.
Ingibjörg Erna
Jónsdóttir.