Sigurður Sveinsson Hálfdanarson fæddist 28. júní 1935. Hann lést 14. janúar 2025. Útför hans fór fram 6. febrúar 2025.

Í hafsjó minninganna rís ein sterk í systkinahópnum okkar stóra á Ytra-Seljalandi. Þau yngstu okkar ýmist ófædd eða of ung til að muna en heyrðu söguna sem svo oft var sögð af þeim eldri og í nokkrum tilbrigðum. Upp hlaðið kom bifreið. Það var annað hvort amerískur Plymouth eða Opel, eftir því hver sagði frá. Út úr bílnum steig maður sem spurði eftir föður okkar, en það okkar sem taldi að hefði hitt hann fyrst var yfirleitt sögumaður sjálfur. Þarna kom hann Sigurður bróðir sisona allt í einu inn í líf okkar, hann stóri bróðir okkar, nýr bróðir en samt fullorðinn, með eiginkonu sér við hlið, hana Theu, og litla telpu sem skottaðist um með ljósa lokka.

Með tímanum jukust kynni okkar við þessa viðbót í fjölskylduna og þau yngstu í okkar hópi eignuðust kærar leiksystur í bróðurdætrunum, Áslaugu og Helgu Hönnu. Það var ávallt tilhlökkun að fá þau til dvalar á bænum með leikjum og fjöri.

Siggi var hávaxinn og myndarlegur með hlýju í framkomu sem birtist líka í brosinu sem stundum fór yfir í kímnisglampa í brúnum augum. Það var stutt í léttleika og spaug og hann bar með sér einhvern framandleika, klæddur í gallabuxur, belti með stórri sylgju og hálsklút, næstum eins og kúreki í amerískum bíómyndum sjónvarpsins þess tíma.

Í önnum heyskapar tók hann óspart þátt, og lagni hans við að laga bilaða hluti kom sér einstaklega vel ef bindivélin bilaði og allt var stóra stopp í teignum. Hann var röskur, duglegur, árrisull og oft búinn að ljúka morgungöngu þegar hópurinn settist við morgunverðarborðið á Seljalandi.

Hann tók þátt í skógræktarstörfum á býlinu, var einn af hvatamönnum þess að Kverkin var tekin í fóstur af afkomendum ömmu og afa frá Seljalandi og einnig kom hann upp eigin gróðurreit á jörðinni. Hann var handlaginn við ólíkustu hluti og snyrtimennska í blóð borin – sem hann reyndi að kenna systkinum sínum við tiltekt og umgengni í geymslu bæjarins, en því miður án teljandi árangurs!

Það var hlýja og traust sem streymdi frá Sigga, og hann lagði sig eftir að fylgjast með öllum í okkar stóru fjölskyldu. Það var alltaf farsæld, tign og reisn yfir honum sem fylgdi honum út ævina og léttleiki hans, bros, kímni og hlýja geislaði enn frá honum allt fram til loka jafnvel þótt örlögin hafi gert honum að hverfa inn í alzheimersjúkdóm.

Við kveðjum kæran bróður með þakklæti og hlýju. Fyrir hönd systkinanna frá Ytra-Seljalandi,

Guðrún Ingibjörg
Hálfdanardóttir,
Guðlaug Helga
Hálfdanardóttir og
Heimir Freyr
Hálfdanarson.

Sigurður Sveinsson Hálfdanarson hóf störf sem brunavörður hjá Slökkviliði Reykjavíkur í byrjun árs 1964 og hætti eftir 37 ára starf árið 2001. Þá var Slökkvilið Reykjavíkur orðið Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.

Siggi Sveins, eins og hann var ætíð kallaður af félögum sínum, tók virkan þátt í undirbúningi og aðlögun starfseminnar við sameiningu slökkviliðanna á höfuðborgarsvæðinu enda hélt hann utan um móttöku og þjónustuver fyrir slökkviliðið síðustu árin í starfi hjá okkur. Áður en hann tók við því verkefni starfaði hann sem innivarðstjóri.

Siggi var með kennsluréttindi í skyndihjálp og var á yngri árum mjög öflugur í þeim málaflokki, tók þátt í skipulagningu náms í skyndihjálp hjá Rauða krossinum og kenndi þar lengi.

Eftir starfslok sagði Siggi ekki skilið við slökkviliðið, því hann hélt áfram að sjá um verkefni tengd minjasafni liðsins um hríð. Hann var líka duglegur að taka þátt í félagsskap eldri slökkviliðsmanna, þegar hann var á landinu og hafði heilsu til.

Þau Theodóra eyddu um árabil drjúgum tíma ársins í Flórída og nutu þar veðurblíðu og slökunar á sínum efri árum. Það var alltaf gaman þegar Siggi birtist í Skógarhlíðinni eftir Flórídadvöl, sólbakaður og sæll, og sagði okkur sögur af krókódílum og öðrum kynjaverum. Hann Siggi okkar var sagnamaður mikill og var glaður, glettinn og spaugsamur í frásögnum. Oftast var hann heldur kíminn og pollrólegur en gat hvesst sig og verið fastur fyrir ef honum misbauð. Sem var þó ekki oft.

Nú er afmælið komið í bollana fyrir handan, svo vitnað sé í vinsælan frasa Sigga okkar, og hann farinn að standa vaktina þar. Án vafa gætir hann þess að allir séu með og engan skorti neitt. Við sem eftir sitjum yljum okkur við minningar um góðan og gegnan félaga.

Fyrir hönd Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins votta ég Theodóru og dætrum, sem og ástvinum hans öllum, mína dýpstu samúð.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.