Inga Ingvarsdóttir fæddist í Reykjavík 27. október 1933. Hún lést á Landspítalanum 15. janúar 2025.
Foreldrar hennar voru Sigríður Hallgrímsdóttir, f. 29. apríl 1895, d. 17. janúar 1992 og Ingvar Guðjónsson útgerðarmaður, f. 17. júlí 1888, d. 8. desember 1943.
Inga átti tíu systkini og var hún næstyngst þeirra. Þau eru öll látin.
Inga ólst upp í Reykjavík til 6 ára aldurs en flutti þá með móður sinni til Siglufjarðar þar sem móðir hennar rak veitingasölu á síldarárunum. Á Siglufirði leið henni vel og hafði hún alla tíð sterkar tilfinningar til bæjarins. Að barna- og unglingaskóla loknum fór hún í Menntaskólann á Akureyri og flutti síðan til Reykjavíkur. Í Reykjavík vann hún á þessum tíma hjá Orkuveitunni, Olíuverslun Íslands og Happdrætti DAS. Um 1962 fór Inga til Kaupmannahafnar þar sem hún dvaldi og starfaði í nokkur ár. Eftir
dvölina í Kaupmannahöfn flutti hún aftur til Reykjavíkur þar sem hún vann sem auglýsingastjóri fyrst hjá Frjálsu framtaki síðar Fróða og lauk svo starfsævi sinni hjá VR.
Eftirlifandi eiginmanni sínum, Almari Gunnarssyni, f. 22. maí 1935, kynntist Inga 1969 og gengu þau í hjónaband 17. júlí 1988 í Kaupmannahöfn. Þau bjuggu alla tíð á Álftanesi. Almarr átti með fyrri konu sinni þrjá syni, þá Sigurð Stefán, Gunnar Stein og Auðun Þór.
Útför Ingu Ingvarsdóttur hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Það er með söknuði en hlýju í hjarta sem ég skrifa þessar línur um kæra vinkonu mína Ingu Ingvarsdóttur.
Kynni okkar hófust fyrir hartnær hálfri öld þegar ég hóf störf hjá Frjálsu framtaki árið 1978, þá nýútskrifuð úr Versló. Þar starfaði hún fyrir sem auglýsingastjóri Sjávarfrétta. Á þessum árum starfaði hjá fyrirtækinu margt ungt og skemmtilegt fólk. Það var kappsamt um að vinna sem best fyrir fyrirtækið en jafnfram ríkti ósjaldan mikil gleði og var óspart „dænað og vænað“ eins og það var kallað.
Inga var þarna í „eldri kantinum“ þó ekki væri nema 45 ára gömul. Hún hefði getað verið móðir okkar flestra. Engu að síður féll hún vel í hópinn. Allir báru virðingu fyrir og litu upp til þessarar glæsilegu konu. Já hún var stórglæsileg, hávaxin, vel tilhöfð og hafði þessi geislandi augu. Inga tók nú ekki þátt í öllu fjörinu en samgladdist okkur og fylgdist með.
Á þessum árum myndaðist með okkur Ingu einstök vinátta sem hélst æ síðan. Við hittumst, spjölluðum saman, horfðum á Dallas, drukkum kaffi og hún spáði fyrir mér í bolla. Hún fylgdist með mér í leik og starfi. Hvatti mig og hrósaði.
Á þessum árum var hún farin að vera með Almari. Þau byggðu sér fallegt hús á Álftanesi þar sem þau bjuggu öll sín búskaparár. Nokkurn tíma tók að byggja húsið. Allt skyldi vera eins og best varð á kosið, koparrennur utan á húsinu og ég held að það hafi verið búið að mála þakið þrisvar í mismunandi litum áður en Inga var sátt og flutti inn.
Nú veit ég ekki hvort hún var að draga það að fara að búa með Almari, eða hvað, en hún hafði lengst af haldið heimili með móður sinni Sigríði Hallgrímsdóttur, langyngst þriggja barna hennar. Báru þær mæðgur mikla virðingu hvor fyrir annarri og ekki leyndi sér væntumþykjan. Mamma Ingu bjó hjá þeim Ingu og Almari síðustu árin sín. Það var virðingarvert að fylgjast með því hvað þau bæði önnuðust hana vel.
Inga og Almarr ferðuðust mikið bæði vestanhafs og austan. Á Flórída áttu þau sér annað heimili þar sem þau dvöldu gjarnan. Við Sigrún systir mín heimsóttum þau þangað nokkrum sinnum og áttum með þeim yndislegar stundir.
Inga var alltaf mjög sjálfstæð kona og aldrei kom annað til greina en að hún ætti sér bíl. Auðvitað var það lengst af Benz. Hún sagðist ekki vilja búa á Álftanesi nema geta farið og komið að vild.
Inga og Almarr áttu sérstaklega fallegt samband. Það sást greinilega í öllum þeirra samskiptum. Þegar minnið tók að bresta reiddi hún sig á Almar sem ekki brást henni þá frekar en fyrri daginn. Hann talaði á svo innilegan hátt við „Ingu sína“ og kom inn í samtöl þegar við átti. Nú verða símtölin frá Ingu ekki fleiri en flest þeirra hófust þannig: „Anna mín, hvar ertu núna?“ Ég á eftir að sakna þeirra.
Elsku Almarr. Missir þinn er mikill. Þið höfðuð helgað líf ykkar hvort öðru og nú er elsku Inga farin. En munum að þegar við missum einhvern sem við elskum þá verður minningin að dýrmætum fjársjóði.
Við Sigrún sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur og kveðjum Ingu með þakklæti.
Anna Kristín
Traustadóttir.
Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.
(Sálmur 90:12)
Ég verð að sætta mig við að hitta ekki né heyra í Ingu minni aftur. Að eiga samtal eða fund með henni þar sem við tölum um allt milli himins og jarðar, ræðum menn og málefni, göntumst og hlæjum saman. Að geta ekki leitað lengur í viskubrunn hennar, fengið álit og ráð, létt á mér eða notið ástúðar hennar.
Ég var á fimmta ári þegar leiðir þeirra Almars, föðurbróður míns, lágu saman. Svo langt sem minningin nær hefur Inga alltaf fylgt mér eftir. Með aldrinum undraðist ég yfir skilyrðislausri umhyggju hennar og áhuga á vegferð minni. Ég sagði gjarnan við hana að hún væri eins og verndarengill sem vakir yfir og er allt um kring. Hún hafði mikil áhrif á mitt gildismat, var mér góð fyrirmynd. Þvílík blessun og Guðs gjöf.
Áfram mun ég spegla mig í Ingu, spyrja mig hvað hún myndi segja eða gera.
Af einlægu þakklæti og sárum söknuði tek ég mér í munn orð Sigurbjörns Þorkelssonar:
Boðberar kærleikans
eru jarðneskir englar
sem leiddir eru í veg fyrir fólk
til að veita umhyggju,
miðla ást,
fylla nútíðina innihaldi
og tilgangi,
veita framtíðarsýn
vegna tilveru sinnar
og kærleiksríkrar nærveru.
Þeir eru jákvæðir,
styðja,
uppörva og hvetja.
Þeir sýna hluttekningu,
umvefja og faðma,
sýna nærgætni
og raunverulega umhyggju,
í hvaða kringumstæðum sem er
án þess að spyrja um endurgjald.
Í ríkri von um endurfundi,
Bryndís Rut.
Elskuleg móðursystir og vinkona, Inga Ingvars, er fallin frá 91 árs að aldri. Hún var skírð Sigríður Inga, í höfuðið á báðum foreldrum sínum, en hún var næstyngst af tíu hálfsystkinum, sem öll eru látin.
Inga missti föður sinn þegar hún var tíu ára gömul og ólst upp hjá móður sinni sem rak veitingasölu í Gullfossi á Siglufirði í mörg ár.
Inga bar glæsibrag hvar sem hún fór til dauðadags. Hún var gædd fáguðum smekk í klæðaburði jafnt sem vali á listmunum og málverkum sem prýddu heimili hennar og var ljúf heim að sækja. En það sem einkenndi Ingu mest var trygglyndi og ræktarsemi við fjölskrúðuga ættingja, hún reyndist vera tengiliður okkar allra.
Skömmu fyrir jól sagði Inga mér frá því, að þegar foreldrar mínir komu með mig í heimsókn til Siglufjarðar 1945, í fyrsta sinn eftir dvöl öll stríðsárin í Kaupmannahöfn, hafi amma ætlað að taka á móti okkur á hafnarbakkanum en sofið yfir sig og þær vaknað við að kallað var hástöfum „mamma“.
Þremur árum síðar fluttust foreldrar mínir til Siglufjarðar og eru mínar fyrstu minningar þaðan tengdar ömmu og Ingu þrátt fyrir níu ára aldursmun á okkur frænkum. Ég man að í kvistherbergi þar sem þær sváfu var stór postulínsbrúða Ingu, sem sat á rúminu. Brúðan var ýmist í fínum kjól eða í blágrænni og hvítri peysu og gammósíum. Amma sagði mér að brúðan væri brothætt og ég man ekki til þess að ég snerti hana en hún er enn ljóslifandi í minningunni.
Nokkrir kostgangarar borðuðu hádegismat hjá ömmu og þar á meðal var Arnfinna Björnsdóttir, sem var frábær handavinnukennari. Oft lagði ég leið mína heim úr skólanum í Gullfoss til að kanna hvað væri í matinn og ef það voru kjötbollur fékk ég að sitja við borð í eldhúskróknum við kolaeldavélina ásamt fröken Arnfinnu. Einn daginn bauð hún mér sjö ára í handavinnutíma með níu ára bekknum, sem ég þáði og saumaði þar út í lítinn dúk. Ári síðar fluttist amma til Akureyrar þar sem Inga var í námi og síðar til Reykjavikur.
Árið 1962 hittumst við Inga af tilviljun í jólaösinni í Magasin de Nord. Við vorum samtíma í Kaupmannahöfn þann vetur og Inga bauð mér í mat og matreiddi sveppi sem var nýnæmi fyrir mig og kenndi hún mér að flysja sveppina. Nokkrum árum síðar kynnist Inga manni sínum, Almari Gunnarssyni, og þau setjast að á Álftanesi og ég í Bandaríkjunum. Á þessum árum sá Inga algjörlega um móður sína, sem lifði til 96 ára aldurs. Þegar ég kom til Íslands heimsótti ég Ingu og Almar, og oft voru þau síðasta fólkið sem ég kvaddi þegar þau buðust til að aka mér á flugvöllinn.
Í seinni tíð hafa þau dvalið árlega um tíma í Flórída og við frænkur þá verið í nánu símasambandi. Ég kynntist Ingu betur þessi ár, og fann hversu vel hún fylgdist með öllu. Hún var ljóðelsk og las stundum ljóð fyrir mig í símann og þar á meðal þessa vísu:
Dauðinn er lækur, en lífið er strá,
skjálfandi starir það straumfallið á.
Hálfhrætt og hálffegið hlustar
það til
dynur undir bakkanum
draumfagurt spil.
(Matthías Jochumsson)
Innilegar samúðarkveðjur frá okkur Samír og systkinum mínum til Almars og annarra ástvina.
Laufey Vilhjálmsdóttir Bustany.
Fyrstu kynni mín af Ingu hófust fyrir 20 árum á Flórída. Það er varla hægt að tala um Ingu án þess að nefna Almar því svo samrýnd voru þau hjón.
Inga var sérstaklega glæsileg, háttprúð, smekkleg og elskuleg kona. Hún dvaldi í Danmörku á sínum yngri árum. Þar var hún meðal annars módel, lék í kvikmynd og vann í verslun. Hún var fagurkeri á mat, fatnað og list. Það var svo gaman að heimsækja hana og fræðast um menn, málefni og síðast en ekki síst list.
Inga hafði einstaklega fallegt málfar og var unun að hlusta á hana tala. Þær voru ófáar stundirnar sem við spjölluðum saman í síma. Hún notaði I-pad og var mjög virk og dugleg að fylgjast með öllu sem var að gerast. Þeir sem ekki vissu gátu ekki ímyndað sér að hún væri komin á tíræðisaldur.
Ingu fannst gaman að ferðast og ferðuðust þau hjón mikið og víða. Einn af uppáhaldsstöðum hennar var Bernkastel Kues í Þýskalandi. Hún var búin að segja okkur fjölskyldunni sögur þaðan, og sagði að þangað yrðum við að fara. Við urðum sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með heimsóknina þangað því leiðbeiningar Ingu um hvað við áttum að skoða, borða og kaupa gátu ekki verið betri, allt á sínum stað.
Alltaf var tekið vel á móti okkur, hvort sem það var í Norðurtúni, Borgarfirði eða Flórída. Inga sýndi dætrum okkar og fjölskyldum þeirra einstaka hlýju og var áhugasöm um hvernig þeim gekk og veitti oft góð ráð, fyrir það viljum við þakka.
Ég kveð Ingu mína með þakklæti og virðingu og bið guð að styrkja elsku Almar.
Þín vinkona,
Erna Stefánsdóttir.
Ég kynntist Ingu fyrst á Flórída þegar ég var sex ára gömul og urðum við strax góðar vinkonur. Síðan þá hafa heimsóknirnar upp á 301 í Dunedin til ykkar Almars verið ófáar og höfum við átt margar skemmtilegar og dýrmætar stundir saman. Á mínum yngri árum hafði ég ekki gaman af þessu endalausa moll-rápi og að liggja í sólbaði heilu dagana eins og aðrir í fjölskyldunni. Fékk ég þá að vera hjá ykkur Almari og við brösuðum annað skemmtilegt saman. Við fórum í dollarabúðina, spiluðum, gerðum fimleikaæfingar og ræddum um lífið og tilveruna. Það var alltaf svo gaman að spjalla við þig, þú talaðir alltaf við mig eins og ég væri jafningi þinn en ekki lítið óþroskað barn. Þú hafðir mikinn áhuga á tísku og menningu og kenndir mér margt í þeim efnum. Hreinskilin varstu, sagðir hlutina eins og þeir voru. Það var því alltaf gott að fá ráðleggingar hjá þér hvort sem það var hvaða skart eða veski passaði best við kjólinn, námið mitt eða strákamál.
Það er mér svo minnisstætt þegar þið Almarr fóruð með mig að skoða páfuglana. Vá hvað þeir voru fallegir! Ég varð alveg heilluð af þeim eins og þú og úr varð fastur liður að fara að skoða þá þegar við komum til Dunedin. Ég hugsa alltaf til þín þegar ég sé páfugla eða mynstrið þeirra á förnum vegi.
Elsku Inga, takk fyrir umhyggjuna, spjallið og dýrmætu stundirnar sem við áttum saman. Þær mun ég alltaf varðveita. Þangað til við hittumst næst.
Þín vinkona,
Hlín Axelsdóttir.
Ég á erfitt með að ímynda mér að elsku Inga frænka sé fallin frá. Hún og Helga móðir mín eru tvær af hópi átta samfeðra hálfsystkina. Inga var mikil vinkona móður minnar og sömuleiðis mín. Allt frá barnæsku hefur hún verið mikilvægur partur af mínu lífi og margs er að minnast. Það kemur sterkt upp í hugann sérlega falleg dúkka sem Inga gaf mér í jólagjöf og ég nefndi í höfuðið á henni.
Á heimili foreldra minna, Helgu og Karls, var Inga tíður gestur ásamt fleirum af systkinunum, oftast þeim Hjördísi, Sigga, Huldu og Birni. Þá var oft glatt á hjalla. Á þeim tíma var Inga starfsmaður í fyrirtæki föður míns og því fylgdi mikil ánægja og vinskapur þeirra. Sama er að segja eftir að hún og Almarr urðu kærustupar. Inga lifði öll systkini sín.
Inga var ættrækin og hélt stöðugu sambandi við sem flest af sínu fólki. Hún var fróð um svo margt og sérstaklega viðræðugóð, enda gaf hún sér góðan tíma til að tala við fólk og hélt því áfram til hins síðasta.
Það fór ekki margt fram hjá Ingu. Hún vildi vita hlutina og vera vel inni í þeim og það var hvergi komið að tómum kofunum hjá henni. Hún virtist hafa áhuga fyrir öllu, spurði ítarlega út í málefnin og fylgdist með ólíklegustu þáttum mannlífsins. Hún hlustaði vel og hafði lag á að fá að vita um margt en fór líka vel með það sem henni var trúað fyrir. Svo gat hún af þekkingu sinni oft komið á óvart með óvænt innsæi og ný sjónarmið. Inga ígrundaði hlutina vel áður en hún myndaði sér skoðanir og tók sína eigin afstöðu til þess sem gerðist. Hún hafði ákveðnar skoðanir og gat verið föst fyrir og vildi vanda til verka. Það var gott að geta leitað til hennar og alltaf hægt að treysta orðum hennar og áliti á málum. Það er skrítið að hugsa til þess að geta ekki hringt í Ingu lengur eða búist við því að fá símtal frá henni.
Símtölin við Ingu voru oft svo skemmtileg og gátu orðið á aðra klukkustund áður en maður vissi af. Sama er að segja um alls kyns spjall í heimsóknum til hennar og Almars í fallega einbýlishúsið sem þau byggðu frá grunni úti á Álftanesi eða þegar við hittumst á góðum stundum í sumarbústað þeirra í Borgarfirði. Það vekur allt góðar minningar. Það var mjög gaman að fara sem barn með mömmu og pabba í bíltúr út á Álftanes í heimsókn til þeirra.
Inga hafði ánægu af að ferðast og dvelja hluta úr árum erlendis. Þó að aldurinn færðist yfir og heilsu hrakaði ferðaðist hún áfram með Almarri á milli landa. Oftast var það á milli Íslands og Flórída í Bandaríkjunum, og til Þýskalands.
Ég minnist þess með ánægju Inga var alltaf hlý og kærleiksrík við mig. Það er svo margt sem væri hægt að segja um það sem ekki kemst að hér. Ég bið fyrir Ingu og því að það sé ljós á vegi hennar.
Hildur Halldóra
Karlsdóttir.