Þórhallur Ægir Þorgilsson rafvirkjameistari fæddist á Ægissíðu í Rangárþingi 13. september 1939. Hann lést á Dvalarheimilinu Lundi á Hellu 15. janúar 2025.
Foreldrar hans voru Kristín Filippusdóttir húsmóðir, f. 1903 í Kringlu í Austur-Húnavatnssýslu, d. 1971, og Þorgils Jónsson bóndi, f. 1895 á Ægissíðu, d. 1986.
Systkini hans eru Jón, f. 1931, d. 1991, sveitarstjóri á Hellu, Gunnar, f. 1932, d. 2008, bóndi á Ægissíðu, Ásdís, f. 1934, d. 1989, bankastarfsmaður í Reykjavík, Sigurður, f. 1936, d. 1982, sláturhússtjóri á Hellu, og Ingibjörg, f. 1937, verslunar- og skrifstofumaður á Hvolsvelli, sem lifir systkini sín.
Ægir giftist árið 1967 Þorbjörgu J. Hansdóttur frá Garði á Selfossi, f. 8.2. 1939, d. 15.10. 2013. Þau bjuggu allan sinn búskap á Ægissíðu.
Börn þeirra eru: 1) Baldur, f. 25.1. 1968, giftur Felix Bergssyni. Börn þeirra eru Álfrún Perla, móðir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, gift Árna Frey Magnússyni. Þeirra dætur eru Eydís Ylfa og Sóley Lóa. Guðmundur, móðir Ásdís Ingþórsdóttir, sambýliskona Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Þeirra sonur er Arnaldur Snær. 2) Ólafur Hans, f. 12.1. 1971, d. 8.5. 1971. 3) Ólöf, f. 23.5. 1975, sambýlismaður Ármann Ingi Sigurðsson. Börn Ólafar eru Ægir og Freyja, faðir Guðmundur Óskar Hjaltalín. Dóttir Guðmundar frá fyrra sambandi er Kristín Ósk. Börn Ármanns eru Katrín Lilja, Kjartan Ólafur og Kristinn Kári, móðir Matthildur Kjartansdóttir, faðir Katrínar er Egill Pálsson. 4) Bjarki, f. 3.2. 1977, d. 12.7. 2021.
Ægir ólst upp á Ægissíðu, stundaði nám í Barnaskólanum á Þingborg, Íþróttaskólanum í Haukadal og lauk sveins- og meistaraprófi í rafvirkjun frá Iðnskólanum á Selfossi og í Reykjavík.
Ægir vann sem rafvirki hjá Kaupfélaginu Þór á Hellu og við virkjunarframkvæmdir. Hann stofnaði og rak söluskálann Skúta á Ægissíðu með mági sínum, Jóhanni Kjartanssyni, á 7. áratugnum og rafmagnsverkstæðið Ljósá með Þresti Jónssyni sem þeir ráku saman til ársins 1984. Þá stofnaði hann eigið rafmagnsverkstæði og verslunina Hellinn á Ægissíðu sem þau hjónin ráku allt til aldamóta. Þar seldu þau m.a. veiðileyfi í Ytri- og Eystri-Rangá. Þau hjónin voru frumkvöðlar í ferðaþjónustu og hófu rekstur gistihúsa á Ægissíðu árið 1992. Frá árinu 2016 tók Ægir, með börnum sínum, sonardóttur og eiginmanni hennar, þátt í að gera hellana á Ægissíðu að nýju aðgengilega fyrir ferðamenn og stofnaði ásamt þeim fyrirtækið Hellana við Hellu. Hann tók virkan þátt í starfi fyrirtækisins þar til hann veikist í upphafi árs 2024. Hann stundaði hrossarækt og var með hesta fram á síðustu ár.
Ægir var liðtækur íþróttamaður á yngri árum og varð m.a. Íslandsmeistari drengja í þremur kastgreinum frjálsíþrótta. Hann var mikill spila- og skákmaður og vann til fjölda verðlauna bæði á skák- og bridgemótum allt fram á níræðisaldur. Ægir sat í hreppsnefnd Djúpárhrepps, var virkur félagi í Lionsklúbbnum Skyggni og kom að ýmsu öðru félagsstarfi í héraðinu.
Útför Ægis fer fram frá Oddakirkju í Rangárþingi í dag, 8. febrúar 2025, kl. 13.
Það eru blendnar tilfinningar að kveðja aldraðan föður, söknuður og þakklæti en líka ákveðinn léttir að hann hafi fengið hvíldina. Pabbi var með skarpa hugsun, fljótur til svars og sjálfstæður. Það var því áfall þegar hann fékk heilablóðfall fyrir ári og var vart hugað líf. Hann braggaðist betur en nokkur þorði að vona en varð aldrei samur.
Pabbi hafði fá orð um eigin afrek og því spurði ég spurninga í seinni tíð til að kynnast honum betur. Hann átti góðar minningar um uppvöxt, skólagöngu og íþróttaiðkun. Nýlega fundust heimildir sem sýna að hann varð Íslandsmeistari drengja í öllum þremur kastgreinum frjálsíþrótta 1957. Undirbúningurinn hófst eflaust í keppnum á Ægissíðu, tröppuhopp, upphífingar á slá og fleira því í flestu var keppt. Þar var mikið spilað og teflt og pabbi spilaði bridge í 75 ár! Hann fylgdist með öllum íþróttum og ræddi stöðuna í enska boltanum fram á síðasta dag.
Heimilið var gestkvæmt. Allir velkomnir í kaffi, mat eða gistingu og spjallað við bæði börn og fullorðna. Ef eldhúsborðið til sextíu ára gæti talað hefði það margt að segja. Sum bridgespilakvöldin stóðu fram á nótt og mikið var rætt um pólitík. Pabbi var Sjálfstæðismaður en bar virðingu fyrir skoðunum annarra þó honum þættu þær oft arfavitlausar. Í gríni reyndi ég að telja pabba hughvarf fyrir síðustu kosningar en hann sagði hátt og skýrt: „Ég kýs íhaldið!“
Starfsferillinn einkenndist af fjölhæfni og frumkvöðlahugsun. Hann var rafvirki og vann víða. Við þjóðveginn reisti hann hús og rak þar fimm fyrirtæki, bensínstöðina Skúta, rafmagnsverkstæði og söluskálann Hellinn ásamt mömmu. Þau sáu tækifæri í ferðaþjónustu, byggðu þrjú sumarhús og breyttu svo sjoppunni í það fjórða. Loks varð það svo móttaka fyrir Hellana, fjölskyldufyrirtæki sem pabbi tók virkan þátt í þar til hann veiktist.
Pabbi sýslaði ýmislegt. Hann var virkur í Lions, sat í hreppsnefnd eftir persónukjör og stundaði hrossarækt í um þrjá áratugi. Hann studdi við uppbyggingu Veiðifélags Ytri-Rangár og fylgdist með veiðitölum, allt var keppni, líka í hvaða á veiddist mest.
Pabbi ræddi aldrei eigin tilfinningar eða áföll. Þau mamma eignuðust tvo fjölfatlaða syni, annar lést fjögurra mánaða en hinn á fimmtugsaldri. Psoriasisgigt hafði áhrif á heilsu pabba og systkinamissir var honum þungbær.
Þó að pabbi hafi skipt sér lítið af uppeldinu voru samvistirnar margar. Í minningunni voru nánast engar reglur, manni var treyst snemma og sjálfstæði var mikið. Pabbi hafði góða nærveru og börn og dýr hændust að honum á augabragði. Barnabörnin munu sakna þess að geta ekki farið til afa og platað hann í spil eða sjómann. Þrátt fyrir keppnisskap var hann ekki tapsár því fyrir honum var tap varnarsigur. Alltaf glitti í húmorinn. Hann gerði góðlátlegt grín að öðrum og hafði gaman af því að fá skot á móti.
Ég þakka frændfólki og vinum sem heimsóttu pabba eftir áfallið og starfsfólki á Lundi fyrir umönnunina. Einnig þeim sem komu við á Ægissíðu eftir að mamma lést og veittu honum þá gleði að taka á móti gestum í kaffi og spjall.
Ólöf.
Ægir tók vel á móti okkur feðgum, mér og Guðmundi, þegar við urðum hluti af fjölskyldunni árið 1996. Við vorum alltaf velkomnir til hans og Obbu á Ægissíðu 4. Ég tók líka strax eftir hve börnum leið vel í návist Ægis og barnabarnið Álfrún Perla hreinlega dýrkaði afa sinn. Hún fékk líka að gera ýmislegt sem hún fékk ekki heima hjá sér. Þar gilti hið fornkveðna – maður sefur þegar maður er þreyttur og borðar þegar maður er svangur! Stundum vaknaði hún útsofin um miðja nótt og fékk brimsaltan hafragraut með rúsínum hjá afa sínum. Honum fannst það ekkert tiltökumál! Barnið var jú svangt! Það tók okkur foreldrana svo nokkra daga að koma aftur reglu á lífið og tilveruna. Og Ægir glotti út í annað.
Í seinni tíð hefur hið sama verið upp á teningnum með önnur börn. Kristinn sonur Ármanns og barnabörnin okkar Baldurs fundu ævintýri, ró og gleði í tilverunni þar.
Ægir lá ekki á skoðunum sínum og oft tókumst við á um menn og málefni. Ég tók hins vegar fljótt eftir því hvað Ægir var rökfastur og hafði úthugsað flest af því sem hann hélt fram. Mogginn var biblían og hann hafði sína visku upp úr málgagninu en gat þó alveg leitt sína hugsun í aðrar áttir ef honum bauð svo við. Ég sá strax hvaðan Baldur minn hafði áhugann á stjórnmálunum. Eldhúsborðið á Ægissíðu 4 var stundum eins og lítið alþingi þar sem menn þurftu að standa fyrir máli sínu. Og það hvein í!
Já við gátum verið ósammála en það breytti því ekki að við fjölskyldan áttum stuðning Ægis óskiptan. Hann og Obba voru ómetanleg hjálp þegar kom að framkvæmdum í Drápuhlíð, Vesturgötu og á Túnsbergi. Heimakæri Ægir lagði það á sig að gista hjá okkur í stofunni á Túnsbergi dögum saman ásamt Karli Sigurðssyni, smið og vini sínum, og hjálpa til við þær miklu framkvæmdir. Fyrir það verð ég alltaf þakklátur.
Það var gaman að grípa í spil á Ægissíðu 4. Enginn kenndi mér jafn mikið í spilamennsku og Ægir, enda var hann mikill meistari í bridds. Skemmtilegast var þegar við fengum Obbu til að spila með okkur vist og þeir feðgar supu hveljur yfir fífldirfsku hennar þegar hún sagði heila og hálfa á algjörlega vonlaus spil en náði svo að redda sér með klækjum. Þá var mikið hlegið.
Við Ægir áttum sameiginlegan áhuga á íþróttum og sátum löngum yfir enska boltanum. Við rifumst auðvitað þar líka og Ægir gagnrýndi unga menn og konur fyrir leti og slappleika. En það var líkt og í pólitíkinni oftast nær úthugsað og spilamaðurinn Ægir var ekki síður taktískur þegar kom að íþróttum.
Eftir langa samfylgd er margs að minnast. Ég gæti sagt ykkur af glysgjarna Ægi sem elskaði jólaljósin og jólaskrautið en sem gekk líka á eftir manni og slökkti ljósin þannig að yfirleitt var mjög rökkvað á Ægissíðu 4. Ég gæti sagt ykkur af ást hans á fuglum og tjaldaparinu sem átti vináttu hans og kom á haustin í montferð til að sýna honum ungana sína. Við gætum líka farið inn á stærðfræðilega nákvæmni við suðu á kartöflum en það eru minningar sem við fjölskyldan munum ylja okkur við á komandi árum.
Takk fyrir samfylgdina kæri tengdafaðir og vinur.
Felix Bergsson.
Hekla, drottning íslenskra eldfjalla, blasir við á hlaðinu á Ægissíðu í Rangárvallasýslu. Hún er sönn drottning sem aldrei er eins á að líta. Ný á hverjum degi. Á þessu frjósama landbúnaðarsvæði fæddist Ægir, þar kvaddi hann jarðvistina. Ægir hafði ekki þörf fyrir að fara annað. „Hvað? Fallegasta fjallasýn í heimi,“ sagði hann, glaðhlakkalegur. Hann hafði töluvert til síns máls. Frá Ægissíðu blasa við Hekla, Eyjafjallajökull, Þríhyrningur og á góðum degi má sjá til Vestmannaeyja.
Segja má að hann hafi tekið sér Gunnar á Hlíðarenda til fyrirmyndar: „Fögur er hlíðin … og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.“ Ægir var Sunnlendingur í húð og hár. Hann unni landinu, sagnaarfinum og fólkinu. Honum fannst óþarfi að fara til Reykjavíkur, hvað þá lengra. Þó kom maður aldrei að tómum kofunum þegar málefni líðandi stundar voru rædd, hvort sem var pólitík eða efnahagsmál heimsins.
Ægir sat við eldhúsborðið og skáskaut á mig bláum glettnum augum sínum. „Ertu að vestan, ekki þó framsóknarmaður? Þvílíkt hneyksli, þetta eru allt hálfvitar.“ Við tókumst á. Þegar hann hafði hneykslað mig með sterkum yfirlýsingum sínum hló hann svo bumban hristist. Enginn hló eins og Ægir. Þrátt fyrir að Ægi væri tamt að ýkja í lýsingum sínum á mönnum og málefnum var hann innst inni fordómalaus þegar á reyndi. Þau Obba bjuggu fjölskyldunni heimili þar sem gestum var tekið opnum örmum. Gestir fengu vel að borða: Hnallþórur og kruðerí og fulla athygli húsbóndans. „Hvað er að frétta?“
Þegar Álfrún Perla fæddist varð hún miðpunktur athyglinnar. Ef hún grét kom hann hlaupandi: „Obba, gerðu eitthvað! Er hún ekki svöng?“ Fyrsta sumar Álfrúnar bjuggum við hjá Obbu og Ægi. Ægir gekk með hana framan á bumbunni og söng „gamli Nói“ alla daga. Enda kallaði Álfrún Perla hann „afi gamli Nói“.
Hann kenndi henni mikilvægar lífslexíur. Hún kunni fyrstu blaðsíður Njálu utan að áður en hún byrjaði í skóla. Hann kenndi henni að spila og spila til sigurs. Spilamennska á Ægissíðu er ekki tekin létt. Hávaðinn og lætin, kappsemin og köllin. Ekkert gefið eftir. Ægir kenndi barnabörnunum líka mikilvægi þess að taka tapi af reisn. Hann lék brids af mikilli kunnáttu og næmi.
Ég sé hann í anda sitja við borðið í sjoppunni, margir komu til að spjalla. „Obba, er ekki til kaffi?“ Hlátrasköllin, þræturnar og langar bollaleggingar um veiðina í ánni. Engan þekki ég sem var eins næmur á pólitík og Ægir. Hann spáði fyrir um úrslit kosninga betur en nokkur annar. Hann var sjálfstæðismaður af bestu gerð.
Ægir var stoltur af barnabörnum sínum og fylgdist vel með. Börn og dýr nutu virðingar hans. Þegar við þurftum skjól fyrir köttinn Mosa tók Ægir við honum. Eftir tvo mánuði var hann orðinn svo feitur að við varla þekktum hann. Ægir nærðist síðustu árin á að byggja upp fjölskyldufyrirtækið Hellana við Hellu. Þar er farið yfir magnaða sögu svæðisins.
Ég er þakklát fyrir að hafa átt þau að Ægi og Obbu. Sómafólk, sönn og góðhjörtuð, sem skilja eftir fjársjóði í hjarta.
Megi sál Ægis fá blíða fylgd í ljósið.
Árelía Eydís
Guðmundsdóttir.
Ég kynntist Ægi Þorgilssyni þegar ég og Álfrún Perla Baldursdóttir barnabarn hans hófum sambúð.
Fljótlega fór ég að bera mikla virðingu fyrir honum og mun ég seint gleyma þeim lífsreglum sem hann lagði mér, ungum manninum að stíga sín fyrstu skref í atvinnurekstri. Ægir var hokinn af reynslu þegar kom að atvinnurekstri. Hann stofnaði snemma verslun og rafverkstæði, og starfaði sem sjálfstæður rafvirki og rafhönnuður, einnig stofnaði hann og rak ásamt Obbu eiginkonu sinni sjoppu á Ægissíðu í fjölda ára ásamt því að reisa sumarhús til útleigu til ferðamanna. Allt voru þetta fyrirtæki sem rekin voru af myndarskap. Vinnudagurinn var ætíð langur á Ægissíðu 4.
Eftir að vinnudegi lauk, sem oftar en ekki var seint að kvöldi, var sest við eldhúsborðið og rætt um landsins gagn og nauðsynjar. Heima hjá Ægi og Obbu voru allir velkomnir, sérstaklega þeir sem minna máttu sín eða þeir sem áttu ekki í önnur hús að venda. Hann var ljúfmenni. Það sást vel í samskiptum hans við börnin í fjölskyldunni. Það er mikil lukka fyrir stelpurnar mínar tvær að hafa átt Ægi sem langafa. Stelpurnar gátu ekkert rangt gert. Hann gætti þess að þær fengju nóg að borða og söng fyrir þær eftir pöntun. Á Ægissíðu voru þær í dekurbúðum. En það voru fleiri en barnabörnin í fjölskyldunni sem áttu skjól hjá Ægi, hann var mikill dýravinur. Á hverju ári í mörg ár kom tjaldspar og hélt sig í nágrenni við íbúðarhúsið á Ægissíðu 4. Fuglarnir hörfuðu undan öllum nema Ægi á planinu. Þeir vissu að honum var treystandi.
Ægir hafði sterk gildi í lífinu sem öllum væri hollt að tileinka sér. Virðing fyrir náunganum, kærleikur gagnvart þeim sem minna máttu sín, dugnaður, heiðarleiki og nýtni. Hann sat og reiknaði hversu mikið af kartöflum hann þurfti yfir veturinn og setti svo niður það magn sem þurfti að vori.
Einhvern tímann sem oftar vorum við Ægir að brasa í túninu við kirfilega festa kaðla. Hnútarnir voru svo margir og fastir að mér þótti best að skera á þá. Ægir neitaði því. Þá bauðst ég til að borga nýja kaðla í staðinn fyrir þá sem ég var í þann mund að eyðileggja. Ægir horfði stíft í augun á mér eins og hann gerði stundum og sagði: „Ungir menn sem skera á hnútana koma til með að eiga erfitt með að ná undir sig fótunum í lífinu.“ Svo mörg voru þau orð. Niður fór hnífurinn og við Ægir sátum drjúga stund og leystum úr hnútunum. Þetta var Ægir. Hann skar ekki á hnútana, hann leysti þá. Þetta er dæmi um lífsreglu sem hann lagði mér, ungum manninum. Ég á Ægi Þorgilssyni mikið að þakka og það var ómetanlegt að eiga hann að þegar kom að því að stofna Hellana við Hellu og Aurora Igloo. Hann var ætíð áhugasamur um gengi fyrirtækjanna og snerist í framkvæmdum á svæðinu þó að hann væri kominn á níræðisaldur. Ég er stoltur af því að fá að halda áfram því mikla uppbyggingarstarfi sem Ægir og Obba lögðu grunn að í ferðaþjónustu á Ægissíðu.
Árni Freyr Magnússon.
Á Ægissíðu áttu heima,
Rangá líður ljúft þar hjá.
Hellana ennþá túnin geyma,
Heklu í austri líta má.
(IÞ)
Í dag erum við ættingjar, vinir og samferðafólk að fylgja Ægi, bróður mínum, síðasta spölinn í þessu jarðlífi og við kveðjum hann hinstu kveðju. Ægir var fæddur og uppalinn á Ægissíðu og þar byggði hann sér og sínum hús og bjó þar alla tíð að undanskildum misserum sem hann var á sjúkrahúsinu á Selfossi og síðan Lundi á Hellu. Ægir fékk heilablóðfall og var tvísýnt um líf hans en áfallið skildi eftir lömun sem gerði hann ósjálfbjarga. Hann naut umönnunar starfsfólks sem hann sagði mér að ynni kraftaverk hvern dag. Það sagði hann í hvert sinn sem ég kom til hans. Hann gerði sér grein fyrir hvernig komið var fyrir honum. Hann kvartaði ekki en við sem þekktum Ægi vissum að þetta ástand var það sem hann síst vildi. Ægir var yngstur okkar systkinanna sex og sá fimmti sem kveður. Þegar Ægir var ungur drengur var mikið um glímu og glímumót. Helgi Hjörvar lýsti alltaf glímunum í útvarpinu og hlustaði Ægir á það af áhuga. Síðan fór hann að glíma við eldhúskollana á Ægissíðu og hétu þeir ýmsum nöfnum glímumannanna. Þessum glímum lauk alltaf með tilkynningunni „Ægir vann“. Á unglingsárunum var hann að sýsla við íþróttir, aðallega frjálsíþróttir og var liðtækur í þeim. Hann fór í íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal og lærði síðar rafvirkjun sem varð hans ævistarf. Hann hafði ákveðnar skoðanir á málefnum en var glaðsinna og léttur í lund. Hann var stríðinn, ekki sem barn en á fullorðinsaldri varð ég þess vör og ekki síst eftir að ég flutti á Hvolsvöll. Ég hafði bara gaman af.
Við systkinin ólumst upp við að spila saman og það var mikið spilað. Alls konar barnaspil og vist en síðar bridds. Ægir varð fljótt liðtækur briddsspilari og var í spilaklúbbi á Hellu. Hann var mikill keppnismaður og það var alltaf gaman að spila við hann. Það litla sem ég kann lærði ég af honum.
Á Ægissíðu var alltaf heitt á könnunni og mikið kaffi drukkið af stórum sem smáum. „Lengi býr að fyrstu gerð,“ segir máltækið en hvort það hafði áhrif skal ósagt látið en Ægir var alltaf fljótur að láta í könnuna er komið var heim til hans.
Áttræður ertu Ægir minn,
oftast ertu kátur.
Briddsspilari og gestrisinn,
þar engum eftirbátur.
(IÞ)
Baldri, Ólöfu, börnum þeirra og fjölskyldunni allri votta ég innilega samúð. Minningin lifir um góðan dreng.
Ingibjörg Þorgilsdóttir.
Látinn er Þórhallur Ægir Þorgilsson svili minn og mágur. Hann var mikill hægrimaður og fór ekki dult með það og lýsti gjarnan fyrir okkur þjökun ríkisvaldsins og ágæti einkaframtaksins, sem einskis var metið. Hann trúði nýfrjálshyggjunni eins og nýju neti. Allt sem ríkið kom að var af hinu illa. Oft gátum við þó verið sammála um menn og einstök málefni. Ægir hafði mikinn áhuga á málefnum samfélagsins og fylgdist betur með þjóðfélagsumræðu en flestir aðrir, samt gaf hann sig ekki beint að pólitík en mun þó hafa setið í sveitarstjórn um tíma og í stjórn Veiðifélags Ytri-Rangár. Áhugamál hans voru fjölbreytileg um ævina. Sem ungur maður stundaði hann frjálsar íþróttir og keppti þá fyrir ungmennafélagið Hrafn Hængsson, einkum í kastgreinum, aðallega í spjótkasti, hann mun hafa unnið spjótkast sex sinnum á héraðsmótum HSK. Þá var hann liðtækur kylfingur, skákmaður og mikill bridgespilari. Hann var lengi virkur í lionshreyfingunni en hætti þar. Á síðari tímum hafði hann líka skemmtun af því að fylgjast með ensku knattspyrnunni,en þá fékk hann útrás fyrir keppnisskapið.
Ægir lærði rafvirkjun í Iðnskólanum á Selfossi og í beinu framhaldi varð hann rafvirkjameistari og rafverktaki og rak þá rafmagnsverkstæði á Ægissíðu 4 og vann við sína iðn í Rangárvallasýslu hvort heldur í þéttbýlinu, sveitum eða virkjununum á Þjórsársvæðinu. Það var um þetta leyti sem við hjónaleysin báðum hann að leggja rafmagn í okkar fyrstu íbúð sem við höfðum keypt fokhelda á Selfossi. Hann brást snarlega við og gerði rafmagnsteikninguna, lagði síðan fyrir okkur rafmagnið og neitaði svo að taka við greiðslu fyrir vinnuna. Hann var góður verkmaður, ákaflega greiðvikinn og höfðingi í lund. Við hjónin gerum okkur ljóst að enginn hjálpaði okkur eins mikið og hann við að koma okkur í eigið húsnæði og fyrir það verðum við honum ævinlega þakklát. Löngu síðar gátum við gert honum lítils háttar greiða með okkar vinnu og neituðum þá að taka við greiðslu frá honum. Það líkaði honum ekki. Hann vildi ekki láta neinn eiga neitt hjá sér.
Árið 1984 hófu þau Ægir og Obba rekstur ferðaþjónustu, sem hét Hellirinn og var rekin sem söluskáli og bensínstöð til 2002, en eftir það voru þau með leigu á smáhýsum. Reksturinn einkenndist af dugnaði þeirra og þjónustulund. Á þessum árum þróaðist sú hugmynd hjá þeim hjónum að bæta aðgengi að hellunum í Ægissíðulandi og nýta þá fyrir ferðaþjónustuna. Þessar hugmyndir urðu að veruleika á síðustu árum í samstarfi við börn þeirra og fjölskyldur. Þorbjörg vann alfarið við reksturinn, en Ægir hélt áfram að starfa sem rafvirkjameistari, þrátt fyrir að erfiður sjúkdómur, psoriasis, legðist þungt á hann á þessum tíma. Ekki kveinkaði hann sér hið minnsta undan því.
Þó að Ægir væri opinskár í viðkynningu þá var hann afar dulur þegar kom að hans einkamálum. Þannig minntist hann aldrei á þau áföll sem þau hjónin urðu fyrir þegar þau misstu næstelsta barn sitt, Ólaf Hans, aðeins fjögurra mánaða gamlan og yngsta barn þeirra hjóna, Bjarki, fæddist fjölfatlaður. Hann bar líka harm sinn í hljóði þegar Obba féll frá 2013, en eftir það bjó hann einn í húsi þeirra á Ægissíðu 4 þar til í janúar 2024 þegar hann varð fyrir áfalli og varð að fara á sjúkrahús og í framhaldinu af því á hjúkrunarheimili.
Við vottum börnum hans og fjölskyldum þeirra samúð okkar.
Ólafía Hansdóttir og
Páll Björnsson.
Við systkinin viljum þakka Ægi, föðurbróður okkar, fyrir góða og hlýja samfylgd í gegnum árin. Hann var einstaklega barngóður og skemmtilegur frændi.
Hvert og eitt okkar á ótal góðar minningar um hann.
Hann hafði einstakt lag á að tengjast okkur, hvort sem það var í leikjum, spilum, skák eða öðrum skemmtilegum stundum. Það var alltaf jafn gaman þegar hann kom heim á Útskála, og við dáðumst að því hve mikla orku hann lagði í að gantast með okkur. Hann var þó ekki síður ákveðinn þegar honum fannst ástæða til, og hikaði ekki við að skamma okkur ef þörf var á.
Við minnumst hans með hlýju og þakklæti og sendum Baldri, Ólöfu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Með kærri kveðju.
Börn Sigga Þorgils,
Birna, Íris, Hulda, Torfi, Guðný, Hafdís og Ævar.
Þórhallur Ægir Þorgilsson rafvirkjameistari, f. 13. september 1939, lést 15. janúar 2025 eftir erfið veikindi. Hann dvaldist á Lundi á Hellu eftir að hafa lamast af heilablæðingu. Hann bjó við hellana merkilegu, sem gerðir voru að mannabústöðum í upphafi landnáms. Einar Benediktsson skáld var sýslumaður Rangæinga 1904-1907. Hann kannaði hellana og taldi þá eldri en landnám norrænna manna, byggða af Fönikíumönnum, Rómverjum eða Pöpum. Á veggi hellanna eru ristar áletranir sem enginn hefur getað ráðið í ennþá. Fjölskylda Ægis lagfærði hellana, kom á raflýsingu og opnaði þá til sýningar fyrir almenning.
Ægir eignaðist yndislega konu, jafnöldru sína Þorbjörgu Hansdóttur (Obbu), dóttur Ólafar Guðmundsdóttur og Hans Jörgens Ólafssonar á Selfossi. Þorbjörg var fædd 8. febrúar 1939. Ægir varð fyrir þeim harmi að missa hana árið 2013. Þau eignuðust börnin Baldur, f. 1968, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og frambjóðanda til kjörs forseta Íslands 2024, Ólaf Hans, f. 1971 sem dó á fyrsta ári, Bjarka f. 1977, ekki heilsuhraustan, sem dó 2021 og Ólöfu lyfjafræðing, f. 1975. Foreldrar Ægis, Þorgils Jónsson og Kristín Filippusdóttir, voru bændur á Ægissíðu. Faðir Þorgils, Jón Guðmundsson frá Keldum, bjó fyrst með Þuríði móður sinni í 10 ár eftir andlát föður síns. Hann hélt við gömlu húsunum á Keldum og byggði lambhúsin, sem blasa við frá Keldnabænum sunnan lækjar. Hann var bróðir afa míns Skúla, sem bjó þar í 50 ár. Áður hafði faðir þeirra Guðmundur Brynjólfsson búið þar í 50 ár, verið þrígiftur og eignast 28 börn. Kona Jóns var Guðrún Pálsdóttir frá Selalæk. Jón og Guðrún reistu bú á Ægissíðu og tóku jörðina alla til ábúðar 1899. Jón mokaði upp nokkra hinna fornu hella í túninu, sem eru 12 talsins, en 5 þeirra eru aðgengilegir til skoðunar nú. Hann stækkaði suma og notaði sem fjárhús og hlöður. Hann húsaði vel staðinn, sem var í þjóðbraut og lengi miðstöð samgangna. Þar var fundahús og samkomustaður sem hann reisti. Jón var bókamaður. Óvíða í sveit var betra bókasafn en það sem hann átti. Hann var ættfróður vel og ritaði ættartölubækur. Hann var gestrisinn, dagfarsprúður og hjálpfús, orðheppinn og óádeilinn. Ýmsar tilgátur eru um heiti bæjarins Ægissíða. Svo langt frá sjó er bærinn og ekki skipgengt þangað, að naumast er nafnið dregið af konungi hafsins Ægi. Aðrir segja nafnið komið úr írsku og enn eru þeir sem telja nafnið dregið af sögninni að æja, komið af áningarstaðnum Ægissíðu,
Við Þórhallur Ægir vorum vinir og keppinautar í íþróttum, næstum því jafngamlir og því snertu mig djúpt óvænt veikindi hans og andlát. Ægir, eins og hann var jafnan kallaður í vinahópnum, var íþróttakappi glaður og góður drengur, hraustmenni til líkama og sálar. Ég vonaði að tengslin og vináttan entust a.m.k. til 100 ára. Þökk fyrir frábæra umönnun, sem hann fékk veikur og lítt sjálfbjarga á Lundi. Hann er jarðsettur í Odda á Rangárvöllum á afmælisdegi konu sinnar. Hlýjar samúðarkveðjur sendi ég fjölskyldunni allri.
Sigurður Sigurðarson dýralæknir frá Keldum.