Hvað ætlið þið að syngja um helgina?
Tónleikarnir heita Lögin úr leikhúsinu, en við fórum að grafa í fyrra eftir lögum úr íslensku leikhúsi. Margir fræknir tónsmiðir hafa skrifað fyrir íslenskt leikhús og mörg af þessum lögum eru ástsælustu íslensku sönglög sem við eigum, til dæmis Klementínudansinn eftir Atla Heimi og Maístjarnan. Við söfnuðum þeim saman og gripum nokkur lög eftir bræðurna Jón Múla og Jónas líka. Við fórum svo að garfa enn dýpra og fundum fræg lög eins og Maður hefur nú og svo langaði okkur að vera með eitthvað enn nýrra og mundum þá eftir því að Megas skrifaði svo flott lög við leikrit sem heitir Lífið, notkunarreglur eftir Þorvald Þorsteinsson. Sonur Megasar, Þórður, útsetti lög föður síns fyrir okkur. Þar má meðal annars finna lagið Lengi má manninn reyna sem margir þekkja.
Voru öll lögin upphaflega samin fyrir leikhús?
Já, sum hafa lifað með þjóðinni, önnur hafa verið minna flutt en eru mjög skemmtileg og falleg. Við létum svo útsetja þau fyrir söng og píanó.
Henta þessi lög vel þinni rödd?
Ég syng alls konar en myndi titla mig sem klassíska söngkonu, sem í raun þýðir bara að ég syng ekki í míkrófón. Ég syng lög frá alls konar tímabilum og syng djass, óperur og sönglög.
Hvað er skemmtilegast?
Ég get ekki gert upp á milli; mér finnst gaman að gera allt! Mér finnst rosalega gaman að vera í óperusýningum og hef gert mikið af því. Það er líka gaman að syngja stór kirkjuleg verk. Ég er algjör alæta og hef meira að segja sungið inn á tvær þungarokksplötur.
Hverju eiga gestir von á í Salnum á sunnudaginn?
Þetta verða ofsalega ljúfir, bjartir og sólskinsríkir tónleikar sem okkur veitir ekki af í slagviðrinu. Þetta verður yndisleg stund. Við eigum sannarlega fjarsjóð í íslenskri leikhústónlist. Ég lofa að fólk fær hlýtt í hjartað og sólskin í sinnið.
Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari halda tónleikana Lögin úr leikhúsinu á sunnudag kl. 13.30 í Salnum í Kópavogi. Á undan tónleikunum, kl. 13, verður boðið upp á tónleikaspjall. Miðar fást á tix.is.