Eva Dögg Jóhannesdóttir segir að þótt lífferill fiski- og laxalúsar sé vel þekktur sé það flókið verkefni að greina smitleiðir og meta áhrif á villta stofna.
Eva Dögg Jóhannesdóttir segir að þótt lífferill fiski- og laxalúsar sé vel þekktur sé það flókið verkefni að greina smitleiðir og meta áhrif á villta stofna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það eru allir sammála um að það þurfi að fylgjast með fjölgun lúsa og það þarf að vakta villtu stofnana líka, alveg eins og eldislaxinn, og hafa hemil á þessu. Það er fyrirtækjunum fyrir bestu að halda þessu í skefjum svo að lúsin valdi ekki…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Það eru allir sammála um að það þurfi að fylgjast með fjölgun lúsa og það þarf að vakta villtu stofnana líka, alveg eins og eldislaxinn, og hafa hemil á þessu. Það er fyrirtækjunum fyrir bestu að halda þessu í skefjum svo að lúsin valdi ekki afföllum.“

Skiptar skoðanir eru um það í hve miklum mæli sjókvíaeldi stuðli að aukningu lúsaálags á villtum fiskum. „Sumir eru alveg sannfærðir um það og vísa til þess að með aukinni framleiðslu sníkjudýra eykst hætta á að lúsin rati í villta fiskinn, draga þá ályktun að það hljóti að vera tenging þar á milli. Hins vegar er það ekki endilega tilfellið,“ segir Eva Dögg og bendir á að á þeim svæðum þar sem sjókvíaeldi hefur verið bannað í Bresku-Kólumbíu í Kanada hefur lús á villtum fiskum ekki minnkað.

Spurningin um áhrif sjókvíaeldis á villta stofna með tilliti til lúsasmits er því flóknari en virðist í fyrstu, útskýrir hún.

Laxa- og fiskilús er sníkjudýr sem sest á fiska og nærist á húð, blóði og slími þeirra. Getur það haft alvarleg áhrif á heilsufar þeirra fiska sem verða lúsinni að bráð.

Vísindamenn ekki sammála

Bendir Eva Dögg á að Noregur hafi árið 2017 innleitt svokallað umferðarljósakerfi sem á að stjórna vexti laxeldis út frá áætluðum áhrifum lúsa úr eldinu á lifun villtra atlantshafslaxa. Sumir hér á landi hafa reynt að yfirfæra greiningaraðferðir kerfisins á íslenskar aðstæður, en norska kerfið hefur sætt þó nokkurri gagnrýni þar ytra og segir Eva Dögg ekki einingu um það meðal vísindamanna hvort kerfið gefi rétta mynd af áhrifum eldisins.

„Gagnrýnin hefur snúist um að það vanti töluverð gögn og að það vanti ritrýni á þau gögn sem nýtt eru í umferðarljósakerfið, sem á að segja til um það hversu margir laxfiskar munu deyja við ákveðið lúsaálag.

En það eru allir sammála um að það þurfi að fylgjast með þessu, það þurfi vöktun og rannsóknir, en aðferðirnar eru ekki yfir gagnrýni hafnar. Þetta er bara ekki einfalt viðfangsefni því það eru alls konar breytur sem spila inn í hvernig lúsaálag er mælt, til dæmis veiðiaðferð á fiskum og hvernig unnið er úr þeim gögnum sem er aflað.“

Þótt bæði laxa- og fiskilús séu sníkjudýr sem hafa verið þekkt um langt skeið og greind í þaula er flókið að fullyrða um áhrif þeirra, að sögn Evu Daggar.

„Þú ert með lirfur sem losna út í sjóinn og ferðast með hafstraumum en fara líka upp og niður með vatnssúlunni eftir hitastigi og birtu. Lúsin getur sest til dæmis á hornsíli, finnur á lyktinni að það er ekki hagstætt svæði og sleppur síðan og fer annað.

Það er erfitt að skilja þetta og þess vegna einnig erfitt að búa til einhver kerfi sem spá nákvæmlega fyrir um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Við erum alltaf að reyna að búa til einhverja kassa og skilgreina hvað mun og mun ekki gerast ef hitt eða þetta. Þetta verður aldrei fullkomið, þó verðum við að hafa einhvers konar kerfi. Þess vegna er það mikilvægasta sem við getum gert að vakta villta fiska og eldisfiska, þannig að við getum verndað villtu stofnana, en ekki skaða þá frekar með rannsóknum eins og við erum kannski að gera í dag.“

Flóknir ferlar

Spurð um smitleiðirnar vekur Eva Dögg athygli á því að lúsin varð til í náttúrunni, þó að eldisstöðvar þar sem smit kemur upp geti skapað góða gróðrarstíu fyrir hana.

„Rannsóknir Færeyinga hafa sýnt fram á að fiskeldið er fyrst og fremst að smita sjálft sig. Lýsnar sem verða til á tilteknu eldissvæði eru líklegastar til að smita innan svæðis eða fara yfir á næsta eldissvæði, því þar er sterkasta lyktin af laxinum og mesti fjöldinn. Það er miklu einfaldara fyrir sníkjudýr að fara bara á næsta fisk frekar en að fljóta um hafið í leit að náttúrulegum hýsli. Þá er ég ekki að segja að það gerist ekki að lús fari af eldissvæði á villta fiska, en það hefur sýnt sig að helsta smitleiðin sé innan og milli eldissvæða.

Í ljósi þessa er mikilvægasta aðgerðin gegn lúsasmiti hvíld eldissvæða, eftir þriggja mánaða hvíld er búið að slíta lífsferil lúsarinnar. Hins vegar, ef verið er að hvíla eldissvæði sem er í straumstefnu frá öðru svæði þar sem er lús næst lítill árangur. Þannig að það þarf stærri skilgreind og rannsökuð smitvarnasvæði. Okkur vantar lúsadreifingarlíkan, en mér skilst að Hafrannsóknastofnun sé að vinna slíkt. Vonandi kemur það fyrr en síðar svo að við getum skilið betur hvernig lús dreifist. Færeyingar eru með slíkt líkan þannig að maður getur séð nákvæmlega hvernig lirfur dreifast ef lús greinist.“

Eva Dögg útskýrir að lúsalirfur smiti ekki fiska um leið og þær klekjast út, það taki nokkra daga og fari eftir hitastigi sjávar. Þá getur lúsin lifað í allt að tvær vikur úti í sjó áður en hún finnur hýsil, sem flækir kortlagningu smitleiðanna.

„Það er ekki bara hægt að segja að á einhverjum eldisstað sé svo mikið af kvenkyns lúsum að það útskýri lirfur á villta fiskinum. Ég vildi að það væri svona einfalt en ferlarnir eru flóknari en svo.“

Engin augljós lausn

Er einhver lausn á þessum lúsafaröldrum?

„Það er nú oft þannig í fiskeldi að ef þú finnur eina lausn býrðu oft til einhverja aðra áskorun. Til dæmis ef það er lyktin af laxinum sem lúsin finnur þá hafa menn spáð í að breyta fóðrinu svo að laxinn lykti öðruvísi, en þá breytirðu bragðinu af laxinum. Við vitum hvernig sníkjudýrið virkar, en það hefur þróast með þessum fiskitegundum svo lengi að það er erfitt að slíta þessar verur í sundur. Þetta eru dýr sem hafa lifað saman í árþúsund og eiga alveg að geta gert það, það er ekkert að því að hafa eina eða tvær lýs.“

Eva Dögg segir hins vegar margar lýs yfir nokkurn tíma geta valdið miklum fylgikvillum fyrir fiskinn og reyna því eldisfélög að bæði fyrirbyggja smit og uppræta lúsina þegar smit mælist yfir ásættanlegum mörkum.

„Menn eru að gera kynbætur á eldisfiskum til að gera fiskinn harðgerðari, sums staðar erlendis er prófað að breyta erfðaefni fiska – en slíkur fiskur er ekki nýttur á Íslandi, gefa fóður sem eykur slímframleiðslu, beita leysigeisla, lúsagildrum og hljóði og nota fiska sem éta lýs, eins og hrognkelsi – en fiskilúsin elskar líka hrognkelsi og það er spurning hvað sé hægt að gera í því. Svo ef þetta er komið út í óefni þarf að meðhöndla fiskinn mekanískt eða með lyfjum. Það er búið að reyna ýmislegt og þetta eru allt mjög dýrar aðgerðir.“

Tryggja þurfi vöktun

Eva Dögg Rifjar upp að á síðasta ári hafi hér á landi verið byrjað að dæla fiski úr kvíum upp í brunnbát og meðhöndla hann með volgu vatni og þrýstingi.

„Þá er lúsin beinlínis spúluð af honum og svo síuð frá og henni fargað, en fiskurinn fer aftur út í kví. Þetta er mjög kostnaðarsöm aðgerð og mikil vinna. Það hafa eflaust allir Vestfirðingar séð brunnbátinn Ronju Strand sigla milli fjarða yfir sumarið og fram á haust.“

Spurð hvað þurfi sérstaklega að huga að í framhaldinu svarar hún: „Það er búið að vinna rosalega mikla og góða vinnu frá því að eldisfyrirtækin urðu fyrir miklu áfalli 2023. Síðan þá hafa eldisfyrirtækin fyrir vestan unnið með dýralæknum og líffræðingum að því að minnka lúsaálagið. Þess vegna kom meðal annars þessi brunnbátur í fyrra og gekk bara töluvert vel, vonandi enn betur í ár. Það þarf að halda þessu samstarfi áfram.

Það er líka ótrúlega mikilvægt að koma á almennilegri vöktun á villta fiskinum, hvernig sem það verður gert, og að hún verði ekki bundin óvissu um fjármögnun ár eftir ár.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson