Pálína Sigþrúður Einarsdóttir Højgaard fæddist 30. janúar 1936 á Bakka í Bakkafirði. Hún lést á Hrafnistu Boðaþingi 12. desember 2024.

Foreldrar Pálínu voru Ólöf Stefanía Davíðsdóttir, f. 1902, d. 1945, og Einar Ásmundur Höjgaard, f. 1900, d. 1966.

Pálína var níunda í röð tíu alsystkina í þessari röð: Elsa, f. 1919, d. 1999, Herdís, f. 1920, d. 2003, Gunnlaug, f. 1922, d. 1990, Jón, f. 1923, d. 2002, Davíð, f. 1924, d. 2016, Friðrik, f. 1926, d. 1995, Ásgeir, f. 1930, d. 1930, Nanna, f. 1931, d. 1990, Pálína, f. 1936, d. 2024, og Svava, f. 1937, d. 2021. Pálína átti einnig tvo hálfbræður frá seinna hjónabandi föður hennar. Þeir eru Þorsteinn, f. 1950, og Matthías, f. 1952. Pálína var gift Þorsteini Gunnarssyni frá Vestmannaeyjum, f. 1932, d. 1958. Seinni eiginmaður Pálínu var Kaj Erik Nielsen, f. 1926, d. 2015. Þau giftust 23. desember 1959.

Börn Pálínu og Þorsteins eru 1) Sigurlaugur Þorsteinsson, f. 15. apríl 1953. Maki Þorgerður Hreiðarsdóttir. Skilin. Börn: a) Gyða f. 1972, maki Andrés Erlingsson, börn: Þorgerður Erla og Habba Lilja. b) Þorsteinn, f. 1975, maki Rita Hvönn Traustadóttir, börn: Trausti Marel, Ólafur Tryggvi, Geirlaugur. Seinni maki Sigurlaugs er Ruth Þorsteinsson, f. 1946. Barn þeirra: Kristina Polina, f. 1980, d. 2018. 2) Unnur Þorsteinsdóttur, f. 7. febrúar 1956, maki Ásmundur Eiríksson, börn: a) Eiríkur, f. 1973, maki Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, börn: Benedikt Aron, Ásmundur, maki Guðbjörg Lilja Sveinsdóttir, barn þeirra: Eiríkur Ari. Ólöf, maki Alex Thorarensen Estherarson, börn: Amalía Ýr og Natalía Rán. Sigurður Fannar og Kristján Freyr. b) Lena Dögg, f. 1984, maki Gunnar Eiríksson, börn: Dreki Hrafn, Úlfar Örn og Eldrún Elika.

Börn Kaj og Pálínu eru:

1) Halldór, f. 29. janúar 1961, d. 2019. Maki Guðrún Finnbogadóttir. Skilin. Börn: a) Finnbogi, f. 1980, maki Birna Mjöll Helgudóttir, börn: Ívan Alex, barn Aría Ísey, Tristan Logi, Bastían Breki, Adrían Darri. b) Þórey Björk, f. 1982, maki Baldur Björnsson. Börn: Eik og Úlfhildur Þoka. Seinni maki Halldórs: Sjöfn Sigfúsdóttir. Skilin. Barn þeirra: Nökkvi Nielsen, f. 1998, maki Tekla Birgisdóttir.

2) Elísa Nielsen, f. 15. desember 1961, maki Björn Ágúst Björnsson, börn: c) Halldór Atli Nielsen, f. 1979, maki Fanney Friðþórsdóttir, börn: Ísak Freyr Nielsen, Harpa Karen Nielsen, Freyja Rún Nielsen og Óðinn Atli Nielsen. d) Hákon Davíð Nielsen, f. 1982, maki Aðalheiður Anna Erlingsdóttir, börn: Gabríel Elí og Gunnar Erlingur. e) Karen Ósk Nielsen, f. 1989, maki Leifur Óskarsson, barn þeirra: Óliver Jarl. f) Ágúst Kaj Nielsen, f. 1991. g) Jóel Dan Nielsen, f. 1994, maki Andri Freyr Þórðarson. 3) Agnes Margrét, f. 23. október 1964, maki Vilhjálmur Jónsson, börn: a) Ólafur Örn, f. 1983, b) Jódís Dagný, f. 1991, maki Sigurlaugur Þorkelsson, börn: Sæunn Sara og Snædís Eva, c) Sara Björk, f. 1999, maki Ingi Már Magnússon, barn þeirra Oliver Erik. 4) Nanna Herdís, f. 23. október 1964, maki Gunnar Snorri Gunnarsson, börn: a) Snorri, f. 1995, maki Hafrún Erna Halldórsdóttir, barn þeirra Tindur Kai. b) Irma, f. 1998, maki Kjartan Bogi Jónsson. 5) Ólöf Stefanía, f. 23. október 1964, maki Kristján Gunnarsson, börn: a) Anna Pálína, f. 1991, b) Rakel, f. 1991, d. 1991 c) Gunnar Freyr, f. 1993. 6) Eiríkur, f. 7. ágúst 1968.

Útför Pálínu fór fram frá Kópavogskirkju 8. janúar 2025, í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Líklega er ekki mjög algengt að ungur drengur kynnist verðandi tengdamóður sinni áður en hann nær að krækja í eina af dætrum hennar en þannig var þetta þó hjá okkur. „Þegar öllu er á botninn hvolft þá er lífið þó umfram allt saltfiskur“ skrifaði Laxness í Sölku Völku og það var smá þannig. Við Pála unnum saman í saltfiski og síðar kom Lísa mín þar inn líka og eftir að ég kynntist Pálu betur áttaði ég mig á því að hún var líklega ekki svo ósátt við þann ráðahag sem úr varð. Einhvern veginn tókst henni að fá sterka tilfinningu fyrir einhverju sem hún ekki gat vitað og langoftast átti það við. Mér og okkur Lísu til mikillar furðu tókst henni t.d. að spyrja okkur „hvað ætlið þið svo að gera, eigið þið ekki von á barni?“ rétt þegar við vissum að Lísa væri ólétt. Pála virtist bara einfaldlega hafa vitað þetta á undan okkur sjálfum. Ekki þurfti að vera lengi nálægt henni til að sjá og skynja kraftinn í þessari smágerðu en sterku konu, hún hafði ákveðinn stjórnunartón meðfæddan. Var aldrei að þykjast vera önnur en hún var, algjörlega stálheiðarleg eins og best gat orðið. Ef það var dauft yfir henni var bara að hefja umræður um ákveðin málefni og þá var allt komið í gang um leið, ekki neitt mjög mikið að draga af sér en samt á sama tíma málefnaleg. Pála var mjög vel inni í flestöllu sem gekk á í þjóðfélaginu, var skarpgreind og minnið feikigott allt fram til þess að heilsunni fór að hraka undir það síðasta.

Eins og allir vita sem henni kynntust á lífsleiðinni var hún alla tíð mikil hörkukona, gekk til allra starfa og verkefna heima fyrir og þar sem þurfti hverju sinni, án kvarts og kveins. Sykurhúðun á mæltu máli var ekki hennar og eflaust hefur henni oft tekist að hreyfa við fólki með framsetningu sinni en þetta var þó stór hluti af hennar einkennum og okkur sem henni stóðum næst þótti þetta bara frekar eðlilegt allt saman. Tel að ekki sé miklu logið að segja að hún hafi skapað sér þá virðingu sem hún hafði hjá sínu fólki einmitt vegna þessa; hún meinti það sem hún sagði og gerði það sem hún ætlaði, þurfti nákvæmlega enga tilsögn í lífinu. Dalhúsaferðir á Bakkafjörð með Pálu, Eiríki og Lísu voru svo alveg sér kafli og önnur kona kom fram. Pála þyljandi upp heiti lækja, áa, dala og fjalla, hún var algjörlega á heimavelli. Svo var margt hægt að gera og græja, klippa tré og runna, slá grasið eða dudda við hvað eina sem henni fannst að þyrfti að gera. Væri mjög mikil rigning var bara farið niður í kjallara og tekið til þar, alveg bannað að gera ekki neitt. Það að sjá til hennar að koma lífi í ræfilslegu lúnu kamínuna yljaði öllum á sál og líkama. Allt brennt sem hægt var og sönglað með, fullkomin ró og yfirvegun. Hún skilur eftir sig stóra fjölskyldu og í hennar anda og eftir hennar kröfu fór útförin fram í kyrrþey. Alls ekki í boði að verða ekki við óskum hennar, hvorki þá né áður, hún skipulagði sína hinstu ferð.

Björn Ágúst Björnsson.