Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Viðræður Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Viðreisnar og Flokks fólksins hófust í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan níu í gærkvöld, en þá var aðeins liðin rúm klukkustund frá því að meirihlutasamstarfi Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar var slitið.
Fundinum lauk á tólfta tímanum og vildu oddvitar flokkanna ekkert láta hafa eftir sér af fundinum annað en að flokkarnir hefðu komið sér saman um að hefja „formlegar viðræður“, en í því felst að flokkarnir munu ekki ræða við aðra flokka um mögulegt samstarf.
Fyrir fundinn sagðist Einar Þorsteinsson borgarstjóri í samtali við Morgunblaðið miða við það í viðræðunum að hann gegndi áfram embætti borgarstjóra, en hann sleit fyrra samstarfi á oddvitafundi um kvöldmatarleytið í gær.
„Ég lofaði kjósendum fyrir síðustu kosningar að knýja fram breytingar í borginni og nú hef ég verið borgarstjóri í heilt ár og sé að ég mun þurfa að leita til annarra flokka sem hafa meiri pólitíska samleið heldur en er í þessum meirihluta.“
Ekkert er þó gefið í því, en samkvæmt heimildum blaðsins á eftir að ræða verkaskiptingu í hugsanlegu meirihlutasamstarfi.
Reiðubúin að láta hendur standa fram úr ermum
„Við höfum þegar komið okkur saman um að eiga fyrsta fund með Framsóknarflokki, Viðreisn og Flokki fólksins,“ sagði Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, þegar blaðamaður náði tali af henni rétt áður en hún gekk inn á fund í ráðhúsinu.
Hún sagði að það hefði ekki komið sér mjög að óvörum að gamli meirihlutinn hefði sprungið, það hefði legið í loftinu um hríð. En hafa hún og Einar rætt saman undanfarna daga?
„Við erum alltaf í góðu sambandi og höfum verið allt kjörtímabilið. Sérstaklega þegar upp koma mál sem flokkar okkar eiga sameiginlega fleti í. Umræðan um Reykjavíkurflugvöll er auðvitað eitt af þeim málum, en þar brast fyrri meirihluti.“
Ertu bjartsýn á að ykkur gangi betur?
„Nú liggur fyrir að þessi meirihluti er fallinn og þá þarf að mynda nýjan og koma á skynsamlegri stjórn yfir borginni, það eru mörg verkefni sem bíða. Við erum reiðubúin að láta hendur standa fram úr ermum.“
Vandasöm verkefni og skammur tími til stefnu
Talið er að meirihlutaviðræðurnar eigi að geta gengið tiltölulega skjótt fyrir sig. Það eitt að þær hófust svo skömmu eftir að meirihlutanum var slitið bendir til þess að hvort tveggja hafi átt sér einhvern aðdraganda, ekki síst þá það að Viðreisn tekur þátt í þeim en var jafnframt í fráfarandi meirihluta.
Sömuleiðis að Einar kveðst ganga út frá því að hann verði áfram í borgarstjórastóli og gengur til viðræðna með það í huga.
Einar segir í samtali við blaðið að á ýmsu hafi strandað í gamla meirihlutanum og nefnir til dæmis skipulagsmál, Reykjavíkurflugvöll, leikskóla- og daggæslumál og ákvarðanir varðandi rekstur. Næstu daga reynir á hvort meiri samstaða finnst um það.