Olga Ágústsdóttir fæddist í Bolungarvík 29. júlí 1935 en ólst upp á Ísafirði og í Æðey. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 24. janúar 2025.

Foreldrar Olgu voru hjónin Sigurður Ágúst Elíasson, f. 28.8. 1885, d. 13.9. 1969, kennari, kaupmaður og yfirfiskmatsmaður á Vestfjörðum og síðar á Akureyri, og k.h., Valgerður Kristjánsdóttir, f. 21.11. 1900, d. 29.9. 1963, kennari og húsfreyja.

Olga giftist 19.12. 1964 Kristjáni Hannessyni, f. 16.4. 1928, d. 20.11. 2013 í Reykjavík, og bjó með honum í Kaupangi frá árinu 1966. Foreldrar Kristjáns voru Hannes Kristjánsson, bóndi í Víðigerði í Eyjafjarðarsveit, og k.h., Laufey Jóhannesdóttir húsfreyja.

Alsystkini Olgu: Rannveig, Helga, Guðrún, Elías, Guðmundur, Ásgerður og Auður.

Olga lauk verslunarskólaprófi og nam við samvinnuskólann í Vaar Gard í Stokkhólmi 1957. Hún stundaði verslunar- og skrifstofustörf hjá KEA, starfaði í gjaldeyrisdeild sænska sambandsins KF í Stokkhólmi og í fræðsludeild þar, varð fræðslufulltrúi hjá SÍS. Fór í heimsreisu sem starfsmaður skipafélags 1959. Olga var deildarstjóri hjá KB 1961-62. Fluttist með Kristjáni í Ljósheima 12, starfaði hjá ferðaskrifstofunni Útsýn 1962-65.

Olga var húsmóðir í Kaupangi frá 1966 og eignuðust þau Kristján sex börn, hún kenndi við tvo skóla á Akureyri, auk þess sem hún átti og rak fornbókaverslunina Fróða. Olga var ötul í kvenfélagsstarfi og ritun greina í tímarit.

Olga var formaður kvenfélagsins Öldunnar og ritari Sambands eyfirskra kvenna. Hún skrifaði greinar í tímaritin Tímann, Hlyn, Samvinnuna og Dag.

Börn Olgu og Kristjáns eru: 1) Valgerður, f. 19.8. 1965, gift Karli Guðmundssyni, f. 7.12. 1960. Dóttir þeirra er Olga Kristín, f. 22. júlí 2008. Synir Valgerðar: Eðvarð Þór, f. 9.4. 1987, dóttir hans er Ísabella Lind, f. 14.7. 2016, Ársæll Kristófer, f. 6.12. 1992, Kristján f. 5.5. 1994, í sambúð með Fríðu Mary Halldórsdóttur. Börn þeirra: Júlía Jökla, f. 8.9. 2021, og óskírður drengur f. 14.1. 2025. 2) Sigríður, f. 23.09. 1967. Synir hennar eru Elías, f. 19.1. 1998, Kristján, f. 6.1. 2000, og Hannes, f. 10.11. 2001. 3) Helga, f. 24.6. 1969, gift Sveini Benediktssyni, f. 16.1. 1962. Dóttir þeirra er Benedikta Sigurlína, f. 21.9. 2023, og sonur Helgu er Kristján Helgi, f. 2.11. 2008. 4) Hannes, f. 12.11. 1973. Börn hans eru Ásdís, f. 21.2. 2008, Björk, f. 10.9. 2009, og Kári, f. 15.7. 2014. 5) Ágúst, f. 7.4. 1977 í sambúð með Erlu Júlíu Jónsdóttur f. 7.11. 1985. 6) Laufey, f. 19.7. 1979. Unnusti hennar er Ragnar T’omas Árnason, f. 28.8. 1970.

Útför Olgu Ágústsdóttur fer fram frá Kaupangskirkju í Eyjafirði í dag, 8. febrúar 2025, klukkan 13.30. Útvarpað verður frá útför á FM 106.9.

Mig langar að minnast móður minnar, Olgu Ágústsdóttur, sem ég er þakklát fyrir að hafa átt sem móður. Olga fæddist í Bolungarvík og ólst þar upp fyrstu árin, sem og á Ísafirði og í Æðey. Foreldrar hennar voru kennarar sem lögðu áherslu á menntun og lestur bóka, nokkuð sem móðir mín miðlaði til okkar systkina. Á eftirlaunaárum hafði hún sem markmið að lesa 50 bækur á ári og náði því.

Í uppeldi fyrir vestan var gjarnan stímt upp í opið úthafið, þar sem kjarkur og áræði var nauðsyn. Það var sem sagt ekki nóg að hafa kvenlega eiginleika og bíða eftir að dyrnar yrði opnaðar, heldur þurfti að treysta á sjálfan sig og móðir mín bar þess merki. Alin upp í stórum systkinahópi, óhrædd við að taka áskorunum og taka slaginn þegar þurfti, áræði var einkennismerkið.

Sem barn var hún send í mörg sumur til ættingja sinna í Æðey við Ísafjarðardjúp og lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið. Dvölin í Æðey styrkti sjálfsbjargarviðleitni móður minnar og þar lærði hún líka þá list að segja sögur, eins og tíðkaðist á þeim tíma. Fólk sagði gjarnan sögur meðan unnið var, til dæmis á sumrin þegar verið var að rifja hey. Húsbóndinn Ásgeir í Æðey þuldi oft ýmsa speki upp úr Íslendingasögum og menntun var innprentuð af foreldrum, þetta var uppeldið. Þá var mikil virðing fyrir bókum og bóklestri í Æðey og á heimili móður minnar, enda foreldrar hennar báðir sinnt fræðslu.

Hún fór að þeirra fordæmi og sinnti kennslu í tveimur skólum á Akureyri um árabil. Þessi áhersla á menntun skilaði sér svo áfram þegar móðir mín sinnti uppeldi okkar systkinanna. Stöðugt að tala um gildi menntunar og sífellt að miðla speki. Til dæmis með því að segja sögur frá ferðum sínum og reynslu og ævisögum ýmiskonar. Þessi frásagnarhæfileiki nýttist móður minni þegar hún sem ung kona varð fastur dálkahöfundur hjá tímaritum og skrifaði um heimsreisu sína og fleira. Hún hvatti mig áfram síðar, þegar ég þurfti að skrifa hnitmiðaðan texta.

Segja má að áhugi hennar
á skrifum og bókmenntum hafi endurspeglast síðar í rekstri fornbókabúðar, sem hún hóf seinna. Rekstur sem hún réðst í sem óhrædd athafnakona,
eftir að hafa átt sex börn. Þá kom verzlunarskólaprófið sér vel í bland við vestfirska blæinn og þann dýrmæta eiginleika að gefast ekki upp. Hún var sem sagt orðin viðskiptakona á miðjum aldri. Rekstur fornbókaverslunarinnar Fróða hófst þegar hún var 50 ára. Hún keypti þá verslun og rak ein og óstudd í áratugi. Hún hafði selt blöð sem barn á Ísafirði og nú seldi hún bækur, átti mörg þúsund bækur á lager í fornbókaversluninni og kjallaranum heima. Þá kom sér vel sú mótun að hafa lært snemma að bjarga sér og tamið sér að segja hlutina hreint út, „á hreinni vestfirsku“ eins og það er stundum kallað.

Þegar allt er upptalið, þá er sennilega mesta afrek móður minnar að koma sex börnum á legg og koma þeim til manns. Ég sakna þín mamma og að heyra allar góðu sögurnar, takk fyrir mig. Þín dóttir,

Helga.

Elsku mamma, þú varst frábær kona.

Þú varst víðsýn og sem ung kona vildir þú upplifa heiminn. Því starfaðir þú í Stokkhólmi í um tvö ár og fljótlega eftir það ákvaðstu að sigla í kringum hnöttinn með því að starfa á skipi með sænskri vinkonu. Því má segja að þú hafir verið á undan þinni samtíð.

Þú varst alltaf svo góð og bjóst yfir miklu jafnaðargeði. Ég minnist þess þegar við Gústi vorum lítil og biðum oft eftir að þú kæmir heim úr fornbókabúðinni Fróða. Við hlökkuðum svo mikið til að þú kæmir heim og við horfðum á bílana keyra fram hjá og urðum svo ofboðslega glöð þegar þú keyrðir í hlað.

Þú varst alltaf svo dugleg að elda matinn og að vinna í Fróða fram eftir öllum aldri. Ég minnist þess þegar ég var með þér að selja bækur á útimörkuðum í fjárrétt, á Dalvík og Ólafsfirði, og fannst það gaman.

Þú varst jákvæð. Þú hvattir okkur Gústa til að taka upp rabarbara og kartöflur sem við seldum sjálf og fengum greitt fyrir. Það var þroskandi. Þú stakkst upp á að við fengjum okkur hænur, sem við gerðum og var gaman að eiga þær.

Mörgum fannst þú klár og fannst gaman að spjalla við þig um ýmis málefni. Að þinni ósk ferðuðumst við mæðgur til Rússlands árið 2007 þar sem við sigldum niður ána Volgu með viðkomu í mörgum borgum og gistum um borð í skemmtiferðaskipi. Það var upplifun.

Þið pabbi ferðuðust oft til Kanaríeyja á efri árum og nutuð þess og þér fannst alltaf svo gott að vera í sólinni.

Þú varst hlýleg, umhyggjusöm og hafðir mjög góða nærveru. Mér þótti ákaflega vænt um þig. Takk fyrir svo ótal margt. Ég minnist þín með mikilli hlýju, virðingu og söknuði.

Laufey.

Margt þú hefur misjafnt reynt,

mörg þín dulið sárin.

Þú hefur alltaf getað greint,

gleði bak við tárin.

(J.Á.)

Mamma var heimskona sem elti ástina upp í sveit. En sveitalífið var ekki tóm rómantík. Pabbi og mamma kaupa jörðina Kaupang og fara að hrúga niður krökkum. Hún elskaði að ferðast og lenda í ævintýrum, það voru því viðbrigði að vera allt í einu föst uppi í sveit.

Mamma var mikil félagsvera og naut þess að starfa í kvenfélaginu. Hún átti létt með að skrifa og hafði gaman af því að flytja ræður. Hún var í rauninni á undan sinni samtíð og rakst oft á veggi þegar hún bauð sig fram í hlutverk sem hefð var fyrir að karlmenn sinntu.

Hún hvatti mig til að vera sjálfstæð og lagði mikla áherslu á að maður menntaði sig og gæti verið fjárhagslega sjálfstæður og staðið á eigin fótum.

En skaplaus var hún ekki og ef henni mislíkaði eitthvað gat hún átt það til að lesa fólki pistilinn. Það þýddi ekkert að vera með eitthvert væl við hana og ætlast til að hún vorkenndi manni. Hún var fljót að benda manni á að hún eða einhver annar hefði það miklu verra en maður sjálfur.

Þegar ég stofnaði fjölskyldu og eignaðist fyrsta barnið sagði hún að hún myndi ekki passa fyrir mig því að hún hefði átt svo mörg sjálf að hún væri búin með kvótann. En þegar ég þurfti að takast á við brjóstakrabbamein þá kom hún suður og hugsaði um heimilið á meðan ég lá á spítalanum. Hún var raungóð.

Í covid flutti ég aftur heim í Kaupang og stundaði fjarvinnu þaðan. Það var ánægjulegt að dvelja þessi ár með mömmu sem hafði nú meiri tíma fyrir mann.

Mamma elskaði að lenda í ævintýrum. Hún hvatti mann til að skoða heiminn og sagði að maður kynni ekki að meta Ísland fyrr en maður hefði búið erlendis. Fyrsta utanlandsferðin sem ég fór í var með henni. Hún fór sem fararstjóri með útskriftarbekk í Oddeyrarskólanum til Danmerkur og ég fékk að koma með. Við heimsóttum Tívolíið í Kaupmannahöfn og það kom mér á óvart að henni fannst alveg jafn gaman og mér að fara í rússíbanann. Eftir vikudvöl fórum við mamma til Gautaborgar að heimsækja vinafólk hennar frá því að hún bjó í Svíþjóð. Hún reddaði okkur fari með indælisfólki sem var í Hjálpræðishernum, stillt var á sálmasöng alla leiðina og ég man að mér fannst leiðin löng. Þá heimsótti hún mig þegar ég bjó í New Jersey og við fórum á Broadway-sjóið Cats og rifjum við oft upp hvað það var mögnuð sýning. Þau pabbi komu og dvöldu hjá okkur í vikutíma þegar ég var í námi í Róm. Þá kom hún til Seattle til að sjá barnabörnin. Þegar hún var orðin fullorðin fór ég með henni í siglingu niður Rín.

Eitt sem við mamma áttum sameiginlegt var dálæti á bókum og gátum við rætt þær tímunum saman. Þegar ég var formaður dómnefndar Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans 2022 og las allar glæpasögur sem voru tilnefndar til verðlaunanna, þá hafði hún orð á því að þetta væri skemmtilegasta verkefnið sem ég hefði tekið að mér.

Mamma var mögnuð kona, greind, víðlesin, sjálfstæð, og það voru fáir staðir í heiminum sem hún hafði ekki komið á.

Hvíl í friði.

Dr. Sigríður
Kristjánsdóttir.