Ólöf Árnadóttir fæddist í Hafnarfirði 14. september 1935. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 25. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru Erlendsína Guðlaug Ólafsdóttir, f. í Grindavík 1902, d. 1979, og Árni Elísson, f. í Hafnarfirði 1904, d. 1976. Systkini Ólafar voru Sigríður, f. 1929, Elís, f. 1932, Vigfús, f. 1944, og Kristín, f. 1941.

Eiginmaður Ólafar var Þorvaldur Ólafsson vélstjóri, f. í Reykjavík 6. ágúst 1936, d. 12. janúar 2019. Foreldrar hans voru Selma Antoníusardóttir, f. 1912, d. 1989, og Ólafur Stefánsson, f. 1913, d. 1991.

Ólöf og Þorvaldur bjuggu lengst af á Breiðási 11 í Garðabæ og síðustu árin á Strikinu 2 í Garðabæ. Þau gengu í hjónaband 3.12. 1955 og eignuðust þrjú börn: 1) Guðlaug, f. 21.6. 1956, d 2.12. 1978. 2) Ólafur vélfræðingur, f. 17.12. 1957. Eiginkona hans er Erla Kjartansdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 20.6. 1958. Börn þeirra eru: a) Lilja Kristín, f. 1981. Eiginmaður hennar er Úlfur Teitur Traustason og eiga þau þrjú börn. b) Þorvaldur, f. 1984. Eiginkona hans er Katrín Briem og eiga þau tvö börn. c) Eygló Dögg, f. 1996. Eiginmaður hennar er Attila Balatoni og þau eiga eitt barn. 3) Steinunn Birna sjúkraliði, f. 5.7. 1961. Dóttir hennar er Ólöf, f. 1984. Eiginmaður hennar er Loïc Baboulaz og eiga þau tvö börn.

Ólöf lauk gagnfræðiprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Hún vann við ýmis störf á sínum yngri árum en lengst af hjá Hótel Loftleiðum og Sparisjóði Hafnarfjarðar.

Ólöf var virkur félagi í Kvenfélagi Garðabæjar, kvenfélagi Keðjunnar og Sinawik.

Útför Ólafar fór fram 5. febrúar 2025.

Það er svo margs að minnast þegar mér verður hugsað til ömmu og ómögulegt að velja uppáhaldsstundir enda hefur amma leikið svo ótrúlega stórt hlutverk í lífi mínu. Samverustundir og öll okkar óteljandi samtöl eru það sem
ég mun sakna mest nú við fráfall nöfnu minnar. Í minningunni áttum við tvær margar góðar hversdagslegar stundir í gamla Ásahverfinu þar sem amma og afi áttu heima. Ég man
til dæmis eftir að hafa oft rölt með henni um hverfið þar sem takmarkið var að skoða kanínurnar sem nágrannar á Melásnum áttu í bakgarðinum.

Heima á Breiðásnum var svo auðvitað margt brallað hvort sem það var við eldhúsborðið eða fyrir framan sjónvarpið á föstudagskvöldum þar sem okkur ömmu þóttu bingókvöldin, sem voru um tíma sýnd á Stöð 2, einstaklega skemmtileg afþreying.

Amma var ákaflega flink handverkskona. Á sínum yngri árum saumaði hún mikið af hinum ýmsu flíkum en með aldrinum varð meira úr prjóna- og heklverkefnum sem voru hvert öðru fallegra. Amma var líka mikil félagsvera og þótti fátt skemmtilegra en að spjalla við fólk. Svo löng voru mörg þessara samtala og símtala, sem amma átti gjarnan við samferðafólk sitt, að afi átti það til að þykja nóg um.

Ég var heppin að eiga ömmu að sem vin eftir að ég stálpaðist og flutti fyrst 19 ára á erlenda grundu. Ég man hvað ég var alltaf fegin þegar amma var heima og ég náði að eiga langt og líflegt spjall við hana. Hún var óhrædd við að spyrja spurninga og við áttum einstaklega náið samband. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Það er ótrúlega sárt að tími allra þessara samtala okkar ömmu sé liðinn og símtölin, ferðalögin og bíltúrarnir verði ekki fleiri. Amma var fyrirmynd á mörgum sviðum, hún var vandvirk, fordómalaus, ljúf, auk þess sem alltaf var stutt í húmorinn hjá henni.

Ég kveð þig með trega, elsku amma, og þakka þér fyrir einstaka hugulsemi og vináttu.

Þín

Ólöf.