Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Strandveiðar voru innleiddar á Íslandi árið 2009. Í þeim felst að fjöldi smábáta hefur heimild til að halda til veiða fjóra mánuði á ári. Veiða má fjóra daga í viku og hámark er á því hversu mikið má veiða. Þegar heildarveiðin er komin í hámark eru veiðarnar stöðvaðar. Nú hafa strandveiðisjómenn fengið loforð frá ríkisstjórn um að þeim verði tryggðir 48 dagar til veiða í sumar. Það loforð mun hafa miklar og neikvæðar afleiðingar.
Tap af veiðunum – engin greining á árangri
Ekki hefur farið fram ítarleg greining á hvort strandveiðar hafi skilað því sem þeim var ætlað og efast má stórlega um að svo sé. Í grein í Regional Studies in Marine Science sem birt var árið 2021 er strandveiðikerfið borið saman við hið hefðbundna aflamarkskerfi. Þar segir að samkvæmt fjölda rannsókna á fiskveiðikerfum um allan heim séu strandveiðar mun óarðbærari en veiðar í aflamarkskerfinu. Fullyrt er að þær séu efnahagsleg sóun og strandveiðar hafi að meðaltali verið reknar með tapi á meðan aðrar fiskveiðar á Íslandi hafi verið arðbærar. Þá hafi engin greining farið fram á því hvort strandveiðar skili því sem þeim var ætlað. Meðal skýrsluhöfunda er Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.
Niðurstaða höfunda er í fullu samræmi við árlegt yfirlit Hagstofunnar; hag veiða og vinnslu. Verði af aukningunni er óumdeilt að heildarafkoma í sjávarútvegi verður verri. Tekjur verða minni, kostnaður meiri, tekjur sjómanna og landverkafólks minni og olíunotkun meiri, svo fátt eitt sé nefnt. Samfélagið verður af enn meiri verðmætum, tekjur ríkissjóðs verða lægri, framlag til hagvaxtar og velferðar verður minna og lífskjör lakari.
Öfugmæli um byggðafestu
Stjórnvöld hafa ekki upplýst frá hverjum eigi að taka til þess að tryggja auknar strandveiðar. Þeim er hins vegar mikið í mun að hamra á byggðasjónarmiðum. Það eru öfugmæli. Aukinn kvóti sem gefinn er strandveiðimönnum verður annaðhvort tekinn af fyrirtækjum í aflamarkskerfinu eða af kvóta sem hingað til hefur verið varið til ýmissa byggðatengdra verkefna. Þótt ágallar byggðakvóta séu umtalsverðir, þá er þeim kvóta í öllu falli úthlutað á landbyggðinni til viðkvæmari byggðarlaga. Það á ekki við um strandveiðar. Ný skýrsla SFS, Nokkrar staðreyndir um strandveiðar, leiðir í ljós að þar sem strandveiðar eru umfangsmestar, á Vesturlandi og Vestfjörðum, er um helmingur strandveiðisjómanna búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Með aukningu strandveiða eru störf þannig að stórum hluta tekin frá landsbyggð og færð til íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Landvinnsla verður minni
Opinberar tölur sýna að afli sem landað er á strandveiðum fer oft beint til útflutnings. Virðisaukinn af vinnslu afurðarinnar hér á landi hverfur þar með af landi brott. Ekki aðeins missa íslenskar fiskvinnslur og fiskverkafólk víðs vegar um landið spón úr aski sínum við þetta, heldur verða tekjur hins opinbera og sveitarfélaga minni fyrir vikið. Nú er ráðgert að klípa enn meira af þessari verðmætasköpun, þvert á markmið ríkisstjórnarinnar um að auka hana.
Fórnarkostnaður vegna Flokks fólksins
Það er með öllu óljóst af hverju stjórnvöld hyggjast bæta enn í þessa hít. Kannski er það vegna þess að 48 dagar eru límið sem heldur Flokki fólksins við efnið í ríkisstjórninni. Það er alla vega ekki af kærleik gagnvart landsbyggðinni, landverkafólki og sjómönnum, sem treysta á sjávarútveg alla daga ársins. Hinn efnahagslegi fórnarkostnaður er jafnframt léttvægur fundinn af ríkisstjórn sem segist ætla að auka verðmætasköpun. Það eru orðin tóm haldi svo fram sem horfir.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.